þriðjudagur, febrúar 28, 2006

Vei, vei, vei

Viss um að manuel er hættur að lesa bloggið mitt eftir að það varð svona pósitívt - eins og hann bað um (be carefull what you dream of - it might come true).

En hér er sem sagt eitt enn jákvætt!

Það á að hætta að framleiða Sopranos þættina :) :) :) :) :) :) :) :) :) :)

mánudagur, febrúar 27, 2006

Fact or...?

Fact or fiction?
http://www.thesmokinggun.com/archive/0217062contract1.html

Blóðbönd

Ég mæli með íslensku kvikmyndinni Blóðbönd. Virkilega góð mynd um áhugavert efni. Takið líka eftir hvað myndin er afbragðsvel klippt! :)

sunnudagur, febrúar 26, 2006

Hhhhhhhhh...

Uppáhaldsfélagið mitt var með á Vetrarhátíð. Vorum með kynningu í Ráðhúsinu frá kl. 4 - 8 á föstudag. Við göldróttu ráðskonurnar fengum lánaðan flokkunarhattinn úr Hogwarth skóla, auk þess sem við sýndum myndir úr Reykjavík - súpergóð landkynning - og alveg í þeim anda sem Ísland hefur verið markaðssett í. Ekki hægt að segja annað en að við stöndum okkur! :)

Ég náði svo að plata Steinunni með á Purple Onion (á kostnað Idolsins) þar sem við fengum þennan dýrindis skyndibita og svo skelltum við okkur í partý róttækra og drykkfelldra kvenkyns femínista. Þar var rosafjör og allir með leg. Fór samt heim á miðnætti eins og Öskubuska - enda merkilegur laugardagur framundan. Sökum óþolandi margra pesta síðasta árið er ég hætt að tíma að eiga þynnkudaga... :( Og leigubíll í Grafarholtið er of dýr fyrir einn bjór!

En hey - lýsið er að virka. Hef ekkert orðið veik síðan síðast! :)

Hvar er...?

Síðasti Viðskiptablaðspistillinn minn fjallaði um Rape Time plakat Thugz on Parole, fullnægingu í beinni og Sollu stirðu sem 8. kynþokkafyllstu "konu" ársins (oj RUV). Að sögn Egils Helgasonar hefur pistillinn vakið mikla athygli - og varð tilefni þess að mér og Guðrúnu Margréti var boðið að mæta í Silfrið í dag... vorum auðvitað langflottustu og bestu konurnar í þættinum (hefur ekkert með það að gera að við vorum EINU konurnar í þættinum) - en gott hjá Agli að taka þetta mál fyrir :) Ekki veitir af. Hvað er RUV að pæla? Þýðir frelsi að það má velja krakka sem kynþokkafulla? Hvar er menntamálaráðherra? Hvar er Páll Magnússon? Hvar er vitið?

Hægt er að skoða viðtalið á VefTíví, www.visir.is - þetta er aftarlega í þættinum.

Ekki missa af þessari frétt!

Er að spá í að senda eftirfarandi "frétt" á mbl.is:

Ráðið í óvissu
Ráð Femínistafélags Íslands hittist í gær til að halda námskeið. Leiðir lágu nálægt miborg Reykjavíkur þar sem færi gafst á að skoða húsasund sem fæst úr ráðinu höfðu séð áður. Ráðið gæddi sér á góðu bakkelsi og hló dátt á milli þess sem fundin voru ráð til að leysa öll heimsins vandamál. Dagurinn endaði með viðkomu á veitingahúsinu Ban-Thai og þar snæddi ráðið dýrindis kvöldverð. Þetta kemur fram á blogginu hugsdu.blogspot.com. Þar er hægt að setja inn athugasemdir um dýrindis fréttamat!

Mér sýnist að mbl.is verði himinlifandi að fá svona spennandi fréttir (sbr fréttina hér fyrir neðan) - enda hlutur kvenna í fjölmiðlum rýr.

Innlent mbl.is 26.2.2006 20:46
Fegurðardrottningar í
óvissuferð
Þátttakendur í fegurðarsamkeppni Suðurlands fóru í óvissuferð í gær. Var farið frá Selfossi með viðkomu á æfingasvæði Skotfélags Árborgar rétt við Þorlákshöfn og farið um Þrengslin til Reykjavíkur. Þar snæddi hópurinn kvöldverð og skoðaði sig um í höfuðborginni, að því er fram kemur á vefnum sudurland.net. Þar fer fram netkosning um hver meyjanna eigi að hljóta titilinn ungfrú Suðurland.

fimmtudagur, febrúar 23, 2006

Enn ein h-færslan

Vestfirskar stelpur verðar útnefndar langflottastar ef fram fer sem horfir og ekki verði hægt að halda konusýningu þar vegna ónógrar þátttöku!

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Allt bara gaman!

Uppáhaldsfélagið mitt verður í Ráðhúsinu á föstudaginn milli kl. 16 - 20 að kynna starfsemi sína. Hogwarth flokkunarhatturinn mun koma við sögu + meira skemmtilegt! :) Sjáumst vonandi þar.

Svo ætlar ráðið að hittast á laugardag. Mælið þið með einhverjum góðum stað út að borða?

þriðjudagur, febrúar 21, 2006

What's your excuse?

Áður en ég fór til Bandaríkjanna í skóla keypti ég mér stuttermabol sem á stóð "I'm Icelandic - what is your excuse?"

Það fannst ekki öllum þetta fyndið... en mér fannst þetta ógeðslega töff - enda vakti bolurinn mikla lukku. Sama finnst mér um Silvíu Nótt. Finnst hún miklu betri landkynning heldur en Ungfrú heimur og öll sú ímynd sem ferðamannaiðnaðurinn hefur markvisst reynt að klínt á Ísland. Því miður með "góðum" árangri. Loksins kemur eitthvað töff frá Íslandi!

mánudagur, febrúar 20, 2006

Vei - ég verð bráðum rík!

Hello Dearly,
We are teams of American coalition troops writing from Baghdad Iraq! "We are urgently seeking for your willingness to secure the below consignments as shown in the attached photos! "The goods were captured here in Baghdad, abandoned in one of the Saddam Hussein's Treasure house. However, the contents of the box are Gold Bars, Gold coins and huge amount of fund in the sealed boxes!

"At moment, we are intending to ship these goods outside Iraq for safekeeping on our behalf but due to law and restriction order, we are unable to transport these goods to AMERICA .We hereby seek for your assistance to receive the box in Europe. "We are offering you 25 per cent of the entire goods either in cash or in value. Therefore, we will appreciate your effort to get back to us via email confirming your interest to assist us receive the consignment. "As soon as we receive your positive reply, we shall furnish you with further details. "Please, note, this issue must be handled with utmost confidentiality as to avoid publicity!
"Yours truly. Capt. STELLA .A (Team Leader

miðvikudagur, febrúar 15, 2006

Vændismálið

Kvennahreyfingin hittist í morgun... alltaf svo gott að hitta femínista. Ræddum m.a. annars drögin að nýja frumvarpinu. Seinnipartinn fór ég svo í viðtal í Síðdegisútvarpið á Rás 2 um þetta mál. Björn Bjarnason var á undan mér að ræða greiningardeildina sína og svo drögin að frumvarpinu. Mest var rætt um ákvæðið um vændi en drögin gera ráð fyrir að fella eigi út refisákvæðið um sölu - sem er gott - en ekki á að gera kaupandann refsiverðan. Björn fór mikinn í að útlista að ástæðan fyrir því að Svíar hefðu valið þessa leið hefði verið til að útrýma götuvændi og þar sem götuvændi væri ekki til staðar hér væri óþarfi fyrir okkur að elta Svíana í þessu máli. Þaðer arfavitlaust að halda þessu svona fram. Svíar voru ekki bara að tækla götuvændi (þó lögin hafi virkað vel á það) og reyndin af sænsku leiðinni hefur verið mjög góð. T.d. er Svíþjóð ekki lengur álitlegur kostur fyrir þá sem stunda mansal. Nú vantar einmitt að öll önnur lönd taki upp sænsku leiðina til að mansal verði hvergi álitlegur kostur - eða að kaupa sér vændi yfirhöfuð! Enda breytast menn í mannleysur um leið og þeir gerast vændiskúnnar.

Viðtalið á Rás 2 má hlusta á hér: http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4249447/7

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Sammála Rúnu

Sammála Rúnu í því að nýtt frumvarp um kynferðisbrot hefði mátt ganga lengra. Reyndar er frábært að löggjafinn ætli loksins að kalla nauðgun nauðgun - en ekki hluta þeirra misneytingu eins og er í núverandi lögum. En það ætti að afnema fyrningafrestin á brotum gegn börnum og eins er þessi linkind gagnvart kaupendum vændis óþolandi! Ég kenni karlaveldinu um það. Ef konur réðu til jafns við karla færi þetta í gegn. Ég efast ekki um það í eina einustu mínútu.

Heilagur Valentínus

Ég las í Blaðinu í dag að valentínusardagurinn er uppruninn í kaþólskri trú. Ég sem var á báðum áttum um að yfirtaka bandaríska siði (réttlæti það með skólavist í USA)... en að yfirtaka kaþólska siði? En kaþólskan er víst eins og allt annað - með góðar og slæmar hliðar - og mín skoðun er sú að það er skynsamlegt að tína til allt það góða úr mörgum mismunandi stefnum og ná þannig framförum. Þess vegna er Valentínusardagurinn í hávegum hafður heima hjá mér. Neysluhyggjan að sjálfsögðu undanskilin... engar gjafir og ekkert súkkulaði!

Afrek

Búin að taka lýsi á hverjum degi í 2 vikur.

Datt í hug að ykkur langaði að vita það... !

mánudagur, febrúar 13, 2006

Pistlar

Ákvað að hætta með pistlana á NFS. Áhugasamar manneskjur geta samt áfram lesið pistlana mína í Viðskiptablaðinu á miðvikudögum :)

Skal reyna að vera dugleg að blogga um eitthvað jafnréttislegt í staðinn...

Klám vs erótík

“Klám tengir kynlíf og/eða kynfæri við niðurlægingu eða misnotkun þannig að það virðist afsaka, styðja eða ýta undir þess konar hegðun.
Erótík er kynferðislega örvandi efni sem er laust við kynjamismunun, kynþáttafordóma og fordóma gegn samkynhneigðum og sett þannig fram að virðing er borin fyrir öllum þeim manneskjum og dýrum sem sýnd eru”.


Ofangreint er skilgreining Diana Russell á klámi og erótík. Mér varð hugsað til skilgreiningarinnar áðan þegar ég horfði á dýralífsþátt á RUV. Í aðalhlutverki var David Attenborough og fullt af skordýrum og ormum af öllum stærðum og gerðum. Eins og venja er í dýralífsþáttum skipaði mökunarferlið stóran sess. Ég mundi eftir skilgreiningu Diana Russell þegar sýnt var frá stefnumóti tveggja snigla. Þar sem þeir létu sig renna niður frá trjágrein, haldandi fast utan um hvorn annan - hangandi á slími - heyrðist rödd þularins lýsa því að þeir væru tvíkynja, síðan var sýnt þegar limir þeirra stækkuðu og stækkuðu, vöfðust svo utan um hvorn annan, sprungu svo út eins og blóm - og þá skiptust þeir á sæði. Sem sagt báðir frjógvuðu hinn. Samkvæmt skilgreiningu Diana Russell mætti alveg kalla þetta erótík fyrir dýr - eða allavega fyrir snigla!

En... svo komum við að spordrekunum. Þar var sýnt hvernig konan og karlinn dönsuðu fyrst um sinn - reynandi að stinga hvort annað á meðan. Þegar svo karlinum tókst að stinga konuna heyrðist þulurinn segja að það væri samt ekki alvarlega - bara rétt mátulegt til að gera hana aðeins dasaða og meðfærilegri. Þessu var slengt fram eins og það væri bara hið besta mál. Engin erótík í þessu... spurning hvort ekki eigi að kalla þetta ofbeldisfullt klám - sem það hefði ekki verið ef þulurinn hefði bara haldið kj... eða í það minnst orðað hlutina á annan hátt. Ekki var minnst orði á hvað hefði gerst ef konan hefði náð að stinga karlinn.

sunnudagur, febrúar 12, 2006

Dótabúðir!

Þurfti að fara í dótabúð áðan - algjör horror! Það er eiginlega verra að þurfa að fara í dótabúð heldur en apótek - og þá er mikið sagt.

Playmobil - hægt er að fá kassa með þvottvél, straubretti, þvottasnúru - og konu að vinna verkin!

Bílar - hægt að fá Farmboy...

Svo er hægt að kaupa Gameboy...

Galdradótið var bara fyrir stráka...

Öskudagsbúningarnir eru kapítuli út af fyrir sig - og svo er auðvitað bleika deildin og bláa deildin.

En börnin sem sagt velja þetta sjálf - þau geta valið um að fá hitt og þetta í afmælis- og jólagjöf sem er kyrfilega merkt í bak og fyrir með myndum af "rétta" kyninu, í rétta litnum og með réttu kommentunum....

Ertu femínisti?

Pistill fluttur á NFS föstudaginn 10. febrúar:

Ert þú femínisti? Ég spyr vegna þess að ég hef mikið verið að velta fyrir mér hversu lengi við ætlum að sætta okkur við að búa í samfélagi kynjamisréttis. Ég furða mig oft á því hvers vegna við sem samfélag sættum okkur við launamun kynjanna, yfirráð karla í stjórnmálum og atvinnulífi, klámvæðingu, útlits- og æskudýrkun, kynbundið ofbeldi og allar aðrar birtingamyndir kynjamisréttis. Viljum við ekki jafnrétti í raun?

Kannski ertu meðal þeirra sem trúa því að við þurfum ekki að grípa til aðgerða vegna þess að jafnrétti komi með ungu kynslóðinni. Ef svo er þá hryggir mig að tilkynna þér að sú von er tálsýn ein. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að ungt fólk er íhaldssamara þegar kemur að jafnréttismálum en þau sem eldri eru. Kannski er ástæðan sú að við ölum kynslóð eftir kynslóð upp í þeirri trú að þetta sé nú allt að koma – jafnrétti verði örugglega komið á þegar þau verða fullorðin. Svo vaxa börnin úr grasi, fara út á vinnumarkaðinn, eignast maka og börn – og þá – allt í einu - reka þau sig á. Allt í einu situr konan uppi með meirihluta húsverkanna og ábyrgð á barnauppeldi. Allt í einu fer hún að finna fyrir misrétti á vinnumarkaði á eigin skinni og þá uppgötvar hún að loforðið um jafnrétti var bara tálsýn. Þetta er ekki allt að koma. Því miður. Það er ekkert sem bendir til þess að jafnrétti bíði okkar handan við hornið. Þvert á móti er fullt af vísbendingum þess efnis að jafnrétti komi ekki með næstu kynslóð, ekki heldur þeirri þarnæstu eða þar-þarnæstu.

Og hver er ástæðan? Ég ætla að halda því fram að ástæðan sé skortur á vilja og röng forgangsröðun. Jafnréttismál eru ekki ofarlega á baugi hjá stjórnvöldum, á vinnumarkaði, í skólum eða á heimilum landsins. Vissulega er verið að gera margt gott en þegar á heildina er litið þá vinnum við enn harðari höndum að því að viðhalda kynjamisrétti heldur en að draga úr því. Við til dæmis ríghöldum í fornar staðalímyndir um hlutverk kynjanna. Ungir karlmenn fásinnast yfir jafnréttisbaráttunni og segjast ekki vilja vera dæmdir fyrir syndir forfeðranna. Gott og vel – það er skiljanlegt. En af hverju þá að halda í gömlu karlmennskuímyndina? Ímynd sem byggir á yfirráðum karla yfir konum, ímynd sem er oft á tíðum ofbeldistengd og gerir ráð fyrir að karlmenn þurfi að vinna myrkranna á milli og vanrækja fjölskyldu sína og tilfinningar? Þetta finnst mér vera mótsögn. Ef núlifandi kynslóðir karlmanna vilja ekki endurtaka syndir forfeðranna þá þýðir ekki að segja í sömu setningu að vilja haga sér eins og þeir. Það er ávísun á endurtekningu á syndunum.

Það sama gildir um konurnar. Karlmennsku og kvenleika er oft á tíðum stillt upp sem andstæðupörum. Ef það að vera sterkur er ímynd karlmennskunnar þá er ímynd kvenleikans að vera – tja – veikburða! Ef ímyndi karlmannsins er að vera höfuð fjölskyldunnar og hafa yfirburði yfir konum – þá er ímynd kvenleikans – að vera undirgefin. Ef ímynd karlmennskunnar er að vera leiðtogi – þá er ímynd kvenleikans að vera í hlutverki þess sem fylgir eða í hlutverki klappstýrunnar. Rétt eins og karlmenn þurfa að endurskilgreina karlmennskuna og færa hana í átt til jafnréttis þá þurfa konur að endurskilgreina kvenleikann og hætta að ganga inn í þau undirgefnu hlutverk sem ætlast er til af konum.

Ég er femínisti. Ég hef verið femínsti frá þeim degi sem ég heyrði orðið í fyrsta skipti og fletti því upp í orðabók. Þar sá ég þá útskýringu að femínisti væri manneskja sem vill jafnrétti kynjanna og ég hugsaði – hver vill það ekki? Femínistafélag Íslands skilgreinir femínista sem karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Og ég spyr aftur. Ert þú femínisti? Vilt þú jafnrétti kynjanna og ertu tilbúinn til að gera eitthvað í því? Af hverju erum við ekki öll femínistar og af hverju finnst sumum orðið femínisti vera neikvætt?
Ég held að ástæðan fyrir því síðarnefnda sé að andstæðingar jafnréttis – þeir sem vilja að karlar sitji við stjórnvölinn – þeir sem vilja að karlar séu höfuð samfélagsins og konurnar séu þægar, hljóðlátar, fáklæddar og sætar – að þessum aðilum hafi tekist að koma neikvæðum stimpli á þau sem beita sér fyrir auknu jafnrétti. Með því að koma neikvæðum stimpli á femínista þá er hægt að koma í veg fyrir að fólk skipi sér í þeirra hóp eða hlusti og þannig er hægt að draga úr árangrinum. Þess vegna sitjum við uppi með kynjamisrétti kynslóð eftir kynslóð svo ekki sér fyrir endann á. Það er ekki nóg að segjast vilja jafnrétti en vilja svo hafa allt eins og það er. Þannig náum við ekki jafnrétti. Til að ná jafnrétti þurfum við breytingar – róttækar breytingar. Við, hin nýjunagjarna þjóð, ættum ekki að óttast breytingar í jafnréttisátt. Kannski ertu femínisti og kannski ekki. Ef ekki þá skora ég á þig að afla þér fræðslu um jafnréttismál og segja bless við óttann um hvað gerist ef við höfnum misréttinu. Þætti þér ekki gaman að geta staðið við gefin loforð um að þetta sé nú allt að koma?

föstudagur, febrúar 10, 2006

DV og kiwi

Ég stóð við jólagjöfina mína til DV og afþakkaði viðtal... Var að spá í hvort það væri ástæða til að hætta við jólagjöfina þar sem nýjir ritstjórar eru sestir við stjórnvölinn EN. Ég get ekki séð neina stefnubreytingu hjá DV. Þrátt fyrir nokkra ágæta blaðamenn (sem ég vona að fái fyrir rest vinni á öðrum og betri fjölmiðli!) þá mun blaðið seint flokkast með almennilegum fjölmiðlum.

En að öðru skemmtilegra...

hefurðu prófað að setja

1 banana
1 epli
1 kiwi
1 steinlaus appelsínu (eða hreinan appelsínusafa)

í blandara, blanda öllu vel saman - skella nokkrum klökum út og blanda vel - hella í glas og drekka?

Eða hefurðu prófað að setja

5 gulrætur
2 epli
vænan bita af gúrku
1 papriku
1 tómat
bita af sítrónu

í safapressu, hella í 2 glös, setja klaka út í og gefa einhverjum með þér? Þessi safi er betri en hann hljómar - reyndar bara alveg ljómandi góður! Og ég drekk sko ekki eitthvað sem mér finnst vont...

Ég er allavega búin að finna leið til að innbyrða ráðlagðan dagskammt af grænmeti og ávöxtum á mun fljótlegri - og betri - máta en ég þekkti áður!

þriðjudagur, febrúar 07, 2006

Ögrun

Ætlaði að nota tækifærið og yfirtaka eitthvað sem einhverjum er heilagt áður en málfrelsið verður takmarkað vegna misnotkunar... en ákvað svo að málfrelsi er dýrmætur réttur sem ber að fara vel með.

Í mínum huga snúast myndbirtingarnar um vald - að taka sér vald yfir öðrum og skilgreina heiminn út frá sínum forsendum. Slíkt er vinsælt meðal vesturlandabúa, sérstaklega þeirra sem eru af karlkyni - enda rótgróið í karlmennskuímyndina að vera toppurinn á pýramídanum.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Finnskar auglýsingar

Pistill fluttur á NFS föstudaginn 3. febrúar kl. 16:10.

Auglýsingar eru stór hluti samfélagsins og ég efast ekki um að þau kynjaviðhorf sem birtast í auglýsingum hafi áhrif á bæði hegðun okkar og líðan – enda er auglýsingum ætlað að fá okkur til að breyta á einn eða annan veg. Það var því mikill fengur fyrir mig að komast á fyrirlestur hjá Leena-Maija Rossi, listfræðingi hjá Helsinkiháskóla. Hún hefur rannsakað töluvert þau skilaboð sem felast í auglýsingum. Auglýsingunum sem hún sýndi á fyrirlestrinum er hægt að skipta í 3 flokka:

Í fyrsta flokknum voru gagnkynhneigðar ímyndir í auglýsingum. Í flokki tvö voru konur með karllæga eiginleika í auglýsingum og í þeim þriðja voru auglýsingar sem brjóta “normið”.
Hér ætla ég að nefna tvö dæmi um auglýsingar sem Leena-Maija sýndi. Fyrri auglýsingin byggir á hefðbundnum kynhlutverkum og þrátt fyrir að hægt sé að segja að auglýsingin sé spegill á samfélagið eins og það er, þá má líka segja að ítrekuð skilaboð eins og þarna birtist, viðhaldi þessum kynhlutverkum og gera okkur erfiðara fyrir að feta veginn fram á við.

Auglýsingin sýndi ungan dreng, kannski 11-12 ára gamlan, þar sem hann situr á bekk og skoðar náttúruna í gegnum kíkinn sinn. Hann staðnæmist við og horfir á stúlku sem er á svipuðum aldri og hann að leik. Hann lítur frá henni andartak og þegar hann ætlar að líta aftur er hún horfin. Hann setur kíkinn niður, forviða á svip. Lítur til hliðar og sér að maturinn hans er horfinn. Lítur upp og sér þá stúlkuna sitja við hliðina á honum, brosandi og hún réttir honum helminginn af matnum hans. Leena-Maija greinir þessa auglýsingu þannig að hér er verið að setja gagnkynhneigða staðla yfir á börn. Einnig er strákurinn settur í hlutverk þess sem horfir og er þannig einkennandi fyrir hið karllæga augnaráð. Líta má á verknað stúlkunnar að stela matnum hans sem mótmæli við augnaráðinu en þau áhrif eru síðan tekin tilbaka þegar hún gefur honum matinn aftur.

En ekki eru allar auglýsingar fastar í viðteknum normum. Það er vel hægt að gera auglýsingar þar sem hugsunin nær út fyrir viðtekin ramma. Þær auglýsingar eru oft á tíðum skemmtilegar og vekja athygli. Eftirfarandi dæmi er af auglýsingu sem braut upp hefðbundin kynhlutverk á eftirminnilegan og djarfan hátt. Auglýsingin er um konu sem fer og fær sér húðflúr á öxlina. Í miðri aðgerð kemur maður inn og ætlar að hella upp á kaffi. Hann þarf innstungu fyrir kaffivélina og tekur óvart húðflúrnálina úr sambandi. Sá sem er að gera húðflúrið stoppar, lyftir húðflúrnálinni upp og biður manninn um að setja hana aftur í samband. Á meðan konan lítur í átt að manninum setur hann húðflúrnálina aftur í samband. Konan lítur aftur fram og kiprar aðeins efri vörina. Þar má núna sjá svarta, húðflúraða línu – sem lítur út eins og yfirvaraskegg. Auglýsingin endar þarna en framhaldsauglýsing sýnir konuna mæta í kokteilboð. Aðeins er sýnt aftan á hana. Hún er í þröngum, svörtum kjól og með uppsett hár. Axlirnar eru berar og þar sést húðflúrið á öxlinni. Gestir stara á konuna. Hún lætur sér fátt um finnast og fer beinustu leið inn á kvennasnyrtingu. Þar lítur hún í spegil og sér húðflúrað yfirvaraskeggið í fyrsta skipti. Það sem kemur verulega á óvart í auglýsingunni eru viðbrögð konunnar. Hún fer að skellihlæja. Það gera líka konurnar í kringum hana og auglýsingin endar á því að þær leika sér að því að mála yfirvaraskegg á hvor aðra.

Auglýsingar eru það útbreiddar að þær taka þátt í að móta það sem við teljum vera eðlilegt eða viðtekna venju í okkar samfélagi. Auglýsingar eiga ekki að vera uppspretta fordóma eða gegna því hlutverki að takmarka valmöguleika okkar. Að læra að “lesa” auglýsingar er mikilvægt því með því að þekkja myndmálið og hvaða skilaboðum er komið á framfæri í gegnum myndir erum við hæfari til að hafa meðvituð áhrif á umhverfi okkar og til að taka upplýstar ákvarðanir. Það getur vel verið að það sem við lesum úr auglýsingum sé ekki endilega það sem auglýsandinn ætlaði að sýna. Greining er þó mikilvæg því hvort sem auglýsandinn ætlaði að senda tiltekin skilaboð eða ekki – þá eru áhrifin til staðar.