laugardagur, september 16, 2006

Enn meira af tölvuleikjum

Ok. Búin að lesa linkinn frá þér Spörri - ágætis grein. Ég fer samt ekki ofan af því að sumir tölvuleikir eru alls ekki barnaefni - og mér sýnist greinahöfundur alveg vera sammála mér í því þó hann geri sitt besta til að fegra ástandið þess á milli. Allavega skammast hann út í að meirihluti leikja sem bannaðir eru fyrir börn séu keypt af foreldrum (með eða án barna sinna).

Annars finnst mér rökin í kringum áhrif kláms og ofbeldisfullra tölvuleikja oft svipa saman. Þeir sem vilja afneita áhrifum benda oft á að ekki finnist bein orskök - afleiðing tengsl á milli. En þó tengslin séu ekki bein þá geta þau samt verið til staðar. Diana Russell útskýrir þetta vel í sinni kenningu - áhrifinum má líkja við t.d. reykingar og lungnakrabbamein. Það fá ekki allir reykingamenn lungnakrabbamein - en sumir fá krabbann sem afleiðing af reykingum. Það sama á við um klámið og ofbeldisfullu tölvuleikina. Hvorugt þarf að vera eini orsakavaldurinn - en sett saman með öðrum breytum þá hefur þetta skelfileg áhrif á suma. Ég held líka að við afneitum áhrifunum of mikið. Okkur finnst þægilegra að tala um að þetta hafi ekki áhrif því þá þarf heldur ekki að neita sér eða börnum eða öðrum um neitt... né díla við það heldur. En það eru nokkur atriði í greininni sem ég hnaut um. T.d. þetta:
If there is a consensus emerging around this research, it is that violent video
games may be one risk factor - when coupled with other more immediate,
real-world influences — which can contribute to anti-social behavior. But no
research has found that video games are a primary factor or that violent video
game play could turn an otherwise normal person into a killer.

Fyrri parturinn svo sem í lagi - en síðasta setningin er umdeild og alls ekki allir á sama máli og þessi gaur. Ég hef líka séð niðurstöður sem sýna aukna hörku í ofbeldi þar sem börn halda að hægt sé að kýla, sparka og gera guð má vita hvað án þess að átta sig á afleiðingunum og talað við fólk sem hefur unnið með börnum og séð þessi áhrif þar. Tölvuleikir (og sjónvarpsefni) er nefnilega oft á tíðum ekki að birta mynd af raunveruleikanum því lifandi persónur og tölvuleikjapersónur þola ofbeldi alls ekki jafnvel eða í sama mæli. Lifandi persónur eiga þar að auki bara eitt líf... Margt annað sem hann talar um stenst heldur ekki - tölvuleikjafíkn er t.d. búin að vera í umræðunni undanfarið og þar eru áhrifin á sósíal lífið neikvæð - enda ekki sami hluturinn að geta haft samskipti í gegnum tölvu og í eigin persónu.

En hvað um það. Öllu frelsi fylgir ábyrgð. Ég sé engan tilgang í að börn séu að leika sér að því að drepa mann og annan, nauðga konum og hoppa í blóðpollum. Það er enginn undirbúningur fyrir lífið fólginn í því - og mér finnst skrýtið þegar það er talað um það sem skaðlegt að börn séu ekki kynnt fyrir þessu á unga aldri... Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Í grundvallaratriðum er ég sammála. Ég gæti þess hvað börnin mín horfa á, hvaða leiki þau leika sér í. Ég treysti ekki self-rateing heldur skoða hlutina sjálfur, og ég reyni að ræða þetta við þau. Segja þeim af hverju ég vil ekki að þau horfi á ákveðna hluti, að mér finnast ákveðnir leikir ljótir og ekki fyrir þau. Þetta er að mínu vitu hluti af því að vera foreldri, að vita hvað börnin þín gera. Þetta er ekki eitthvað sem nefnd út í bæ getur ákveðið fyrir mig. Sama og með kvikmyndir ég er mjög langt frá því sammála eftirliti hvernig eigi að flokka kvikmymyndir. (of mikið ofbeldi, samkynhneigð hættuleg, það er áhugaverð mynd í sýningum usa um málið bíð spenntur eftir henni.

En þetta er fyrir mér uppeldislegt atriði, ég vil vernda börnin mín fyrir ákveðnum hlutum sem mér finnst að eiga ekkert erindi til þeirra. Ég trúi því tæplega að tölvuleikir og sjónvarspefni hafi varanleg áhrif á hegðun. Ég hef lesið talsvert af þessum rannsóknum og fyrir mér sýna þær á endanum að menn geta sagt sögur (sem bækur, tölvuleiki, kvikmyndir) sem hafa áhrif á fólk. Ef þú tengist efninu, hefur áhuga á að sökkva þér í það þá mun það hafa áhrif á þig tilfinningalega, en ekkert hefur sýnt að það hafi bein varanleg áhrif á hegðun.

Þetta er það sama og umræðan um börn og sykur. Sykur hefur ekki bein áhrif á hegðun, það hefur verið margsannað í rannsóknum. Hópur af börnum í afmæli sem borða léttan mat og drekka gos (ekki kók, koffín er örfandi) mundu leika sér, hafa hátt og þykja gaman. Ef þau borðuðu þungan mat færi leikurinn öðruvísi fram.

Ef þarna væri beint orsakasamband á milli þá væri hægt að mæla það á einfaldan máta, eins og með reykingarnar og lungnakrabbann. Reykingar auka líkur á lungnakrabba, aðrir umhverfis og erfðaþættir minnka þær. Eftir það er hver sígarettupakki ný umferð í rússneskri rúllettu. En tengingin með ásókn í klám eða ofbeldi eru fylgnisambönd, það að draga ályktanir um orsakasamband út frá fylgni er varhugavert. Venjulegast eru um marga mismunandi þætti að ræða en ekki skýrt orsakasamband. Ég mun amk ekki óttast að sonur minn sé að skaða sig varanlega ef ég sé hann fara að spila Grand Theft Auto í ofurofbeldisham, en ég mundi ræða við hann til að athuga hvort að hann væri að nota leikinn sem útrás fyrir reiði eða vanmáttarkennd.

Nafnlaus sagði...

Hæ frænka
Hef ekki sellur í 40 stiga hita til að kommenta neitt gáfulegt á þetta í bili . Vildi bara kasta á þig kveðju og svo verðum við nú að hittast þegar ég kem heim um jólin, ok?

katrín anna sagði...

Já frænka við verðum að hittast um jólin. Ég var alltaf á leiðinni að hringja í þig í sumar - frétti svo að þú yrðir áfram á landinu svo ég var ekkert að stressa mig og næsta sem ég vissi var að þú varst komin út... svona líður tíminn...

*******
Spörri - og ég er alveg sammála þér í því að þessi rating system geta verið léleg en það gæti samt verið baráttunnar virði að reyna að breyta þeim - frekar en að hafa ekkert í höndunum til að fara eftir. Það kunna ekki allir foreldrar á tölvu eða gefa sér ekki tíma til að hella sér ofan í hlutina og þá getur verið gott að fá hjálp. Auðvitað er það alveg út úr kortinu að setja samkynhneigð sem eitthvað neikvætt í bíó (eða tölvuleikjum). Kynlíf á heldur ekki að vera neitt tabú - en er ekki endilega barnaefni + oft slatti af sexisma í því sem er ágætt að geta brugðist við... Einn gallinn á kerfum eins og t.d. PEGI að þar er allt kynlífstengt efni og nekt sett undir einn og sama hattinn.

Sýndist á linknum sem þú sendir að myndin Boys don't cry hefði verið sett út í kuldann af einhverju svona kerfi - sem er hræðilegt því þarna er frábær mynd á ferðinni.