miðvikudagur, ágúst 31, 2005

Enga græðgi takk

Var að lesa frétt um að yfirvöld í Kína hefðu sett lög um að það mætti að hámarki spila fjölnotenda tölvuleiki í 3 tíma. Ástæðan sú að tölvuleikjafíkn er orðið stórt vandamál í Kína. Það sem mér fannst áhugavert við fréttina var að það fylgdi með að framleiðendur tölvuleikja eru sáttir við lögin og segjast taka heilsu notenda fram yfir sína eigin hagsmuni. Það má ýmislegt segja um mannréttindi í Kína - en asskoti er ánægjulegt að sjá að það eru fyrirtæki sem axla ábyrgð en hugsa ekki eingöngu í sölutölum! Græðgin ræður greinilega ekki alls staðar ríkjum - sama hvað hún kostar.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Hugsað með toppstykkinu

Fór á áhugaverðan fyrirlestur áðan sem bar heitið "Tourism and Gender Discourses". Það var Dr. Annette Pritchard sem var fyrirlesari. Fyrirlesturinn var um hvernig ferðamannaðiðnaðurinn í nánast öllum löndum hlutgerir konur á kynferðislegan hátt og afleiðingarnar af því. Í sjálfu sér var reyndar ekkert sem kom á óvart í fyrirlestrinum - allir sem hafa skoðað ferðabæklinga vita hvernig ímynd er dregin upp af konum. Konur eru notaðar til að selja ferðalög, rétt eins og allt annað. En það var samt sem áður gott að sjá heildarmyndina, vinnuaaðstæður, viðhorf ferðamanna til kvenna í þeim löndum sem verið er að auglýsa - og hvernig þau eru í samræmi við það hvernig er auglýst - og síðast en ekki síst - umræðan verður að halda áfram.

Annars er nokkuð skondið að skoða þessa markaðssetningu í ljósi þess að konur eru í meirihluta ákvörðunaraðila um hvert skal halda í fríið að auglýsingarnar skuli ekki vera í takt við það heldur skuli flestar miðast við graða karla...

Helst myndi ég auðvitað vilja að konur byrjuðu að boycotta - já og líka karlarnir sem hugsa með toppstykkinu.... ;)

mánudagur, ágúst 29, 2005

Fríið búið!

Jæja, þá er fríið búið og grámyglulegur hversdagsleikinn tekinn við...

föstudagur, ágúst 26, 2005

Gáfaðir Íslendingar


Ég ákvað að hafa pistil dagsins í Viðskiptablaðinu um World Class málið. Hann birtist í blaðinu í dag, 26. ágúst. Hér fyrir neðan eru svona nokkurs konar fyrstu viðbrögð við fréttum af földum myndavélum í búningsklefanum - eða allavega fyrstu orðin sem rötuðu á blað. Pistillinn í Viðskiptablaðinu var nú samt á alvarlegri nótum og með breiðara sjónarhorn.

Ótrúlega gáfaðir Íslendingar
Við erum sannarlega heppin að búa á þessum síðustu og bestu tímum. Vegna ótrúlegra gáfna mannkynsins höfum við aðgang að alls konar tækjum og tólum sem forverar okkar gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um, t.d. öryggismyndavélum, stafrænum myndavélum, myndavélafarsímum og internetið. Ekki nóg með að tæknin sé til heldur er hún bæði ódýr og aðgengileg. Þess vegna eiga mörg okkur þessar græjur og getum leikið okkur með þær að list.

Sum okkar eru þó gáfaðari en önnur þegar kemur að notkun tækjanna. Sjálf er ég svo hugmyndasnauð að mér hefur ekki dottið í hug að þessa tækni mætti nota til að útrýma glæpum. Ekki bara fækka glæpum heldur útrýma þeim. Í það minnsta tryggja að allir glæpamenn fái makleg málagjöld. En þetta hefur öðrum dottið í hug, til dæmis snillingnum honum Bjössa í World Class. Þessi mikli frumkvöðull lenti í því að sjúkur náungi, svo notuð séu hans eigin orð, tók upp þá iðju að stela af verðmætu viðskiptavinunum hans Bjössa. Bjössi er mikið karlmenni og því þýddi ekkert að láta þetta viðgangast, vernda þurfti viðskiptavinina með öllum tiltækum ráðum og augljósast í stöðunni var að setja upp falda myndavél og grípa þjófinn glóðvolgann. Auðvitað náðust berir bossarnir á nokkrum viðskiptavinum á harða diskinn í leiðinni, en það var ásættanlegur afrakstur og kannski bara bónus fyrir Bjössa. Bjössi hefur jú oftsinnis sagt í auglýsingum sínum að það séu ekki fötin sem menn vilja – heldur það sem þau hylja.

Af minni alkunnu hugmyndasnauð hafði ég aldrei látið mér detta í hug að hinum dýrmætu viðskiptavinum Bjössa myndi þykja þetta í lagi. Ég hef einhvern veginn alltaf trúað því að fólk vilji ekki láta láta taka nektarmyndir af sér í laumi heldur vilji að friðhelgi þeirra sé virt. En þetta virðist ekki vera málið í tilfelli viðskiptavina Bjössa. Þeir eru hér um bil hundrað prósent sáttir, sagði Bjössi í Kastljósinu. Ég er ennþá að melta þennan nýjan veruleika. Ég vissi jú að í tilfelli kvenna er þetta “viðkvæmara” mál, eins og var líka sagt í Kastljósinu, enda það svo að líkamar kvenna eru mun hlutgerðari og miklu meiri söluvara heldur en líkamar karla. En vissulega verða sömu reglur að gilda fyrir bæði kyn og það væri bölvað misrétti ef karlarnir væru þeir einu sem fengju að bera bossann fyrir Bjössa.

World Class rekur 3 líkamsræktarstöðvar og mér skilst að aðsókn hjá þeim sé nokkuð góð. Án þess að vita nákvæman fjölda myndi ég samt segja að með rannsóknargildi í huga væri viðskiptahópur Bjössa nokkuð marktækt úrtak, ef miða á við þjóðina alla. Það þýðir að ef viðskiptavinir Bjössa eru hér um bil 100 prósent sáttir við að láta mynda sig berrasaða með faldri myndavél og að Bjössi og gaurinn hjá Securitas skoði myndirnar þá ætti að vera hægt að leiða nokkuð góðum líkum að því að Íslendingar almennt séu sáttir við þessa aðferðafræði. Bjössi gæti sem sagt orðið nýjasta ofurhetjan og útrýmt glæpum á Íslandi. Eina sem þarf að gera er að fá nokkrar myndavélar lánaðar í viðbót hjá Nýherja og koma þeim fyrir alls staðar þar sem fólk er. Maður veit aldrei fyrirfram hvar glæpir verða framdir og því best að sjá sem mest. Staðir sem hingað til hafa verið friðhelgir, eins og búningsklefar, sturtur, almenningsklósett og mátunarklefar eru nokkuð augljóslega tilvaldir staðir fyrir faldar myndavélar. En það besta við þetta allt saman að nú er hægt að láta allar reglur sem áður hafa gilt lönd og leið. Löggan þarf t.d. alltaf að setja upp skilti sem lætur mann vita að maður sé undir eftirliti en með nýju aðferðarfræði Bjössa er það algjör óþarfi. Árangurinn getur því orðið margfaldur. Auðvitað þarf að ráða fullt af fólki til að fara yfir myndskeiðin. Efast um að Bjössi og gaurinn hjá Securitas nái að dekka þetta allt. Það þarf bara að passa að ráða gáfaða menn eins og Bjössa, svona menn sem treysta sér í jobbið og þjóðin er sátt við.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Kötufrí


Fyrst kom sugar free. Svo kom fat free. Svo kom 7up free og síðast kom fanta free. Sjálf vil hafa 7up í 7up-inu mínu og fanta í fantanu mínu - en það er bara ég!

Alltaf í ræktinni....! ehmmmm

Nú er fríið næstum búið. Við náðum að koma um það bil brota broti af verkefnalistanum í framkvæmd - eins og vera ber. Það sem ég er ánægðust með er að við höfum verið þokkalega dugleg við að fara út að ganga eða nota okkar frábæru líkamsræktaraðstöðu hér heima - orbitrekk og handlóð - sem duga bara fínt! Ef þau eru notuð, þ.e.a.s.... :)

En talandi um líkamsrækt. Var að skoða bæklinginn frá Hreyfingu um daginn og var bara mjög sátt við hann. Líkamsrækt er holl heilsunar vegna og ég er mjög hrifin af þeirri stefnu Hreyfingar að leggja áherslu á hreyfingu og hollt mataræði heilsunnar vegna en taka ekki þátt í þessari geðveiku útlitsdýrkun og megrunarkjaftæði. Ef ég ætti kort væri ég þar... Annað er World Class sem er eilíflega á svarta listanum hjá mér fyrir ömurlega markaðssetningu - toppuðu allt með soft porn auglýsingunni sem birtist í Séð og Heyrt og Bleiku og bláu fyrir nokkrum árum! ullabjakk... en þess vegna komu földu myndavélarnar hans Bjössa ekkert gífurlega á óvart. Skil samt ekki að það skuli ekki vera allt vitlaust út af þessu. Ég yrði brjál... ef ég kæmist að því að það væri falin myndavél í búningsklefa sem ég sækti og lít á þetta sem alvarlegan trúnaðarbrest við viðskiptavini.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Þorskur í morgunmat

Stundum held ég í alvörunni að auglýsendur telji viðskiptavini sína vera fávita - a.m.k. eru sumar auglýsingar þess eðlis. Í morgun heyrði ég auglýsingu þar sem því var haldið fram að morgunverðurinn væri mikilvægasta máltíð dagsins og þess vegna ætti Cheerios að verða fyrir valinu. Ég er nýbúin að fjárfesta í Cheeriospakka og finnst það ágætismorgunmatur. Finnst það líka ágætis kvöldmatur af og til ef ég nenni ekki að elda. Aftur á móti fráleitt að Cheeriosið sé mikilvægasti maturinn sem ég borða yfir daginn. Ef ég ætti í alvörunni að líta á morgunmatinn sem mikilvægustu máltíð dagsins þá myndi ég örugglega elda fisk á morgnana... :-þ

En talandi um Cheerios - pakkarnir gott dæmi um hvernig konur eru ósýnilegar og nafnlausar í samfélaginu. Ég notaði pakkann einmitt í kennslu upp í LHÍ. Aftan á pakkanum eru 6 myndir af einstaklingum við íþróttaiðkun - 5 nafngreindir karlar og ein nafnlaus kona...

föstudagur, ágúst 19, 2005

Ómögulegt að vera í fríi

Það er ekki hægt að taka sér frí frá femínisma! Ólíkt öðrum gleraugum er mjög erfitt að taka kynjagleraugun af nefinu. Í gærkvöldi ákvað ég að hafa það náðugt og horfa á imbakassann - sem ber gjörsamelga nafn með rentu ef miðað er við slatta af því sem ég horfði á í gær. Fyrst varð ég fyrir barðinu á According to Jim. Hef mjög gaman að gamanþáttum en vildi bara að það væru sýndir skemmtilegir slíkir þættir hér. Ég hef t.d. ekki gaman af að horfa á þátt um hjón þar sem hún er skynsöm, falleg og vel undir kjörþyngd en hann óskynsamur, ekki mjög fallegur og vel yfir kjörþyngd - og algjör mega karlremba. Í alvörunni hefði konan hans aldrei gifst honum, eða væri allavega löngu farin frá honum - vona ég í það minnsta. Í gær var sýnt frá því þegar fjölskyldan var að borða. Ekki nóg með það að hann ætti sæti við enda borðsins - húsbóndasætið - þá var stóllinn hans öðruvísi en annarra fjölskyldumeðlima, stærri og með betra baki.

Svo horfði ég á Sporlaust - hann var mun betri - enda ekki gamanþáttur. Þar ákvað karlinn að flytja með spúsu sinni til Chigaco þar sem hún hafði fengið stöðuhækkun en þar sem engar stjórastöður voru lausar fyrir hann í allri Chigaco þurfti hann að sætta sig við að lækka í tign um stund. Og þannig á lífið að vera - stundum er ekki hægt að allir séu happy og þá er eðlilegt að stundum sé frama konunnar fylgt eftir og stundum hans - í jafnvægi en ekki valið eingöngu út frá kyni, þ.e. karlkyni - eins og er svo algengt. Eða eins og hann sagði "it's your turn now".

En síðan kom Svanurinn. Mest mannskemmandi sjónvarpsefni sem ég man eftir í augnablikinu. Þættir eins og þessir eru ástæðan fyrir því að ég mun alltaf vera femínisti. Svo er fólk að reyna að mótmæla því að manngildi kvenna felist fyrst og fremst í útlitinu!! Skil það ekki - hvað í ósköpunum ætti að fá ósköp eðlilegar, yndislegar konur til að fara í gegnum bæði lífshættulegar aðgerðir, auk mikils og langvarandi sársauka til að verða fallegri nema af því að þær skynja að þannig eykst þeirra verðleiki í augum annarra - og, ok., þeirra sjálfra líka vegna þess að þær taka þátt í þessu, rétt eins og svo margir aðrir. Segi fyrir mig að ég er mun sáttari við konur sem eru búnar til af náttúrunnar hendi heldur en konur sem eru búnar til af "fegrunarlæknum".

Og - merkilegasti þáttur kvöldsins var þátturinn um skírlífi innan kaþólsku kirkjunnar. Ótrúlegt en satt þá er til fólk sem velur að vera skírlíft allt sitt líf. Þátturinn var um margt merkilegur. Þar var t.d. velt upp þeirri spurningu hvort að tengsl væru á milli þeirra skírlífsheita sem kaþólskir prestar verða að gangast undir og kynferðislegrar misnotkunar þeirra á börnum. Einnig var fjallað um hvernig kaþólska kirkjan lítur á konur sem "disposable" þegar kemur að því að hjálpa þessum körlum við að vera "skírlífir", þ.e. það er litið fram hjá því að þeir eigi í samböndum við konur - bara ef þeir ekki giftast þeim. Tekið var viðtal við eina konu sem lenti í því að verða ástfangin af presti og eignast með honum 2 börn - lausn kirkjunnar á málinu var að hún vildi að konan gæfi börnin til ættleiðingar. Þegar hún ekki vildi það var endanlega lausnin að hún flytti úr bænum í annað samfélag. Það er mjög einkennileg þversögn í þessu með ættleiðinguna vegna þess að það kom fram í þættinum að viðhorf kaþólsku kirkjunnar er það að kynlíf ætti einungis að stunda með getnað í huga...

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Afleiðingar af Hríseyjarferð!

Hríseyjarferðin ætlar að hafa afleiðingar - í kvöld ætlum við að elda fisk!!!! Frekar stór stund hjá okkur. En batnandi fólki er best að lifa og kannski endar með því að við verðum ekki háð öðrum varðandi fiskneyslu. Silungurinn sem pabbi veiddi er að þiðna á eldhúsborðinu. Verður örugglega ljúffengur... matreiddur að hætti Sigga Hall.

Skilaði pistlinum fyrir Viðskiptablaðið í gær. Nú er bara að finna út hvað á að skrifa um næst. 6 dagar til stefnu.

Kíkti á Sirkus á netinu áðan - til að sjá viðtalið í Kvöldþættinum í gær. jamm - um að gera að hafa gaman að þessu líka :) Get ekki að því gert en ég er búin að reyna að finna út hvaða minnihlutahóp hægt er að setja spyrilinn, hann Reynir, í - svona svo honum líði betur. Kannski hóp ungra, órakaðra karlmanna? Gæti líka bent honum á að ganga í Framsókn - það er flokkur sem er í minnihluta - gengur kannski ekki alveg því hann er samt í meirihluta bæði í borg og bæ...

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Svindlað á fríinu

Svindlaði á femínistafríinu í dag. Sendi bæði póst á ráðslistann og fór í viðtal hjá Sirkus - fyrir kvöldþáttinn. Kannski ekki rétt að segja að ég hafi farið í viðtal því þeir komu til mín. Mjög þægilegt og tók fljótt af. Í kvöld getið þið sem sagt séð mig rabba við hvíta, gagnkynhneigða karlmanninn sem er í krísu því hann tilheyrir ekki minnihlutahóp!!!! Arg... ef við ættum öll við svona krísu að stríða! :)

Er samt enn á því að konur séu ekki minnihlutahópur - en hafi minnihlutavald!

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Plúsinn afturkallaður

Strákarnir fá engan plús fyrir að hafa ekki viljað taka þátt í bacherlorþættinum á Skjá 1! Það fundust víst fullt af strákum svo fyrri fréttir af karlmannsskorti hafa verið stórlega ýktar. Plúsinn er því afturkallaður og þeir eru í bullandi mínus eins og stelpurnar...

mánudagur, ágúst 15, 2005

Kvenspjæjarinn Mma Ramotswe

Las bókina Kvenspæjarastofa númer 1, eftir Alexander McCall Smith í vikunni. Hún kom skemmtilega á óvart og var mun femínískari en ég hafði búist við.

Hér er eitt gullkorn úr bókinni: (bls 34 - 35)
"Vandamálið, auðvitað, var að fólk virtist ekki skilja muninn á réttu og röngu. Það þurfti sífellt að minna það á þetta, því ef maður lét það bara um að finna út úr þessu sjálft varð ekkert úr því. Fólk gerði þá bara það sem hentaði því sjálfu best og sagði síðan að það væri hið rétta. Þannig hugsuðu flestir."

Engin alvörulaun fyrir barneignir hjá KEA

Svona var upphaflegi pistillinn sem átti að fara í Viðskiptablaðið. Síðan kom víst upp trúnaðarbrestur á alla bóga hjá KEA og þá breyttist allt. Væri synd ef orginallinn gufaði bara upp... Það vantar samt í alla þessa umræðu að konum sem hefur verið mismunað fyrir barneignir hafa ekki fengið 20 millur fyrir. Mér finnst það vera umræðugrundvöllur!

Engin alvörulaun fyrir barneignir hjá KEA
Markmið laga um fæðingarorlof
er að tryggja börnum samvistir við foreldra sína og auðvelda foreldrum að
samræma atvinnu- og fjölskyldulíf. Vinnumarkaðurinn hefur hingað til refsað
konum grimmt fyrir að eignast börn. Konur hafa fengið lægri laun fyrir störf sín
og þær hafa ekki jafn greiðan aðgang í ýmis vellaunuð störf vegna barneigna.
Konum hefur verið sagt upp á meðgöngu eða um leið og þær snúa tilbaka eftir
fæðingarorlof. Konur hafa líka mátt þola að vera spurðar út í fyrirhugaðar
barneignir í atvinnuviðtölum og sumar konur hafa verið beðnar um að skrifa undir
samning þar sem þær fallast á að eignast ekki börn innan tiltekins tíma í
ráðningarsamningi. Þetta síðastnefnda heyrir þó sögunni til og viðgengst ekki
lengur í íslensku atvinnulífi, allavega ekki svo upp um hafi komist.
Með
tilkomu nýju fæðingarorlofslaganna þar sem feðrum er tryggður réttur til
fæðingarorlofs bregður svo við að atvinnumarkaðurinn tekur upp á því að refsa
körlum líka fyrir að eignast börn. Nýjasta dæmið um þetta er KEA málið.
Framkvæmdastjóri félagsins gerðist svo kræfur að barna konu sína að tvíburum, og
áttu þau fyrir 4 börn. Hann ákvað að uppfylla sínar skyldur sem ábyrgur faðir og
fara í 9 mánaða samfellt fæðingarorlof, í fullkomnu samræmi við hans lagalegu
réttindi. Eitthvað fór þetta fyrir brjóstið á stjórn KEA sem sá ástæðu til að
funda um málið. Á toppnum hjá KEA liggur greinilega ekki ljóst fyrir að lög ber
að virða og ætti ekki að vera ástæða til að funda um það sérstaklega þrátt fyrir
að það henti ekki alvörustarfsmönnum að haga sínu fæðingarorlofi nákvæmlega eins
og fyrirtækinu þykir best. Eftir langa og stranga fundarsetu komst stjórnin að
því að það væri óásættanlegt að fara eftir lögum í þetta skiptið og lýsti
formaður stjórnar því yfir í blöðum að vegna einhverra mistaka hefði gleymst að
setja í lögin að þau giltu einvörðungu fyrir starfsmenn á gervilaunum en að þau
ættu ekki að gilda um þá starfsmenn sem fengju greidd alvörulaun fyrir sína
vinnu. Honum fannst eðlilegra að fyrirtæki gætu sett ákvæði í ráðningarsamninga
við lykilstarfsmenn um hvernig þeirra barneignum verður háttað í framtíðinni.
Nokkurs konar afturhvarf til fyrri tíma og fullkomlega eðlilegt í ljósi þess að
fólkið er til fyrir fyrirtækið en ekki öfugt. Sem betur fer fyrir stjórn KEA
áttaði framkvæmdastjórinn sig á því að það væri verulega ósanngjarnt af hans
hálfu að fara fram á að nýta réttindi sín og sagði starfi sínu lausu. Þar með
opnaðist leiðin fyrir stjórn KEA að ráða til sín nýjan lykilstarfsmann á
alvörulaunum og sleppa við allt þetta barnastúss.
Það er alveg ljóst að
þetta mál er allt hið leiðinlegasta fyrir KEA. Ekki nóg með að þau misstu
framkvæmdastjórann heldur hefur framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu lýst yfir
vonbrigðum með stjórn KEA, Femínistafélag Íslands og Félag ábyrgra feðra hafa
sent frá sér ályktanir þar sem KEA er gagnrýnt og fjölmiðlar hafa fjallað
ítarlega um málið. En þá vaknar upp spurningin um hvernig er best fyrir KEA að
fyrirbyggja að slíkt slys geti gerst aftur? Það er auðvitað óheppilegt fyrir
fyrirtækið að starfsmenn þess framleiði börn í staðinn fyrir skyr. Helst er
fyrir KEA að ráða eingöngu konur sem komnar eru af barneignaaldri í lykilstöður.
Það er eini hópurinn sem nokkuð tryggt er að fari ekki í fæðingarorlof.
Fyrirtækið gæti skellt nokkrum smokkum í launaumslagið hjá lykilstarfsmönnum með
orðsendingu um að nú væri óheppilegur tími fyrir barneignir. Einnig væri
tilvalið að bjóða kynfræðslu meðal starfsmanna og leggja sérstaka áherslu á
notkun getnaðarvarna og aukaverkanir sem fylgja barneignum, eins og kúkableiur,
andvökunætur og atvinnumissir.
Eina augljósa neikvæða hliðarverkunin sem
getur hlotist af þessu er að erfitt getur reynst fyrir KEA að finna starfsmenn
og viðskiptavini hjá komandi kynslóðum ef ekkert er blessað barnalánið.

mánudagur, ágúst 08, 2005

Trúnaðarbrestur

Stjórnarformaður KEA segir að ástæðan fyrir því að framkvæmdastjórinn sagði upp væri trúnaðarbrestur en ekki sú að hann hefði ætlað í langt fæðingarorlof. Ég er að velta fyrir mér hvort að trúnaðarbresturinn sé ekki út af því að framkvæmdastjórinn neitaði að fara í sundurtætt fæðingarorlof. Það er ekki hægt að lesa annað út úr fréttaflutningi undanfarna daga en að ágreiningurinn hafi verið vegna þess að stjórn vildi að hann færi í sundurtætt orlof í staðinn fyrir samfellt orlof.

Á meðan stjórnarformaður KEA nýtir "trúnaðarákvæði" til að útskýra ekki hvernig var að málum staðið þá stend ég áfram í þeirri trú að barneignir framkvæmdastjórans hafi haft veruleg áhrif á það að hann er ekki lengur að störfum fyrir KEA!

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ef ég ætti bleikt skyr...

Femínistafélagið sendi frá sér ályktun í dag út af KEA málinu. Sniðugir þessir stjórnarmenn í KEA að fá framkvæmdarstjórann til að sjá sjálfan að þetta gengi nú ekki upp - að hann væri fjarverandi frá vinnu í 9 mánuði og gátu fengið hann til að segja upp sjálfan. Nú geta frjálshyggjumennirnir sagt að hann hafi valið þetta sjálfur, að þetta sé frelsi. Rétt eins og konur hafa valið í gegnum tíðina að vera með lægri laun, minni áhrif og hér um bil engin völd, af því að þær eignast börnin... Frelsið er yndislegt, segir Síminn og greinilega KEA líka.

Sjálfri finnst mér þetta algjör skandall. Myndi byrja að boycotta KEA á stundinni nema að það er illa framkvæmalegt því ég byrjaði að boycotta þá (en hafði reyndar alltaf keypt voðalega lítið af þeim) þegar þeir tóku þátt í MissKiss FM keppninni með vali á KEA stúlku. Þá kvörtuðum við í FÍ yfir að KEA stúlkan væri valin úr hópi stúlkna sem kepptu um það hver gæti fengið mest viðbrögð úr sal með því að sýna "glæsileg" tilþrif á blúndunærfötum. Markaðsstjórinn var nú hinn almennilegasti og sagði að ekki yrði undirfatasýning á lokakeppninni og til að tryggja málið fór hann sjálfur að fylgjast með keppninni - greinilegt að við vöktum áhuga hans þá, hemmm... Í framhaldi fengum við þessa fínu auglýsingu þar sem slatta af skyri er hellt yfir ljóshærða yngismær. Hef reyndar ekki hugmynd um hvort að það sé KEA stúlkan en engu að síður... Voða skyrlegt alltsaman. Þá hætti ég snarlega við að byrja að kaupa KEA skyr og held fast í þá ákvörðun núna. Held að það sé með skyr eins og baðkör - karlmenn fara ekki í bað og þeir borða ekki skyr! Allvega ekki ef mark er takandi á auglýsingum.

Þeir sletta skyrinu sem eiga það og ef ég ætti bleikt skyr myndi ég sletta því á KEA!

Hér er ályktun FÍ á umræðuvefnum: http://www.feministinn.is/umraedur/viewtopic.php?t=739

föstudagur, ágúst 05, 2005

Ímynd femínisma

visir.is er með flokk sem heitir Skoðanir. Þar eru greinar um hin ýmsu mál. Það hefur glatt mig slatta mikið að þó nokkuð af þeim pistlum sem þar birtast eru um jafnrétti :)

Í dag er fjallað um hvort að femínismi sé gamaldags (sjá http://www.visir.is/?PageID=495&NewsID=49930). Enn og aftur er verið að ræða um ímyndina og af hverju fólk vill ekki kalla sig femínista. Þetta er þörf umræða og það þarf að gera eitthvað til að breyta þessu. Ein af ástæðunum fyrir því að okkur miðar svona hægt er örugglega sú að andstæðingum jafnréttis tekst alltaf að koma neikvæðum stimpli á konur (og karla) sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna. Ég horfði t.d. á myndina Iron Jawed Angels um daginn. Myndin er um baráttu súffragetta fyrir kosningarétti. Í dag eru allir (ok flestir) afskaplega þakklátir fyrir baráttu þessara kvenna en í myndinni kemur skýrt fram að þetta var enginn dans á rósum og þær sættu sömu andstöðu og við gerum í dag. Ef að fólk myndi skoða andstöðu við femínisma í því ljósi yrði kannski einhverjum ljóst að femínismi snýst um réttindabaráttu og að það eru andstæðingarnir við jafnrétti sem græða á þessum fordómum en ekki jafnréttið.

Bókin Suffragettes to She Devils er algjör snilld í að sýna hvernig ímyndir hafa verið notaðar, bæði gegn femínistum og af femínistum í baráttunni. Þar sést vel að lítið hefur breyst. Í texta um bókina á amazon.com segir: "Not a history book, but a compilation of sparkling, hard-hitting graphics on the international women's movement drawn from the fine arts, fashion, and advertising to comics, broadsheets, and cyberart. Liz McQuiston's vivid text and selections center on how design furthered campaigns exalting or denigrating a woman's place in the world. Biting humor and anger crop up throughout. An automaker's billboard boasting "If it were a lady it would get its bottom pinched" draws the memorable spray-painted response: "If this lady was a car, she'd run you down." Voting rights, abuse, girl power, abortion, and parity are a few of the subjects touched on in this wide-ranging, freewheeling book on design and propaganda."

Mæli sem sagt með bókinni fyrir alla sem hafa áhuga á ímyndum femínismans í gegnum tíðina!

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Aðstoðarbílstjórar

Á femínistapóstlistanum er umræða um konur sem aðstoðarbílstjóra - og hvernig ávallt er gert grín að því. Hér er partur af skeyti sem ég sendi á listann:

Man eftir einu tilviki þar sem ég var að passa mig á að vera ekki aðstoðarbílstjóri - af því að mér hafði verið sagt svo oft að það væri pirrandi. Bílstjóranum fannst gaman að keyra soldið hratt, á slitnum sumardekkjum á blautum vegi. Góð uppskrift að slysi. Sem reyndar varð raunin. Sem betur fer var vegrið í beygjunni þar sem hann fór út af sem hamlaði því að við rúlluðum nokkra metra niður hlíðina. Bíllinn sá eini sem slasaðist, sem betur fer. Eftir þetta atvik er ég hlynnt aðstoðarbílstjórum. Nema auðvitað ef ég má alltaf keyra :)

Kannski tryggingafélögin geti fækkað slysum með því að hvetja farþega til að hafa eitthvað um það að segja hvernig bílstjórinn keyrir í staðinn fyrir að reyna að draga úr því. Eftir allt þá er einræði yfirleitt ekki talið fara vel í alla...

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Svo er sagt að kyn skipti ekki máli...


Er búin að liggja yfir tekjublaði Frjálsrar verslunar eins og símaskránni. Afar skemmtileg lesning, sérstaklega í ljósi kynjamála. Karlmenn fá afar mikið borgað fyrir að vera til á meðan konur fá afar lítið borgað fyrir að vera til. Svo er sagt að kyn skipti ekki máli. Jamm og jæja. Einhvern vegin virðast tölfræðilega líkur karlmanna samt vera nokkuð mikið betri en kvenna þegar kemur að peningum og völdum....

Sumir eru á móti því að tekjublaðið komi út. Ég skil það ósköp vel og finnst óþarfi að hnýsast svona í hagi nágrannans. En... og það er alltaf en. Blaðið veitir ágætar upplýsingar um stöðu mála, t.d. á milli kynja, á milli höfuðborgar og landsbyggðar, á milli atvinnugreina. Blaðið kemur því að töluverðu gagni þegar allt kemur til alls. Skrýtnast af öllu finnst mér þó að það virðist aðallega vera frjálshyggjufólk sem er á móti útgáfu blaðsins. Enn og aftur misskilur sumt frjálshyggjufólk frjálsan markað - upplýsingarnar verða að vera til staðar svo að lögmál markaðarins virki. Það er bara svo einfalt.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Góðar fréttir eða engar fréttir?

Tók mér "langt" frí um verslunarmannahelgina og steingleymdi blogginu... best að byrja aftur fersk á mánudegi, eða þannig, hef ekki hugmynd um hvaða mál ég á að blogga um og var að spá í hvort það væri betra að blogga um bara eitthvað eða hvort ég ætti að sleppa því.

Búin að hafa það rosagott um helgina. Bæsa einn glugga, endurskipuleggja þvottahúsið og setja upp hillurnar fínu sem ég vann baki brotnu við að bæsa og lakka í síðustu viku. Borða góðan mat, passa, hafa rómókvöld með Grétari og nú er ég á leiðinni að pússa glugga. Gaman gaman en helgin bráðum búin :(

Talaði líka við Betu um Móður í hjáverkum. Er þetta góð bók eða ekki? Getur hún komið einhverju jákvæðu til leiðar, vakið konur upp af blundi og hvatt þær til að krefjast breytinga eða er þetta óp um afturhvarfs til gömlu "góðu" tímanna með femínisma í bland? Mér fannst hún ágæt svona þrátt fyrir allt en ég þurfti að hafa svolítið fyrir jákvæða hugarfarinu í restina - en endaði með að lesa gömlu, góðu tímana út úr myndinni - en skilst að það sé alveg hægt að skilja endinn öðruvísi....

Vona að fleiri hafi haft það jafn gott og ég :-D