mánudagur, desember 05, 2005

Löggan, Neyðarmóttakan, Femínistafélagið og baráttan gegn ofbeldi

Framlag Femínistafélagsins í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi var í dag. Framlagið fólst í fræðslu til lögregluþjóna. Það var hún Kolbrún Anna sem á heiðurinn af framtakinu og sá um undirbúning frá A-Ö og hún á mikið hrós skilið fyrir það.

Þetta fór þannig fram að fyrst hélt Eyrún frá Neyðarmóttökunni fræðsluerindi fyrir lögregluþjónana. Því næst var þeim skipt upp í hópa og hver hópur hitti leikkonu sem var í hlutverki þolanda nauðgunar. Lögreglan tók af henni skýrslu og gat þannig æft sig á aðila sem þeir þekktu ekki, er ekki raunverulegur þolandi en hefur kunnáttuna til að setja sig í hlutverk persónunnar. Þessi leið er mun betri heldur en ef löggan æfir sig á þolendum í raunverulegum aðstæðum... eða á vinnufélögum sem þeir þekkja vel því þá verður alvaran ekki eins mikil. Á eftir hittist hópurinn aftur og fór yfir viðtölin, hvernig þetta hefði verið, hvað var gott, hvað var vont, o.s.frv. Ég var svo heppin að ég fékk að sitja með í síðasta hlutanum. Það var mun fróðlegra en ég bjóst við í upphafi og margt sem kom fram sem ég hafði ekki áttað mig á áður.

Helstu niðurstöður af þessu voru þær að það bráðnauðsynlega vantar betri aðstöðu fyrir lögguna til að taka skýrslur. Konurnar á Stígamótum voru svo elskulegar að leyfa okkur að koma með hluta af hópnum til þeirra til að taka viðtölin. Þar voru sófar, þægilegir stólar og huggulegt umhverfi. Það greinilega var mun betra heldur en ópersónuleg skýrslutöluherbergi lögreglunnar. Eins kom fram að það væri mikill hagur í að taka viðtölin upp á video í staðinn fyrir að þurfa að pikka skýrsluna inn á tölvuna jafnóðum - held að fæstar löggur séu Verzlunarskólagengnar þannig að hraðinn er ekki upp á marga fiska auk þess sem það tefur allt ferlið og slítur í sundur viðtalið. Ég man vel eftir hvernig þetta var þegar ég fór og kærði klámið í sumar og það var hvorki þjálft né fljótlegt - allt út af bannsettri tölvunni... ég var ekki búin að gera mér grein fyrir að þolandi kynferðisofbeldis þarf að gefa skýrslu við sömu aðstæður - sem gætu varla verið verri. Margt fleira kom fram en ég man það ekki allt í augnablikinu....

Ég held að við höfum öll verið mjög ánægð með framtakið, bæði löggan og við. Bæði er svona ferli lærdómsríkt og það kemur líka af stað dialog á milli þeirra aðila sem vinna að þessum málum. Ég vona að það verði framhald á þessu verkefni... :)

Engin ummæli: