laugardagur, september 09, 2006

Hin eina sanna tík

Jæja - þá er búið að skora á mig á femínistapóstlistanum að fara í framboð. Ég þakka að sjálfsögðu traustið og mikið væri nú örugglega gaman að vera forsætisráðherra! :)

*******
En talandi um pólitík. Áskorunin kom á svolítið skemmtilegum tímapunkti því í morgun var ég pallborðsgestur á landsfundi Ungra vinstri grænna. Þau skipulögðu eins og hálfs tíma pallborð um aukinn ójöfnuð í samfélaginu með áherslu á velferðarmál. Pallborðsgestir voru ég, sem fulltrúi Femínistafélagsins, Sabine sem fulltrúi kvenna af erlendum uppruna og Ögmundur - væntanlega sem Vinstri grænn. Katrín Jakobsdóttir stýrði umræðum af miklum skörungsskap eins og hennar var von og vísa. Það er margt jákvætt að taka þátt í svona pallborði - þó kona þurfi að keyra alla leið til Hveragerðis snemma á laugardagsmorgni! En hér eru nokkrir punktar sem ég tók saman í tilefni pallborðsins:

  • Ofurlaun - Launaójöfnuður hefur aukist stanslaust hér á landi undanfarinn áratug. Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem eru á ofurlaunum eru karlar. Það þýðir ekki aðeins að meiri völd færist örfáum á hendur og að stéttskipting aukist heldur líka að meiri völd færast hinum karllægu gildum í hendur.
  • Velferðarkerfið - Ef við skoðum velferðarkerfið þá kemur í ljós að okkur vantar rannsóknir á stöðunni þar. Konur eru fleiri í röðum eldri borgara en karlar, þær eru fleiri á dvalarheimilum, fleiri í hópum tekjulágra og svo framvegis. Hins vegar vantar okkur rannsóknir til að fá að vita nákvæma stöðu en það er alveg ljóst að núna eru konur í hópi aldraðra sem aldrei voru út á vinnumarkaði og njóta þar af leiðandi ekki neinna lífeyrissjóðsgreiðslna heldur fá einungis bætur frá Tryggingastofnun. Þetta er bein afleiðing af kynhlutverkum sem byggðu á fjárhagslegu ósjálfsstæði kvenna.
  • Áherslur í heilbrigðiskerfi – breyttar áherslur þýðir að meiri umönnun færist yfir á heimilin – með öðrum orðum – á konur – því yfirleitt eru það konur sem axla ábyrgð á umönnun þeirra sem á þurfa að halda – hvort sem um er að ræða aldraða foreldra, veika fjölskyldumeðlimi eða börn. Aukin gjöld í heilbrigðiskerfinu – það segir sig sjálft að þau sem eiga minnstan pening koma verst út úr aukinni gjaldtöku fyrir læknaheimsóknir og lyf.
  • Fjölskyldustefna – hér má nefna aukna umræðu um afturhvarf til gamalla tíma, háværar raddir sem segja að ekki sé verið að sinna börnunum og aðgerðir eins og Kópavogur var að boða nú í vikunni sem felast í heimgreiðslum til foreldra. Þó um kynblinda aðgerð sé að ræða í orði þá er hún svo sannarlega ekki kynblind á borði. Það er vitað mál að það eru mæðurnar sem munu verða heima – með tilheyrandi afleiðingum á tekjur, starfsþjálfun og starfsmöguleika og það hefur aftur áhrif á ýmis réttindi eins og lífeyrisgreiðslur og veikindaorlof. Það er ekki að ástæðulausu að aðgerðir sem þessar eru kallaðar “mömmugildran” enda getur þessi valkostur haft afdrífaríkar afleiðingar á þau tækifæri og valkosti sem þeim mömmum sem falla í gildruna býðst það sem eftir er ævinnar.

Engin ummæli: