þriðjudagur, september 20, 2005

Leikskólamál

Þetta reyndist verða busy fjölmiðladagur. X-ið í morgun og svo kvöldfréttir á RUV - að tala um ummæli borgarstýru um að reyna ætti að fá konur af atvinnuleysisskrá til að vinna á leikskólum. Í fréttum var haft eftir mér að það væri leiðinlegt að heyra að eingöngu ætti að hvetja konur til starfans - leikskólastarfið væri kvennastétt og það veitti ekki af að fjölga körlum í stéttinni. Svo er auðvitað afar lélegt að ætla að viðhalda þessu sem láglaunastétt... Ég hef auðvitað fleiri skoðanir á málinu heldur en þetta... sem er tilvalið að blogga um:

1. Grípa þarf til langtímaaðgerða til að leysa vanda leikskóla. Það er mikið jafnréttismál að foreldrar eigi dagvistun vísa fyrir börn sín - og líka gott félagslega fyrir börnin að hafa tækifæri til að umgangast og leika við önnur börn. Eins og staðan er í dag þá verða alltaf vandræði þegar ástandið á atvinnumarkaði er gott vegna þess að starfið er láglaunastarf og því ekki eftirsóknarverðasta starf á landinu. Hækka þarf launin og fá fleira fólk - bæði karla og konur til að gerast faglærðir leikskólakennarar - svo börnin fái það besta... og til að framlag kvenna til samfélagsins sé metið að verðleikum - og hvað getur verið verðmætara en að ala upp börnin?

(Líka þarf að leysa þann vanda sem skapast á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til börn komast inn á leikskóla - t.d. með því að leysa málefni dagforeldra, bjóða upp á leikskóla fyrir yngri börn, o.fl.)

2. Ok - það þarf líka að grípa til skammtímaaðgerða til að leysa þann vanda sem nú blasir við og ég er alveg til í að vera umburðarlynd gagnvart aðgerðum með fólk á atvinnuleysisskrá, aldraðra og erlent vinnuafl - svo framarlega sem haldið er í hæfniskröfur en planið sé ekki að sturta hverjum sem er inn á leikskóla. En - það verður ekki réttlætanlegt að leita bara að konum - og það er ekki réttlætanlegt að hafa það sem stefnu að hafa stéttina láglaunastétt. Samhliða "ásættanlegum" skammtímaaðgerðum sem samkomulag næst um verða að fylgja langtímaaðgerðir.

Svo er auðvitað líka hægt að hækka launin strax - óþarfi að bíða eftir kjarasamningum - því ferli má flýta ef vilji er fyrir hendi!!! Held að margir leikskólakennarar yrðu glaðir ef þeir fengju óvænta launahækkun fljótlega. :) Og - eitt í viðbót - þá væri kannski hægt að lokka þá faglærðu leikskólakennarar sem hafa hrökklast úr starfi vegna lágra launa aftur inn á leikskólana. Hærri laun leysa margan vandann :)

Þessu innleggi verður breytt reglulega - á meðan ég er að rembast við að koma þessu frá mér á skiljanlegu máli og án þess að verða fyrir réttum eða röngum misskilningi.

Engin ummæli: