föstudagur, desember 30, 2005

Samstaða, samstaða, samstaða, samstaða...

Árið í ár hefur verið kallað afmælisár kvenna 2005. Ástæðan er sú að margir merkisviðburðir í íslenskri sögu og snúa að réttindum kvenna áttu afmæli á þessu ári. 90 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt, 35 ár frá því rauðsokkahreyfingin var stofnuð, 30 ár frá Kvennafrídeginum 75, 25 ár frá því að Vigdís var kjörin forseti og 15 ár frá stofnun Stígamóta, svo ég stikli á stóru.

Í tilefni af kvennaárinu tók kvennahreyfingin höndum saman og stóð sameiginlega að ýmsum málum á árinu. Fyrst var skipulögð baráttuhátíð þann 19. júní á Þingvöllum til að fagna 90 ára kosningarétti kvenna. Þrátt fyrir grenjandi rigningu mættu um 2000 manns, mestmegnis konur, til að sýna samstöðu í verki og heiðra þau sem gerðu kosningaréttinn að veruleika. Næsta verkefni á dagskrá var að endurvekja Kvennafrídaginn frá 1975 en í breyttri mynd. Í ár var ákveðið að leggja niður vinnu kl. 14:08 til að sýna fram á mismunandi verðmætamat á framlagi kvenna og karla til samfélagsins. Konur hafa aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla þrátt fyrir að framlag kvenna til samfélagsins sé síst minna en þeirra. Konur vinna bara meira launalaust við uppeldi og heimilisstörf eða fyrir lægri laun á vinnumarkaði. Baráttan fyrir launajafnrétti hefur verið við lýði frá upphafi kvennabaráttunnar en enn eigum við þó nokkuð langt í land með að útrýma misréttinu. Konur sýndu og sönnuðu þann 24. október að við erum ósáttar við stöðuna og við viljum breytingar. 60 þúsund konur sýndu einstæða samstöðu í verki, lögðu niður vinnu og tóku þátt í baráttuhátíð víðs vegar um landið. Ég var svo heppin að fá að taka þátt í undirbúningi og framkvæmd dagsins og verð að viðurkenna að í mínum bjartsýnustu draumum þorði ég ekki að vona að konur myndu sýna jafn mikla samtöðu og árið 1975. En það gerðist og nú er ég að springa úr stolti yfir krafti íslenskra kvenna.

Það sem stendur upp úr eftir árið og það sem gleður mig mest er samstaða kvenna um sameiginleg baráttumál. Þá er ég ekki einungis að tala um þátttökuna þann 24. október heldur líka þá samstöðu sem konur í kvennahreyfingunni hafa sýnt.
9 samtök og stofnanir stóðu saman að framkvæmd baráttuhátíðarinnar 19. júní og fyrir 24. október bættust þau tíundu við auk fjögurra launþegasamtaka. Samtökin eru úr ólíkum áttum og leggja áherslu á mismunandi málefni en í afmælisnefndinni ríkti einhugur um miklu fleiri mál heldur en kosningaréttinn og launamisréttið. Fyrir 19. júní var útbúin kröfugerð sem afhent var félagsmálaráðherra. Öll samtökin samþykktu kröfugerðina en þar voru listaðar 27 kröfur um aukið jafnrétti. Ofbeldismálin eru þar ofarlega á blaði en einnig alþjóðavæðing, öryggi á heimilum, klám, kynfræðsla, mat á framlagi kvenna og karla til samfélagsins og launajafnrétti. Vinna við kröfugerðina sýndi okkur að konur úr ólíkum áttum finna brennandi þörf til að útrýma kynjamisrétti á öllum sviðum sem það birtist. Og nú er stærsta verkefnið framundan að halda samstöðunni áfram. Ég bind miklar vonir við að samstaðan á þessu ári hafi hrint af stað flóðöldu sem ekki verður stöðvuð. Ég veit um nokkra hópa kvenna sem hafa hist eftir kvennafrídaginn til að skipuleggja frekara starf og þreifa fyrir sér um hverju við getum áorkað saman. Því miður þekki ég líka nokkur dæmi þess að einhverjar fyrirstöður skemma samstöðuna en þau eru sem betur fer mun færri. Þau sýna samt sem áður mikilvægi þess að við forgangsröðum rétt og einblínum á hvað er mikilvægast. Auðvitað munum við vera ósammála um leiðir og áherslur að einhverju leyti en á meðan lokatakmarkið er það sama eigum við að geta leyst úr þannig málum og stutt hvort annað í átt að því sem máli skiptir, jafnvel þó við sjálf myndum gera hlutina öðruvísi. Það er nú einu sinni þannig að öll erum við ólík og þess vegna munum við ávallt velja ólíkar leiðir. En ólíkt er ekki endilega verra – bara öðruvísi -og oft er það stuðningurinn og umburðalyndi fyrir ólíkum aðferðum sem gerir gæfumuninn en ekki sú aðferð sem er valin. Ef við náum að halda samstöðunni sem við sýndum á þessu frábæra afmælisári munum við ná árangri og taka stór skref fram á við. Ekki veitir okkur af.

Að lokum óska ég ykkur öllum jafnréttis og friðar á komandi ári.

mánudagur, desember 26, 2005

Snemmbúið áramótaheit

Áramótaheitið mitt mun pottþétt tengjast flensum, pestum, kvefi og þess háttar óværum. Þar sem þetta hefur verið mesta og versta pestaárið sem ég man eftir stefni ég ótrauð á færri pestar á næsta ári. Miðað við þetta ár ætti það reyndar að vera auðvelt... En er ekki við hæfi að enda pestaárið mikla á því að ganga í barndóm og krækja í eitt stk eyrnabólgu - sérstaklega í ljósi þess að mér tókst aldrei að krækja í slíka bólgu sem krakki?

Ég held það nú! Sem betur fer sagði doktorinn að pensilín og áfengi færu ekki illa saman á gamlárskvöld. :)

þriðjudagur, desember 20, 2005

Óskírð Íslandsdóttir

"Varð til fyrir áorkan kvenna" er fyrirsögn á bls 36 í Fréttablaðinu í dag þar sem fjallað er um að 75 ár eru síðan Landspítalinn var tekinn í notkun.

Í fréttinni eru nokkrir nafngreindir menn:

Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins teiknaði húsið og er hans getið 2x.
Guðmundur Thoroddsen var fyrsti yfirlæknir Landspítalans.
Magnús Pétursson er forstjóri.

Ekki ein einasta kona er nafngreind en samt voru það konur sem öfluðu fjár og reistu Landspítalann. Er nokkur furða þó sumir haldi að konur hafi ekki gert neitt merkilegt í gegnum tíðina?

Jólagjöfin til DV

Það er ljótt að gera upp á milli fólks en spurning hvort það sama eigi við um fjölmiðla? Ég er allavega að spá í að hætta að nenna að tala svona mikið við DV. Ekki það að ég og DV hafi verið svona best buddies þannig að ég mun ekki sakna DV neitt. Var meira í svona gírnum um að gera ekki upp á milli svo ég sagði alltaf já þegar DV hringdi... og launin eru að sjálfsögðu bölvað vanþakklæti eins og gengur og gerist...! Ekki að ég sé neitt megafúl en ég er í alvörunni farin að efast um að ritstjórnin kunni að lesa. Fór í viðtal um daginn til að tala um konusýningar og okkar geysivinsæla skeyti til forsætisráðherra (er viss um að þetta er frægasta skeyti sögunnar). Tók sérstaklega fram í viðtalinu að við værum ekki að gagnrýna þátttakendur í konusýningum - og DV prentaði það á baksíðu. Grófu svo upp fúlustu myndina sem þeir eiga af mér (tilviljun? örugglega!) og skelltu henni með fréttinni. Þetta var svo sem alveg fyrirgefanlegt og alveg það sem ég bjóst við. En - svo kom ritstjórnin á bls 2 með alls kyns rangtúlkanir, útúrsnúninga og gjörsamlega besides the point. Þannig að ég komst að þeirri niðurstöðu að annaðhvort kann ritstjórnin ekki að lesa eða þá að þetta eru karlrembur af verstu sort sem grípa til allra ráða til að koma óorði á jafnréttisbaráttu kvenna og er skítsama þó þeir ljúgi, geri fólki upp skoðanir og persónugeri þetta allt saman... Nú velur hver fyrir sig en ég er allavega að spá í að segja NEI næst þegar DV hringir - og þarnæst og þarnæst og þarnæst! Það verður jólagjöfin mín til DV í ár :)

laugardagur, desember 17, 2005

Þjóðarsorg

Er ekki fyndið að sumir skuli ekki ná upp í nefið á sér yfir því að 3 einstaklingar sendi frá sér yfirlýsingu í eigin nafni til að mótmæla því að forsætisráðherra sendi frá sér yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinnar?

Það virðist sem sagt vera ok að senda yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinna en ekki ok að senda yfirlýsingu í eigin nafni! :-/ Þetta er eitthvað öfugsnúið en lærdómurinn sem hægt er að draga af þessu er þá kannski sá að senda næst yfirlýsingu fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Held ég drífi mig bara í því og lýsi loks yfir þjóðarsorg - fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Sko - nú ættu allir að vera sáttir :)

En hér er annars hin margumtalað yfirlýsing:


Yfirlýsing v/heillaóskaskeytis forsætisráðherra:
Hæstvirti forsætisráðherra,

Undirritaðar gera hér með athugasemd við heillaóskaskeyti það sem ráðherra sendi Unni Birnu Vilhjálmsdóttur í nafni íslensku þjóðarinnar allrar. Það þykir undirrituðum tímaskekkja á þrjátíu ára afmæli kvennaárs Sameinuðu þjóðanna og að nýloknum kvennafrídegi þar sem um 60 þúsund konur greiddu jafnréttinu atkvæði sitt víða um land.

Deildar meiningar eru um ágæti fegurðarsamkeppna meðal þegna landsins. Fegurðarsamkeppnir ýta undir einhæfar staðalímyndir um útlit og hlutverk kvenna í samfélaginu. Með því að senda heillaóskaskeyti í nafni þjóðarinnar allrar gerir forsætisráðherra lítið úr þeirri kröfu að konur séu metnar að verðleikum en ekki eftir ytra útliti.

Margs hefur verið minnst í sögu íslenskra kvenna á árinu sem er að líða og hin íslenska kvennahreyfing hefur sameinast um að vekja athygli á stöðu jafnréttismála hér á landi og í alþjóðlegu samhengi.

Virðingarfyllst,
Rósa Erlingsdóttir
Edda Jónsdóttir
Katrín Anna Guðmundsdóttir
Verkefnisstýrur baráttuárs kvenna 2005

Og svo er ekki úr vegi að minna á bloggsíðurnar sem við í staðalímyndahópi FÍ gerðum í den:

Bloggsíða v. Ungfrú Ísland keppninnar: http://www.missiceland.blogspot.com/
Bloggsíða v. Ísdrottningarinnar: http://meyjanam.blogspot.com/

föstudagur, desember 16, 2005

Góðgerðarstörf

NFS 16. des 2005:

Fegurðarsamkeppnir eru umdeilt fyrirbæri. Ég skipa hóp þeirra sem finnst svona konusýningar vera tímaskekkja og fagna því ekkert sérstaklega að við Íslendingar höfum eignast okkar þriðju Ungfrú Heim. Okkar nýkrýndu fegurðardrottningar bíður nú eins árs vinna við góðgerðarstörf og þó ég sé ekki hrifin af fegurðarsamkeppnum finnst mér góðgerðarstarf mikilvægt og göfugt starf. Gæðum heimsins er misskipt og það veitir ekki af að aðstoða þau sem eiga um sárt að binda vegna fátæktar, náttúruhamfara eða veikinda. Góðgerðarstarf er oft á tíðum óeigingjarnt framlag einstaklinga eða fyrirtækja sem vilja axla samfélagslega ábyrgð. En stundum er góðgerðarstarfsemi bara pjúra bisness og stundað í þeim tilgangi að réttlæta eða öðlast jákvæða ímynd á starfsemi sem að öðrum kosti væri litin hornauga. Ég er reyndar alveg viss um að okkar ágæta Unnur Birna fellur í fyrri flokkinn enda held ég að hún fái lítið sem ekkert greitt fyrir starfið. Hins vegar er ég ekki jafn viss um aðstandendur Miss World keppninnar.

Góðgerðarstarfið er notað sem réttlæting á að svona keppni sé enn við lýði. Unnur Birna sagði í viðtali við Kastljósið að keppnin væri í raun eitt stórt 5 vikna atvinnuviðtal fyrir starf í eitt ár og að innri fegurð skipti öllu máli en ekki sú ytri. Gott og vel. Segjum að svo sé. En ef þetta er atvinnuviðtal hvaða kröfur eru þá gerðar til umsækjenda? Ímyndum okkur að keppnishaldarar settu atvinnuauglýsingu í Morgunblaðið. Hún gæti hljómað eitthvað á þessa leið:
Óskum eftir fallegri konu á aldrinum 18 – 24 ára til að sinna góðgerðarstörfum í eitt ár. Stúlkan þarf að vera ógift og barnlaus en má hafa farið í brjóstastækkun. Atvinnuviðtalið felst í framkomu í síðkjólum og að að biðla til áhorfenda um atkvæði íklædd bikiní einum fata strjúkandi létt yfir líkamann. Umsækjendur verða einnig spurðir krefjandi spurninga eins og: Hvað gerirðu til að heilla karlmenn? Og: Hvað finnst þér skemmtilegast að versla?

Ég veit ekki með þig en verð að segja að mér finnst þessar kröfur ansi skrýtnar og hreint út sagt óviðeigandi fyrir starf til góðgerðarmála.

Ég er reyndar viss um að litlu börnin sem Ungfrú Heimur heimsækir á spítalann er slétt sama hvernig hún lítur út í bikiní og háum hælum. Ég efast líka um að þau læknist þó vel tilhöfð, ung kona með kórónu á höfðinu kíki í heimsókn til þeirra á spítalann. Ég er samt ekki alveg jafn viss um alla karlanna með ávísanaheftin sem sækja fjáröflunarsamkomurnar. Þetta gæti skipt þá einhverju máli!

En burtséð frá því þá finnst mér áhugavert að bera kröfurnar sem gerðar eru til umsækjenda um þessa spennandi vinnu við ákvæði jafnréttislaga. Auðvitað er það argasta misrétti að starfið skuli aðeins vera opið konum. Eins felast alls konar fordómar í þessum kröfum, til dæmis aldursfordómar, fitufordómar og fordómar gagnvart mæðrum og giftum konum.
Ég stend því fast á þeirri skoðun að um sé að ræða keppni í stöðluðu, ytra útliti kvenna, þar sem góðgerðarstarf er notað til að réttlæta keppnina fyrir þátttakendum, áhorfendum og styrktaraðilum. Keppnin um titilinn fegursta kona í heimi er nákvæmlega það sem titillinn vísar í, keppni í ytri fegurð, og því ber að meta keppnina út frá þeim forsendum. Konur eru enn í baráttu fyrir því að vera metnar að verðleikum en ekki ytra útliti. Keppni eins og Ungfrú Heimur festir kröfuna um hlutverk konunnar sem skrautmunur í samfélaginu í sessi. Hún gerir baráttuna fyrir því að vera metnar að verðleikum erfiðari og hjálpar okkur ekki til að sjá og meta fegurðina í margbreytileikanum. Þess vegna er óskandi að keppnin leggist af um síðir af þeirri ástæðu að konur hafi ekki lengur áhuga á að taka þátt. Ef einlægur áhugi á góðgerðarmálum liggur að baki þátttöku er ekki úr vegi að nefna að það eru til fjölmörg samtök sem sinna góðgerðarmálum en gera ekki kröfur um kyn, aldur, ákveðið útlit eða að koma nánast nakin fram. Það má því fá drauma sína um betri heim uppfyllta á mun jákvæðari hátt en með því að taka þátt í keppni sem byggir á fornu en ónauðsynlegu hlutverki kvenna um að vera sætar og góðar.

Allt mér að þakka!

Veiiiii - Árni lét segjast. Er búinn að segja að ljóst sé að hann hefði átt að haga sér öðruvísi og þurfi að læra af þessu. Er viss um að það sé alfarið pistlinum mínum í Viðskiptablaðinu að þakka ;)

Annars varð Miss World fyrir valinu sem pistlaefni dagsins á NFS... kl. 16:10. Óþreytandi umfjöllunarefni sem ég er nú samt orðin soldið þreytt á. Vona að árið verði fljótt að líða!

fimmtudagur, desember 15, 2005

Að gleðjast yfir óförum annarra

Sumum finnst það ótrúlega dónalegt að gleðjast ekki yfir óförum annarra... en svona er þetta bara.

Nú er spurning hvað næsti pistill á NFS á að fjalla um? Miss World? Rýran þátt kvenna í fjölmiðlum? Jólin? Fyrirmyndir? Er reyndar búin að ákveða mig, á bara eftir að skrifa...

Mæli annars með pistlinum mínum í Viðskiptablaðinu í gær. Ætli félagsmálaráðherra sé nokkuð fúll þó kona spái í hvort hann eigi að segja af sér?

mánudagur, desember 12, 2005

Krísustjórnun

Hvernig á kona að bregðast við þegar Ísland vinnu Miss World konusýninguna?
  1. Lýsa yfir þjóðarsorg fyrir hönd þjóðarinnar - a la forsætisráðherra?
  2. Panika?
  3. Springa úr stolti yfir að vera best í heimi í að spranga um í bikiní og háum hælum? :-/
  4. Gefast upp - fara í megrun, líkamsrækt, ljós, brúnkumeðferð, permanett og hætta að fara út úr húsi ómáluð? Ekki er hægt að svekkja útlendingana sem koma til að skoða þjóðargersemarnar!
  5. Opna veðbanka og spá í hvort hún fær fyrst vinnu í Kastljósinu, Íslandi í bítið eða Íslandi í dag? (enda er þátttaka í konusýningum stökkpallur til glæsts frama í fjölmiðlum og landkynningu!)
  6. Aðrar uppástungur?

föstudagur, desember 09, 2005

#3

#3 NFS 9 des 2005:

Ég rakst á frétt á visir.is í gær þar sem haft var eftir rektor kennaraháskólans að auka þyrfti kjör, aðbúnað og virðingu fyrir umönnunar- og uppeldisstörfum til að fjölga karlmönnum í þessum stéttum. Það sem vakti sérstaka athygli mína var orðalagið. Það hljómaði einhvern veginn eins og að umönnunar- og uppeldisstörf væru ekki nógu góð fyrir karla miðað við núverandi aðstæður en þau væru nógu góð fyrir konur. Ég er reyndar nokkuð viss um að rektor meinti þetta ekki þannig en engu að síður fór ég að hugsa um viðhorfin til kennarastéttarinnar.
Eitt sinn var kennarastéttin með mest metnu stéttum landsins. Starfinu fylgdi virðing og há laun. Í þá daga voru nær allir kennarar karlar. Síðar fóru konur að sækja í stéttina í auknum mæli og þá fór að síga á ógæfuhliðina. Launin hríðlækkuðu og virðingin hvarf eftir því sem konunum fjölgaði. Þessi þróun ætti að segja okkur sitthvað um gildismat okkar á framlagi kynjanna. Það er ekki að ástæðulausu að konur hafa staðið í jafnréttisbaráttu í áratugi. Hér áður fyrr ríkti feðraveldi sem gekk út frá því að karlar væru æðri en konur og það sem þeir gerðu var mikilvægara, merkilegra og meira virði. Þessi viðhorf eru enn áberandi í okkar samfélagi þó að við virðumst vera orðin svo samdauna þeim að við tökum varla eftir því. Í dag segjum við að kynin séu jafningjar og eigi að vera metin til jafns. En ef við notum peninga sem mælikvarða til að athuga hvort þetta sé staðan sjáum við að enn er töluverður munur á hvernig framlag kynjanna til samfélagsins er metið. Konur hafa lægri atvinnutekjur en karlar, lægri laun fyrir jafnlangan vinnudag og lægri laun fyrir sömu störf.

Kennarastéttin er líka gott dæmi til að skoða hvaða virðingu við berum fyrir kynjunum. Umræðan í kringum kennararstarfið hefur að vissu leyti náð sér á strik síðustu ár og ég held að við séum orðin nokkuð mörg sammála um að kennarar eigi skilið væna launahækkun og miklu meiri virðingu fyrir þeirra verðmæta framlag til uppeldis- og menntunar barna. Þetta er jákvætt. En á hinn bóginn heyrum við líka ýmislegt sem er ekki eins gott. Til dæmis hefur verið töluverð umræða um slakt gengi drengja í skólum miðað við frammistöðu stúlkna. Útskýringin er oft á tíðum sögð vera að það vanti fleiri karla í kennarastéttina. Það er eins og sumir haldi að það hafi skaðleg áhrif á drengi að vera innan um kvenkyns kennara. Eins og einkunnir drengja muni hækka bara ef kennarinn er karlkyns. Þetta orðalag lýsir vanvirðingu á starfi kvenna í kennarastétt. Sérstaklega í ljósi þess að allt aðrar ástæður hafa verið nefndar fyrir stöðu drengja í skólum heldur en að verða fyrir því óláni að þurfa læra allt af konum. Ein ástæða sem hefur verið nefnd fyrir lakari frammistöðu drengja er að karlmennskuímyndirnar sem haldið er að þeim hafa skaðleg áhrif. Ofbeldisdýrkun, krafan um snilligáfu án þess að hafa fyrir því að læra og væntingar um að strákar eigi að vera ærslabelgir eru dæmi um ímyndir sem hafa skaðleg áhrif á frammistöðu og líðan drengja í skólum. Bæði konur og karlar eru fær um að halda þessum ímyndum að drengjum og því ekkert sem segir að kyn kennarans hafi neikvæð eða jákvæð áhrif í þessu sambandi.

Þrátt fyrir þetta er ekki þar með sagt að kyn skipti ekki máli og ekki þurfi að fjölga körlum í kennarastétt. Kyn skiptir máli á ýmsan hátt og ég efast ekki um að karlmenn hafi ýmislegt fram að færa til skólastarfs til jafns á við konur. Það er mikilvægt að umönnun og menntun barna sé í höndum beggja kynja. Aukin virðing, bætt kjör og betri aðbúnaður er allt af hinu góða. En það skiptir máli að skilaboðin séu þau að það sé fyrir konurnar, og þá karla, sem sinna þessum störfum nú þegar en ekki bara fyrir karlana sem á að reyna að fá inn í þessi störf. Framlag kvenna til samfélagsins hefur verið vanmetið svo langt sem saga okkar nær og það er kominn tími til að breyta því. Það er löngu kominn tími á að meta störf þeirra sem sjá um umönnun, uppeldi og menntun barna betur – einfaldlega vegna þess að þetta eru verðmætustu störfin og þau sem sinna þeim eiga það skilið!

Valgerður kona og Árni karl

Nú er búið að dæma í máli Valgerðar Bjarnadóttur gegn íslenska ríkinu. Valgerður fær uppreisn æru með dómnum og ljóst að félagsmálaráðherra braut af sér í starfi. Nú er spurningin hvort hann sé jafn harður á því að þeir aðilar sem brjóti af sér segi af sér? Hann missti traustið gagnvart Valgerði þegar hún var fundin sek um brot á jafnréttislögum fyrir héraðsdómi - ekki í starfi sínu sem framkvæmdastýra Jafnréttisstofu heldur í öðru starfi. Þetta var nóg til að ráðherra missti traustið og vildi að hún hætti. Hann vildi ekki bíða eftir niðurstöðu hæstaréttar - sem - by the way - sýknaði Valgerði. Eins og þetta væri ekki nóg þá samdi hann ekki einu sinni við hana um sómasamleg starfslok og hefur bara látið eins og fúll á móti varðandi allt sem viðkemur málinu.

Mér finnst alveg ljóst að karlmaður í sömu stöðu hefði ekki fengið þessa meðferð enda þekki ég ekkert dæmi um slíkt. Trekk í trekk heyrum við að mönnum sem brjóta af sér í starfi, standa sig ekki í starfi og fá að launum svimandi háa starfslokasamninga. Þetta er því kynjað dæmi út í gegn. Það sem er þó mest spennandi þessa dagana er hvort að félagsmálaráðherra haldi fast í prinsippin sín - hann hefur lýst því yfir að niðurstaða hæstaréttar sé vonbrigði - hann er sem sagt á því að hann hafi verið í fullum rétti og þessi ákvörðun hans hafi verið rétt. Í mínum kokkabókum ætti þetta að þýða að ef hann er sannfærður um að kona sem var fundin sek í héraðsdómi en sýknuð í hæstarétti ætti skilið að hverfa úr starfi án sómasamlegs starfslokasamnings þá ætti ráðherra sem fundinn er saklaus í héraðsdómi en sekur í hæstarétti pottþétt að segja af sér.... traustið hlýtur að vera horfið! En einhvern veginn er ég sannfærð um að hann noti ekki sama mælikvarða á sjálfan sig og konuna sem hann vildi losna við!

mánudagur, desember 05, 2005

Loves me not!

Svarhöfði elskar mig ekki. Ég er á algjörum bömmer!!!

Löggan, Neyðarmóttakan, Femínistafélagið og baráttan gegn ofbeldi

Framlag Femínistafélagsins í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi var í dag. Framlagið fólst í fræðslu til lögregluþjóna. Það var hún Kolbrún Anna sem á heiðurinn af framtakinu og sá um undirbúning frá A-Ö og hún á mikið hrós skilið fyrir það.

Þetta fór þannig fram að fyrst hélt Eyrún frá Neyðarmóttökunni fræðsluerindi fyrir lögregluþjónana. Því næst var þeim skipt upp í hópa og hver hópur hitti leikkonu sem var í hlutverki þolanda nauðgunar. Lögreglan tók af henni skýrslu og gat þannig æft sig á aðila sem þeir þekktu ekki, er ekki raunverulegur þolandi en hefur kunnáttuna til að setja sig í hlutverk persónunnar. Þessi leið er mun betri heldur en ef löggan æfir sig á þolendum í raunverulegum aðstæðum... eða á vinnufélögum sem þeir þekkja vel því þá verður alvaran ekki eins mikil. Á eftir hittist hópurinn aftur og fór yfir viðtölin, hvernig þetta hefði verið, hvað var gott, hvað var vont, o.s.frv. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja með í síðasta hlutanum. Það var mun fróðlegra en ég bjóst við í upphafi og margt sem kom fram sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Helstu niðurstöður af þessu voru þær að það bráðnauðsynlega vantar betri aðstöðu fyrir lögguna til að taka skýrslur. Konurnar á Stígamótum voru svo elskulegar að leyfa okkur að koma með hluta af hópnum til þeirra til að taka viðtölin. Þar voru sófar, þægilegir stólar og huggulegt umhverfi. Það greinilega var mun betra heldur en ópersónuleg skýrslutöluherbergi lögreglunnar. Eins kom fram að það væri mikill hagur í að taka viðtölin upp á video í staðinn fyrir að þurfa að pikka skýrsluna inn á tölvuna jafnóðum - held að fæstar löggur séu Verzlunarskólagengnar þannig að hraðinn er ekki upp á marga fiska auk þess sem það tefur allt ferlið og slítur í sundur viðtalið. Ég man vel eftir hvernig þetta var þegar ég fór og kærði klámið í sumar og það var hvorki þjálft né fljótlegt - allt út af bannsettri tölvunni... ég var ekki búin að gera mér grein fyrir að þolandi kynferðisofbeldis þarf að gefa skýrslu við sömu aðstæður - sem gætu varla verið verri. Margt fleira kom fram en ég man það ekki allt í augnablikinu....

Ég held að við höfum öll verið mjög ánægð með framtakið, bæði löggan og við. Bæði er svona ferli lærdómsríkt og það kemur líka af stað dialog á milli þeirra aðila sem vinna að þessum málum. Ég vona að það verði framhald á þessu verkefni... :)

sunnudagur, desember 04, 2005

John Berger - langar að lesa meira eftir hann...

Úr “Ways of Seeing” eftir John Berger (lausleg þýðing):

Kona þarf stanslaust að fylgjast með sjálfri sér. Hún er nánast alltaf í fylgd sinnar eigin ímyndar. Á meðan hún gengur í gegnum herbergi eða á meðan hún grætur vegna andláts föður síns, getur hún tæplega forðast að sjá fyrir sér að ganga eða gráta. Frá frumbersku hefur henni verið kennt og hún sannfærð um að fylgjast stanslaust með sjálfri sér.

Og hún lærir að álíta áhorfandann og þann sem horft er á innra með henni sem tvo aðgreinda fulltrúa í sjálfsmynd hennar sem konu.

Hún verður að skoða allt sem hún er og allt sem hún gerir í ljósi þess hvernig hún kemur fyrir sjónir annarra, og á endanum hvernig hún kemur fyrir sjónir karlmanna, sem veigamikinn þátt í því sem venjulega er álitið árangur hennar í lífinu. Hennar eigin tilfinning um tilveru sína víkur fyrir tilfinningu um að vera metin sem hún sjálf af öðrum.

Karlmenn horfa á konur áður en þeir bregðast við þeim. Það hvernig kona lítur út í augum karlmannsins getur þar af leiðandi haft áhrif á hvernig meðhöndlun hún fær. Hægt er að einfalda þetta með því að segja: karlmenn gera, konur birtast (Men act, women appear). Þetta ákveður ekki aðeins flest sambönd á milli karla og kvenna heldur einnig samband kvenna við sjálfar sig. Áhorfandinn í konunni er karlkyns: konan sem er horft á. Þess vegna breytir hún sér í hlut – einkum og sér í lag sjónrænan hlut: Sjón.

Konur eru sýndar á allt annan hátt en karlar – ekki vegna þess að hið kvenlega er öðruvísi heldur en hið karllæga – heldur vegna þess að ávallt er gert ráð fyrir að hinn “fullkomni” áhorfandi sé karlkyns, og ímynd konunnar er hönnuð til að skjalla hann.

laugardagur, desember 03, 2005

Taka 2

Jæja - pistill #2 gekk mun betur :) Hann er sem sagt hér fyrir neðan (fluttur á NFS 2. des):

Bráðum koma blessuð jólin og nú er ekki seinna vænna en að hefja jólagjafainnkaupin. Til að hjálpa okkur að velja gjafir handa börnunum getum við stólað á hina árvissu leikfangabæklinga. Á hverju ári bíð ég í ofvæni eftir bæklingunum. Spennan er yfirþyrmandi og það liggur við að þetta sé eins og biðin eftir jólunum sjálfum. Eftirvæntingin stafar af því að mig langar til að sjá hvað er stelpudót og hvað er strákadót í ár.

Ég lít þannig á að margir barnaleikir séu undirbúningur fyrir fullorðinsárin. Dót sem er í raun barnaútgáfur af fullorðinshlutverkum – eins og eldhúsdót og verkfæri – er að undirbúa börnin fyrir fullorðinsárin. En hvaða hlutverk erum við að undirbúa þau fyrir? Ef við skoðum leikfangabæklingana er alveg ljóst að við ætlum strákum og stelpum ólíka hluti.

Stelpudót er ennþá dúkkur, snyrtidót og eldhúsáhöld á meðan strákadót samanstendur af bílum, byggingarsetti, flugvélum og trommusetti. Þessi skipting strax á unga aldri er furðuleg ef við spáum í að einn af þeim þáttum sem hamlar jafnrétti hvað mest er ójöfn verkaskipting á heimilinu. Konur bera enn hitann og þungan á uppeldi og heimilisstörfum. Karlar eru orðnir mun meiri þátttakendur en samt er enn langt í land. Krafan um aukna þátttöku karla í uppeldi barna og umsjón heimilisins kemur ekki eingöngu frá konum heldur er það greinilega líka kappsmál fyrir karla, eins og sást á karlaráðstefnunni sem haldin var í gær.

Til að jafnrétti náist á fullorðinsárum þýðir ekki að kenna börnum að eldhússtörf og barnauppeldi séu frátekin fyrir stelpur eða að bílar og verkfæri séu einkamál stráka. En það er eins og einhver hræðsla sé í gangi. Mér heyrist að sumir foreldrar haldi ennþá að ef strákur fái að leika sér með dúkkur, potta og pönnur, þá sé verið að ala upp í honum hommann. Fyrir utan hvað þessi sýn er fordómafull þá er heldur ekki heil brú í henni. Strákar verða ekki skotnir í strákum af því að þeir léku sér með potta þegar þeir voru börn. Slík röksemdarfærsla er hreinlega út í hött og ekki sæmandi viti bornu fólki að hugsa á slíkan hátt. Að leika sér með dúkkur getur aftur á móti alið upp í strákum fyrirmyndarpabbann og það er hlutverk sem mörgum fullorðnum karlmanninum finnst eftirsóknarvert.

Það verður að teljast verðugt rannsóknarefni hvers vegna Íslendingar, sem alla jafna eru taldir nýjungagjarnir, skuli ríghalda í gömul kynhlutverk eins fast og raun ber vitni. Það væri sáraeinfalt að breyta merkingum á barnadóti þannig að þar sjáist strákur og stelpa leika sér saman að elda eða byggja. Við eigum ekki í neinum erfiðleikum með að tileinka okkur nýjustu tækninýjungarnar og eltum fatatískuna eins og við eigum lífið að leysa en börnin ætlum við að festa í kynhlutverkum sem þau þurfa síðan að verja fullorðinsárunum í að berjast gegn. Með því að merkja dótið sem annaðhvort strákadót eða stelpudót takmörkum við valfrelsi þeirra til að velja sér dót sem þeim sjálfum finnst spennandi. Þau sjá myndirnar á kössunum og læra fljótt hvaða leikföng þeim eru ætluð. Ef þau slysast til að leika sér með dót sem ekki er fyrir þeirra kyn geta þau búist við háðsglósum frá foreldrum, vinum og
vandamönnum. Afleiðingin af því að kyngera barnadót með þeim hætti sem við gerum í dag er að við viðhöldum misrétti. Börnin læra ekki að það er þeirra sameiginlega framtíðarhlutverk að halda heimili og ala upp börn.

Ef við hættumað kyngera barnaleikföng og hvetjum þess í stað börn til að prófa sig áfram og leika sér með alls konar dót; bæði eldhúsdót, dúkkur, verkfærasett og bíla, getur það í versta falli haft þær ánægjulegu afleiðingar að börnin finna sjálf út sitt áhugasvið og upplifa sameiginlega ábyrgð þegar fram líða stundir. Hættan er sem sagt sú að við gætum náð árangri í jafnréttismálum ef við laumum pottum og pönnum í jólapakkann hjá strákunum og verkfærasetti í pakkann hjá stelpunum.

En það getur auðvitað vel verið að við séum bara sátt og viljum að strákar haldi áfram að vera fyrirvinnur sem vinna myrkranna á milli og vanrækja fjölskylduna og að stelpur haldi áfram að axla tvöfalda ábyrgð á vinnu og heimili. Okkar er valið – og hvað ætlum við að velja fyrir börnin?

fimmtudagur, desember 01, 2005

Karlar leysa úr misréttinu

Karlaráðstefnan var haldin með pompi og prakt í dag. Ég mátti ekki fara - kynbundið misrétti á ferðinni því konum var meinaður aðgangur - nema Vigdís fékk undanþágu.

Ég á eftir að skoða erindin en heyrði að þetta hefði bara verið ágætt svona miðað við allt saman. Auðvitað var tíminn allt of stuttur og karlarnir þurfa meira en 3 tíma til að koma á jafnrétti en þetta er þó viðleitni. Fyrir ráðstefnuna var þó nokkur umræða á femínistapóstlistanum og hér kemur brot úr einu innleggi frá mér þar sem ég tók saman nokkrar mögulegar útkomur úr karlaráðstefnunni og lagði til að við stofnuðum veðbanka - það hefði allavega sett smá spennu í þetta: :)
Nú er spurning hvort við viljum spá og spekúlera um niðurstöðu ráðstefnunnar? Ættum kannski að setja upp veðbanka - LOL???
  1. Hér ríkir fullkomið jafnrétti og hefur lengi gert!
  2. Þetta er allt að koma - bíðum bara í 20 ár og þá verður þetta komið af sjálfu sér!
  3. Til að jafnrétti náist þá þurfa konur að gera milljón hluti - og karlar ekkert...
  4. Misrétti er ekki körlum að kenna!
  5. Karlar verða fyrir misrétti varðandi forræðismál eftir skilnað - kippum því í lag. Drengir verða fyrir mismunun í skóla - kippum því í lag.
  6. Misrétti er allra ábyrgð og karlar geta gert heilmikið til að bæta þar úr. Má þar nefna ótal hluti eins og...

Ég set auðvitað nr. 6 á jólagjafalistann minn... :) En hvað ég veðja á ætla ég að halda fyrir mig!