föstudagur, september 09, 2005

Auglýsingar og útilokun

Fór á hádegisverðarfund Ímark. Umræðuefnið var hvort að RUV ætti að vera á auglýsingamarkaði eða ekki. Margt áhugavert sem kom fram og fundurinn náði ágætlega að dekka sjónarmið mismunandi hagsmunaaðila.

Ein spurning úr sal varðaði hvort að neytendur ættu að hafa rétt á auglýsingalausu svæði. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessa spurningu en samt ekki alveg. Ég t.d. gæti ekki hugsað mér að þurfa að kaupa áskrift að Stöð 2 fyrir tæpar 5þús á mán bara til að geta fylgst með hvernig verið að auglýsa... Aftur á móti þá þoli ég ekki margar af þeim auglýsingum sem miðlarnir birta og finnst að neytendur eigi skilyrðislausan rétt á að vera lausir við. T.d. auglýsingar frá Sóðal í RUV - eða auglýsingar frá súlustöðum í fjölmiðlum yfir höfuð, sérstaklega þeim sem er dreift frítt eða eru á vegum ríkisins. Eins auglýsingar eins og er svo algengt að sjá í Fréttablaðinu um "nýjar stelpur" eða hin og þessi hjálpartæki ástarlífsins, veiðiperrann eða undirfataauglýsingar sem eru eins og klipptar út úr Playboy - og alltaf konur í hlutverki kynlífshjálpartækis. Auglýsingar sem þessar stuða marga og sumt fólk hreinlega forðast auglýsingar eða vissa fjölmiðla út af þessu. Áður en FÍ var stofnað lagði ég mig t.d. sérstaklega fram um að horfa ekki á auglýsingatíma og reyndi að leiða auglýsingar eins mikið hjá mér og ég mögulega gat. Núna aftur á móti les ég, hlusta á og horfi á auglýsingar til að fylgjast með - get ekki barist gegn þessu eða breytt ef ég veit ekki hvað er í gangi.

Algeng rök þeirra sem eru fylgjandi þessum auglýsingum eru þau að þeir sem ekki vilji geti gripið til þeirra ráða sem ég gerði áður - þ.e. hreinlega ekki lesa, hlusta á eða horfa á auglýsingar - eða jafnvel þá miðla sem auglýsa á þennan hátt. Þetta viðhorf hefur þó afleiðingar sem ekki er mikið talað um. Ef að auglýsingar sýna konur í niðurlægjandi ljósi sem gera það að verkum að konur forðast, meðvitað eða ómeðvitað, þá miðla þar sem þær birtast þá er það útilokun úr samfélaginu. Ef að konur geta ekki horft á fréttir eða fylgst með umræðunni þá eru þær útilokaðar frá þjóðfélagsþátttöku á jafnréttisgrundvelli. Valkostirnir í stöðunni eru því báðir súrir - annars vegar að fylgjast með og vera pirruð eða vera óupplýst og taka ekki þátt í samfélaginu. Þöggunarleiðirnar og útilokunarleiðirnar birtast á ýmsa vegu og þetta er til umræðu oft á tíðum í sambandi við atvinnulífið, þ.e. þegar búið er til andrúmsloft á toppnum eða í hefðbundnum karlastörfum sem það óvinveitt konum að þær vilja ekki taka þátt.

Engin ummæli: