þriðjudagur, september 27, 2005

Börn guðanna

Horfði á myndina Borg guðanna á sunnudaginn. Alltaf að komast að því betur og betur hvað Hollywood myndir eru mikið drasl við hliðina á beittum pólitískum myndum með boðskap. Borg guðanna, Lilya 4ever, Hotel Ruwanda... íranskar myndir koma líka sterkt inn (þó ég muni ekki hvað þær heita!). Þegar ég ber þetta saman við myndir eins og Sahara - sem er óhemju leiðinleg - þá furða ég mig á af hverju videoleigur eru ekki stútfullar af "erlendum" myndum (í merkingunni ekki bandarískum myndum). Skásta Hollywood myndin sem ég hef séð undanfarið er The Interpreter - sem mér fannst reyndar alveg ágæt þannig að Hollywood er ekki vonlaus með öllu.

Er að velta því fyrir mér af hverju við, þ.m.t. ég, sækjum svona mikið í innihaldslausa afþreyingu þegar heimurinn er eins og hann er og okkur endist ekki lífið til að læra allt sem væri gott fyrir okkur að vita? Kannski það sé flótti undan stressi, flótti undan því að vera of upplýst því þekkingu fylgir ábyrgð og meðvitaðir einstaklingar gætu fundið hjá sér knýjandi þörf til að leggja eitthvað til málanna - og kannski er þetta bara vonleysi þar sem fólk upplifir sig ekki geta haft áhrif hvort sem er og því sé betra að flýja...

Ég held að sú afþreying sem við virðumst sækja mest í, m.v. sjónvarpsdagskrá, geri okkur dofin fyrir raunveruleikanum og þau verkefni sem þarf að takast á við. Borg guðanna var því kærkomin tilbreyting.

1 ummæli:

ErlaHlyns sagði...

Damn - ég gleymdi að horfa á hana. Sé að það er kominn tími að leigja hana ef ég ætla einhverntíman að sjá hana !