föstudagur, desember 30, 2005

Samstaða, samstaða, samstaða, samstaða...

Árið í ár hefur verið kallað afmælisár kvenna 2005. Ástæðan er sú að margir merkisviðburðir í íslenskri sögu og snúa að réttindum kvenna áttu afmæli á þessu ári. 90 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt, 35 ár frá því rauðsokkahreyfingin var stofnuð, 30 ár frá Kvennafrídeginum 75, 25 ár frá því að Vigdís var kjörin forseti og 15 ár frá stofnun Stígamóta, svo ég stikli á stóru.

Í tilefni af kvennaárinu tók kvennahreyfingin höndum saman og stóð sameiginlega að ýmsum málum á árinu. Fyrst var skipulögð baráttuhátíð þann 19. júní á Þingvöllum til að fagna 90 ára kosningarétti kvenna. Þrátt fyrir grenjandi rigningu mættu um 2000 manns, mestmegnis konur, til að sýna samstöðu í verki og heiðra þau sem gerðu kosningaréttinn að veruleika. Næsta verkefni á dagskrá var að endurvekja Kvennafrídaginn frá 1975 en í breyttri mynd. Í ár var ákveðið að leggja niður vinnu kl. 14:08 til að sýna fram á mismunandi verðmætamat á framlagi kvenna og karla til samfélagsins. Konur hafa aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla þrátt fyrir að framlag kvenna til samfélagsins sé síst minna en þeirra. Konur vinna bara meira launalaust við uppeldi og heimilisstörf eða fyrir lægri laun á vinnumarkaði. Baráttan fyrir launajafnrétti hefur verið við lýði frá upphafi kvennabaráttunnar en enn eigum við þó nokkuð langt í land með að útrýma misréttinu. Konur sýndu og sönnuðu þann 24. október að við erum ósáttar við stöðuna og við viljum breytingar. 60 þúsund konur sýndu einstæða samstöðu í verki, lögðu niður vinnu og tóku þátt í baráttuhátíð víðs vegar um landið. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd dagsins og verð að viðurkenna að í mínum bjartsýnustu draumum þorði ég ekki að vona að konur myndu sýna jafn mikla samtöðu og árið 1975. En það gerðist og nú er ég að springa úr stolti yfir krafti íslenskra kvenna.

Það sem stendur upp úr eftir árið og það sem gleður mig mest er samstaða kvenna um sameiginleg baráttumál. Þá er ég ekki einungis að tala um þátttökuna þann 24. október heldur líka þá samstöðu sem konur í kvennahreyfingunni hafa sýnt.
9 samtök og stofnanir stóðu saman að framkvæmd baráttuhátíðarinnar 19. júní og fyrir 24. október bættust þau tíundu við auk fjögurra launþegasamtaka. Samtökin eru úr ólíkum áttum og leggja áherslu á mismunandi málefni en í afmælisnefndinni ríkti einhugur um miklu fleiri mál heldur en kosningaréttinn og launamisréttið. Fyrir 19. júní var útbúin kröfugerð sem afhent var félagsmálaráðherra. Öll samtökin samþykktu kröfugerðina en þar voru listaðar 27 kröfur um aukið jafnrétti. Ofbeldismálin eru þar ofarlega á blaði en einnig alþjóðavæðing, öryggi á heimilum, klám, kynfræðsla, mat á framlagi kvenna og karla til samfélagsins og launajafnrétti. Vinna við kröfugerðina sýndi okkur að konur úr ólíkum áttum finna brennandi þörf til að útrýma kynjamisrétti á öllum sviðum sem það birtist. Og nú er stærsta verkefnið framundan að halda samstöðunni áfram. Ég bind miklar vonir við að samstaðan á þessu ári hafi hrint af stað flóðöldu sem ekki verður stöðvuð. Ég veit um nokkra hópa kvenna sem hafa hist eftir kvennafrídaginn til að skipuleggja frekara starf og þreifa fyrir sér um hverju við getum áorkað saman. Því miður þekki ég líka nokkur dæmi þess að einhverjar fyrirstöður skemma samstöðuna en þau eru sem betur fer mun færri. Þau sýna samt sem áður mikilvægi þess að við forgangsröðum rétt og einblínum á hvað er mikilvægast. Auðvitað munum við vera ósammála um leiðir og áherslur að einhverju leyti en á meðan lokatakmarkið er það sama eigum við að geta leyst úr þannig málum og stutt hvort annað í átt að því sem máli skiptir, jafnvel þó við sjálf myndum gera hlutina öðruvísi. Það er nú einu sinni þannig að öll erum við ólík og þess vegna munum við ávallt velja ólíkar leiðir. En ólíkt er ekki endilega verra – bara öðruvísi -og oft er það stuðningurinn og umburðalyndi fyrir ólíkum aðferðum sem gerir gæfumuninn en ekki sú aðferð sem er valin. Ef við náum að halda samstöðunni sem við sýndum á þessu frábæra afmælisári munum við ná árangri og taka stór skref fram á við. Ekki veitir okkur af.

Að lokum óska ég ykkur öllum jafnréttis og friðar á komandi ári.

mánudagur, desember 26, 2005

Snemmbúið áramótaheit

Áramótaheitið mitt mun pottþétt tengjast flensum, pestum, kvefi og þess háttar óværum. Þar sem þetta hefur verið mesta og versta pestaárið sem ég man eftir stefni ég ótrauð á færri pestar á næsta ári. Miðað við þetta ár ætti það reyndar að vera auðvelt... En er ekki við hæfi að enda pestaárið mikla á því að ganga í barndóm og krækja í eitt stk eyrnabólgu - sérstaklega í ljósi þess að mér tókst aldrei að krækja í slíka bólgu sem krakki?

Ég held það nú! Sem betur fer sagði doktorinn að pensilín og áfengi færu ekki illa saman á gamlárskvöld. :)

þriðjudagur, desember 20, 2005

Óskírð Íslandsdóttir

"Varð til fyrir áorkan kvenna" er fyrirsögn á bls 36 í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um að 75 ár eru síðan Landspítalinn var tekinn í notkun.

Í fréttinni eru nokkrir nafngreindir menn:

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins teiknaði húsið og er hans getið 2x.
Guðmundur Thoroddsen var fyrsti yfirlæknir Landspítalans.
Magnús Pétursson er forstjóri.

Ekki ein einasta kona er nafngreind en samt voru það konur sem öfluðu fjár og reistu Landspítalann. Er nokkur furða þó sumir haldi að konur hafi ekki gert neitt merkilegt í gegnum tíðina?

Jólagjöfin til DV

Það er ljótt að gera upp á milli fólks en spurning hvort það sama eigi við um fjölmiðla? Ég er allavega að spá í að hætta að nenna að tala svona mikið við DV. Ekki það að ég og DV hafi verið svona best buddies þannig að ég mun ekki sakna DV neitt. Var meira í svona gírnum um að gera ekki upp á milli svo ég sagði alltaf já þegar DV hringdi... og launin eru að sjálfsögðu bölvað vanþakklæti eins og gengur og gerist...! Ekki að ég sé neitt megafúl en ég er í alvörunni farin að efast um að ritstjórnin kunni að lesa. Fór í viðtal um daginn til að tala um konusýningar og okkar geysivinsæla skeyti til forsætisráðherra (er viss um að þetta er frægasta skeyti sögunnar). Tók sérstaklega fram í viðtalinu að við værum ekki að gagnrýna þátttakendur í konusýningum - og DV prentaði það á baksíðu. Grófu svo upp fúlustu myndina sem þeir eiga af mér (tilviljun? örugglega!) og skelltu henni með fréttinni. Þetta var svo sem alveg fyrirgefanlegt og alveg það sem ég bjóst við. En - svo kom ritstjórnin á bls 2 með alls kyns rangtúlkanir, útúrsnúninga og gjörsamlega besides the point. Þannig að ég komst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort kann ritstjórnin ekki að lesa eða þá að þetta eru karlrembur af verstu sort sem grípa til allra ráða til að koma óorði á jafnréttisbaráttu kvenna og er skítsama þó þeir ljúgi, geri fólki upp skoðanir og persónugeri þetta allt saman... Nú velur hver fyrir sig en ég er allavega að spá í að segja NEI næst þegar DV hringir - og þarnæst og þarnæst og þarnæst! Það verður jólagjöfin mín til DV í ár :)

laugardagur, desember 17, 2005

Þjóðarsorg

Er ekki fyndið að sumir skuli ekki ná upp í nefið á sér yfir því að 3 einstaklingar sendi frá sér yfirlýsingu í eigin nafni til að mótmæla því að forsætisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinnar?

Það virðist sem sagt vera ok að senda yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinna en ekki ok að senda yfirlýsingu í eigin nafni! :-/ Þetta er eitthvað öfugsnúið en lærdómurinn sem hægt er að draga af þessu er þá kannski sá að senda næst yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Held ég drífi mig bara í því og lýsi loks yfir þjóðarsorg - fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Sko - nú ættu allir að vera sáttir :)

En hér er annars hin margumtalað yfirlýsing:


Yfirlýsing v/heillaóskaskeytis forsætisráðherra:
Hæstvirti forsætisráðherra,

Undirritaðar gera hér með athugasemd við heillaóskaskeyti það sem ráðherra sendi Unni Birnu Vilhjálmsdóttur í nafni íslensku þjóðarinnar allrar. Það þykir undirrituðum tímaskekkja á þrjátíu ára afmæli kvennaárs Sameinuðu þjóðanna og að nýloknum kvennafrídegi þar sem um 60 þúsund konur greiddu jafnréttinu atkvæði sitt víða um land.

Deildar meiningar eru um ágæti fegurðarsamkeppna meðal þegna landsins. Fegurðarsamkeppnir ýta undir einhæfar staðalímyndir um útlit og hlutverk kvenna í samfélaginu. Með því að senda heillaóskaskeyti í nafni þjóðarinnar allrar gerir forsætisráðherra lítið úr þeirri kröfu að konur séu metnar að verðleikum en ekki eftir ytra útliti.

Margs hefur verið minnst í sögu íslenskra kvenna á árinu sem er að líða og hin íslenska kvennahreyfing hefur sameinast um að vekja athygli á stöðu jafnréttismála hér á landi og í alþjóðlegu samhengi.

Virðingarfyllst,
Rósa Erlingsdóttir
Edda Jónsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Verkefnisstýrur baráttuárs kvenna 2005

Og svo er ekki úr vegi að minna á bloggsíðurnar sem við í staðalímyndahópi FÍ gerðum í den:

Bloggsíða v. Ungfrú Ísland keppninnar: http://www.missiceland.blogspot.com/
Bloggsíða v. Ísdrottningarinnar: http://meyjanam.blogspot.com/

föstudagur, desember 16, 2005

Góðgerðarstörf

NFS 16. des 2005:

Fegurðarsamkeppnir eru umdeilt fyrirbæri. Ég skipa hóp þeirra sem finnst svona konusýningar vera tímaskekkja og fagna því ekkert sérstaklega að við Íslendingar höfum eignast okkar þriðju Ungfrú Heim. Okkar nýkrýndu fegurðardrottningar bíður nú eins árs vinna við góðgerðarstörf og þó ég sé ekki hrifin af fegurðarsamkeppnum finnst mér góðgerðarstarf mikilvægt og göfugt starf. Gæðum heimsins er misskipt og það veitir ekki af að aðstoða þau sem eiga um sárt að binda vegna fátæktar, náttúruhamfara eða veikinda. Góðgerðarstarf er oft á tíðum óeigingjarnt framlag einstaklinga eða fyrirtækja sem vilja axla samfélagslega ábyrgð. En stundum er góðgerðarstarfsemi bara pjúra bisness og stundað í þeim tilgangi að réttlæta eða öðlast jákvæða ímynd á starfsemi sem að öðrum kosti væri litin hornauga. Ég er reyndar alveg viss um að okkar ágæta Unnur Birna fellur í fyrri flokkinn enda held ég að hún fái lítið sem ekkert greitt fyrir starfið. Hins vegar er ég ekki jafn viss um aðstandendur Miss World keppninnar.

Góðgerðarstarfið er notað sem réttlæting á að svona keppni sé enn við lýði. Unnur Birna sagði í viðtali við Kastljósið að keppnin væri í raun eitt stórt 5 vikna atvinnuviðtal fyrir starf í eitt ár og að innri fegurð skipti öllu máli en ekki sú ytri. Gott og vel. Segjum að svo sé. En ef þetta er atvinnuviðtal hvaða kröfur eru þá gerðar til umsækjenda? Ímyndum okkur að keppnishaldarar settu atvinnuauglýsingu í Morgunblaðið. Hún gæti hljómað eitthvað á þessa leið:
Óskum eftir fallegri konu á aldrinum 18 – 24 ára til að sinna góðgerðarstörfum í eitt ár. Stúlkan þarf að vera ógift og barnlaus en má hafa farið í brjóstastækkun. Atvinnuviðtalið felst í framkomu í síðkjólum og að að biðla til áhorfenda um atkvæði íklædd bikiní einum fata strjúkandi létt yfir líkamann. Umsækjendur verða einnig spurðir krefjandi spurninga eins og: Hvað gerirðu til að heilla karlmenn? Og: Hvað finnst þér skemmtilegast að versla?

Ég veit ekki með þig en verð að segja að mér finnst þessar kröfur ansi skrýtnar og hreint út sagt óviðeigandi fyrir starf til góðgerðarmála.

Ég er reyndar viss um að litlu börnin sem Ungfrú Heimur heimsækir á spítalann er slétt sama hvernig hún lítur út í bikiní og háum hælum. Ég efast líka um að þau læknist þó vel tilhöfð, ung kona með kórónu á höfðinu kíki í heimsókn til þeirra á spítalann. Ég er samt ekki alveg jafn viss um alla karlanna með ávísanaheftin sem sækja fjáröflunarsamkomurnar. Þetta gæti skipt þá einhverju máli!

En burtséð frá því þá finnst mér áhugavert að bera kröfurnar sem gerðar eru til umsækjenda um þessa spennandi vinnu við ákvæði jafnréttislaga. Auðvitað er það argasta misrétti að starfið skuli aðeins vera opið konum. Eins felast alls konar fordómar í þessum kröfum, til dæmis aldursfordómar, fitufordómar og fordómar gagnvart mæðrum og giftum konum.
Ég stend því fast á þeirri skoðun að um sé að ræða keppni í stöðluðu, ytra útliti kvenna, þar sem góðgerðarstarf er notað til að réttlæta keppnina fyrir þátttakendum, áhorfendum og styrktaraðilum. Keppnin um titilinn fegursta kona í heimi er nákvæmlega það sem titillinn vísar í, keppni í ytri fegurð, og því ber að meta keppnina út frá þeim forsendum. Konur eru enn í baráttu fyrir því að vera metnar að verðleikum en ekki ytra útliti. Keppni eins og Ungfrú Heimur festir kröfuna um hlutverk konunnar sem skrautmunur í samfélaginu í sessi. Hún gerir baráttuna fyrir því að vera metnar að verðleikum erfiðari og hjálpar okkur ekki til að sjá og meta fegurðina í margbreytileikanum. Þess vegna er óskandi að keppnin leggist af um síðir af þeirri ástæðu að konur hafi ekki lengur áhuga á að taka þátt. Ef einlægur áhugi á góðgerðarmálum liggur að baki þátttöku er ekki úr vegi að nefna að það eru til fjölmörg samtök sem sinna góðgerðarmálum en gera ekki kröfur um kyn, aldur, ákveðið útlit eða að koma nánast nakin fram. Það má því fá drauma sína um betri heim uppfyllta á mun jákvæðari hátt en með því að taka þátt í keppni sem byggir á fornu en ónauðsynlegu hlutverki kvenna um að vera sætar og góðar.

Allt mér að þakka!

Veiiiii - Árni lét segjast. Er búinn að segja að ljóst sé að hann hefði átt að haga sér öðruvísi og þurfi að læra af þessu. Er viss um að það sé alfarið pistlinum mínum í Viðskiptablaðinu að þakka ;)

Annars varð Miss World fyrir valinu sem pistlaefni dagsins á NFS... kl. 16:10. Óþreytandi umfjöllunarefni sem ég er nú samt orðin soldið þreytt á. Vona að árið verði fljótt að líða!

fimmtudagur, desember 15, 2005

Að gleðjast yfir óförum annarra

Sumum finnst það ótrúlega dónalegt að gleðjast ekki yfir óförum annarra... en svona er þetta bara.

Nú er spurning hvað næsti pistill á NFS á að fjalla um? Miss World? Rýran þátt kvenna í fjölmiðlum? Jólin? Fyrirmyndir? Er reyndar búin að ákveða mig, á bara eftir að skrifa...

Mæli annars með pistlinum mínum í Viðskiptablaðinu í gær. Ætli félagsmálaráðherra sé nokkuð fúll þó kona spái í hvort hann eigi að segja af sér?

mánudagur, desember 12, 2005

Krísustjórnun

Hvernig á kona að bregðast við þegar Ísland vinnu Miss World konusýninguna?
  1. Lýsa yfir þjóðarsorg fyrir hönd þjóðarinnar - a la forsætisráðherra?
  2. Panika?
  3. Springa úr stolti yfir að vera best í heimi í að spranga um í bikiní og háum hælum? :-/
  4. Gefast upp - fara í megrun, líkamsrækt, ljós, brúnkumeðferð, permanett og hætta að fara út úr húsi ómáluð? Ekki er hægt að svekkja útlendingana sem koma til að skoða þjóðargersemarnar!
  5. Opna veðbanka og spá í hvort hún fær fyrst vinnu í Kastljósinu, Íslandi í bítið eða Íslandi í dag? (enda er þátttaka í konusýningum stökkpallur til glæsts frama í fjölmiðlum og landkynningu!)
  6. Aðrar uppástungur?

föstudagur, desember 09, 2005

#3

#3 NFS 9 des 2005:

Ég rakst á frétt á visir.is í gær þar sem haft var eftir rektor kennaraháskólans að auka þyrfti kjör, aðbúnað og virðingu fyrir umönnunar- og uppeldisstörfum til að fjölga karlmönnum í þessum stéttum. Það sem vakti sérstaka athygli mína var orðalagið. Það hljómaði einhvern veginn eins og að umönnunar- og uppeldisstörf væru ekki nógu góð fyrir karla miðað við núverandi aðstæður en þau væru nógu góð fyrir konur. Ég er reyndar nokkuð viss um að rektor meinti þetta ekki þannig en engu að síður fór ég að hugsa um viðhorfin til kennarastéttarinnar.
Eitt sinn var kennarastéttin með mest metnu stéttum landsins. Starfinu fylgdi virðing og há laun. Í þá daga voru nær allir kennarar karlar. Síðar fóru konur að sækja í stéttina í auknum mæli og þá fór að síga á ógæfuhliðina. Launin hríðlækkuðu og virðingin hvarf eftir því sem konunum fjölgaði. Þessi þróun ætti að segja okkur sitthvað um gildismat okkar á framlagi kynjanna. Það er ekki að ástæðulausu að konur hafa staðið í jafnréttisbaráttu í áratugi. Hér áður fyrr ríkti feðraveldi sem gekk út frá því að karlar væru æðri en konur og það sem þeir gerðu var mikilvægara, merkilegra og meira virði. Þessi viðhorf eru enn áberandi í okkar samfélagi þó að við virðumst vera orðin svo samdauna þeim að við tökum varla eftir því. Í dag segjum við að kynin séu jafningjar og eigi að vera metin til jafns. En ef við notum peninga sem mælikvarða til að athuga hvort þetta sé staðan sjáum við að enn er töluverður munur á hvernig framlag kynjanna til samfélagsins er metið. Konur hafa lægri atvinnutekjur en karlar, lægri laun fyrir jafnlangan vinnudag og lægri laun fyrir sömu störf.

Kennarastéttin er líka gott dæmi til að skoða hvaða virðingu við berum fyrir kynjunum. Umræðan í kringum kennararstarfið hefur að vissu leyti náð sér á strik síðustu ár og ég held að við séum orðin nokkuð mörg sammála um að kennarar eigi skilið væna launahækkun og miklu meiri virðingu fyrir þeirra verðmæta framlag til uppeldis- og menntunar barna. Þetta er jákvætt. En á hinn bóginn heyrum við líka ýmislegt sem er ekki eins gott. Til dæmis hefur verið töluverð umræða um slakt gengi drengja í skólum miðað við frammistöðu stúlkna. Útskýringin er oft á tíðum sögð vera að það vanti fleiri karla í kennarastéttina. Það er eins og sumir haldi að það hafi skaðleg áhrif á drengi að vera innan um kvenkyns kennara. Eins og einkunnir drengja muni hækka bara ef kennarinn er karlkyns. Þetta orðalag lýsir vanvirðingu á starfi kvenna í kennarastétt. Sérstaklega í ljósi þess að allt aðrar ástæður hafa verið nefndar fyrir stöðu drengja í skólum heldur en að verða fyrir því óláni að þurfa læra allt af konum. Ein ástæða sem hefur verið nefnd fyrir lakari frammistöðu drengja er að karlmennskuímyndirnar sem haldið er að þeim hafa skaðleg áhrif. Ofbeldisdýrkun, krafan um snilligáfu án þess að hafa fyrir því að læra og væntingar um að strákar eigi að vera ærslabelgir eru dæmi um ímyndir sem hafa skaðleg áhrif á frammistöðu og líðan drengja í skólum. Bæði konur og karlar eru fær um að halda þessum ímyndum að drengjum og því ekkert sem segir að kyn kennarans hafi neikvæð eða jákvæð áhrif í þessu sambandi.

Þrátt fyrir þetta er ekki þar með sagt að kyn skipti ekki máli og ekki þurfi að fjölga körlum í kennarastétt. Kyn skiptir máli á ýmsan hátt og ég efast ekki um að karlmenn hafi ýmislegt fram að færa til skólastarfs til jafns á við konur. Það er mikilvægt að umönnun og menntun barna sé í höndum beggja kynja. Aukin virðing, bætt kjör og betri aðbúnaður er allt af hinu góða. En það skiptir máli að skilaboðin séu þau að það sé fyrir konurnar, og þá karla, sem sinna þessum störfum nú þegar en ekki bara fyrir karlana sem á að reyna að fá inn í þessi störf. Framlag kvenna til samfélagsins hefur verið vanmetið svo langt sem saga okkar nær og það er kominn tími til að breyta því. Það er löngu kominn tími á að meta störf þeirra sem sjá um umönnun, uppeldi og menntun barna betur – einfaldlega vegna þess að þetta eru verðmætustu störfin og þau sem sinna þeim eiga það skilið!

Valgerður kona og Árni karl

Nú er búið að dæma í máli Valgerðar Bjarnadóttur gegn íslenska ríkinu. Valgerður fær uppreisn æru með dómnum og ljóst að félagsmálaráðherra braut af sér í starfi. Nú er spurningin hvort hann sé jafn harður á því að þeir aðilar sem brjóti af sér segi af sér? Hann missti traustið gagnvart Valgerði þegar hún var fundin sek um brot á jafnréttislögum fyrir héraðsdómi - ekki í starfi sínu sem framkvæmdastýra Jafnréttisstofu heldur í öðru starfi. Þetta var nóg til að ráðherra missti traustið og vildi að hún hætti. Hann vildi ekki bíða eftir niðurstöðu hæstaréttar - sem - by the way - sýknaði Valgerði. Eins og þetta væri ekki nóg þá samdi hann ekki einu sinni við hana um sómasamleg starfslok og hefur bara látið eins og fúll á móti varðandi allt sem viðkemur málinu.

Mér finnst alveg ljóst að karlmaður í sömu stöðu hefði ekki fengið þessa meðferð enda þekki ég ekkert dæmi um slíkt. Trekk í trekk heyrum við að mönnum sem brjóta af sér í starfi, standa sig ekki í starfi og fá að launum svimandi háa starfslokasamninga. Þetta er því kynjað dæmi út í gegn. Það sem er þó mest spennandi þessa dagana er hvort að félagsmálaráðherra haldi fast í prinsippin sín - hann hefur lýst því yfir að niðurstaða hæstaréttar sé vonbrigði - hann er sem sagt á því að hann hafi verið í fullum rétti og þessi ákvörðun hans hafi verið rétt. Í mínum kokkabókum ætti þetta að þýða að ef hann er sannfærður um að kona sem var fundin sek í héraðsdómi en sýknuð í hæstarétti ætti skilið að hverfa úr starfi án sómasamlegs starfslokasamnings þá ætti ráðherra sem fundinn er saklaus í héraðsdómi en sekur í hæstarétti pottþétt að segja af sér.... traustið hlýtur að vera horfið! En einhvern veginn er ég sannfærð um að hann noti ekki sama mælikvarða á sjálfan sig og konuna sem hann vildi losna við!

mánudagur, desember 05, 2005

Loves me not!

Svarhöfði elskar mig ekki. Ég er á algjörum bömmer!!!

Löggan, Neyðarmóttakan, Femínistafélagið og baráttan gegn ofbeldi

Framlag Femínistafélagsins í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi var í dag. Framlagið fólst í fræðslu til lögregluþjóna. Það var hún Kolbrún Anna sem á heiðurinn af framtakinu og sá um undirbúning frá A-Ö og hún á mikið hrós skilið fyrir það.

Þetta fór þannig fram að fyrst hélt Eyrún frá Neyðarmóttökunni fræðsluerindi fyrir lögregluþjónana. Því næst var þeim skipt upp í hópa og hver hópur hitti leikkonu sem var í hlutverki þolanda nauðgunar. Lögreglan tók af henni skýrslu og gat þannig æft sig á aðila sem þeir þekktu ekki, er ekki raunverulegur þolandi en hefur kunnáttuna til að setja sig í hlutverk persónunnar. Þessi leið er mun betri heldur en ef löggan æfir sig á þolendum í raunverulegum aðstæðum... eða á vinnufélögum sem þeir þekkja vel því þá verður alvaran ekki eins mikil. Á eftir hittist hópurinn aftur og fór yfir viðtölin, hvernig þetta hefði verið, hvað var gott, hvað var vont, o.s.frv. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja með í síðasta hlutanum. Það var mun fróðlegra en ég bjóst við í upphafi og margt sem kom fram sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Helstu niðurstöður af þessu voru þær að það bráðnauðsynlega vantar betri aðstöðu fyrir lögguna til að taka skýrslur. Konurnar á Stígamótum voru svo elskulegar að leyfa okkur að koma með hluta af hópnum til þeirra til að taka viðtölin. Þar voru sófar, þægilegir stólar og huggulegt umhverfi. Það greinilega var mun betra heldur en ópersónuleg skýrslutöluherbergi lögreglunnar. Eins kom fram að það væri mikill hagur í að taka viðtölin upp á video í staðinn fyrir að þurfa að pikka skýrsluna inn á tölvuna jafnóðum - held að fæstar löggur séu Verzlunarskólagengnar þannig að hraðinn er ekki upp á marga fiska auk þess sem það tefur allt ferlið og slítur í sundur viðtalið. Ég man vel eftir hvernig þetta var þegar ég fór og kærði klámið í sumar og það var hvorki þjálft né fljótlegt - allt út af bannsettri tölvunni... ég var ekki búin að gera mér grein fyrir að þolandi kynferðisofbeldis þarf að gefa skýrslu við sömu aðstæður - sem gætu varla verið verri. Margt fleira kom fram en ég man það ekki allt í augnablikinu....

Ég held að við höfum öll verið mjög ánægð með framtakið, bæði löggan og við. Bæði er svona ferli lærdómsríkt og það kemur líka af stað dialog á milli þeirra aðila sem vinna að þessum málum. Ég vona að það verði framhald á þessu verkefni... :)

sunnudagur, desember 04, 2005

John Berger - langar að lesa meira eftir hann...

Úr “Ways of Seeing” eftir John Berger (lausleg þýðing):

Kona þarf stanslaust að fylgjast með sjálfri sér. Hún er nánast alltaf í fylgd sinnar eigin ímyndar. Á meðan hún gengur í gegnum herbergi eða á meðan hún grætur vegna andláts föður síns, getur hún tæplega forðast að sjá fyrir sér að ganga eða gráta. Frá frumbersku hefur henni verið kennt og hún sannfærð um að fylgjast stanslaust með sjálfri sér.

Og hún lærir að álíta áhorfandann og þann sem horft er á innra með henni sem tvo aðgreinda fulltrúa í sjálfsmynd hennar sem konu.

Hún verður að skoða allt sem hún er og allt sem hún gerir í ljósi þess hvernig hún kemur fyrir sjónir annarra, og á endanum hvernig hún kemur fyrir sjónir karlmanna, sem veigamikinn þátt í því sem venjulega er álitið árangur hennar í lífinu. Hennar eigin tilfinning um tilveru sína víkur fyrir tilfinningu um að vera metin sem hún sjálf af öðrum.

Karlmenn horfa á konur áður en þeir bregðast við þeim. Það hvernig kona lítur út í augum karlmannsins getur þar af leiðandi haft áhrif á hvernig meðhöndlun hún fær. Hægt er að einfalda þetta með því að segja: karlmenn gera, konur birtast (Men act, women appear). Þetta ákveður ekki aðeins flest sambönd á milli karla og kvenna heldur einnig samband kvenna við sjálfar sig. Áhorfandinn í konunni er karlkyns: konan sem er horft á. Þess vegna breytir hún sér í hlut – einkum og sér í lag sjónrænan hlut: Sjón.

Konur eru sýndar á allt annan hátt en karlar – ekki vegna þess að hið kvenlega er öðruvísi heldur en hið karllæga – heldur vegna þess að ávallt er gert ráð fyrir að hinn “fullkomni” áhorfandi sé karlkyns, og ímynd konunnar er hönnuð til að skjalla hann.

laugardagur, desember 03, 2005

Taka 2

Jæja - pistill #2 gekk mun betur :) Hann er sem sagt hér fyrir neðan (fluttur á NFS 2. des):

Bráðum koma blessuð jólin og nú er ekki seinna vænna en að hefja jólagjafainnkaupin. Til að hjálpa okkur að velja gjafir handa börnunum getum við stólað á hina árvissu leikfangabæklinga. Á hverju ári bíð ég í ofvæni eftir bæklingunum. Spennan er yfirþyrmandi og það liggur við að þetta sé eins og biðin eftir jólunum sjálfum. Eftirvæntingin stafar af því að mig langar til að sjá hvað er stelpudót og hvað er strákadót í ár.

Ég lít þannig á að margir barnaleikir séu undirbúningur fyrir fullorðinsárin. Dót sem er í raun barnaútgáfur af fullorðinshlutverkum – eins og eldhúsdót og verkfæri – er að undirbúa börnin fyrir fullorðinsárin. En hvaða hlutverk erum við að undirbúa þau fyrir? Ef við skoðum leikfangabæklingana er alveg ljóst að við ætlum strákum og stelpum ólíka hluti.

Stelpudót er ennþá dúkkur, snyrtidót og eldhúsáhöld á meðan strákadót samanstendur af bílum, byggingarsetti, flugvélum og trommusetti. Þessi skipting strax á unga aldri er furðuleg ef við spáum í að einn af þeim þáttum sem hamlar jafnrétti hvað mest er ójöfn verkaskipting á heimilinu. Konur bera enn hitann og þungan á uppeldi og heimilisstörfum. Karlar eru orðnir mun meiri þátttakendur en samt er enn langt í land. Krafan um aukna þátttöku karla í uppeldi barna og umsjón heimilisins kemur ekki eingöngu frá konum heldur er það greinilega líka kappsmál fyrir karla, eins og sást á karlaráðstefnunni sem haldin var í gær.

Til að jafnrétti náist á fullorðinsárum þýðir ekki að kenna börnum að eldhússtörf og barnauppeldi séu frátekin fyrir stelpur eða að bílar og verkfæri séu einkamál stráka. En það er eins og einhver hræðsla sé í gangi. Mér heyrist að sumir foreldrar haldi ennþá að ef strákur fái að leika sér með dúkkur, potta og pönnur, þá sé verið að ala upp í honum hommann. Fyrir utan hvað þessi sýn er fordómafull þá er heldur ekki heil brú í henni. Strákar verða ekki skotnir í strákum af því að þeir léku sér með potta þegar þeir voru börn. Slík röksemdarfærsla er hreinlega út í hött og ekki sæmandi viti bornu fólki að hugsa á slíkan hátt. Að leika sér með dúkkur getur aftur á móti alið upp í strákum fyrirmyndarpabbann og það er hlutverk sem mörgum fullorðnum karlmanninum finnst eftirsóknarvert.

Það verður að teljast verðugt rannsóknarefni hvers vegna Íslendingar, sem alla jafna eru taldir nýjungagjarnir, skuli ríghalda í gömul kynhlutverk eins fast og raun ber vitni. Það væri sáraeinfalt að breyta merkingum á barnadóti þannig að þar sjáist strákur og stelpa leika sér saman að elda eða byggja. Við eigum ekki í neinum erfiðleikum með að tileinka okkur nýjustu tækninýjungarnar og eltum fatatískuna eins og við eigum lífið að leysa en börnin ætlum við að festa í kynhlutverkum sem þau þurfa síðan að verja fullorðinsárunum í að berjast gegn. Með því að merkja dótið sem annaðhvort strákadót eða stelpudót takmörkum við valfrelsi þeirra til að velja sér dót sem þeim sjálfum finnst spennandi. Þau sjá myndirnar á kössunum og læra fljótt hvaða leikföng þeim eru ætluð. Ef þau slysast til að leika sér með dót sem ekki er fyrir þeirra kyn geta þau búist við háðsglósum frá foreldrum, vinum og
vandamönnum. Afleiðingin af því að kyngera barnadót með þeim hætti sem við gerum í dag er að við viðhöldum misrétti. Börnin læra ekki að það er þeirra sameiginlega framtíðarhlutverk að halda heimili og ala upp börn.

Ef við hættumað kyngera barnaleikföng og hvetjum þess í stað börn til að prófa sig áfram og leika sér með alls konar dót; bæði eldhúsdót, dúkkur, verkfærasett og bíla, getur það í versta falli haft þær ánægjulegu afleiðingar að börnin finna sjálf út sitt áhugasvið og upplifa sameiginlega ábyrgð þegar fram líða stundir. Hættan er sem sagt sú að við gætum náð árangri í jafnréttismálum ef við laumum pottum og pönnum í jólapakkann hjá strákunum og verkfærasetti í pakkann hjá stelpunum.

En það getur auðvitað vel verið að við séum bara sátt og viljum að strákar haldi áfram að vera fyrirvinnur sem vinna myrkranna á milli og vanrækja fjölskylduna og að stelpur haldi áfram að axla tvöfalda ábyrgð á vinnu og heimili. Okkar er valið – og hvað ætlum við að velja fyrir börnin?

fimmtudagur, desember 01, 2005

Karlar leysa úr misréttinu

Karlaráðstefnan var haldin með pompi og prakt í dag. Ég mátti ekki fara - kynbundið misrétti á ferðinni því konum var meinaður aðgangur - nema Vigdís fékk undanþágu.

Ég á eftir að skoða erindin en heyrði að þetta hefði bara verið ágætt svona miðað við allt saman. Auðvitað var tíminn allt of stuttur og karlarnir þurfa meira en 3 tíma til að koma á jafnrétti en þetta er þó viðleitni. Fyrir ráðstefnuna var þó nokkur umræða á femínistapóstlistanum og hér kemur brot úr einu innleggi frá mér þar sem ég tók saman nokkrar mögulegar útkomur úr karlaráðstefnunni og lagði til að við stofnuðum veðbanka - það hefði allavega sett smá spennu í þetta: :)
Nú er spurning hvort við viljum spá og spekúlera um niðurstöðu ráðstefnunnar? Ættum kannski að setja upp veðbanka - LOL???
  1. Hér ríkir fullkomið jafnrétti og hefur lengi gert!
  2. Þetta er allt að koma - bíðum bara í 20 ár og þá verður þetta komið af sjálfu sér!
  3. Til að jafnrétti náist þá þurfa konur að gera milljón hluti - og karlar ekkert...
  4. Misrétti er ekki körlum að kenna!
  5. Karlar verða fyrir misrétti varðandi forræðismál eftir skilnað - kippum því í lag. Drengir verða fyrir mismunun í skóla - kippum því í lag.
  6. Misrétti er allra ábyrgð og karlar geta gert heilmikið til að bæta þar úr. Má þar nefna ótal hluti eins og...

Ég set auðvitað nr. 6 á jólagjafalistann minn... :) En hvað ég veðja á ætla ég að halda fyrir mig!

miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Smávægileg leiðrétting

Var að fatta að klámballið er sameiginlegt ball háskólanna - hvaða háskóla hef ég ekki hugmynd um en hvað um það... þetta er glatað fyrirbæri og sýnir að við búum í karlaveldi sem ekki þolir að konur séu jafnar körlum - klámið er leið til að setja konur skör lægra.

Er gott að fá jafnréttisverðlaun?

Mikið var ég ánægð með að Jón skyldi ógilda reglugerðina um skerðingu bóta til öryrkja. Það segir sig sjálft að það gengur ekki að taka af fólki lífsviðurværið síðustu mánuði ársins.

Aðrar fréttir eru ekki eins góðar - mér skilst að jólaballið hjá Háskólanum í ár verði klámball - og skólinn var að vinna jafnréttisverðlaun fyrir örfáum vikum. Það er kannski satt sem sagt er að eftir að fyrirtæki og stofnanir fái þessi verðlaun þá sé ástæða til að byrja að óttast... Eins og Hans Petersen sem sá enga ástæðu til að taka þátt í Kvennafrídeginum því fyrirtækið hafði unnið jafnréttisverðlaun fyrir langa löngu þegar kona var forstjóri og þar með var ekki þörf á að sinna jafnrétti meir! Og verðlaunin meira að segja notuð sem réttlæting fyrir að sýna ekki samstöðu á Kvennafrídeginum. Vonandi stendur HÍ sig betur og breytir ballinu úr klámballi í jólaball...

mánudagur, nóvember 28, 2005

Afrek helgarinnar

Afrek helgarinnar - að mála innan í svalahurðaropinu. Bara búið að taka rúmt ár... en mikið er gott að vera laus við brúnu bæssletturnar. :)

Síðan var auðvitað mini afrek að hjálpa tengdó að flytja ofan af 4. hæð. Helgin var sem sagt bara skemmtileg - og afmælið hjá Guðrúnu Margréti alveg frábært. Það var gott að komast aðeins út að mingla með femínistunum - enda afburðarskemmtilegt fólk :)

2 nýjar bækur komnar á bókalistann:
  • Jörðin - lúkkar rosalega flott af auglýsingunni að dæma!
  • Opið hús - girnilegar uppskriftir frá ýmsum löndum auk þess sem hægt er að kynnast heiminum betur. Búin að ákveða fyrirfram að þetta sé frábær bók :)
Svo er það 16 daga átakið - pistlarnir mínir þessa dagana tengjast því enda um að gera að nota tækifærið til að brýna þetta þarfa málefni.

föstudagur, nóvember 25, 2005

Frumraunin

Jæja þá er frumraunin sem pistlahöfundur í sjónvarpinu búin - og þetta var heldur betur hræðilegt... :-/ Þá er það sem sagt officialt að það fer mér engan vegin að tala hægt og ég mun halda áfram að gassast á mínum hraða hraða í framtíðinni! :)

En hér kemur pistillinn - fluttur á NFS 25. nóv:

Heilsa kvenna, heilsa mannkyns: stöðvum ofbeldið. Þetta er yfirskrift á 16 daga alþjóðlegu átaki gegn kynbundu ofbeldi sem hófst í dag.

Í tilefni af átakinu langar mig til að fjalla um samskipti kynjanna og ofbeldi gegn konum. Ofbeldi er alltof útbreitt og því brýn þörf á aðgerðum og í dag langar mig til að ræða hvað við getum gert til að stöðva ofbeldið sjálft – hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að ofbeldið eigi sér stað? Ég ætla að ganga út frá ákveðnum forsendum þegar ég tala um hvað við getum gert til að stöðva ofbeldi. Ég til dæmis neita að trúa eða samþykkja að ofbeldi sé eitthvað sem er karlmönnum í blóð borið. Það er ekkert í eðli karlmanna sem gerir suma þeirra að nauðgurum, fær þá til að misnota börn eða lemja konuna sína. Ofbeldið á sér rætur í félagslegu umhverfi og það snýst um vald. Ofbeldi er valdbeiting.

Ég held að ofbeldið eigi að stórum hluta rætur sínar að rekja til þeirra viðhorfa að karlmenn eigi að vera sterkari aðilinn – þeir eiga að vera sá sem hefur töglin og haldirnar og konur eiga að vera undirgefnar og hlýðnar. Við vitum öll að í raunveruleikanum er þetta ekki svona – en einhversstaðar djúpt inn í þjóðarsálinni er þessi gamli hugsunarháttur enn við lýði og birtist okkur á ýmsan hátt.

Eitt dæmi er sú klámvæðing sem tröllríður vestrænum samfélögum þessa dagana. Þar birtist kvenlíkaminn sem neysluvara sem karlmenn hafa óheftan og ótakmarkaðan aðgang að. Þeir þurfa ekkert að hafa til brunns að bera sjálfir sem veitir þeim þennan aðgang – þeir eiga einfaldlega þennan rétt óháð eigin verðleikum. Svona kristallast húsbóndavaldið í breyttri mynd frá því hér á árum áður þegar konan var eign eiginmannsins – kynlífið var réttur fyrir hann en ein af skyldum hjónabandsins fyrir hana.

Sá hugsunarháttur að strákar eigi að vera betri en stelpur sést líka í uppeldi barna. Kannast einhver við að hafa heyrt sagt við strák að hann verði að standa sig í stykkinu – hann megi ekki tapa fyrir stelpu? Það er ekki nóg með að það sé ekki nógu gott að tapa – það fylgir því sérstaklega mikil skömm að tapa fyrir stelpu – af hverju? Jú, af því að strákurinn á að vera betri.

Ofan á þetta bætist að karlmennskuímynd nútímans er gegnumsýrð af ofbeldi og yfirráðum. Þegar við hömpum gildum sem slíkum ættum við ekki að furða okkur á að ofbeldi verði útbreitt. Þetta eru hlutir sem við verðum að breyta. Í staðinn fyrir að hampa fornaldarlegum hugmyndum um samskipti kynjanna sem byggjast á að kynin séu andstæðar fylkingar ættum við frekar að horfa á hvað kynin eiga sameiginlegt og krefjast þess að virðing, samvinna og jafnræði sé sett í fyrsta sætið.

Til að við getum stöðvað ofbeldið verðum við að sporna við þeim viðhorfum sem birtast til beggja kynja í okkar samfélagi. Við þurfum að spá alvarlega í hvaða þýðingu orðin virðing og jafnrétti hafa. Það er nefnilega allt sem bendir til þess að virðing sé af skornum skammti og að enn sé ekki litið á kynin sem jafningja með sömu réttindi, sömu skyldur og sömu verðleika. Við sem byggjum þetta land getum öll haft áhrif á tíðni og útbreiðslu ofbeldis. Við getum haft áhrif með því að neita að vera umurðarlynd gagnvart viðhorfum sem byggja á yfirráðum, ofbeldi og virðingarleysi. Ofbeldið er ekki óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að vera til – ofbeldið þrífst við ákveðnar aðstæður og það eru í rauninni góðar fréttir því það þýðir að við getum breytt því. Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að til þess að stöðva ofbeldið þurfum við að breyta ansi miklu – og spurningin er – erum við, ég og þú, tilbúin til að leggja það á okkur?

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Meira dót, meira dót, meira dót...

Þá eru hinir árvissu leikfangabæklingarnir byrjaðir að streyma í hús. Ég er búin að fá hvorki meira né minna en 2 bæklinga í hús! Ég bíð alltaf í ofvæni eftir bæklingunum - spennan er yfirþyrmandi og það liggur við að þetta sé eins og biðin eftir jólunum sjálfum! Samt er ég ekki barn og á ekki börn...

Eftirvæntingin liggur í skoðun á hvað er strákadót og hvað er stelpudót í ár! Og niðurstaðan kemur alltaf jafnmikið á óvart:

Stelpudót: dúkkur, snyrtidót, eldhúsáhöld og að syngja lög eins og Crazy in love í karíókí.

Strákadót: bílar, byggingasett, flugvélar, trommusett.

Jamm - börnin velja þetta allt saman sjálf - enda um það bil helmingur dótsins í boði fyrir hvort kyn. Að búa til konur og karla er þrusuvinna sem byrjar strax á day #1.

miðvikudagur, nóvember 23, 2005

Hvað á ég að lesa?

Ég þarf að fara að lesa meira. Er að spá í hvaða íslenskar bækur ég á að setja á bókalistann:
  • Brosað gegnum tárin
  • Í fylgd með fullorðnum
  • Gæfuspor
  • Auður Eir
  • Hrafninn
  • Sá sterki (sterkasti??) eitthvað svoleiðis - skáldsaga um nýfrjálshyggjuna - veit einhver hvernig hún er?
Búin að lesa Myndin af pabba - enda skyldulesning fyrir alla. Á eftir að lesa Já, ég þori get og vil en á hana :)

Vantar einhverjar bækur á listann?

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

DV sukkar

Allt um hvernig atvinnurekendur geta útrýmt launamismun í Viðskiptablaðinu á morgun!

Svo byrjar 16 daga átak gegn ofbeldi gegn konum á föstudag.

Það veitti ekki af að taka DV fyrir í átakinu. Forsíða blaðsins í dag er ógeðsleg. Þar er mynd af manni sem hefur verið dæmdur fyrir nauðgun og til hliðar er mynd af konu sem sögð er vera þolandi. EN - myndin er af henni á naríunum einum fata og er væntanlega úr einhverri fegurðarsamkeppninni, efri parturinn "blörraður". Það eru svona atriði sem fá mig til að trúa því að ábyrgðarmönnum DV er slétt sama um hvort hægt sé að draga úr ofbeldi eða ekki - þeim er bara sama um söluna. Og það er skítt... Forsíðan er ekki inn á visir.is í augnablikinu - ég vona að það sé vegna þess að þeir hafi tekið hana út af samfélagslega ábyrgum ástæðum!

mánudagur, nóvember 21, 2005

Eitt allsherjar samsæri!

Fyrst var femínistaspjallið hakkað og nú komst einhver ormur í bloggið mitt. Held að þetta hljóti að vera eitt allsherjar samsæri, enda samsæriskenningar alltaf skemmtilegastar!!!

Til að losna við orminn þurfti ég að skipta um template. Þetta verður að duga í bili og ég held að það sé bara ágætt því það eru að koma jól og þetta er eins og vel skreytt jólatré - allavega eru litirnir nógu margir :)

En annars er það helst í fréttum að Herra Ísland keppnin er á fimmtudaginn... vei, vei, vei - uhhh svei, svei, svei - meinti ég.

Frumraunin á NFS verður svo kl. 16:10 á föstudag...!

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

mánudagur, nóvember 14, 2005

Stress

Þó það sé spennandi að hafa hlutverk á nýrri sjónvarpsstöð þá er það samt stressandi :-/

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Betan

Betan er alltaf langbestust - ég er rosastolt af henni :) Annars er 13. nóv alltaf erfiður þótt hann sé afmælisdagur. Þegar afmælisbarnið hefur verið kallað burt situr tómið eftir og þá er gott að fara til Móu og Óla.

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Blaðið og Hitt húsið

Blaðið kom á óvart í gær og nafngreindi kallana sem Jón Ásgeir keypti vændiskonur fyrir... Hingað til er eins og verið hafi í gangi stórfelld ritskoðun um þess konar og nöfn ekki birt.

Annars er Hitt húsið með Lifandi bókasafn þessa dagana. Var að senda eftirfarandi tilkynningu á femínistapóstlistann:

Hitt húsið stendur fyrir Lifandi bókasafni dagana 9. 10. og 11. nóvember
frá kl. 14 - 18. Hægt er að mæta í Hitt húsið og tryggja sér eintak af alls
konar spennandi bókum - þar á meðal femínistabók...

"Hugmyndin að lifandi bókasafni er þróuð á Norðurlöndunum til þess að
stuðla að því að ókunnugir hittist og ungt fólk skiptist á skoðunum. Í stað þess
að fá lánaða bók á bókasafninu, fær maður manneskju að láni. Fólkið sem er til
útlána, er fólk sem aðrir eru fullur fordóma gagnvart. Það getur verið
lögreglumenn, samkynhneigðir, femínistar, múslimar, o.s.frv. Markmiðið er, að
með því að tala við annað fólk getum við komist að því að við erum ekki eins
ólík og við höldum, og þar með losnað við fordóma okkar."

mánudagur, nóvember 07, 2005

Samruni

Blaðið segir í dag að Geir Haarde hafi stutt Vilhjálm í prófkjörinu vegna þess að Inga Jóna spúsa hans flutti ræðu til stuðnings Vilhjálmi. Er ekki Blaðið að taka eignaréttarákvæðið full langt með svona pælingum? Á Geir Ingu Jónu og eru hennar skoðanir frá honum komnar?

Held að það sé full ástæða til að spyrja að þessu því í síðustu viku lét blaðið að því liggja að Þórdís Sigurðardóttir hefði verið kosin stjórnarformaður Dagsbrúnar vegna þess að hún er systir hans Hreiðars Más.... en ég er inn á línu Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum - konur á að meta að eigin verðleikum en ekki eiginmanna, feðra og bræðra!

Stórmerkilegar fréttir

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins um helgina verður að teljast til stórtíðinda... konur helmingur í 10 efstu sætunum :) Batnandi flokki er best að lifa! Nú verður líka pressa á hina flokkana að standa sig...

föstudagur, nóvember 04, 2005

Eftirmálar

Mér finnst sorglegt sumt af því sem hefur birst í fjölmiðlum eftir Kvennafrídaginn. Veit ekki hvað það er en það er eins og einhver hluti landsmanna geti ekki tekið skilaboðum sem 60.000 konur senda - og skilaboðin eru skýr. Við viljum jafnrétti - núna!

Er búin að lesa nokkra yfirmáta asnalega pistla eftir einhverja karla sem þykjast vera jafnréttissinnar en sjá ofsjónum yfir Kvennafrídeginum og þátttökunni þar. Heimskulegast af öllu eru þeir sem halda því fram að þarna hafi verið barátta hinna hálaunuðu millistéttarkvenna sem láti sig láglaunakonurnar engu varða... jamm - á Íslandi eru einmitt 60.000 hálaunakonur! Eða kallinn sem er prófessor (og hér er vert að hugsa aðeins um hæfni...) í viðskiptafræði sem skrifar hverja greinina á fætur annarri í Moggann og margtyggur að hann sé jafnréttissinni - en að jafnrétti geti vel verið þannig að konur sinni umönnunarstörfum og fái fyrir það skítalaun - sinni börnum og búi svo kallinn geti unnið langan vinnudag og fengið svimandi há laun fyrir... jamm - hann kann allavega ekki að hlusta, það er á hreinu.

Sem betur fer las ég líka góðar greinar frá körlum... gott að þeir jafnréttissinnuðu þegja ekki!

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Konur eru konum bestar

Kvennasamstaða hlýtur að vera málið. Konur verða að standa saman í baráttunni - sem þetta er því miður ennþá. Karlarnir að sjálfsögðu velkomnir að standa með okkur líka :) enda er jafnrétti allra hagur - líka þeirra sem verða þá að þola að vera ekki í meirihluta heldur í jafnvægi... og það er gott að vera í jafnvægi.

Líka á því að konur verða að hvetja hverja aðra áfram í baráttunni - styðja við hverja aðra - þó það þýði að fyrirgefa mistök af og til - enda mistök ákaflega mannleg og partur af prógrammet - líka þegar kona verður fyrir barðinu á þeim sjálf... stundum geri ég meira að segja mistök (ok - það kemur alveg nokkuð oft fyrir) og stundum gera aðrir mistök líka - meira að segja femínistarnir (þó það sé auðvitað sjaldnast). Og stundum gera þeir sem verða fyrir barðinu á mistökunum mistök - og einstaka sinnum gerir það mig fúla - þegar það bitnar á baráttunni. Er þetta nokkuð orðið of flókið? Niðurstaðan er allavega sú að árangur næst með samstöðunni - ekki með sundrung eða leiðindum - og ég ætla ekki að vera með bein leiðindi (bara óbein) þó mig langi stundum til þess.

ps. þetta er hálfgerð prívat færsla - til að pústa :)

Prófkjör

Mæli með heimsóknum á kosningaskrifstofum. Búin að heimsækja 4 slíkar á 2 dögum; Gísla Martein, Hönnu Birnu, Vilhjálm og Júlíus - í þessari röð. Náði að spjalla við þau öll og komast aðeins betur að því hver stefna þeirra er í jafnréttismálum - og hvaða þekkingu þau hafa í þeim efnum. Kemur kannski ekki á óvart að þekkingin er mest hjá Hönnu Birnu - konunni í hópnum... en annars fannst mér þekking á jafnréttismálum af skornum skammti hjá strákunum, þrátt fyrir jákvæðan og góðan vilja hjá sumum þeirra.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Dagurinn í dag...

Jæja - þá er komin niðurstaða í b&b málið - ég fékk sem sagt ekki jobbið... hrikalega spæld (eða þannig!!!) En ekki nóg með það heldur ákvað Fróði að fara út í klámbransann og gefa út hard core klámblað. Fór í viðtal á Stöð 2 út af því - en best fannst mér að sjá Sigurð Kára dissa blaðið í Ísland í dag og segja að auðvitað væri þetta klám og það segði mest um útgefendurna.

Síðan var teiti með þeim sem tóku þátt í lagasamkeppninni - nokkuð góð mæting :) og erfiðar spurningar en þetta var bara stórfínt þegar upp var staðið og ég held að það sé léttir fyrir ansi margar að þetta mál sé búið.

Og svo var ráðsfundur á Ban Thai - það ætti auðvitað að vera bannað!

ps. skil ekki í þessu með Fróða - ég bauð þeim langbesta dílinn - og besta við það er að ég sótti um starfið en gaurinn sem fékk það var sóttur í starfið... athyglisverður kynjavinkill þar - en auðvitað ber að taka það fram að ég ætlaði ekki að gera klámblað - heldur bara rosafínt blað fyrir hugsandi og flotta stráka - en slefandi klámhundar þykja greinilega betri markhópur... er á því að það sé arfavitlaust viðskiptavit - auk þess sem ég er líka að spá í þessa kalla og hvort þeim sé alveg sama um að þeirra mannorð sé bendlað við klám...??? Klám og klámhundar þykja ekki flottir í dag.

sunnudagur, október 30, 2005

Klámvæðing

Fór á málfund hjá MK á föstudaginn um klámvæðinguna. Við vorum 2 sem töluðum á móti klámvæðingu og 2 sem töluðu með henni... eða 2 sem töluðum með því að útrýma klámvæðingunni og 2 sem voru á móti því - allt eftir því á hvernig málið er litið.

Er nú alveg á því að við höfum verið með betri rök fyrir máli okkar. Það vakti athygli mína að á fremstu bekkina röðuðu sér bara strákar og bara strákar spurðu okkur spurninga. Reyndar voru mun fleiri strákar á fundinum en stelpur.

Verð að hrósa MK fyrir að taka málið upp en verð líka að segja að mikið djöf... eigum við langt í land. Allt of mörgum ungmennum finnst það í lagi að konur séu neysluvara og stillt upp sem fáklæddum sílikonum út um allt - en vonandi eru það bara þeir sem láta hæst í sér heyra.

Þetta var þó hin besta skemmtun :)

fimmtudagur, október 27, 2005

3 dögum eftir kvennafrí...

Point er komið á svarta listann minn. Fór þangað áðan til að skila posa sem við leigðum fyrir Kvennafrídaginn. Tek eftir þegar ég er að skila posanum að þeir eru með risastóra klámmynd hangandi upp á vegg.... kvartaði við gaurinn sem roðnaði niður í tær þegar ég spurði hann hvort hann væri með klámmynd upp á vegg. Fékk síðan að tala við framkvæmdastjórann - hann Elvar - sem sagðist bara ekkert hafa spáð í þetta. Ætlaði kannski að athuga málið, en - vel að merkja - konurnar sem vinna þarna hafa ekkert kvartað og hinir kúnnarnir ekki heldur. Ég ætti nú að skilja að fólk hefur mismunandi skoðanir á þessu og þó að kynferðisleg áreitni sé bönnuð í lögum þá er nú hægt að hafa skoðanir á lögunum samt - og auk þess þá gæti bara vel verið að honum þætti fínt að hafa svona myndir út um allt af dóttur sinni, konu eða mömmu.... Eina sem ég hugsa núna þegar ég hugsa um þennan mann er PERRI. Finnst SUMUM (sko PC) karlmönnum virkilega ekkert að því að tala um það eins og sjálfsagt mál að þeim finnist í lagi að sjá klámmyndir af dætrum sínum út um allt??????

miðvikudagur, október 26, 2005

2 dögum eftir Kvennafrí!

Það er við hæfi að hefjast aftur hendi við að blogga.... ok - löngu kominn tími til. Síðustu dagar hafa verið ótrúlegir. Ég veit eiginlega ekki hvaða orð ég á að nota. Ég er að springa úr stolti yfir íslenskum konum!!! Íslenskar konur þora, vilja og geta - mættu 50 þús í miðborgina og heilmargar víðs vegar um landið. Þetta kalla ég kraft.

Skondið svo að fylgjast með umræðunni - einhver var að benda á pistill í Mogganum sem var að vinsamlegast að benda konum á að sumir hefðu bara annað gildismat en aðrir og sæktust ekki eftir veraldlegum eignum... döhhhh - eins og þessar tugþúsunda kvenna sem tóku þátt í Kvennafrídeginum til að mótmæla launamun!!!!

Egill Helga var líka á þeirri skoðun að framkvæmdanefndin hefði alveg mátt búast við þessum fjölda. Hann hefði sko giskað á að 50þús konur myndu mæta í miðborgina viku fyrir fundinn. Jamm - það var einmitt akkúrat þá sem við vorum að hefja undirbúning! :-o

Einhver gaur í Viðskiptablaðinu skrifaði hjartnæman pistil um að misrétti væri sko ekki körlum að kenna heldur hina opinbera...

Ekki er öll vitleysan eins, segi ég nú bara - en það er auðvitað ástæðan fyrir því að við erum í baráttu.
Áfram stelpur standa á fætur
slítum allar gamlar rætur
þúsund ára kvennakúgunar.
Ef einstaklingurinn er virkur
verður fjöldinn okkar styrkur
og við gerum ótal breytingar.

Er þetta ekki málið?

ps. má ekki örugglega stela myndum af mbl.is til að setja á blogg? Júlíus tók myndina - svo hann fái nú kredit!

laugardagur, október 22, 2005

Sumir...


... berjast fyrir því að mega pissa með hurðina opna og skilja setuna eftir uppi. Bara metnaður í gangi, HA!

Best að óska þeim velfarnaðar í þessari baráttu. Ég er sjálf svolítið forvitin að fá að vita hvernig þeir ætla að opna hurðina! :-o

Áfram stelpur!

Nú á ég bæði diskinn og plötuna Áfram stelpur. Ekkert er betra til að ná upp baráttustemningunni en að hlusta á þessa beittu og snilldarlegu texta. En græðgin er alveg að fara með mig. Sumir segja að græðgi sé góð og ég hallast á að svo sé í þessu tilfelli. Mig langar nefnilega svo mikið í bókina Já, ég þori, get og vil. Var að skoða hana áðan og hún er æði. Fer pottþétt á jólagjafalistann í ár - ef ég verð ekki sprunginn á limminu áður og búin að kaupa hana!

Nú styttist í kvennafrí. Ég hlakka svo mikið til að ég má ekki vera að því að hugsa um neitt annað.. þetta verður skemmtilegasti mánudagur ársins eins og þær Rósa og Edda sögðu í viðtalinu við Birtu. Ég er reyndar á því að þetta verði skemmtilegasti mánudagur margra ára...

mánudagur, október 17, 2005

Að kunna að...

Þorgerður Katrín tók sigrinum kvenlega.

Kristján Þór tók aftur á móti ósigrinum karlmannlega.

Kvennafrí

Nú yfirtekur undirbúningur allan minn tíma... sem er bara gaman en þýðir að það er lítill tími til að blogga. En hér eru ástæðurnar fyrir kvennafríinu!

Hvers vegna kvennafrí?
…atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla
…konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma
…barneignir hafa neikvæð áhrif á laun kvenna en jákvæð áhrif á laun karla
...margar konur búa við öryggisleysi og ógn á heimilum sínum
…ein af hverjum þremur konum verður fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni
...konur uppskera ekki í samræmi við menntun sína
…konur í fyrirtækjarekstri hafa verri aðgang að fjármagni…ábyrgð á umönnun barna og heimilisstörfum er enn að mestu á höndum kvenna
...umönnunarstörf eru með lægst launuðu störfum á vinnumarkaði
...rödd kvenna er veik í fjölmiðlum
...litið er á líkama kvenna sem söluvöru
…kona hefur aldrei verið forsætisráðherra, bankastjóri eða biskup
...konur hafa aldrei verið helmingur þingmanna
...konur njóta ekki jafnréttis á við karla
....þessu þarf að breyta. Ég þori, get og vil!

KONUR SÝNUM SAMSTÖÐU
Leggjum niður störf á Kvennafrídaginn 24. október kl. 14.08 og fyllum miðborgina svo eftir verði tekið – eins og fyrir 30 árum.
Hittumst á Skólavörðuholti kl. 15 og förum í kröfugöngu.
Baráttufundur á Ingólfstorgi kl. 16.

föstudagur, október 14, 2005

Family business

Á morgun feta ég í fótspor föður míns og bróður og legg fyrir mig skiltagerð.

Hallveigarstaðir milli kl. 10 - 16... fyrir þá sem vilja útbúa kröftug skilti fyrir 24. okt!!!! :)

fimmtudagur, október 13, 2005

Er það af sem áður var?

Þetta viðhorf birtist í mogganum 1975 fyrir kvennafrídaginn:

P.S.: - Skyldu ástamál rauðsokkunnar vera í lagi? Væntanlega eru þær á kaupi í hjónarúminu. "Þetta" er atvinnugrein, meira að segja hátt launuð. Ekkert vit í því fyrir konur að gera neitt kauplaust. Þó þær hafi ánægju af sjálfar, sem ég efa mjög, verða eiginmenn þeirra að borga þeim kaup fyrir, og væntanlega hærra um helgar og á hátíðum, eða hvað?

Ætli sömu viðhorf séu í gangi núna? Hlakka til að fylgjast með umræðunni :)

Síminn og Sjóvá

Í Blaðinu í dag stendur:

Síminn og Sjóvá bjóða upp á íslenska bachelorinn

Held það sé óhætt að taka þessu bókstaflega!

Svik á svik ofan

Mér var boðið á svikaráðstefnu. Því miður gleymdi ég að skrá mig - en mér var lofað fríu fílófaxi, fullt af góðum internet-söluráðum og mat - fríkeypis!

þriðjudagur, október 11, 2005

Killer instinctið fær að njóta sín!

Vegna ítrekaðra áskoranna frá sjálfri mér og Steini Loga Björnssyni, forstjóra Húsasmiðjunnar - frá morgunverðarfundinum góða - hef ég ákveðið að láta killer instinctið mitt stíga fram í dagsljósið og láta þrýsting samfélagsins lönd og leið...

Hahahahahahahaha - hrikalega var það gott á Valsstelpurnar að tapa 8-1 eftir þessa hallærislegu og undirgefnu auglýsingaherferð sem þær fóru í! LOL :)

Teiknimyndasögur

Teiknimyndasögur eru snilldarform til að koma framtíðarsýn á framfæri. Splæsti á bókina Forðist okkur eftir Hugleik Dagsson - sem er í raun 3 bækur í 1.

Uppáhaldsbrandararnir mínir úr bókinni eru tveir:

Dóttir: Pabbi þegar ég er orðin stór ætla ég að verða hóra.
Pabbinn: Takk PoppTíví

Hinn sést hér til hliðar.

Merkilegt nokk eru báðir þessir brandarar á mbl.is auglýsingunni...

mánudagur, október 10, 2005

Glöð

orbitrekk: 30 mín
magaæfingar: 30
súkkulaði: næstum innan skynsamlegra marka
áfengi: 0 - ef romm í rúsínunum í súkkúlaðinu telst ekki með...
sígarettur: 0
þyngd: ekki vitað

Nei - ég er ekki að breytast í Bridget Jones en lesklúbbur FÍ er að byrja aftur eftir vetrarfrí og fyrst á dagskrá er að skoða bækur og kvikmyndir um Bridget Jones - til að athuga hvort femíníski vinkillinn detti út af tjaldinu. Nánari upplýsingar fyrir áhugasama á umræðuvef.

Ég er alltaf glöð þegar ég er dugleg og næ að grynnka á verkefnalistanum... þó nóg sé eftir á honum samt.

Kaffisopinn á lífræna kaffihúsinu sem ég held að heiti Bleika dúfan var góður - og félagsskapurinn líka.

Vildi að flestir dagar væru næstum því svona... :)

sunnudagur, október 09, 2005

Kvikmyndahátíð

Ég afrekaði að sjá 3 myndir á kvikmyndahátíð - og það afrek má rekja til þess að Sóley var á landinu og að Halla bauð okkur á síðustu myndina! Femínistar klikka ekki í að halda konu við efnið :)

Fyrsta myndin sem ég sá var Zero degrees of seperation. Vegna bílastæðisvanda og annarra vanda missti ég af byrjuninni en restin af myndinni var fín. Þetta var heimildarmynd um stöðuna í Ísrael og Palestínu og tekin voru viðtöl við lesbískt par og homma par þar sem annar aðilinn var frá Ísrael og hinn Palestínu. Þetta var fyrst og fremst fróðleg mynd og hún hélt mér við efnið allan tímann út af því. Umgjörðin var frekar hrá og greinilegt að þetta er ekki high budget mynd en það var innihaldið sem skipti máli...

Næsta mynd var Born into brothels. Það var mun meira lagt í þessa mynd heldur en þá fyrri. Myndin er um börn vændiskvenna í rauða hverfinu í Kalkútta. Fyrir þeim liggur sama framtíð og mæðra þeirra og feðra - sem er vægast sagt ekki kræsileg. Myndin sýnir vel hvernig börnin búa yfir frábærum hæfileikum til að komast af við ömurlegar aðstæður en hún sýnir líka vel hvernig framtíðin er kortlögð miðað við umhverfi - og að þeirra býður ekkert nema vonleysið, örbirgð og óhamingja. Konan sem gerði myndina fór þá leið að gefa börnunum myndavélar svo að þau gætu myndað sitt daglega líf, hún hélt fyrir þau ljósmyndanámskeið og gerði allt sem hún gat til að koma þeim í skóla. 2 barnanna voru í skóla þegar myndinni lýkur, 1 stelpa flúði að heiman og fyrir hinum lá framtíðin svört að fótum þeirra vegna mismunandi aðstæðna. Sumir foreldrarnir leyfðu þeim ekki að fara í skólann, önnur hættu sjálf. Þetta var sorgleg mynd en samt svo yndisleg. Sýndi svo vel hvað börnin eru vel gefin, lífsglöð og skemmtileg - en fædd inn í ömurlegar aðstæður sem er fjandanum erfiðara að komast út.

Síðasta myndin sem ég sá var 6. maí. Mynd eftir Theo Van Gough og sú síðasta sem hann gerði áður en hann var myrtur. Hrifning mín fyrir myndinni dofnar og dofnar eftir því sem ég hugsa um hana meira. Fannst hún sexist á köflum - sem eru auðvitað nánast fatalt fyrir myndir í mínum huga - og síðan fannst mér hún einum of hlutdræg gagnvart Pim Fortuyn, hollenska stjórnmálamanninum sem var myrtur. Í myndinni er Fortuyn gerður að nokkurs konar hetju fólksins og það fer soldið í taugarnar á mér því ég held að hann eigi það ekki skilið - en þyrfti að kanna það aðeins betur... Eftir myndina voru umræður og framleiðandi myndarinnar sat (eða stóð) fyrir svörum. Við vorum afar fá í salnum þannig að þetta varð bara létt spjall og ég sleppti að spyrja hann út í sexismann. Chicken!!!! En kona vill ekki alltaf skemma stemninguna...

þriðjudagur, október 04, 2005

Hittið

Allt of mikið af sjúkrabílum í kring um mig í dag. Mér líst ekki á það. Vona að allt endi vel.

En Hittið var fínt. Ágætt að heyra frá fulltrúum stjórnmálaflokkanna - þó þeir hafi nú greinilega tekið þetta misalvarlega og 2 sem ekki mættu. Heppnar bara að það voru konur úr þeirra flokkum á staðnum sem redduðu þeim... með glæsibrag! Skemmtilegast þó að allir fulltrúarnir sem mættu eru nú meðlimir í FÍ og 2 fyrrverandi ráðskonur félagsins. Kannski einum of mikið lókal en samt ekki.

mánudagur, október 03, 2005

Minnismerki um fullklædda konu

Það eru ekki bara syttur Reykjavíkurborgar sem eru umdeildar og umtalaðar. Nú er umræða um styttur á Trafalgar Square en þar var nýlega afhjúpuð stytta af konu - nakinni, fatlaðri, óléttri konu... talandi um staðalímyndir og stöðluð hlutverk. Reyndar finnst mér mjög flott að styttan sé af fatlaðri, óléttri konu. Það er soldið töff. Ég er hins vega ekki sannfærð um að mér finnist flott að hún sé berrössuð innan um allar hinar fullklæddu karlkyns stytturnar - þrátt fyrir góðan tilgang sem ég skil og er sammála. Held nefnilega að það sé þörf á minnismerkjum um hina fullklæddu konu í þjóðfélaginu í dag!

sunnudagur, október 02, 2005

The Woodsman

Ég horfði á myndina The Woodsman í gær - það var hrikalega erfitt. Myndin er um mann sem var dæmdur fyrir kynferðislega misnotkun á ungum stúlkum, sat inni í 12 ár og er að reyna að fóta sig aftur í samfélaginu.

Mín skoðun er sú að kynferðisbrotamenn eigi að loka inni það sem eftir er. Mér finnst það ekki réttlætanlegt gagnvart börnum að menn sem þessir fái tækifæri til að brjóta af sér aftur og aftur.

En aftur að myndinni (og ekki lesa ef þú ætlar að horfa á myndina og vilt ekki vera búin að lesa um hana fyrirfram) - mér finnst hún góð að því leytinu til að hún dregur upp mynd af ofbeldismanninum sem ósköp venjulegum gaur út í bæ - og ég held að það sé ímynd sem fólk þarf að vera meðvitað um. Á hinn bóginn finnst mér myndin gera of mikið í því að vekja samúð með ofbeldismanninum - og þeir aðilar í myndinni sem ekki standa með honum eru látin líta út fyrir að vera vonda fólkið... Skiptingin reyndar ekki alveg klippt og skorin - eiginmaður systurinnar t.d. sem stendur með honum - þar er sterklega gefið til kynna að hann standi með honum þar sem hann sé ekki alveg heill í sínum málum. Aftur á móti er systirin látin líta út fyrir að vera ósveigjanleg og slæm - bæði vegna þess að hún vill ekki fyrirgefa honum en einnig vegna þess að hún vill ekki að hann hitti dóttur sína - sem er akkúrat á sama aldri og stelpurnar sem hann misnotaði. Þetta eru atriði sem mér líkar ekki við myndina - og þá er ég ekki einu sinni byrjuð að tala um kærustuna hans í myndinni. Það samband var ég ósáttust við af öllum og fannst ekki koma nógu skýrt fram hennar aðstæður - misnotuð af öllum bræðrum sínum og óendanlega meðvirk með þeim og aðalpersónunni í myndinni. Bræður hennar allir giftir og blíðir fjölskyldumenn - hún hörkutól í sambandi við barnaníðing...

föstudagur, september 30, 2005

Gaman og ekki gaman

Mér finnst alltaf gaman þegar unga fólkið er að spá í jafnréttismál. Í dag hitti ég 2 stelpur úr MH sem eru að gera verkefni um jafnréttismál. :)

Mér finnst aftur á móti ekki gaman að þessum skipulagsbreytingum á gatnakerfinu. Ég á frekar erfitt með að komast heim til mín úr miðbænum og oftar en ekki lendi ég óvart vitlausu megin á Hringbrautinni - sem ég kenni afburðalélegum merkingum um.

miðvikudagur, september 28, 2005

Forkastanleg vinnubrögð

Neðangreind ályktun er send til dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og fjölmiðla.
----------------------------------
Femínistafélag Íslands átelur þau vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík sem urðu til þess að ríkissaksóknari ákvað að sækja ekki til saka þrjá karlmenn sem frömdu hópnauðgun á konu sumarið 2002. Konan kærði nauðgunina umsvifalaust og var framburður hennar trúverðugur samkvæmt upplýsingum lögreglu, sem flutti konuna á Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota. Þrátt fyrir að málsatvik lægju ljós fyrir var rannsókn lögreglunnar svo áfátt að saksóknari féll frá ákæru. Dómsmálaráðherra varð ekki við ósk lögmanns konunnar um að hnekkja þeirri ákvörðun. Málið er áfall fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota og sýnir að réttaröryggi þeirra er ekki tryggt. Þá vekur málið upp alvarlegar efasemdir um vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík og forgangsröðun mála, en fram kom að málinu var ýtt til hliðar vegna annarrar grófrar líkamsárásar. Femínistafélag Íslands beinir því til ríkislögreglustjóra að hlutast til um verklag við rannsóknir þannig að slík mál endurtaki sig ekki. Jafnframt beinir félagið þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að hann grípi allra tiltækra aðgerða til að bæta megi vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík og verklag við meðferð sakamála af þessu tagi.

Þarfaþing

Það er ekki hægt að sjúga stanslaust upp í nefið í útvarpsviðtölum. Þess vegna væri gott að hafa með sér tissjú ef man fer úr miklum kulda beint í upphitað og fínt stúdíó! Man það næst...

þriðjudagur, september 27, 2005

Börn guðanna

Horfði á myndina Borg guðanna á sunnudaginn. Alltaf að komast að því betur og betur hvað Hollywood myndir eru mikið drasl við hliðina á beittum pólitískum myndum með boðskap. Borg guðanna, Lilya 4ever, Hotel Ruwanda... íranskar myndir koma líka sterkt inn (þó ég muni ekki hvað þær heita!). Þegar ég ber þetta saman við myndir eins og Sahara - sem er óhemju leiðinleg - þá furða ég mig á af hverju videoleigur eru ekki stútfullar af "erlendum" myndum (í merkingunni ekki bandarískum myndum). Skásta Hollywood myndin sem ég hef séð undanfarið er The Interpreter - sem mér fannst reyndar alveg ágæt þannig að Hollywood er ekki vonlaus með öllu.

Er að velta því fyrir mér af hverju við, þ.m.t. ég, sækjum svona mikið í innihaldslausa afþreyingu þegar heimurinn er eins og hann er og okkur endist ekki lífið til að læra allt sem væri gott fyrir okkur að vita? Kannski það sé flótti undan stressi, flótti undan því að vera of upplýst því þekkingu fylgir ábyrgð og meðvitaðir einstaklingar gætu fundið hjá sér knýjandi þörf til að leggja eitthvað til málanna - og kannski er þetta bara vonleysi þar sem fólk upplifir sig ekki geta haft áhrif hvort sem er og því sé betra að flýja...

Ég held að sú afþreying sem við virðumst sækja mest í, m.v. sjónvarpsdagskrá, geri okkur dofin fyrir raunveruleikanum og þau verkefni sem þarf að takast á við. Borg guðanna var því kærkomin tilbreyting.

mánudagur, september 26, 2005

Gleymdi...

... verð á Rás 2 kl. 17:30.

killer instinct og Baugur

Eftir fundinn hjá FKA í síðustu viku er ég í mjög aggressívu skapi. Það sést pínkulítið af því í pistlinum fyrir Viðskiptablaðið á miðvikudaginn. Það eru þó bara smámunir miðað við fyrstu drög... sem voru mun skemmtilegri, beittari og hlaðin killer instinct - sem ég satt best að segja held að fáir karlmenn myndu þola þrátt fyrir að telja þennan skort á killer instinct helsta galla kvenna. Held að þeir ættu að átta sig á að konur skortir ekki killer instinct - við erum bara sífellt að bæla það vegna þess að það er svo mikið á skjön við okkar kvenlegu staðalímynd!

Ég veit ekki hvað ég á að nenna að fylgjast mikið með Baugsmálinu. Mér finnst þetta kostulegt og sýnir það forkveðna að raunveruleikinn er oft ótrúlegri en nokkur skáldskapur. Mér finnst afar merkilegt hvað þetta er orðið að pólitísku máli og hvernig þetta skiptist í hægri vs vinstri - sem er þróun sem mér líkar ekki. Málið er orðið að 2 málum og það þarf niðurstöðu í báðum. Ég vil gjarnan að það sé komist til botns í pólitísk afskipti af málinu en ég vil líka fá niðurstöðu í dómsmálið sjálft. Hvort sem pólitísk afskipti eru óeðlilega mikil eða ekki þá breytir það því ekki að hugsanlega er um saknæmt atferli að ræða.

Nokkrar spurningar - hvað ef niðurstaðan er:

1. Baugur saklaus - pólitísk afskipti: Nornaveiðar af verstu sort
2. Baukur sekur - pólitísk afskipti: Af hverju þurfti pólitísk afskipti til? Hvernig erum við þá stödd réttarfarslega séð?
3. Engin pólitísk afskipti - Baugur sekur eða saklaus: Kerfið sér um málið - ætti að vera svona.

Einhvern veginn finnst mér þriðji möguleikinn ólíklegur.

föstudagur, september 23, 2005

Vandaðir breskir heimildarþættir

Ég yrði ekki hissa þó að þekking manna á killer instinct karlmanna og hlutverkum hellisbúans kæmi úr vönduðum breskum heimildarþáttum, framleiddum af BBC.

... og auðvitað líka frá Allan Pease. Ég varð einu sinni þess vafasama heiðurs aðnjótandi að fá tækifæri til að sækja námskeið hjá gúrúnum. Gafst upp eftir 10 mínútur. Ég var nýbúin að sjá Hellisbúann og nennti ekki aftur.

fimmtudagur, september 22, 2005

Hæfastur af öllum

Forstjóri stórfyrirtækis hér í bæ lét út úr sér í pallborði á stórum fundi að karlar hefðu "killer instinct" en konur ekki vegna þess að karlar voru veiðimenn í gamla daga.

Sami forstjóri sagði líka að það gæti vel verið að konur segðust hafa áhuga á stjórnunarstörfum en þegar á hólminn væri komið gugnuðu þær alltaf. Sjálfur hefur hann margoft reynt að ráða konur í stjórnunarstörf, gengið á eftir þeim með grasið í skónum, spurt þær oft, spurt hvort karlarnir þeirra séu ekki samþykkir og reynt allt sem hann gat til að fá þær til að þiggja stöðurnar - en því miður. Þær flúðu bara af hólmi þrátt fyrir að hafa lýst yfir áhuga fyrirfram.

Svo er sagt að valið sé í forstjórastólana eftir hæfni!!!! hahahahahhaaaaaaaa.

þriðjudagur, september 20, 2005

Frumlegheit - eða ekki

Var að sjá auglýsingu í sjónvarpinu um nýjan íslenskan gamanþátt sem heitir Kallakaffi. Hann er um nýskilin hjón Kalla og Möggu sem reka kaffihúsið Kallakaffi.

Auðvitað heitir kaffihúsið eftir honum - Kallakaffi - og þættirnir þar af leiðandi líka eftir honum - Kallakaffi!

Alveg eins og According to Jim, King of Queens, Everybody loves Raymond...

Frumlegt?
Jafnréttissinnað?
Fyrirsjáanlegt?
Hefðbundið?

Leikskólamál

Þetta reyndist verða busy fjölmiðladagur. X-ið í morgun og svo kvöldfréttir á RUV - að tala um ummæli borgarstýru um að reyna ætti að fá konur af atvinnuleysisskrá til að vinna á leikskólum. Í fréttum var haft eftir mér að það væri leiðinlegt að heyra að eingöngu ætti að hvetja konur til starfans - leikskólastarfið væri kvennastétt og það veitti ekki af að fjölga körlum í stéttinni. Svo er auðvitað afar lélegt að ætla að viðhalda þessu sem láglaunastétt... Ég hef auðvitað fleiri skoðanir á málinu heldur en þetta... sem er tilvalið að blogga um:

1. Grípa þarf til langtímaaðgerða til að leysa vanda leikskóla. Það er mikið jafnréttismál að foreldrar eigi dagvistun vísa fyrir börn sín - og líka gott félagslega fyrir börnin að hafa tækifæri til að umgangast og leika við önnur börn. Eins og staðan er í dag þá verða alltaf vandræði þegar ástandið á atvinnumarkaði er gott vegna þess að starfið er láglaunastarf og því ekki eftirsóknarverðasta starf á landinu. Hækka þarf launin og fá fleira fólk - bæði karla og konur til að gerast faglærðir leikskólakennarar - svo börnin fái það besta... og til að framlag kvenna til samfélagsins sé metið að verðleikum - og hvað getur verið verðmætara en að ala upp börnin?

(Líka þarf að leysa þann vanda sem skapast á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til börn komast inn á leikskóla - t.d. með því að leysa málefni dagforeldra, bjóða upp á leikskóla fyrir yngri börn, o.fl.)

2. Ok - það þarf líka að grípa til skammtímaaðgerða til að leysa þann vanda sem nú blasir við og ég er alveg til í að vera umburðarlynd gagnvart aðgerðum með fólk á atvinnuleysisskrá, aldraðra og erlent vinnuafl - svo framarlega sem haldið er í hæfniskröfur en planið sé ekki að sturta hverjum sem er inn á leikskóla. En - það verður ekki réttlætanlegt að leita bara að konum - og það er ekki réttlætanlegt að hafa það sem stefnu að hafa stéttina láglaunastétt. Samhliða "ásættanlegum" skammtímaaðgerðum sem samkomulag næst um verða að fylgja langtímaaðgerðir.

Svo er auðvitað líka hægt að hækka launin strax - óþarfi að bíða eftir kjarasamningum - því ferli má flýta ef vilji er fyrir hendi!!! Held að margir leikskólakennarar yrðu glaðir ef þeir fengju óvænta launahækkun fljótlega. :) Og - eitt í viðbót - þá væri kannski hægt að lokka þá faglærðu leikskólakennarar sem hafa hrökklast úr starfi vegna lágra launa aftur inn á leikskólana. Hærri laun leysa margan vandann :)

Þessu innleggi verður breytt reglulega - á meðan ég er að rembast við að koma þessu frá mér á skiljanlegu máli og án þess að verða fyrir réttum eða röngum misskilningi.

Strákarnir á X-inu


Ég fór í viðtal á X-ið 97,7 í morgun til Gunna og Mána til að tala um nýju siðareglurnar þeirra. Verð að játa að fyrirfram vissi ég ekki við hverju ég átti að búast. Hef ekki hlustað á X-ið undanfarið og bara lifað í þeirri trú að þetta væri sama karlrembustöðin og hún var þegar hún skipulagði "hóprúnkið" á Jóni forseta hér í denn... og sem staðalímyndahópur FÍ gagnrýndi á mjög skemmtilegan hátt - þó ég segi sjálf frá :)

En staðan virðist vera breytt og nú eru strákarnir á X-inu komnir með siðareglur sem kveða á um að kvenfyrirlitning eigi ekki að finnast á stöðinni og þeir ætla að starfa í anda femínískra viðhorfa. Frábært!!!! Viðtalið í morgun var hið skemmtilegasta og við ræddum vítt og breitt um efnið. Tókum t.d. fyrir umræðu um skólabúninga - sem Máni er hlynntur en ég og Gunni ekki. Erum þó öll sammála um vandamálið sem fyrir liggur og að það þurfi að leita lausna á því. Gaman líka að spá í bakgrunninn þeirra - Máni segist hafa verið karlremba en orðið femínisti eftir að hann fór að þjálfa unglingsstelpur í fótbolta. Gunni var alinn upp af rauðsokku og hefur alltaf verið meðvitaður. Ég var einu sinni ómeðvituð - þó ég hafi ekki náð að vera karlremba - þá var ég samt frekar mikið vitlaus í þessum málum - en skánaði mikið upp úr tvítugu...

En allavega - strákarnir á X-inu eiga hrós skilið fyrir siðareglurnar. Ég vona að þeim eigi eftir að ganga vel að framfylgja þeim. Með siðareglunum eru þeir í raun frumkvöðlar og eru að gera eitthvað nýtt. Mér hefur nefnilega alltaf fundist svolítið skrýtið þegar fólk markaðssetur eitthvað á karlrembulegan hátt og telur sig vera að gera eitthvað nýtt - karlremba er ævafornt fyrirbæri og hefur verið iðkuð hér á landi frá upphafi Íslandssögunnar. Aftur á móti höfum við aldrei búið í samfélagi þar sem jafnrétti ríkir og að ná slíku fram væri virkilega eitthvað nýtt - og spennandi.

Mogginn bætir sig

Erlent | AFP | 19.9.2005 | 11:26
10 ára gömul stúlka ól barn í Sviss
10 ára gömul stúlka frá Kamerún ól barn í Valais héraði í suðurhluta Sviss fyrir um mánuði.

Verið er að rannsaka hver faðir barnsins er en upphaflega grunaði yfirvöld að 68 ára gamall kærasti móður stúlkunnar væri ábyrgur. DNA próf leiddi í ljós að hann hafði beitt stúlkuna kynferðislegu ofbeldi en að hann væri þó ekki faðir barnsins.

Móðir stúlkunnar flutti með börn sín frá Kamerún til Sviss fyrir nokkru síðan.
******************

Mogginn leiðrétti fréttina! :)

mánudagur, september 19, 2005

Mogginn...

Af mbl.is
Erlent | AFP | 19.9.2005 | 11:26
10 ára gömul stúlka ól barn í Sviss
10 ára gömul stúlka frá Kamerún ól barn í Valais héraði í suðurhluta Sviss fyrir um mánuði síðan. Verið er að rannsaka hver faðir barnsins er, en upphaflega grunaði yfirvöld að 68 ára gamall kærasti móður stúlkunnar væri ábyrgur. DNA próf leiddi í ljós að hann hafði átt í kynferðislegu sambandi við stúlkuna, en að hann væri þó ekki faðir barnsins. Móðir stúlkunnar flutti með börn sín frá Kamerún til Sviss fyrir nokkru síðan.
***************


Þegar jafnrétti ríkir mun ekki vera talað um kynferðsilegt samband við 10 ára gamla stúlku heldur kynferðisofbeldi. Þetta ætti að vera ofureinfalt - en af einhverjum ástæðum eru fjölmiðlar tregir til að læra.

Kökukvöld :-þ

Pabbinn á afmæli í dag. Það þýðir kökukvöld :) Hlakka til!

Dagurinn fór í að skrifa pistil fyrir Viðskiptablaðið - og by the way - pistlarnir mínir munu eftirleiðis birtast í miðvikudagsblaðinu en ekki föstudagsblaðinu.

Pistlaskrifin hafa orðið til þess að ég hef hugsað meira um orð. Orð eru til alls fyrst og oft fer ég óvarlega með orðin - eða átta mig ekki á áhrifum þeirra. Mér finnst oft vandmeðfarið þegar kemur að því að gagnrýna hvernig orða á hlutina. Sum orð eru of óvægin á meðan önnur eru of máttlaus. Hvernig er hægt að vera óvægin á diplómatískan hátt sem fær fólk til að breyta vs það að vera svo dipló að það veiti fólki afsökun fyrir aðgerðarleysi?

Svo er það auðvitað sígilda pælingin um karllægni íslenskrar tungu. Skemmtilegt nokk en einhver setti pælingar um það inn á umræðuvefinn.

föstudagur, september 16, 2005

ALL MEN ARE...


Vúdú, vúdú. Hvort ætli þetta sé búið til af femínistum eða and-femínistum? :)

Passar vel við quotið sem var sent inn á póstlistann:


"Feminism encourages women to leave their husbands, kill their children, practice witchcraft, destroy capitalism and become lesbians".
Pat Robertson, US politician, 1992

Bankamál

Pistillinn minn um berbrjósta konuna í boði Íslandsbanka og Sjóvá birtist í Viðskiptablaðinu í dag. :) Er lítið fyrir að þagga málin í hel þó vegurinn á milli þöggunar og söluaukningar sé vandrataður - og nánast ófær.

Vonandi taka bankarnir sig á. Hef eitthvað upp á þá alla að klaga:

Íslandsbanki: berbrjósta hafmeyja á sjávarútvegssýningu
Landsbankinn: gáfu unglingum í vinnuskólanum miða á Snoop - sem verðlaun
Spron: fjármagnar (með auglýsingum) síðu sem dreifir klámi til barna og unglinga. sá einmitt í boði Spron þegar fíll tróð rananum sínum - you know where. ekki smekklegt og ég ætla ekki í Spron
KB banki: "Ég kaupi konur" þó aðrir borgi...

Og þá er auðvitað óupptalið hvernig stöður skiptast á milli karla og kvenna í bönkunum - og launin.

Er virkilega enginn að stofna kvennabanka?

fimmtudagur, september 15, 2005

Það er leikur að læra


Er búin að fara í 5 lífsleiknitíma í 2 skólum til að tala um jafnrétti við 9. og 10. bekkinga. Er nokkuð viss um að ég lærði meira á þessu en krakkarnir. Er enn styrkari í þeirri skoðun en áður að það sé bráðnauðsynlegt að fá jafnréttiskennslu inn í námskrá grunnskólana. Mjög mörg þeirra höfðu ekki hugmynd um hvað femínisti er og höfðu lítið pælt í jafnréttismálum. Þau voru ærið misjöfn og það sést greinilega munur eftir bekkjum og eftir hverfum/skólum.

Ég hef heyrt fólk segja aftur og aftur að jafnrétti komi með næstu kynslóð. Á sama tíma gerir fólk sér ekki grein fyrir því að næsta kynslóð er ekki að fá þau tæki og tól sem eru nauðsynleg fyrir jafnrétti. Það eru óhóflegar og óraunsæjar kröfur af fullorðnu fólki að ætlast til þess að krakkarnir komi á jafnrétti þegar eldri kynslóðirnar eru svona tregar til. Þekkingu vantar sárlega. Þau læra ekki um baráttuna sem á undan er gengin, þann árangur sem hefur náðst, stöðuna eins og hún er í dag - og hvað það er mikilvægt að beita gagnrýnni hugsun á því sem að okkur er rétt. Á meðan svo er er útilokað að jafnrétti komi með næstu kynslóð. Spuringin er samt kannski hvar á að byrja. Sumir segja að það eigi að byrja að mennta börnin. Ég vil mennta börn og fullorðna samhliða. Það gilda sömu rökin hér og áður voru notuð fyrir menntun kvenna - menntaðar konur eru betur í stakk búnar til að ala börnin sín upp og miðla menntun sinni áfram til þeirra. Foreldrar sem eru menntaðir í jafnréttismálum eru betur í stakk búnir til að miðla áfram til barna sinna og kenna þeim jafnrétti og birtingamyndir kynjamisréttis.

Hagsmunir hverra?

Var að lesa frétt á mbl.is um að tölvuleikjaframleiðendur ætla í mál við stjórnvöld í Michigan vegna laga sem banna að börn undir 17 ára aldri fái tölvuleiki sem innihalda ofbeldi eða kynferðislegar tilvísanir.

Í fyrsta lagi er sorglegt að setja þurfi svona lög og í öðru lagi sýnir þetta vel hvernig markaðurinn hefur oft á tíðum bara eitt markmið að leiðarljósi - að selja - og samfélagsleg markmið þvælast bara fyrir. Þetta er stærsti vandi frjálshyggjunnar að mínu mati. Frelsi án ábyrgðar getur valdið gífurlegum skaða. Ef markmiðið er frelsi þá þarf að vera mjög sterk krafa um ábyrgð og siðferði samhliða. Því miður eru fyrirtæki að sína fram á það aftur og aftur að gróðasjónarmið eru helsti hvatinn og að stundum eru notaðar aðferðir sem ganga þvert á siðferðisleg sjónarmið þeirra sem þau framkvæma - en sá valkostur samt sem áður valinn - til að selja.

miðvikudagur, september 14, 2005

Hey Jay

Þunglyndið búið. Mundi skyndilega eftir Jay Leno frá í gær - og Tyra Banks sem var í heimsókn. Lærði hvernig ég að haga mér næst þegar ég læt taka mynd af mér í ökuskírteinið. Hefði pissað á mig úr hlátri þegar ég sá þetta ef ég hefði ekki verið svona löt... heyyyyy Jayyyyy

Ekki bara betra- heldur miklu betra

Þunglyndið er mætt á svæðið og ég er ekki einu sinni byrjuð á Ellefu mínútum. Kannski er þetta svona fyrirþunglyndaþunglyndi en ég held ekki. Held að þetta sé aðallega frústrering á skilningsleysi samfélagsins á jafnréttismálum. Ekki að furða þó það hafi tekið 30 ár að fá kosningarétt... samt er eins og allir haldi í dag að í gamla daga hafi samfélagið samanstaðið af vondum körlum og góðum konum. Síðan allt í einu einn daginn hafi karlarnir ákveðið að gerast góðir og láta konurnar hafa kosningarétt. Eftir það hafa karlarnir haldist góðir og allt verið í gúddi fíling eftir það. Þess vegna hafi engin þörf verið á Rauðsokkunum heldur hafi þær bara verið pirraðar og frústreraðar kjellingar sem æstu sig út af engu - svona eins og ég!

Ég er enn að velta fyrir mér hvaða stökkbreyting hafi orðið á genum karlmanna fyrir 90 árum og enn að spá í af hverju konur halda að ástandið geti ekki orðið betra... sem mér finnst metnaðarlaus framtíðarsýn. Ég veit að við getum gert betur - og meira að segja miklu betur.

mánudagur, september 12, 2005

Mogginn eða Fréttablaðið?

Þoli ekki þessar endalausu súlustaða og veiðiperra auglýsingar í smáauglýsingum Fréttablaðsins. Er alvarlega að íhuga að gerast áskrifandi að Morgunblaðinu og segja upp fría Fréttablaðinu bara til að losna við þessa eilífu áminningu um að konur eru söluvara! Það er ekki gaman að byrja daginn á því að lesa um að komin sé ný sending af konum.

Búin að komast að því að Mogginn er með stefnu um að birta ekki auglýsingar frá súlustöðunum :)

Of mikið kaffi...

...veldur hausverk.

Fór í Engjaskóla í morgun og talaði um jafnrétti í Lífsleikni við stelpurnar í 10. bekk. Það var gaman :) Prógrammið mitt víst heldur langt þannig að það er ekki nógu langur tími í umræður - sem eru auðvitað skemmtilegastar.

Held áfram að heimsækja krakkana í Engjaskóla í vikunni.

sunnudagur, september 11, 2005

Legkaka

Femíníska hafmeyjan Bjarni Ármannsson bjargaði föstudeginum! Á fastlega von á því að baráttulagið sem samið var á staðnum vinni samkeppnina 24. okt. Spuring hvort ég ætti að reyna að komast í dómnefnd???

Það er töff að vera með leg
stelpur eru með leg

föstudagur, september 09, 2005

Einhver til í að stofna kvennabanka?

Ég er svo fúl út í Íslandsbanka, bankann MINN, að ég er að springa!!!! Sem betur fer versla ég ekki við Sjóvá svo ég þarf ekkert að spá í að skipta um tryggingafélag. En ég og Íslandsbanki eigum langa sögu saman. Hún byrjaði árið 1987 þegar ég var búin með 2 ár í Verzló. Þá langaði mig að vinna í banka og mest af öllu í Iðnaðarbankanum. Draumurinn rættist og ég fékk sumarvinnu í skráningu í aðalútibúinu við Lækjargötu. Sumarið eftir fékk ég að vera gjaldkeri - og líka sumarið þar á eftir. Þá um áramótin fæddist Íslandsbanki og ég fór út í nám. En ég kom heim á sumrin og hélt áfram að vinna hjá bankanum. Nú í alþjóðadeildinni. Þar var gott að vinna og skemmtilegt fólk. Var þar í 3 sumur - fjórða og fimmta sumarið var ég úti - kom ekki heim nema í stuttar heimsóknir aftur fyrr en náminu var lokið en þá var ég fallinn fyrir tölvugeiranum svo ég fór ekki aftur í bankann. En ég hef verið dyggur viðskiptavinur í öll þessi ár - sem nú teljast vera orðin 18 - og hef alltaf haft sterkar taugar til bankans. Fyrsta bréfið sem ég skrifaði til að kvarta yfir auglýsingu var til Íslandsbanka - vegna þess að mér var annt um að bankinn minn héldi áfram að vera bankinn minn og ég gæti haldið áfram að bera virðingu fyrir honum... sem nú er fokin út í veður og vind.

Þegar Íslandsbanki og Sjóvá bjóða gestum og gangandi á Sjávarútvegssýningunni upp á berbrjósta konu þá er fokið í flest skjól. Er þessi fokking klámvæðing að yfirtaka allt??? Ef að virðingarverð og traust fyrirtæki sjá sér leik á borði að matreiða berbrjósta ungar stelpur ofan í jakkafataklædda karla á sjávarútvegssýningu þá finnst mér það stórt merki um það bakslag sem við erum að ganga í gegnum núna. Og ég þoli ekki bakslög - vil fara áfram en ekki aftur á bak. Bankinn er orðinn eins og þessar ömurlegu bílasýningar í gamla daga með berrassaða stelpu á húddinu.

Frétti af þessum plebbaskap þeirra fljótlega eftir að ég var búin að senda greinina um "berbrjósta konur í boði Sena, FM 957 og Vífilfells" til Viðskiptablaðsins (sem er n.b. í blaðinu í dag). Var nógu "upset" út af því - bjóst ekki við að bankinn MINN yrði næstur á dagskrá.

Er að leita mér að nýjum banka - verst að ég veit ekki um neinn banka sem er með jafnréttismálin í lagi. Fokk eða shit eða eitthvað fallegt og kurteist blót...

Er einhver með skemmtilegar lausnir á málinu?

Auglýsingar og útilokun

Fór á hádegisverðarfund Ímark. Umræðuefnið var hvort að RUV ætti að vera á auglýsingamarkaði eða ekki. Margt áhugavert sem kom fram og fundurinn náði ágætlega að dekka sjónarmið mismunandi hagsmunaaðila.

Ein spurning úr sal varðaði hvort að neytendur ættu að hafa rétt á auglýsingalausu svæði. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessa spurningu en samt ekki alveg. Ég t.d. gæti ekki hugsað mér að þurfa að kaupa áskrift að Stöð 2 fyrir tæpar 5þús á mán bara til að geta fylgst með hvernig verið að auglýsa... Aftur á móti þá þoli ég ekki margar af þeim auglýsingum sem miðlarnir birta og finnst að neytendur eigi skilyrðislausan rétt á að vera lausir við. T.d. auglýsingar frá Sóðal í RUV - eða auglýsingar frá súlustöðum í fjölmiðlum yfir höfuð, sérstaklega þeim sem er dreift frítt eða eru á vegum ríkisins. Eins auglýsingar eins og er svo algengt að sjá í Fréttablaðinu um "nýjar stelpur" eða hin og þessi hjálpartæki ástarlífsins, veiðiperrann eða undirfataauglýsingar sem eru eins og klipptar út úr Playboy - og alltaf konur í hlutverki kynlífshjálpartækis. Auglýsingar sem þessar stuða marga og sumt fólk hreinlega forðast auglýsingar eða vissa fjölmiðla út af þessu. Áður en FÍ var stofnað lagði ég mig t.d. sérstaklega fram um að horfa ekki á auglýsingatíma og reyndi að leiða auglýsingar eins mikið hjá mér og ég mögulega gat. Núna aftur á móti les ég, hlusta á og horfi á auglýsingar til að fylgjast með - get ekki barist gegn þessu eða breytt ef ég veit ekki hvað er í gangi.

Algeng rök þeirra sem eru fylgjandi þessum auglýsingum eru þau að þeir sem ekki vilji geti gripið til þeirra ráða sem ég gerði áður - þ.e. hreinlega ekki lesa, hlusta á eða horfa á auglýsingar - eða jafnvel þá miðla sem auglýsa á þennan hátt. Þetta viðhorf hefur þó afleiðingar sem ekki er mikið talað um. Ef að auglýsingar sýna konur í niðurlægjandi ljósi sem gera það að verkum að konur forðast, meðvitað eða ómeðvitað, þá miðla þar sem þær birtast þá er það útilokun úr samfélaginu. Ef að konur geta ekki horft á fréttir eða fylgst með umræðunni þá eru þær útilokaðar frá þjóðfélagsþátttöku á jafnréttisgrundvelli. Valkostirnir í stöðunni eru því báðir súrir - annars vegar að fylgjast með og vera pirruð eða vera óupplýst og taka ekki þátt í samfélaginu. Þöggunarleiðirnar og útilokunarleiðirnar birtast á ýmsa vegu og þetta er til umræðu oft á tíðum í sambandi við atvinnulífið, þ.e. þegar búið er til andrúmsloft á toppnum eða í hefðbundnum karlastörfum sem það óvinveitt konum að þær vilja ekki taka þátt.

fimmtudagur, september 08, 2005

Langvarandi þunglyndi yfirvofandi

Fékk bæði Alkemistann og Ellefu mínútur á bókasafninu í dag - í þriðju tilraun. Hlakka til að lesa Alkemistann en er byrjuð að plana langvarandi þunglyndi eftir lestur Ellefu mínútna...

miðvikudagur, september 07, 2005

Fyrsta Hittið

Fyrsta Hitt vetrarins var í gærkvöldi. Rætt var um fæðingarorlofsgjöfina. Við ákváðum að fá fyrirlesara sem gætu skoðað löggjöfina og reynsluna af henni út frá mismunandi sjónarhólum þannig að við gætum spáð í hvort einhverju þurfi að breyta og þá hverju. Held að þetta reynist oft á tíðum betur heldur en að stilla ræðumönnum upp sem andstæðingum til að kynna "með og á móti" hliðarnar því þá er erfiðara að komast áfram í umræðunni.

Það var sérstaklega gaman að hlusta á Gyðu Guðjónsdóttur frá Innn. Ekki það að Ingólfur og Gunnar Páll hafi ekki verið fínir - þeir komu með margt áhugavert líka - en Gyða talaði út frá sjónarhóli atvinnurekanda, tengdi þetta við nútímalegan stjórnunarhætti og sá margfalt fleiri kosti heldur en galla við fæðingarorlofið og töku þess. Meðal þess sem hún nefndi var að starfsemi fyrirtækisins ætti að vera sveigjanleg ef þess væri kostur - þá er hægt að stækka eða minnka fyrirtækið, ekki bara eftir markaðsaðstæðum heldur líka starfsmannamálum. Eins talaði hún um ánægðari starfsmenn og að skipuleggja verkferla þannig að enginn starfsmaður væri ómissandi heldur gætu aðrir starfsmenn hlaupið í skarðið. Síðan voru nokkrir kostir sem hún taldi upp sem heyrast sjaldnar. T.d. að kosturinn við fæðingarorlofið er að atvinnurekandinn fær að vita af fjarverunni með 6 mánaða fyrirvara - sem gerir alla skipulagningu auðveldari heldur en ef starfsmaður verður frá að hverfa af völdum veikinda eða annarra orsaka. Einn gallinn sem hún minntist á var að fyrirtækið missir starfsmann en á móti kom sá kostur að fyrirtækið fær starfsmanninn til baka.

Mér fannst þetta flott uppsetning hjá henni - skipulagið og umgjörðin hljómaði þannig að það er borin virðing fyrir starfsmanninum og að hann er metinn sem verðmætur aðili í fyrirtækinu en á sama tíma er gengið þannig frá skipulagi að hann verður ekki ómissandi og honum veittur sveigjanleiki til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta var líka áhugavert í ljósi þess að Innn er lítið fyrirtæki og lítil fyrirtæki hafa oft á tíðum minna svigrúm heldur en stóru fyrirtækin að þessu leyti.

þriðjudagur, september 06, 2005

Fyrsti skóladagurinn

Fyrsti skóladagurinn var í dag - konur og karlar sem leiðtogar og stjórnendur. Leggst ágætlega í mig svona eftir fyrsta tímann, fyrir utan að ég komst að því í morgun að námskeiðið stendur fram á vör og það getur sett strik í reikninginn varðandi vorönn. Vonast til þess að ég læri eitthvað fróðlegt um kenningar um kvenkyns- og karlkynsstjórendur...

Síðan er fyrsta Hittið í kvöld. Yfirskriftin er "hvað finnst okkur um fæðingarorlofið?". Verður án efa fróðlegt enda fínir fyrirlesarar - Gyða Guðjónsdóttir frá Innn, Ingólfur V. Gíslason, félagsfræðingur og Gunnar Páll Pálsson frá VR.

Síðan eru grilljón pælingar í gangi. Vildi að ég ætti janfmikið af peningum og pælingum!

En að allt öðru - las um daginn að konur ættu að byrja að bera krem á hálsinn á sér um 25 ára aldur til að fá ekki hrukkur á hálsinn.... mig langar mikið til að vita hvort að svona "meðmæli" byggi á ítarlegum rannsóknum eða hvort þetta sé bara marketing blaður - eða trúarbrögð. Mín reynsla er nefnilega sú að líkaminn sér að mestu leyti sjálfur um húðina - alveg þangað til maður fer að bera á hana krem á hverjum degi - þá verður það svæði háð kreminu og húðin tapar náttúrulegum eiginleikum sínum. Ég ætla því ekkert að byrja að bera krem á hálsinn á mér þó ég sé orðin 35 - tek bara sjensinn á því að hann verði hrukkóttur enda ekkert að hrukkóttum hálsi.

föstudagur, september 02, 2005

Náttúrlegt útlit án fyrirhafnar

Ég las allt um hvernig Teri Hatcher nær fram náttúrlegu útliti í Blaðinu um daginn. Það innifól m.a. rúllur í hárið, vax í hárið, brúnkukrem, púður, kinnalit, varalit og "smokey" augnmálningu.

Sjálf held ég að þetta sé allt of mikil fyrirhöfn - ég lít t.d. náttúrlegust út á morgnana þegar ég er nývöknuð. Ekkert make-up, engar rúllur, ekki einu sinni tannkrem! Er nefnilega á því að náttúrlegt útlit sé náttúrlegt... spurning hvort allt annað sé ekki annaðhvort ónáttúrlegt eða yfirnáttúrulegt? :-o

fimmtudagur, september 01, 2005

I'm so sad I could spring...

Í Fréttablaðinu í dag var auglýsing frá förðunarskólanum Rifka. Módelið á myndinni - ung stelpa, mikið máluð, mjög grönn - var í bol sem á stóð "Stay hungry". Tískuiðnaðurinn hefur verið mjög gagnrýndur fyrir örmjó módel og að ýta undir átraskanir. Ég get ekki betur séð en að þarna sé verið að ýta undir að stelpur borði ekki. Þetta er markaðssetning á átröskunarsjúkdómum - svipað og pro-ana vefsíðurnar sem fengu ítarlega umfjöllun í Birtu um daginn.

Ég þoli ekki svona markaðssetningu - þeir sem framleiða og birta þessa auglýsingu taka enga ábyrgð á afleiðingunum.

miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Enga græðgi takk

Var að lesa frétt um að yfirvöld í Kína hefðu sett lög um að það mætti að hámarki spila fjölnotenda tölvuleiki í 3 tíma. Ástæðan sú að tölvuleikjafíkn er orðið stórt vandamál í Kína. Það sem mér fannst áhugavert við fréttina var að það fylgdi með að framleiðendur tölvuleikja eru sáttir við lögin og segjast taka heilsu notenda fram yfir sína eigin hagsmuni. Það má ýmislegt segja um mannréttindi í Kína - en asskoti er ánægjulegt að sjá að það eru fyrirtæki sem axla ábyrgð en hugsa ekki eingöngu í sölutölum! Græðgin ræður greinilega ekki alls staðar ríkjum - sama hvað hún kostar.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Hugsað með toppstykkinu

Fór á áhugaverðan fyrirlestur áðan sem bar heitið "Tourism and Gender Discourses". Það var Dr. Annette Pritchard sem var fyrirlesari. Fyrirlesturinn var um hvernig ferðamannaðiðnaðurinn í nánast öllum löndum hlutgerir konur á kynferðislegan hátt og afleiðingarnar af því. Í sjálfu sér var reyndar ekkert sem kom á óvart í fyrirlestrinum - allir sem hafa skoðað ferðabæklinga vita hvernig ímynd er dregin upp af konum. Konur eru notaðar til að selja ferðalög, rétt eins og allt annað. En það var samt sem áður gott að sjá heildarmyndina, vinnuaaðstæður, viðhorf ferðamanna til kvenna í þeim löndum sem verið er að auglýsa - og hvernig þau eru í samræmi við það hvernig er auglýst - og síðast en ekki síst - umræðan verður að halda áfram.

Annars er nokkuð skondið að skoða þessa markaðssetningu í ljósi þess að konur eru í meirihluta ákvörðunaraðila um hvert skal halda í fríið að auglýsingarnar skuli ekki vera í takt við það heldur skuli flestar miðast við graða karla...

Helst myndi ég auðvitað vilja að konur byrjuðu að boycotta - já og líka karlarnir sem hugsa með toppstykkinu.... ;)

mánudagur, ágúst 29, 2005

Fríið búið!

Jæja, þá er fríið búið og grámyglulegur hversdagsleikinn tekinn við...

föstudagur, ágúst 26, 2005

Gáfaðir Íslendingar


Ég ákvað að hafa pistil dagsins í Viðskiptablaðinu um World Class málið. Hann birtist í blaðinu í dag, 26. ágúst. Hér fyrir neðan eru svona nokkurs konar fyrstu viðbrögð við fréttum af földum myndavélum í búningsklefanum - eða allavega fyrstu orðin sem rötuðu á blað. Pistillinn í Viðskiptablaðinu var nú samt á alvarlegri nótum og með breiðara sjónarhorn.

Ótrúlega gáfaðir Íslendingar
Við erum sannarlega heppin að búa á þessum síðustu og bestu tímum. Vegna ótrúlegra gáfna mannkynsins höfum við aðgang að alls konar tækjum og tólum sem forverar okkar gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um, t.d. öryggismyndavélum, stafrænum myndavélum, myndavélafarsímum og internetið. Ekki nóg með að tæknin sé til heldur er hún bæði ódýr og aðgengileg. Þess vegna eiga mörg okkur þessar græjur og getum leikið okkur með þær að list.

Sum okkar eru þó gáfaðari en önnur þegar kemur að notkun tækjanna. Sjálf er ég svo hugmyndasnauð að mér hefur ekki dottið í hug að þessa tækni mætti nota til að útrýma glæpum. Ekki bara fækka glæpum heldur útrýma þeim. Í það minnsta tryggja að allir glæpamenn fái makleg málagjöld. En þetta hefur öðrum dottið í hug, til dæmis snillingnum honum Bjössa í World Class. Þessi mikli frumkvöðull lenti í því að sjúkur náungi, svo notuð séu hans eigin orð, tók upp þá iðju að stela af verðmætu viðskiptavinunum hans Bjössa. Bjössi er mikið karlmenni og því þýddi ekkert að láta þetta viðgangast, vernda þurfti viðskiptavinina með öllum tiltækum ráðum og augljósast í stöðunni var að setja upp falda myndavél og grípa þjófinn glóðvolgann. Auðvitað náðust berir bossarnir á nokkrum viðskiptavinum á harða diskinn í leiðinni, en það var ásættanlegur afrakstur og kannski bara bónus fyrir Bjössa. Bjössi hefur jú oftsinnis sagt í auglýsingum sínum að það séu ekki fötin sem menn vilja – heldur það sem þau hylja.

Af minni alkunnu hugmyndasnauð hafði ég aldrei látið mér detta í hug að hinum dýrmætu viðskiptavinum Bjössa myndi þykja þetta í lagi. Ég hef einhvern veginn alltaf trúað því að fólk vilji ekki láta láta taka nektarmyndir af sér í laumi heldur vilji að friðhelgi þeirra sé virt. En þetta virðist ekki vera málið í tilfelli viðskiptavina Bjössa. Þeir eru hér um bil hundrað prósent sáttir, sagði Bjössi í Kastljósinu. Ég er ennþá að melta þennan nýjan veruleika. Ég vissi jú að í tilfelli kvenna er þetta “viðkvæmara” mál, eins og var líka sagt í Kastljósinu, enda það svo að líkamar kvenna eru mun hlutgerðari og miklu meiri söluvara heldur en líkamar karla. En vissulega verða sömu reglur að gilda fyrir bæði kyn og það væri bölvað misrétti ef karlarnir væru þeir einu sem fengju að bera bossann fyrir Bjössa.

World Class rekur 3 líkamsræktarstöðvar og mér skilst að aðsókn hjá þeim sé nokkuð góð. Án þess að vita nákvæman fjölda myndi ég samt segja að með rannsóknargildi í huga væri viðskiptahópur Bjössa nokkuð marktækt úrtak, ef miða á við þjóðina alla. Það þýðir að ef viðskiptavinir Bjössa eru hér um bil 100 prósent sáttir við að láta mynda sig berrasaða með faldri myndavél og að Bjössi og gaurinn hjá Securitas skoði myndirnar þá ætti að vera hægt að leiða nokkuð góðum líkum að því að Íslendingar almennt séu sáttir við þessa aðferðafræði. Bjössi gæti sem sagt orðið nýjasta ofurhetjan og útrýmt glæpum á Íslandi. Eina sem þarf að gera er að fá nokkrar myndavélar lánaðar í viðbót hjá Nýherja og koma þeim fyrir alls staðar þar sem fólk er. Maður veit aldrei fyrirfram hvar glæpir verða framdir og því best að sjá sem mest. Staðir sem hingað til hafa verið friðhelgir, eins og búningsklefar, sturtur, almenningsklósett og mátunarklefar eru nokkuð augljóslega tilvaldir staðir fyrir faldar myndavélar. En það besta við þetta allt saman að nú er hægt að láta allar reglur sem áður hafa gilt lönd og leið. Löggan þarf t.d. alltaf að setja upp skilti sem lætur mann vita að maður sé undir eftirliti en með nýju aðferðarfræði Bjössa er það algjör óþarfi. Árangurinn getur því orðið margfaldur. Auðvitað þarf að ráða fullt af fólki til að fara yfir myndskeiðin. Efast um að Bjössi og gaurinn hjá Securitas nái að dekka þetta allt. Það þarf bara að passa að ráða gáfaða menn eins og Bjössa, svona menn sem treysta sér í jobbið og þjóðin er sátt við.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Kötufrí


Fyrst kom sugar free. Svo kom fat free. Svo kom 7up free og síðast kom fanta free. Sjálf vil hafa 7up í 7up-inu mínu og fanta í fantanu mínu - en það er bara ég!

Alltaf í ræktinni....! ehmmmm

Nú er fríið næstum búið. Við náðum að koma um það bil brota broti af verkefnalistanum í framkvæmd - eins og vera ber. Það sem ég er ánægðust með er að við höfum verið þokkalega dugleg við að fara út að ganga eða nota okkar frábæru líkamsræktaraðstöðu hér heima - orbitrekk og handlóð - sem duga bara fínt! Ef þau eru notuð, þ.e.a.s.... :)

En talandi um líkamsrækt. Var að skoða bæklinginn frá Hreyfingu um daginn og var bara mjög sátt við hann. Líkamsrækt er holl heilsunar vegna og ég er mjög hrifin af þeirri stefnu Hreyfingar að leggja áherslu á hreyfingu og hollt mataræði heilsunnar vegna en taka ekki þátt í þessari geðveiku útlitsdýrkun og megrunarkjaftæði. Ef ég ætti kort væri ég þar... Annað er World Class sem er eilíflega á svarta listanum hjá mér fyrir ömurlega markaðssetningu - toppuðu allt með soft porn auglýsingunni sem birtist í Séð og Heyrt og Bleiku og bláu fyrir nokkrum árum! ullabjakk... en þess vegna komu földu myndavélarnar hans Bjössa ekkert gífurlega á óvart. Skil samt ekki að það skuli ekki vera allt vitlaust út af þessu. Ég yrði brjál... ef ég kæmist að því að það væri falin myndavél í búningsklefa sem ég sækti og lít á þetta sem alvarlegan trúnaðarbrest við viðskiptavini.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Þorskur í morgunmat

Stundum held ég í alvörunni að auglýsendur telji viðskiptavini sína vera fávita - a.m.k. eru sumar auglýsingar þess eðlis. Í morgun heyrði ég auglýsingu þar sem því var haldið fram að morgunverðurinn væri mikilvægasta máltíð dagsins og þess vegna ætti Cheerios að verða fyrir valinu. Ég er nýbúin að fjárfesta í Cheeriospakka og finnst það ágætismorgunmatur. Finnst það líka ágætis kvöldmatur af og til ef ég nenni ekki að elda. Aftur á móti fráleitt að Cheeriosið sé mikilvægasti maturinn sem ég borða yfir daginn. Ef ég ætti í alvörunni að líta á morgunmatinn sem mikilvægustu máltíð dagsins þá myndi ég örugglega elda fisk á morgnana... :-þ

En talandi um Cheerios - pakkarnir gott dæmi um hvernig konur eru ósýnilegar og nafnlausar í samfélaginu. Ég notaði pakkann einmitt í kennslu upp í LHÍ. Aftan á pakkanum eru 6 myndir af einstaklingum við íþróttaiðkun - 5 nafngreindir karlar og ein nafnlaus kona...