fimmtudagur, september 28, 2006

Eins gott...

Í dag var mælt með að allir yrðu í svörtu í tilefni þess að byrjað var að hleypa vatni í Hálsalón. Í dag var líka fjallað um nauðgunartilraun í Big brother sem "kynlífsskandall". Síðan hvenær er nauðgun kynlíf? Í Fréttablaðinu í dag voru vændisauglýsingar (sem og aðra daga) og á Skjá 1 auglýsingar frá stað sem selur konur. Hvar er valfrelsið og jafnréttið? Eins sem virðist vera til staðar er bræðralagið. Ég mæli með að það verði lagt niður og systkynalag tekið upp í staðinn! Og by the way - það sáust engar stjörnur. Eins gott að ég var í svörtu í dag.

miðvikudagur, september 27, 2006

Ég verð að læra dönsku!!!!

Hvað gerir kona þegar hún kemst að því kl. rúmlega 6 að hópurinn sem hún ætlar að halda kynningu um Femínistafélagið á ensku fyrir er ekki sérlega sleipur í enskunni? Jú, hún hringir í karlmann til að bjarga sér!!!! Gísli talar ljómandi góða dönsku svo þetta reddaðist nú allt. Reyndar var móttakan í gær bara ansi skemmtileg. 15 Danir sem vinna að því að samþætta jafnréttissjónarmið á sínum vinnustað mættu galvösk á Hallveigarstaði. Þar var Þorbjörg Inga með kynningu á Hallveigarstöðum og KRFÍ, Gísli með kynningu á FÍ og Hrönn kynnti verkefnið Stöðvum barnaklám á netinu. Forsprakki Danana hélt síðan stutta kynningu á þeim og ástæðunni fyrir því að koma til Íslands. Rauðvín og ostar rann ljúflega ofan í gesti á meðan og á eftir voru fjörlegar umræður. Þess á milli barst röddin hans Ómars inn um gluggann því útifundurinn var á sama tíma. Ég vona að ég hafi náð að halda andlitinu þegar ein konan sagði við mig að það væri synd að þetta tvennt væri á sama tíma! Já, reyndar en það er líka gaman að hitta ykkur.... :) Sem það reyndar var. Þau voru líka ánægð með kvöldið. Voru ánægð með að hafa afslappað og óformlegt andrúmsloft en fá fullt af upplýsingum í leiðinni. Ég held þó að við hápunktur ferðarinnar hjá þeim hafi verið að fá að hitta frú Vigdísi - enda er hún ein af 3 góðum ástæðum fyrir því að þau völdu að koma til Íslands að kynna sér jafnréttisbaráttuna.

þriðjudagur, september 26, 2006

Göngum lengra - hættum við!


http://kjosa.is/gongum-lengra/

Ég vona að þið ætlið öll að mæta í gönguna. Ég verð að taka á móti dönskum hópi jafnréttisfulltrúa í kvöld svo ég get ekki verið dropi eða sandkorn í göngunni :( Væruð þið nokkuð til í að kippa með ykkur staðgengli fyrir mig??? :)

mánudagur, september 25, 2006

Vei....

Ég er komin með vinnuaðstöðu :)

Ofbeldi án refsingar

Fréttablaðið í dag - eftir yours truly:

Ofbeldi án refsingar

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á kynferðisbrotakafla hegningarlaga. Meðal breytinga er að refsiákvæði um að stunda vændi er afnumið og lagt er bann við að auglýsa vændi. Báðar breytingarnar eru spor í rétta átt en það vantar mikilvægasta skrefið sem er að gera kaup á vændi refsivert. Skoðanir fólks eru skiptar um hvaða leið er best að fara, hvort sem fólk er hlynnt vændi eða ekki. Því miður líta sumir enn svo á að vændi eigi að flokkast með frjálsum viðskiptum manna á milli en slík afstaða viðheldur völdum karlmanna yfir konum. Þau sem eru andsnúin vændi greinir líka á um leiðir en kvennahreyfingin hér á landi hefur sameinast um afdráttarlausa afstöðu, að fara sænsku leiðina.

Meirihluti þeirra sem eru seld í vændi og mansal eru konur en flestir kaupenda eru karlar. Kynjavinkillinn er skýr þar sem karlmönnum er í raun tryggður aðgangur að líkömum kvenna og þeirra karla sem lenda neðst í valdapíramídanum. Afleiðingar vændis eru svipaðar afleiðingum kynferðisofbeldis og skömmin og niðurlægingin er hvergi meiri en hjá þeim sem eru í vændi. Þessar manneskjur þarfnast félagslegra úrræða til að komast út úr erfiðum aðstæðum. Rétt eins og við refsum fólki ekki fyrir sjálfsmorðstilraunir eða aðrar sjálfsmeiðingar heldur réttum þeim hjálparhönd þurfum við koma eins fram við þau sem eru í vændi. Hvað varðar kaupendur er staðan allt önnur. Hver einasti kaupandi á að vita að hann er að skaða aðra manneskju og beita hana ofbeldi. Kaupandinn á að vita um háa tíðni kynferðisofbeldis í fortíð vændiskvenna, tenginguna við fíkniefni, neyð og mansal. Hann á einnig að vita að ef svo ólíklega vill til að hann lendi á hinni hamingjusömu hóru að þá tryggir hann með kaupunum að hamingjan endist ekki lengi þar sem afleiðingarnar verða á endanum eins og í öðru kynferðisofbeldi. Það er því með ólíkindum að samfélag sem kallar sinn samtíma upplýsingaöld nýtir ekki þá þekkingu sem til er með því að gera kaup á vændi refsivert.

laugardagur, september 23, 2006

Dramatísk framkvæmdasaga...

Ég er viss um að það er allsherjarsamsæri að eina hádegisviðal NFS í vikunni sem ekki er aðgengilegt á VefTV er viðtalið við yours truly þar sem vændi er viðfangsefnið... aha! Brot úr viðtalinu er hins vegar í kvöldfréttum á fimmtudaginn - sem önnur frétt reyndar - þvert á allar samsæriskenningar.

Vikan annars búin að vera fín. Ég á góða vini (eins og Erla) en á mánudaginn var ég að bruna upp Ártúnsbrekkuna klukkan hálf-átta þegar Betan hringir og býður mér á Pina Bausch, sem átti að byrja hálftíma seinna. Ég auðvitað þáði það og sá ekki eftir því. Sýningin var æðisleg og auðvitað mun skemmtilegra að hún er ádeila og inniheldur boðskap. Á efri árum kann ég mun betur að meta svoleiðis heldur en innihaldslausa skemmtun... Við komumst samt að þeirri niðurstöðu að sýningin hafi ekki verið eins róttæk og margir bjuggust við.

Svarta gólfinu var síðan bjargað í vikunni :) :) :) :) :) Mér til mikils léttis... Þar sem Valla Matt ætlar að hætta með Veggfóður er ég viss um að dyggir lesendur bloggsins kunna að meta ítarlegar lýsingar á framkvæmdum á mínu heimili. Björgunaraðgerðir fóru sem sagt svona fram:

Grétar fékk að ráða og hann vildi prófa bronsleiðina frekar en bæsleiðina... ég fjárfesti því í heilli túpu af bronslit fyrir svo mikið sem 940 kr. Þegar heim var komið var spenningurinn svo mikill að við skelltum okkur beint í að bera þetta á gólfið. Það var gert með pensli og myndast við að ná svona þurrburstunaráferð... Niðurstaðan sú að gólfið varð hálfblettótt og lofaði ekki góðu. Við komumst loks að þeirri niðurstöðu að prófa að setja bara bæsið ofan á þetta - og héldum því áfram að bletta gólfið.... og skiptum svo um skoðun. Sáum að þetta væri bara kolómögulegt og allt ónýtt :( Gripum því til þess drastíska ráðs að ætla að hreinsa þetta af gólfinu með terpentínu, myndast við að fjarlægja öll ummerki og fara mína leið (bæsið góða...). Ákváðum að fórna moppunni okkar í verkið og hófumst svo handa. Grétar hellti vænum slurk af terpentínu á gólfið og ég renndi moppunni yfir til að fjarlægja bronsið. En viti menn og konur - kom ekki bara þessa undurfallega áferð á bronsið :) Við kláruðum því allt gólfið svona - settum vænan slurk af bronsi - helltum terpentínu í næsta nágrenni og moppuðum yfir. Létum þorna yfir nótt og lökkuðum svo 2 umferðir með hálfmöttu lakki. Erum þvílíkt ánægð með gólfið. Það er algjört æði og við ætlum að öllum líkindum að leggja í sama pakka í andyrinu og upp stigann.

þriðjudagur, september 19, 2006

Eigum við?

Í staðinn fyrir að fara í framboð væri ég alveg til í að kaupa NFS. Hlýtur að vera hægt að fá stöðina á góðu verði núna... og einhver bankinn hlýtur að vera til í að lána nokkrum konum nokkra peninga. Einhver memm?

Vörusvik!!!

Ætli þau sem keyptu bókina Franskar konur fitna ekki megi skila henni núna?

Af mbl.is:
Tækni & vísindi AFP 19.9.2006 08:02
Þriðjungur Frakka of þungur

Franska þjóðin er að þyngjast og nú svo komið að tæplega þriðjungur þeirra er yfir kjörþyngd eða er að berjast við offitu, samkvæmt nýrri könnun sem unnin var fyrir frönsku heilbrigðisþjónustuna. Samkvæmt henni eru 19,8 milljónir Frakka, af 63 milljónum íbúa, yfir kjörþyngd og 5,9 milljónir eru offitusjúklingar. Hefur offitusjúklingum í Frakklandi fjölgað úr 2,3 milljónum í 5,9 milljónir á níu árum.
Samkvæmt könnuninni eru ákveðnir þjóðfélagshópar í meiri hættu og eru þeir sem eru í láglaunastörfum í mestri hættu.

Að sögn dr. Arnaud Basdevant, næringarfræðings við Parísar spítala, er sem allir aldurshópar séu í hættu og að offitusjúklingarnir verði alltaf yngri og yngri. Mun fleiri konur eru of feitar en karlar í Frakklandi.

Offita er vandamál víða um heim og lítur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO)á offitu alþjóðlegt heilbrigðisvandamál.

Samkvæmt frönsku könnuninni þjáist einn af hverjum fimm íbúum Frakklands af offitu, sem eru með 34.800 evrur, 3,1 milljón króna, í árstekjur eða minna. Aftur á móti er einungis einn af hverjum tuttugu að glíma við offitu sem eru með 63.600 evrur í árslaun eða meira.

Svarta gólfið - ekki töff skiluru!

Við skötuhjúin sem lifum í stórkostlegri synd hér í Grafarholtinu vorum ótrúlega dugleg um helgina. Við sáum fram á það á laugardagsmorguninn að þurfa allavega 2 mánuði til að sortera allt geymsludraslið og koma því haganlega fyrir í bílskúrsgeymslunni. Ekki nóg með að við kláruðum að ganga frá öllu inn í geymslu á laugardaginn (nema dótinu sem á að koma upp - það þekur enn hálfan stigann...) þá kom bróðir hans Grétars líka í heimsókn og tengdi fyrir okkur símann og við náðum að mála fyrstu umferð á gólfið á megnið af rýminu niðri. Það hefði reyndar átt að þýða seinni umferð í gærkvöldi og þá hefði verið hægt að raða húsgögnum þar í lok vikunnar og hefja vinnu í nýrri vinnuaðstöðu nema... liturinn á gólfinu er alveg óvart næstum því svartur. Við erum því að leita nýrra leiða til að hressa upp á gólfið - þær hugmyndir sem eru í gangi eru:

1. Kaupa lakk og bæta út í það hálfþekjandi lit (hér um bil bæsi) og fá þannig líf og fjör í gólfið...
2. Kaupa brons málningu og bursta létt yfir gólfið (í stíl við handriðið) og lakka svo yfir það.

Hafið þið skoðun á málinu eða betri - ódýrar - hugmyndir???? Ef þið eruð með ógisslega flott gólf sem kostaði lítið að gera getið þið líka boðið mér í kaffi til að skoða dýrðina og stela hugmyndinni! :)

sunnudagur, september 17, 2006

Sú yðar sem syndlaus er!

Erla á greinilega skemmtilega vini. Einn þeirra er kominn með ansi sniðuga hringingu á símann sinn - brot úr þessari ræðu hér. Mér fannst þetta svo fyndið að ég varð að setja þetta hér líka... Hver getur líka ekki verið sammála Gunnari!!

Ég er eiginlega komin á þá skoðun að ég þurfi að fá mér nýjan síma.

laugardagur, september 16, 2006

Enn meira af tölvuleikjum

Ok. Búin að lesa linkinn frá þér Spörri - ágætis grein. Ég fer samt ekki ofan af því að sumir tölvuleikir eru alls ekki barnaefni - og mér sýnist greinahöfundur alveg vera sammála mér í því þó hann geri sitt besta til að fegra ástandið þess á milli. Allavega skammast hann út í að meirihluti leikja sem bannaðir eru fyrir börn séu keypt af foreldrum (með eða án barna sinna).

Annars finnst mér rökin í kringum áhrif kláms og ofbeldisfullra tölvuleikja oft svipa saman. Þeir sem vilja afneita áhrifum benda oft á að ekki finnist bein orskök - afleiðing tengsl á milli. En þó tengslin séu ekki bein þá geta þau samt verið til staðar. Diana Russell útskýrir þetta vel í sinni kenningu - áhrifinum má líkja við t.d. reykingar og lungnakrabbamein. Það fá ekki allir reykingamenn lungnakrabbamein - en sumir fá krabbann sem afleiðing af reykingum. Það sama á við um klámið og ofbeldisfullu tölvuleikina. Hvorugt þarf að vera eini orsakavaldurinn - en sett saman með öðrum breytum þá hefur þetta skelfileg áhrif á suma. Ég held líka að við afneitum áhrifunum of mikið. Okkur finnst þægilegra að tala um að þetta hafi ekki áhrif því þá þarf heldur ekki að neita sér eða börnum eða öðrum um neitt... né díla við það heldur. En það eru nokkur atriði í greininni sem ég hnaut um. T.d. þetta:
If there is a consensus emerging around this research, it is that violent video
games may be one risk factor - when coupled with other more immediate,
real-world influences — which can contribute to anti-social behavior. But no
research has found that video games are a primary factor or that violent video
game play could turn an otherwise normal person into a killer.

Fyrri parturinn svo sem í lagi - en síðasta setningin er umdeild og alls ekki allir á sama máli og þessi gaur. Ég hef líka séð niðurstöður sem sýna aukna hörku í ofbeldi þar sem börn halda að hægt sé að kýla, sparka og gera guð má vita hvað án þess að átta sig á afleiðingunum og talað við fólk sem hefur unnið með börnum og séð þessi áhrif þar. Tölvuleikir (og sjónvarpsefni) er nefnilega oft á tíðum ekki að birta mynd af raunveruleikanum því lifandi persónur og tölvuleikjapersónur þola ofbeldi alls ekki jafnvel eða í sama mæli. Lifandi persónur eiga þar að auki bara eitt líf... Margt annað sem hann talar um stenst heldur ekki - tölvuleikjafíkn er t.d. búin að vera í umræðunni undanfarið og þar eru áhrifin á sósíal lífið neikvæð - enda ekki sami hluturinn að geta haft samskipti í gegnum tölvu og í eigin persónu.

En hvað um það. Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Ég sé engan tilgang í að börn séu að leika sér að því að drepa mann og annan, nauðga konum og hoppa í blóðpollum. Það er enginn undirbúningur fyrir lífið fólginn í því - og mér finnst skrýtið þegar það er talað um það sem skaðlegt að börn séu ekki kynnt fyrir þessu á unga aldri... Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

föstudagur, september 15, 2006

Það er leikur að lemja

Birtist áður í Viðskiptablaðinu þann 28. des 2005. Set þetta inn hér í tilefni atburða undanfarinna daga...

Það er leikur að lemja
Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins og nauðsynlegt er að verja þennan rétt með kjafti og klóm. Stundum finnst mér þó rétturinn til tjáningarfrelsis vera misnotaður í annarlegum tilgangi. Nýlega bárust fréttir af úrskurði alríkisdómara í Bandaríkjunum sem kom í veg fyrir gildistöku laga sem bönnuðu sölu á tölvuleikjum sem innihalda gróft ofbeldi til barna í Kaliforníu. Bannið þykir hugsanlega stangast á við tjáningarfrelsið. Það voru samtök tölvuleikjaframleiðenda og verslunarmanna sem höfðuðu málið á grundvelli tjáningarfrelsinsins, samkvæmt frétt á mbl.is þann 23. desember.

Áhrif ofbeldisfullra tölvuleikja
Á heimasíðu SAFT, samtaka sem vinna að öruggri netnotkun barna og unglinga, er að finna samevrópskt flokkunarkerfi fyrir tölvuleiki. Flokkunarkerfinu er ætlað að auðvelda foreldrum og öðrum að átta sig á innihaldi tölvuleikja og hjálpa þeim þannig að velja réttu tölvuleikina fyrir börnin sín. Flokkunarkerfið er stutt af framleiðendum tölvuleikja og má sjá af merkingum fyrir hvaða aldurshópa leikurinn er ætlaður, hvort hann inniheldur ofbeldi, kynlíf, mismunun, gróft orðbragð, fíkniefni eða geti vakið ótta hjá ungum börnum.

Framtak sem þetta er af hinu góða. Rannsókn SAFT leiddi í ljós að um 40% foreldra á Íslandi hafa litla þekkingu á tölvuleikjum barna sinna. Jafnframt kom í ljós að börn eyða miklum tíma í tölvuleiki, mörg þeirra kaupa leiki sem ekki er ætlaður fyrir þeirra aldurshóp eða athuga ekki aldursmerkingar. Okkur vantar tilfinnanlega rannsóknir á áhrifum tölvuleikja á börn og unglinga en til eru nokkur dæmi um ofbeldisverk barna og unglinga sem talin eru eiga rætur sínar að rekja til ofbeldisfullra tölvuleikja. Einnig eru til rannsóknir sem sýna fram á að ítrekuð notkun á ofbeldisfullum tölvuleikjum getur leitt til árásagjarnra hugsana, tilfinninga og hegðunar. Það er því ansi kærulaust að ætla að allt það ofbeldi og mannfyrirlitning sem finnst í mörgum tölvuleikjum hafi ekki áhrif. Við sem manneskjur drekkum sífellt í okkur skilaboð úr umhverfinu og myndum okkur skoðanir og viðhorf út frá því. Einstaklingar sem ekki hafa náð fullorðinsaldri hafa ekki þroska til að meta öll þau skilaboð sem þau fá á eigin spýtur. Það er auðvelt að segja að foreldrar eigi einfaldlega að fylgjast með gerðum barna sinna og tala við þau um það sem fyrir augu ber en það er mun erfiðara í framkvæmd í okkar hraða þjóðfélagi.

Stjórnarskrárvarinn réttur til að meiða
Merkingar SAFT eru af hinu góða því þær miðla þekkingu en þær ganga skemur en tilraunin til lagasetningar í Kaliforníu þar sem leggja átti bann við sölu á tölvuleikjunum. Ég hallast að þeirri skoðun að báðar aðgerðir saman væru æskilegasta lausnin. Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig bann á ofbeldisfullum tölvuleikjum til barna getur stangast á við tjáningarfrelsið. Á hvern hátt? Það er ekki verið að banna fyrirtækjum að hanna, framleiða eða selja ofbeldisfulla tölvuleiki. Frelsið til að tjá sig er því til staðar. Einungis er um að ræða bann við sölu á þessu efni til barna og unglinga, einstaklinga sem lagalega séð eru á ábyrgð foreldra og samfélags. Sama hvað fólki finnst um forsjárhyggju almennt þá er það hlutverk foreldra og samfélagsins að beita forsjárhyggju við uppeldi í þeim tilgangi að vernda börn og undirbúa þau fyrir að standa á eigin fótum sem fullorðnir einstaklingar. Að halda að börnum skaðlegum tölvuleikjum sem gera það að verkum að þau fá ranghugmyndir um hlutverk sitt í samfélaginu, hvernig koma á fram við annað fólk og hvað er rétt og rangt getur ekki átt að vera réttur sem varinn er af stjórnarskránni. Fyrirtæki sem framleiða og selja vörur í þeim eina tilgangi að græða peninga án nokkurrar samfélagslegrar ábyrgðar eða siðferðiskenndar eiga ekki að hafa óheftan aðgang að börnum og unglingum undir þeim formerkjum að þarna sé tjáningarfrelsið að verki. Samtök tölvuleikjaframleiðanda í Bandaríkjunum halda því fram að verið sé að grípa fram fyrir hendur foreldra með því að banna sölu leikja þeirra til barna. Þvert á móti styðja lögin við hlutverk foreldra sem uppalanda því með þeim geta börnin ekki farið á bak við foreldra sína og keypt leikina sjálf. Foreldrarnir geta eftir sem áður keypt leikina handa börnum sínum ef þeir kjósa svo.

Að verja skoðanir annarra fram í rauðan dauðann
Tölvuleikjaframleiðendur halda því fram að tölvuleikir séu tjáningarform, rétt eins og bækur, kvikmyndir og tónlist. Það er ekki rökrétt að halda því fram að tölvuleikir séu tjáningarleið en halda því fram á sama tíma að þeir hafi ekkert að segja. Þess vegna eigum við að kynna okkur hvað tölvuleikir segja við börn og unglinga og hafa skoðun á því. Það er til lítils að ætla að verja skoðanir annarra fram í rauðan dauðann en á sama tíma afsala sér réttinum til að hafa skoðun sjálfur.

Partý í Smáralindinni

Allur gærdagurinn fór í að taka backup af gögnunum mínum og defragmentera harða diskinn!! Var víst ekki vanþörf á því 38% fælanna voru fragmentaðir - en enduðu í 0% sem er akkúrat eins og það á að vera. :) Ég ætla rétt að vona að tölvan mín verði hraðvirkari eftir þetta. Hún var orðin svo hægvirk að ég var alvarlega farin að íhuga að henda henni á hauganna og fá mér nýja - sem ég hef engan veginn efni á.

Ég tók backup á geisladiska - hefur hingað til virkað fínt og ég hef ekki þurft nema 2 diska til að bakka allt upp. Nú notaði ég 5 diska og sleppti sumu - gögnin greinilega hrannast upp - veit einhver um ódýra og góða backup lausn fyrir heimatölvur?

********
Hann Magni "okkar" Ásgeirsson fær móttöku í Smáralindinni fyrir vel unnin störf í þágu þjóðarinnar. Það er eins gott að slíkt sé ekki einvörðungu frátekið fyrir fólk sem... - og nú megið þið botna sjálf ;)

fimmtudagur, september 14, 2006

Reykjanes rokkar

http://www.landvernd.is/page3.asp?ID=1757

Mannréttindanefnd stendur sig í stykkinu

Þá er mannréttindanefnd Reykjavíkurborgar búin að álykta þess efnis að Orkuveituauglýsingin brýtur gegn mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. Verð að hrósa mannréttindanefnd fyrir að standa undir nafni. :)

Ég skrifaði pistil á sínum tíma um málið. Hann er hér ef einhver vill rifja hann upp.

Viðbrögð kallsins frá Orkuveitunni við ályktun mannréttindanefndar voru frekar lame. "já en hann var að ryksuga og það voru 3 konur sem komu að auglýsingunni frá Orkuveitunni." Þetta ristir afskaplega grunnt og greinilegt að gaurinn er ekki að fatta þetta. Þess má geta að hugmyndin og útfærslan að auglýsingunni kom frá auglýsingastofunni en ekki frá konunum 3 hjá OR.

miðvikudagur, september 13, 2006

Pólitík

Svona stend ég í pólitík skv prófi sem ég tók...




Svona standa nokkrir leiðtogar heimsins... ég er nokkuð sátt við skoðanabræður mína!


Prófið er hér ef þú vilt prófa!

Rifrildi

Stundum dett ég í þá gryfju að rífast við fólk sem ég þekki ekki og veit að orðaskipti eru gjörsamlega tilgangslaus. Árangurinn er pirringur, tímasóun og ennþá meiri rígur. Skynsamlegt... eða hitt þó.
**********
Kannski ég ætti að taka áskorun Andreu og bjóða mig fram fyrir Sjálfstæðisflokkinn? Það væri örugglega gaman!

Af súkkulaði og súlustöðum

Tilkynningaskyldan - var í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að fjalla um strippstaði og hvort súludans væri sambærilegt starf við að vinna í banka eða í útvarpi. Vona að þessi umfjöllun á Morgunvaktinni haldi áfram vegna þess að fyrst kom viðtal við Geira í ca 10 mín. Svo kom viðtal við súludansmey, líka í ca 10 mín. Bæði viðtölin afskaplega gagnrýnislaus og virkuðu eins og pjúra markaðssetning á súlustöðum og því sem þar fer fram. Sem mótvægi kom viðtal við mig í morgun - í ca 5 mínútur held ég!!! Vona að Rúna og aðrir sérfræðingar verði kölluð til í framhaldinu.

Annars er það helst að frétta af minni súkkulaðifíkn (sem ég er viss um að margir hafa áhuga á...) að hún er óðum að minnka. Ástæðan? Jú, ég fór að rannsaka barnaþrælkun á kakóbaunabýlum. Niðurstaðan? Algjört ógeð. Nú kaupum við bara lífrænt ræktað súkkulaði á mínu heimili því það er öruggt að engin barnaþrælkun á sér stað við þá framleiðslu eftir því sem mér skilst. Hins vegar hef ég ekki staðist að kaupa mér súkkulaði sósu með ísnum og einstaka sinnum að fá mér ís með dýfu og gotteríi. Svo borða ég líka súkkulaði sem mér er gefið eða í boði annarra. En ég kaupi það ekki sjálf - sem er töluvert stór breyting frá því sem áður var.

Pistillinn minn í Viðskiptablaðinu var um barnaþrælkun í súkkulaðiiðnaðinum. Hér er brot úr pistlinum:


Þrælkuð börn á bak við súkkulaðið okkar
Fyrir nokkrum árum var gerð heimildarmynd um barnaþrælkun á kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni. Þetta var í fyrsta skipti sem flestir Vesturlandabúar heyrðu af því að hugsanlega séu þrælkuð börn vinnuaflið á bak við hið ljúffenga súkkulaði sem við verðlaunum okkur reglulega með. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og neytendur þrýstu á um úrbætur, enda ekki gleðilegt að hugsa um litla þrælkaða drengi við hvern súkkulaðibita. Í Bandaríkjunum var lagt fram frumvarp þess efnis að merkja ætti súkkulaði sem laust við þrælahald að uppfylltum skilyrðum. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Við þetta tóku súkkulaðiframleiðendur loksins við sér því þeir vissu að það væri nánast útilokað að sýna fram á að súkkulaðið þeirra væri ekki framleitt með hráefni sem ætti rætur að rekja í þrælahald.
Iðnaður sem áður hafði kosið að hvorki sjá né heyra neitt illt varðandi hráefnið sitt settist niður með stjórnvöldum, félagasamtökum gegn þrælahaldi og fleiri hagsmunaaðilum og gerðu aðgerðaráætlun um hvernig mætti útrýma barnaþrælkun við framleiðslu á þessu vinsæla sælgæti.

þriðjudagur, september 12, 2006

Mömmugildra

Nú er Reykjanesbær búinn að tilkynna að í boði séu umönnunarbætur fyrir foreldra sem vilja vera heima með börnum sínum frá því að fæðingarorlofi lýkur og leikskóli tekur við. Auðvitað er rangnefni að segja að um sé að ræða umönnunarbætur fyrir foreldra og nær að segja að þetta sé fyrir mömmur því þrátt fyrir kynblindu í orðalagi er fullvel vitað að það eru mömmurnar sem falla í gildruna. Með því að stimpla sig út af vinnumarkaði í 2 ár eiga þær á hættu að sjálfstraustið minnki þannig að erfiðara verður að fóta sig á vinnumarkaði þegar haldið er þangað aftur. Einnig hækka þær ekki í tekjum á meðan sem þýðir að í framhaldinu þegar kemur að ákvarðanatöku á heimilinu um hvort foreldrið vinnur ekki yfirvinnu, fer í hlutastarf og sinnir börnunum og veikum ættingjum meira þá er mamman sjálfgefið val - út frá fjárhagsástæðum og hefðbundnum kynhlutverkum. Þetta hefur síðan aftur áhrif á lífeyrissjóðsréttindi, veikindaréttindi, bætur ef slys skildi bera að höndum, möguleika á starfsframa og þar fram eftir götum. Þessar "fallegu" fjölskylduvænu lausnir eru ekkert annað heldur en partur af bakslaginu - fortíðarhyggjan sem sér fyrir sér hina umhyggjusömu, heimavinnandi húsmóður á fjólubleiku skýi. Vonandi falla sem fæstar mömmur í gildruna.

mánudagur, september 11, 2006

DUI

Fór að kveðja Hildi Fjólu á Næsta bar í gærkvöldi. Þar sem leigubílar eru dýrir í Grafarholtið :( borgar sig að fara á bílnum og sleppa bjórnum á hittingum sem þessum. Þegar ég kom neðst í slaufuna sem liggur frá Bústaðarvegi inn á Miklubraut á heimleiðinni sé ég hvar þar stendur lögga sem veifar mér að stoppa. Ég stoppa og skrúfa niður rúðuna og hann segir að ég verði að taka U-beygju, keyra á móti umferð að lögreglubíl með blikkandi ljósum, taka þar aðra U-beygju og keyra aftur upp á Bústaðarveg. Ég fékk að sjálfsögðu sting í magann því svona lagað þýðir venjulega að slys hafi orðið. Í fréttum í dag sé ég svo að um var að ræða 4 bíla árekstur þar sem 7 slösuðust. Sem betur virðast ekki hafa orðið alvarleg slys á fólki en það útilokar samt ekki að einhver af hinum slösuðu gætu þurft að takast á við afleiðingar það sem eftir er. Sagan endar þó ekki hér. Slysstaðurinn var í hættu staddur þegar ölvaður ökumaður virti ekki stöðvunarmerkið frá góðkunningja mínum - löggunni veifandi. Hann náðist á endanum en alls voru 10 ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur í nótt.

Nú er töluvert síðan ég var fastagestur í miðbænum en mér fannst ekki skemmtilegt að koma út af Næsta bar rétt fyrir kl. 3 og sjá alla ölvunina. Löngunin til að djamma í miðbænum er einhvern veginn alveg horfinn. Eflaust er það aldurinn sem gerir þetta að verkum en það er bara ekki sjarmerandi að stíga út í nóttina og sjá allt morandi í ölvuðu fólki, þreyttu og aumu í fótunum, skjögrandi um... þá er afskaplega mikill léttir að geta sest beint upp í bíl og keyrt af stað. En það er önnur tilfinning sem hreiðrar líka um sig þegar kona sest undir stýri og heldur heim á leið. Sú tilfinning er tilkomin vegna þess að það er vitað mál að á þessum tíma er slatti af ölvuðum ökumönnum í umferðinni og þeir keyra ekki á 40 á Miklubrautinni, Ártúnsbrekkunni... Ég vona að sett verði fjármagn í hert eftirlit í miðbænum - helst svo strangt að enginn keyri út úr miðbænum án þess að blása í blöðru!

laugardagur, september 09, 2006

Er fólk að vakna?

Nú er verið að fjalla um í fréttum að strákurinn sem leitaði upp fórnarlamb til að drepa á netinu og stakk hann svo í bakið af því að hann langaði til að prófa að drepa einhvern hafi verið undir áhrifum ofbeldisfullra tölvuleikja og kvikmynda. Ég er ekki hissa. Las fyrir löngu bókina High Tech - Low Touch og þar er einmitt verið að ræða þessi tengls á milli tölvuleikja og ofbeldisfullrar hegðunar. Það var áhugavert að sjá viðtal í fréttum við Húgó Þórisson sálfræðing þar sem fram kom að nú virðast vera að koma fram þau áhrif sem margir óttast og að þarna sé á ferðinni dæmi um einhvern sem er á fullu í að horfa og í framhaldi af því skapist löngunin til að framkvæma. Þetta er nákvæmlega það sama og sumar kenningar um tengsl á milli klámnotkunar og nauðgunar á konum halda fram. Þ.e. að fyrst sækir áhorfandinn í tiltölulega "saklaust" efni. Eftir smá tíma er það ekki nóg og þá er sótt í aðeins harðara efni og svo koll af kolli þangað til efnið er orðið mjög ofbeldisfullt. Að lokum er það ekki nóg og karlana fer að langa til að prófa sjálfir og leita upp fórnarlömb. Ted Bundy lýsti því að svona hefði hann byrjað. Diana Russell er með flottustu kenninguna sem ég hef séð um tengsl á milli kláms og kynferðisofbeldis. Hún er með margþætta kenningu sem gerir ráð fyrir að ekki sé um bein orsaka og afleiðingartengsl að ræða, þ.e. ekki þannig að allir sem horfi á klám leiðist út á braut kynferðisbrota heldur að margir samverkandi þættir komi við sögu. Einnig líkir hún tengslunum við tengslin á milli reykinga og lungnakrabbameins - ekki fá allir reykingamenn lungnakrabbamein en hættan er vissulega til staðar.

Pointið í öllum þessum pælingum er sem sagt sú að með allri þessari ásókn og framleiðslu á ofbeldisfullum tölvuleikjum og klámi er verið að búa til ofbeldismenn.

Hin eina sanna tík

Jæja - þá er búið að skora á mig á femínistapóstlistanum að fara í framboð. Ég þakka að sjálfsögðu traustið og mikið væri nú örugglega gaman að vera forsætisráðherra! :)

*******
En talandi um pólitík. Áskorunin kom á svolítið skemmtilegum tímapunkti því í morgun var ég pallborðsgestur á landsfundi Ungra vinstri grænna. Þau skipulögðu eins og hálfs tíma pallborð um aukinn ójöfnuð í samfélaginu með áherslu á velferðarmál. Pallborðsgestir voru ég, sem fulltrúi Femínistafélagsins, Sabine sem fulltrúi kvenna af erlendum uppruna og Ögmundur - væntanlega sem Vinstri grænn. Katrín Jakobsdóttir stýrði umræðum af miklum skörungsskap eins og hennar var von og vísa. Það er margt jákvætt að taka þátt í svona pallborði - þó kona þurfi að keyra alla leið til Hveragerðis snemma á laugardagsmorgni! En hér eru nokkrir punktar sem ég tók saman í tilefni pallborðsins:

  • Ofurlaun - Launaójöfnuður hefur aukist stanslaust hér á landi undanfarinn áratug. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem eru á ofurlaunum eru karlar. Það þýðir ekki aðeins að meiri völd færist örfáum á hendur og að stéttskipting aukist heldur líka að meiri völd færast hinum karllægu gildum í hendur.
  • Velferðarkerfið - Ef við skoðum velferðarkerfið þá kemur í ljós að okkur vantar rannsóknir á stöðunni þar. Konur eru fleiri í röðum eldri borgara en karlar, þær eru fleiri á dvalarheimilum, fleiri í hópum tekjulágra og svo framvegis. Hins vegar vantar okkur rannsóknir til að fá að vita nákvæma stöðu en það er alveg ljóst að núna eru konur í hópi aldraðra sem aldrei voru út á vinnumarkaði og njóta þar af leiðandi ekki neinna lífeyrissjóðsgreiðslna heldur fá einungis bætur frá Tryggingastofnun. Þetta er bein afleiðing af kynhlutverkum sem byggðu á fjárhagslegu ósjálfsstæði kvenna.
  • Áherslur í heilbrigðiskerfi – breyttar áherslur þýðir að meiri umönnun færist yfir á heimilin – með öðrum orðum – á konur – því yfirleitt eru það konur sem axla ábyrgð á umönnun þeirra sem á þurfa að halda – hvort sem um er að ræða aldraða foreldra, veika fjölskyldumeðlimi eða börn. Aukin gjöld í heilbrigðiskerfinu – það segir sig sjálft að þau sem eiga minnstan pening koma verst út úr aukinni gjaldtöku fyrir læknaheimsóknir og lyf.
  • Fjölskyldustefna – hér má nefna aukna umræðu um afturhvarf til gamalla tíma, háværar raddir sem segja að ekki sé verið að sinna börnunum og aðgerðir eins og Kópavogur var að boða nú í vikunni sem felast í heimgreiðslum til foreldra. Þó um kynblinda aðgerð sé að ræða í orði þá er hún svo sannarlega ekki kynblind á borði. Það er vitað mál að það eru mæðurnar sem munu verða heima – með tilheyrandi afleiðingum á tekjur, starfsþjálfun og starfsmöguleika og það hefur aftur áhrif á ýmis réttindi eins og lífeyrisgreiðslur og veikindaorlof. Það er ekki að ástæðulausu að aðgerðir sem þessar eru kallaðar “mömmugildran” enda getur þessi valkostur haft afdrífaríkar afleiðingar á þau tækifæri og valkosti sem þeim mömmum sem falla í gildruna býðst það sem eftir er ævinnar.

fimmtudagur, september 07, 2006

Að sjálfsögðu...!

Smellið á fyrstu myndina til að fá þá næstu og svo koll af kolli...

http://kjosa.is/storastundin/

http://kjosa.is/stefnufesta/

þriðjudagur, september 05, 2006

Hittið - mætum við ekki öll?

Undanfarið hafa málefni kvenna af erlendum uppruna verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Hefur þar hæst borið mál tveggja erlendra kvenna sem neitað var um dvalarleyfi hér á landi eftir að hafa komið úr ofbeldisfullum hjónaböndum við íslenska menn. Hnattvæðing og auknir fólksflutningar bera með sér miklar breytingar og ýmis álitaefni koma upp.
Hafa til að mynda vestrænar konur átt möguleika á að bæta stöðu sína í samfélaginu vegna þess að erlendar konur hafa tekið að sér þau störf sem þær unnu áður eins og umönnunarstörf og heimilisstörf? Álita- og siðferðismálin tengd alþjóðavæðingunni eru fjölmörg en fyrsta Hitt Femínistafélags Íslands á þessu starfsári verður helgað þessum spennandi málum.
Hittið verður haldið þriðjudaginn 5. september kl. 20:00 á Thorvaldsen Bar (Bertelstofu). Þar munu feikifróðar konur miðla af visku sinni en það eru
þær:

Silja Bára Ómarsdóttir, forstöðumaður alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem mun fjalla um alþjóðavæðinguna og áhrif hennar á stöðu kvenna.

Tatjana Latinovic, formaður Félags kvenna af erlendum uppruna sem kemur til með að fjalla um stöðuna hér á landi og hvernig okkur er að takast að gera Ísland að fjölmenningarsamfélagi.

Margrét Steinarsdóttir, lögfræðingur hjá Alþjóðahúsi sem ætlar að fjalla um lagalegar hliðar og hvernig mál koma til kasta Alþjóðahúss.

Á eftir erindunum er opnað fyrir umræður þar sem gefst gott tækifæri til að kryfja málin, segja sitt álit og spyrja áleitinna spurninganna.

Hittið er öllum opið og aðgangur er ókeypis.

Kína - best í heimi?

Í dag komu til okkar í heimsókn 12 kínverskir ferðamenn. Við hjá Femínistafélaginu ásamt KRFÍ tókum á móti þeim á Hallveigarstöðum. Ferðamennirnir leyndu á sér því þarna voru á ferð háttsettir opinberir embættismenn frá Guangdong héraði í Kína, þar af 4 varaborgarstjórar. Mestur tími heimsóknarinnar fór reyndar í að tala um stöðuna á Íslandi en við fengum aðeins að heyra um stöðuna í Kína. Einnig fengum við í hendurnar disk með öllu því jákvæða og góða sem gerst hefur í jafnréttismálum í Guangdong síðustu 10 árin. Og viti menn (og konur!) - það er bara heill hellingur. Það er greinilega hægt að gera mikið á stuttum tíma... ;)

Var að enda við að skrifa pistil um heimsóknina fyrir Viðskiptablaðið. Set kannski meira hingað inn við tækifæri en þar sem klukkan er orðin of margt ætla ég að vera skynsöm og fara að sofa - full innblásturs yfir árangursríkum jafnréttisaðgerðum. Og hey - ef Kína getur gert þetta með alla sína milljarða sem búa þar - hverju getum við þá ekki áorkað á litla Íslandi þar sem aðeins þarf að breyta hugarfari 300.000 manns?

mánudagur, september 04, 2006

Karlmennskan uppmáluð?

Hinn eini sanni krókódílamaður, Steve Irwin, lést í gær við tökur neðansjávar. Það var stingskata sem varð krókódílamanninum að aldurtila. Þegar við höfðum aðgang að Discovery horfðum við oft á þættina hans. Steve var þekktur fyrir að leggja sjálfan sig í hættu í umgengni við dýr og því verður að segjast eins og er að eftir að hafa horft á þættina hans þá vorum við ekki hissa á þessum endalokum. Það er stundum talað um gjald karlmennskunnar. Karlmennskuímyndin byggir meðal annars á dirfsku og djörfung - en því miður ekki alltaf með happy ending.

Annars konar karlmennsku mátti sjá á sunnudagskvöldið í Kastljósinu. Þar fór Davíð Oddson á kostum og tjáði sig um hin ýmsu mál. Mér finnst afskaplega gaman hvað Davíð er hreinskiptin upp á síðkastið - þó það sé auðvitað engan vegin viðunandi fyrir seðlabankastjóra. En hey - það er hvort sem er ekki viðeigandi að forsætisráðherra hoppi í sæti seðlabankastjóra til að kljást við afleiðingar af eigin gjörðum. Margt af því sem Dabbi sagði hefði ég nú samt alveg viljað að hefði komið í ljós mun fyrr - þegar hann var á atkvæðaveiðum. Þá hefði verið mjög heiðarlegt af honum að tala opinskátt um eigin karlrembu!

föstudagur, september 01, 2006

Skemmtilegt

Þau sem hafa gaman af skemmtilegum tilvitnunum geta smellt á textann.

Þar má finna ýmislegt - eins og þetta:

Why not choose a less offensive word? "A natural response is to change the word feminist to a word with fewer stigmas attached. But inevitably the same thing will happen to that magical word. Part of the radical connotation of feminism is not due to the word, but to the action. The act of a woman standing up for herself is radical, whether she calls herself a feminist or not."
- Paula Kamen, feminist

Haukur, Chippendales, tikin.is og Femínistafélagið!

Lenti í smá vandræðum fyrir fyrirsögn á þetta innlegg. Ákvað nefnilega að skrifa um Hauk sem skrifaði pistilinn á tíkin.is. Fyrsta sem mér datt í hug var "Haukur og tíkin" og síðan "Haukur á tíkinni". Fínt að endurheimta nafnið tíkin - en það verður að segjast eins og er að stundum er smá vandræðagangur í kringur nafnið...

En allavega - einhvern tímann skammaðist ég út í það hér að Haukur hefði skrifað pistil á tikin.is þar sem hann gerði FÍ upp skoðanir í kringum komu Chippendales. Stend nú enn við það að þær skoðanir sem hann setur fram í pistlinum eru ekki skoðanir FÍ en... komst að því áðan þegar ég fór að fara yfir femínistafélagspóstinn að hann reyndi að hafa samband við okkur. Hann fær nú kredit fyrir það blessaður!

Af hverju er þetta ekki í fréttum?

Úr frétt í Fréttablaðinu 31. mars 2006 (tekið af visir.is):

"Marteinn Jónasson fékk næstþyngsta dóminn, tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og 68,9 milljón króna sekt."

Finnst engum skrýtið að í allri fjölmiðlaumfjölluninni um nýja eigendur Fróða sé ekki minnst á þetta í fréttum?

Síðasti frídagurinn

Um daginn tókst mér að brenna mig þrisvar við að elda einn lítinn kjúkling. Er ekki rökrétt að draga þá ályktun af því að eldamennska sé ekki kvenmannsverk?

Var annars einstaklega heppin í dag. Ákvað að skilja kreditkortið mitt eftir á bílaplaninu fyrir utan Odda og viti menn - það var enn á sínum stað 2 tímum seinna!

Hvað finnst ykkur um uppreisn æru Árna? Ég er enn ekki að skilja af hverju ekki var beðið eftir forsetanum. Það lúkkar einhvern veginn svo hrikalega illa þegar 2 af 3 æruhreinsurum eru háttsett í flokknum hans Árna...

Í dag var annars síðasti dagurinn af fríinu. Mínu lauk eiginlega fyrir viku þegar við komum heim úr Hrísey en við erum samt búin að ná að gera slatta í húsinu þessa vikuna. Þó ekki nóg og vonandi kemur enginn í heimsókn því við erum að endurraða í geymslukössunum - sem þýðir auðvitað að fyrst þurfti að dreifa öllu dótinu í tröppurnar og athuga hvort ekki væri hægt að dúkaleggja gólfið á neðri hæðinni með því. Það tókst ljómandi vel en ekki er það komið inn í geymslu svo aðkoman er falleg!

Og að lokum ein uppljóstrun - Hittið verður í næstu viku! Þriðjudagskvöldið :) Sjáumst þá.