mánudagur, mars 31, 2008

Betra - er mér sagt

Fór á árshátíð á Hótel Glymi um helgina. Það var ljómandi skemmtilegt. Hótelið kom skemmtilega á óvart. Mjög hlýlegt og fallegt. Okkur er sagt að við höfum fengið besta herbergið - hrútakofann #23 - og auðvitað trúum við því þó við höfum ekki séð hin herbergin! Þar er að finna aragrúa af listaverkum af hrútum - flottustu hrútalistaverk sem ég hef séð. Maturinn var góður, tónlistinn á eftir misgóð... ;) en ég held það sé óumdeilt að við stóðum okkur best í dansinum! Dönsuðum allavega lang mest.

Ég lærði eitt nýtt um helgina - málshátt. Eflaust myndi hann sóma sér vel í málsháttardagbók frá Odda. Hann hljómar svona:

„Betra er að vera undirgefinn en yfirgefinn“

fimmtudagur, mars 27, 2008

Skemmtilegt ;)

Sama kúgunin

Það stóð til að halda fyrirlestur í tilefni af frönsku vikunni þar sem m.a. átti að ræða um hið alræmda slæðubann sumra Vesturlanda. Þegar umræða um slæðubann ber á góma hef ég ávallt komist að þeirri niðurstöðu að Vesturlandabúum sé ekki stætt á að banna slæður en leyfa á sama tíma alla þá kúgun sem Vestrænar konur búa við. Ég myndi vilja sjá fjallað um þetta samhliða. Að hylja konur eða berstrípa þær – þetta er sitthvor hliðin á sama peningnum. Sama kúgunin, mismunandi birtingarmynd. Í báðum tilfellum er verið að afmennska konuna – breyta henni í hlut. Ef annað er leyft – af hverju þá ekki bæði? Eða ef annað er bannað – af hverju ekki þá bæði? Mér finnst eitthvað skjóta svo skökku við að banna konu að hylja sig á almannafæri af því það er kúgun en leyfa sömu konu í nafni frelsis að liggja allsber upp á barborði á meðan karlmenn sleikja af henni salt og sítrónu og fiska tekílastaup upp úr naflanum á henni.

miðvikudagur, mars 26, 2008

Mannhelt?

Las í fréttum ad gera ætti húsin á Hverfisgötu mannheld. Ég er ekki alveg med á hreinu í hvada tilgangi - nema til ad heimilislausir hafi ekki í thau hús ad venda. Vid thurfum alltaf ad gera rád fyrir ad einhverjir fúnkeri ekki í samfélagsgerdinni og geti ekki haldid heimili. Vid ættum ad sjá sóma okkar í thví ad thau hafi adgang ad mat, húsaskjóli og félagslegri adstod. Ég hreinlega skil ekki af hverju thetta er ekki til stadar. Úrrædin eru nefnilega ekki dýr...

þriðjudagur, mars 25, 2008

Mr. Earl Guðmundsdóttir

Já það er gott að vera kona - þó ekki væri nema vegna þess að það er hér um bil ómögulegt að falla fyrir svikahröppum sem lofa þér háum arfi eftir látinn ættingja... einhvern sem hét Mr. Earl Guðmundsdóttir!

Fríblöð og fleira í þeim dúr

Mér skilst að það sé alveg gagnslaust að setja á miða á hurðina hjá sér þar sem á stendur:

Engin fríblöð takk.
Engan auglýsingapóst takk.
Enga reikninga takk.

Á þessu heimili safnast stórir haugar af óumbeðnu efni sem hægt er að nálgast á netinu ef fólk vill. Af hlýst fyrirhöfn, tilkostnaður og drasl. Ég er á því að þeir sem standa að dreifingu fríblaða eigi að bera kostnað af förgun þeirra. Einnig er aumt að á tímum frelsis *LOL* þá sé ekkert frelsi til að hafna!

fimmtudagur, mars 20, 2008

Gleðilega páska

Vona að þið hafið það öll gott um páskana! :) Heyrumst og sjáumst hress og spræk eftir páska.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Andfemínismi - er í lagi að hata femínista?

Karlakvöld Karlahóps Femínistafélags Íslands

*Andfemínismi - er í lagi að hata femínista?*

Grand Rokk
18. mars
kl. 20:00

Í dag, þriðjudag, verður Karlahópur Femínistafélags Íslands með karlakvöld undir yfirskriftinni:

*Andfemínismi - er í lagi að hata
femínista?*

Rætt verður hvernig umræðan í jafnréttismálum hefur þróast undanfarin ár. Fjallað verður um hvernig andúð gegn femínistum birtist í
jafnréttisumræðunni og hvernig hún virðist sífellt verða öfgafyllri í opinberri umræðu. Er þetta eitthvað nýtt? Er umræðan öfgafyllri? Og er allt í lagi að hata femínista? Einnig verður rætt um hvort að þetta sé meinlaust og hvort og þá hvernig eigi að bregðast við þessu.

Erindi flytja:
* Sóley Tómasdóttir varaborgarfulltrúi,
* Katrín Oddsdóttir
sérfræðingur í mannréttindum og
* Atli Gíslason alþingismaður.


Fundarstýra er Magga Pé.

Karlakvöldið er hluti af 5 ára afmælisdagskrá Femínistafélags Íslands.

Verið velkomin!
Femínistafélag Íslands

Tími málshátta

Fólk sem segir að eitthvað sé ekki hægt, ætti ekki að trufla hina sem eru að framkvæma það. -Óþekktur höfundur

mánudagur, mars 17, 2008

Dómskerfið

Dómurinn þar sem móður var gert að greiða um 10 m í skaðabætur vegna þess að dóttir hennar skellti hurð á kennara finnst mér afar furðulegt. Ég vona að málinu verði áfrýjað.

Ég er síst á því að bæturnar séu of háar - umræddur kennari var dæmd 25% öryrki út af atvikinu og á bæturnar algjörlega skilið. Hins vegar finnst mér tvennt furðulegt við dóminn:

1. Af hverju dekkar slysatrygging skólans ekki atvikið? Tjón sem kennarar verða fyrir í vinnu ætti að flokkast sem vinnuslys.
2. Fyrst foreldrar eru dregnir til ábyrgðar - Af hverju er móðirin ein ábyrg - á barnið ekki föður?

Ég held það væri ráð að rífa okkar dómskerfi í tætlur og byggja upp á nýtt á nútímalegum grunni.

Ég mæli ekki með...

Veikindum

föstudagur, mars 14, 2008

Til hamingju með daginn! :)

Til hamingju með daginn! Í dag er Femínistafélag Íslands 5 ára - en mér líður næstum eins og það hafi verið stofnað í gær. Tíminn er svo fljótur að líða. Tilvist Femínistafélagsins umturnaði mínu lífi því þar fann ég loksins vettvang til að beita mér fyrir mínum hjartans málum. Takk fyrir það :)

Við ætlum að sjálfsögðu að halda upp á afmælið. Svona byrjum við - og svo kemur meira seinna. Afmælishátíðin stendur alveg til 1. apríl en þá var framhaldsstofnfundur félagsins haldinn.
***

Í kvöld, föstudag hefst afmælishátíð Femínistafélags Íslands með femínískri mínútumyndakeppni í Norræna húsinu. Katrín Anna Guðmundsdóttir fyrrverandi talskona Femínistafélagsins setur hátíðina og hefst hún kl. 20:30. Að lokinni kvikmyndasýningu verða skemmtiatriði og léttar veitingar.

Á þriðjudagskvöld (18. mars) verður karlahópur Femínistafélagsins með dagskrá á Grand rokk undir yfirskriftinni "Andfemínismi: Er í lagi að hata femínista?". Það hefst kl. 20.00,

Hvað er vændi?

Hvað er verið að selja í vændi? Er það aðgangur að líkömum kvenna, kynlíf eða eitthvað allt annað? Ég get ekki kvittað upp á verið sé að selja aðgang að líkömum kvenna eingöngu. Líkami og sál verða aldrei aðskilin. Sálin verður ekki eftir heima á meðan líkaminn er í vændinu. Ég á í sömu vandræðum með kynlífstenginguna. Vændi snýst ekki um að stunda kynlíf með einstaklingum sem fólki langar til að stunda kynlíf með heldur þvert á móti. Vændi snýst um að stunda kynlíf með einstaklingum sem fólki langar ekki til að stunda kynlíf með - þess vegna kemur greiðslan inn í myndina. Þegar einn einstaklingur kaupir sér kynferðislegan aðgang að annarri manneskju sem ekki langar til að stunda kynlíf með honum - hvað flokkast það þá sem? Mín niðurstaða er sú að vændi er í raun sala á kynferðisofbeldi, það er verið að selja nauðgun. Afleiðingarnar eru einmitt svipaðar og í öðru kynferðisofbeldi.

miðvikudagur, mars 12, 2008

Veröld sem ég vil

Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara gætir þú endað einhvers staðar allt annars staðar. Það skiptir máli að hafa framtíðarsýn og vita hvert beri að stefna. Þetta er það sem ég vil:

Siðmenntað samfélag
Jafnrétti
Frelsi

Vændi samræmist engu af þessu. Þess vegna mun ég alltaf berjast gegn vændi með kjafti og klóm. Það samræmist ekki þeim mannlegu gildum sem við viljum tileinka okkur. Það er ekki flóknara en það!

mánudagur, mars 10, 2008

Afsakið á meðan ég æli

Útvarpsstjóri er karlmaður.
Ritstjóri Kastljóssins er karlmaður.
Aðstoðarritstjóri Kastljóssins er karlmaður.

Enginn þeirra flokkast sem femínisti. Ætti þá að koma á óvart að tveim dögum eftir alþjóðlegan baráttudag kvenna draga þeir upp hamingjusömu hóruna til að réttlæta vændi? Nei, kannski ætti það ekki að koma á óvart en það fær samt magann í mér til að snúast á hvolf. Um helgina opnuðu danskir karlmenn heimasíðu til að berjast gegn vændi. Kastljós körlunum finnst meiri gæði falin í því að markaðssetja sölu kvenna. Og já - spyrillinn var karlmaður líka. Greinilegt að hann er ekki heldur femínisti, spurningarnar voru slíkar. Af hverju var ekki spurt út í ofbeldið sem vitað er að vændiskonur verða fyrir í miklum mæli? Af hverju var ekki spurt í hversu hátt hlutfall karla sem kaupa sér konur eru giftir menn? Af hverju ekki að spyrja hana út í hversu fjölskylduvænt vændi er í raun og veru? Neibb, ekki orði á það minnst. Rétt aðeins tæpt á mansali, en þar við sat. Hamingjusama vændiskonan var nú samt ekki hamingjusamari en það að hún vildi ekki koma fram undir nafni og ekki í mynd - barnanna sinna vegna. Hún fullyrti líka að enginn af hennar aðstandendum kæmi að vændissölunni - hún væri í þessu sjálfsstætt. Samt byrjaði hún á þessu sem leik, gift konan. Kom maðurinn hennar þar hvergi nærri? Ákvað hún það alveg upp á eigin spýtur? Hún sagði líka að femínistar hefðu ekki fyrir því að spyrja vændiskonurnar sjálfar hvað þeim finndist. Það er einfaldlega rangt og hér á Íslandi er meira að segja einn sem gerði rannsókn sína í Danmörku - og tók þá viðtöl við fjölmargar danskar vændiskonur. Þeirra saga var ekki sú sama og sögð var í Kastljósinu í kvöld en auðvitað voru strákarnir í Kastljósinu ekki að skoða það. Já, það er margt sem ekki passar en sárast af öllu er að sjá herferð sumra fyrir því að konur gangi kaupum og sölum eins og hver annar búfénaður, nú eða þrælar í gamla daga. Kastljóssmenn setur niður við þetta. Stórlega. Mér finnst þeir í sama flokki og þeir sem réttlættu þrælahald hér til forna. Þetta er ekki veröld sem ég vil og mér blöskrar að ég skuli í alvöru verða að sætta mig við að vera neydd til að borga afnotagjöld fyrir svona kvennakúgun.

Spurning. Ef hægt er að finna sáttan þræl - er þá þrælahald réttlætanlegt?

Hrósið fær

Manuela Ósk fyrir að tala opinberlega um afleiðingar konusýninga. Ég hef lengi beðið eftir því að einhver fegurðardrottninganna rjúfi þögnina sem umlykur þessa hlið á keppninni. Mantran um styrkingu sjálfsmyndar er endurtekin í sífellu en fáar þora að tjá sig um neikvæðu afleiðingar þess að vera metnar eftir útlitinu. Nú hefur Manúel Ósk rofið þögnina og óskandi að fleiri fylgi í kjölfarið og standi með henni. Konusýningar hafa þó ekki eingöngu áhrif á þátttakendur heldur líka á samfélagið - og hvernig konur og stúlkur eru metnar - bæði af konum og körlum, stúlkum og drengjum. Slagorðið sem rauðsokkurnar birtust með þann 1. maí 1970 „manneskja ekki markaðsvara“ er í fullu gildi.

sunnudagur, mars 09, 2008

8. mars

Ég fór á fundinn sem Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands héldu sameiginlega í hádeginu í gær. Það var alveg hreint ágætis fundur. Þar var meðal gesta utanríkisráðherra Líberíu - Olubanke King-Akerele. Það var mjög gaman að hlusta á hana og ég hefði gjarnan viljað heyra meira frá henni og þeirra baráttu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti einnig mjög gott erindi. Hún fjallaði m.a. um að það er öðruvísi að vera á fundi þar sem eru bara konur eða fundi þar sem meirihlutinn er karlar og síðan kannski örfáar konur. Hún nefnid fund hennar, Olubanke og Ellen Johnson-Sirleaf, forseta Liberíu sem dæmi. Myndin hér til vinstri er einmitt frá þeim fundi og er birt í Framkvæmdaáætlun utanríkisráðuneytisins um áætlun 1325 - sem má nálgast hér. Kristín Ingólfsdóttir rektor og Joanne Sandler, aðalframkvæmdastýra UNIFEM í New York voru líka góðar. Samstaða kvenna var þemað... og að konur geta breytt heiminum með baráttunni. Tek undir það!!! :) Að sjálfsögðu. Ég hikstaði nú samt aðeins þegar Joanne Sandler kynnti samstarfssamning UNIFEM og Avon - sérstaklega eftir að ég skoðaði heimasíðu Avon og sá þar UNIFEM armbandið selt undir auglýsingu um „Reshape, repair and recontour your eyes“... passar eitthvað svo illa við kvennabaráttu að segja konum á sama tíma að þær séu svo stórkostlega gallaðar að þær þurfi að kaupa krem til að breyta sér... annars séu þær hreinlega ekki nógu góðar fyrir mannlegt samfélag!

En anyways (varð bara að létta þessu af mér), fundurinn var góður og Margrét Pálmadóttir sló aldeilis í gegn þegar hún mætti með þrjá kóra í restina og hífði stemninguna rækilega upp. Mér skilst að Olubanke hafi hrifist svo af að hún vilji ólm að Margrét komi til Líberíu á næsta ári en þar er verið að skipuleggja magnaðan fund fyrir 8. mars 2009 (ef einhver skyldi vilja fara - nótera hjá sér!). Myndin hér til hægri er einmitt af Margréti og hluta af kórnum. Lengst til vinstri sést glitta í Olubanke og Ingibjörgu Sólrúnu. Því miður tók ég ekki þátt í meiru af dagskránni í gær en á föstudaginn fór ég í opið hús hjá Stígamótum og það var yndislegt. Fyrir utan að þar fékk ég heitt kakó og vöfflur þá er eitthvað svo gott að koma í Stígamót. Í húsinu hvílir kraftur og orka allra þeirra kvenna sem dag hvern berjast gegn alvarlegustu og verstu glæpum sem framdir eru gegn konum - en ná samt að halda sönsum í gegnum þetta allt og virkja kraftinn til góðra verka. Hjá þeim fékk ég Zontarósina - sem seld er til styrktar Stígamótum svo þær geti fært þjónustu sína í auknum mæli út á landsbyggðina.

Þó 8. mars sé liðinn heldur baráttan áfram. Einn dagur dugar víst ekki til og af nógu er að taka. Beta er búin að blogga heilmikið um heimilisofbeldi undanfarna daga og við þurfum að bretta upp ermarnar og gera eitthvað í þessu. Okkur vantar réttarkerfi sem dugar - það er ekki nóg að lögin séu til á pappír (þó það sé nauðsynlegt og ósköp gott!). Lögunum þarf líka að framfylgja, brotamenn þurfa að fá dóma og dómarnir þurfa að vera í samræmi við brotin. Best af öllu væri þó að fá brotin burt!

fimmtudagur, mars 06, 2008

Við lifum á tímum mesta þrælahalds í sögunni


Nútímamaðurinn stærir sig af stöðugri framþróun, siðmenntuðu samfélagi og auknum gáfum umfram forfeðurna. Ekkert af þessu stenst nánari skoðun, en er kannski skiljanlegt viðhorf sbr við það að manneskjan hefur ríka þörf fyrir að upplifa sig góða, skynsama og siðmenntaða. Gallinn er sá að manneskjan hefur að sama skapi til að réttlæta allt sem ekki fellur undir þessi skilyrði og snúa því einhvern veginn upp í að uppfylla skilyrðin. Þannig verður ofbeldisfullt, gróft klám þar sem konur eru niðurlægðar, beittar ofbeldi og kallaðar hórur og druslur bara merki um kynlífsfantasíur karla... :-| og algjörlega er litið fram hjá öllu sem heitir valdbeiting og kúgun.

Í dag kemur út bók um þrælahald nútímans. Á meðan okkar samtími hristir hausinn yfir þrælahaldi forfeðranna og afgreiðir forfeðurna á þeirri forsendu að þeir hafi hreinlega ekki vitað betur - ekki búnir að taka þessum siðferðislegu stökkbreytingum sem sumir virðast halda að hafi átt sér genetískt stað í kringum 1980 á gjörvöllu mannkyninu... err... meina á vesturlöndunum! Í bókinni er áætlað að fjöldi þræla í dag sé í kringum 27 milljónir, sem þýðir hreinlega að við lifum á tímum mesta þrælahalds í sögunni. Reyndar er erfitt að áætla nákvæmar tölur en þær áætlanir sem ég hef séð eru frá 12 milljónum og upp í 27 milljónir. En viti menn (og konur). Maðurinn hefur ótrúlegan hæfileika til að líta fram hjá þessu öllu og réttlæta. Maðurinn heldur fast í fullyrðingar um framþróun, siðmenntun og auknar gáfur en er samt engu betur í stakk búinn til að berjast gegn þessu en forfeðurnir. Hér á landi eru t.d. eintómar réttlætingar í kringum mansal og margir sem trúa því í alvörunni að Ísland sé eina landið í heiminum þar sem þrælahalda viðgengst ekki! Í alvöru!

Ég veit að það verður hlegið að okkur í sögubókum framtíðarinnar. Við verðum kynslóðin sem hafði nánast allt - tæknina, olíuna, samgöngumátann, peningana, nægan mat til að fæða allan heiminn - en við erum jafnframt þau sem erum á hellisbúastiginu varðandi hvernig á að umgangast allar þessar breytingar sem hafa orðið á lífskjörum mannkynsins. Þar af leiðandi erum við á álíka siðferðislegu stigi og hellisbúinn... við vitum hreinlega ekki betur! Eða þykjumst allavega ekki vita betur - það er svo auðvelt að snúa grænu hliðinni upp.

miðvikudagur, mars 05, 2008

„Konurnar heim“


Dagur B. Eggertsson hitti naglann á höfuðið með því að gefa fyrirhuguðum heimgreiðslum nafnið „konurnar heim“. Ég hef áður skrifað um að svona greiðslur eru ekkert annað en handaflsaðgerð til að koma konunum inn á heimilin - með greiðslum sem er langt undir lágmarkslaunum. Stjórnvöld eiga ekkert með slík afskipti. Svona greiðslur eiga sér heiti í femínismanum. Þær eru kallaðar mömmugildra, eða mommy trap upp á enskuna.

Í opinberri orðræðu eru alls kyns aðgerðir til að stuðla að jafnrétti slegnar út af borðinu á þeirri forsendu að þetta eigi nú bara allt að koma af sjálfu sér, eða að sagt sé að konur þurfi nú enga aðstoð, forgjöf eða hvað þetta er nú allt kallað. Sömu stjórnvöld víla ekki fyrir sér handaflsaðgerð eins og þá að greiða konum smánarlegar greiðslur til að vera heima í stað þess að veita þá grundvallarþjónustu sem vitað er að er nauðsynleg til að bæði kyn eigi möguleika á að vera úti á vinnumarkaði - og vera fjárhagslega sjálfstæð. Smánargreiðsla sem er vel undir lágmarkslaunum er ekki til þess fallin að stuðla að fjárhagslegu sjálfstæðu, auk þess sem hún hefur hamlandi áhrif á möguleika og stöðu á vinnumarkaði.

Nú munu örugglega einhverjir segja að greiðslurnar séu ekki kynbundnar, séu jafnt fyrir konur og karla. Já, í orði en ekki á borði. Reynslan hefur sýnt okkur að það eru konurnar sem fara inn á heimilin, ekki feðurnir. Fyrirvinnuhugtakið er svo nátengt karlmennskuímyndinni á meðan móðurímyndin er nátengd kvenímyndinni. Það er ekki um jafnræði að ræða í pressu varðandi kynhlutverk. Auk þess er staða á vinnumarkaði skekkt - karlar eru með hærri laun og því finnst mörgum lógískt að aðilinn sem er með lægri laun verði heima...

Launaður vinnutími karla er lengri en launaður vinnutími kvenna. Ef stjórnvöld vilja beita handaflsaðgerðum væri nær að aðgerðirnar miðuðu að því að stytta launaðan vinnutíma karla og stuðla að því að þeir axli aukna ábyrgð á heimilisstörfum. Aðgerðin „pabbarnir heim“ væri því mun nærtækari aðgerð í jafnréttisátt heldur en aðgerðin „konurnar heim“ - sem er ekkert annað en bakslag og framlag stjórnvalda til áframhaldandi misréttis.

ps. læt fylgja með mynd úr amerískri aðgerð!

þriðjudagur, mars 04, 2008

You - only bitter

Maskaraauglysingin frá L'oreal med Penelope Cruz í adalhlutverki var bönnud í einhverju útlandinu. Man ekki hvada landi, en einhverju skrytnu sem leyfir ekki ad notud séu fölsk augnahár til ad ljúga til um áhrif hins auglysta naskara! Já greinilega til skrytin lönd! Vid erum nú ekki svona pikkí hér og fáum thví ad njóta thess ad sjá Penelope blakta augnhárunum fölsku og segja okkur med hinum fallega spænska hreim "It's you - only bitter"

mánudagur, mars 03, 2008

Bleikfjöll


Litla þriggja ára frænka mín var á leið í Bláfjöll um helgina. Þegar hún komst að því hvert ferðinni var heitið þverneitaði hún og sagðist ekki ætla í nein Bláfjöll. Hún ætlaði í Bleikfjöll. Og þangað fór hún!

Fiðrildavikan hafin

Í dag hefst fiðrildavika UNIFEM. Fiðrildavikan er til styrktar baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi. Sjá allt um málið á www.unifem.is - endilega að taka þátt :)