fimmtudagur, mars 30, 2006

Jafnréttisstefna Hugsaðu

Ég er búin að ákveða að vera til fyrirmyndar og útbúa jafnréttisstefnu fyrir Hugsaðu ehf. Lögin segja að fyrirtæki með 25 eða fleiri starfsmenn eigi að útbúa jafnréttisstefnu en ég ætla að prófa að búa til stefnu fyrir eins manns(konu) fyrirtæki! Kostirnir eru að það verður mjög auðvelt að fá ALLA starfsmenn með í ferlið. Spurning hvort að ég reyni að virkja stjórnarformanninn með í ferlið til að fá auka input? Svo verður gaman að sjá hvernig forgangsröðunin verður - er það ekki alltaf þannig að verkefni sem eru ekki útseld sitja á hakanum? Ég birti allavega stefnuna á vefnum þegar hún verður tilbúin.

Flóknast verður eflaust svarið við spurningunni sem Haukur úr Frjálshyggjufélaginu spurði mig þrisvar sinnum að í Kastljósþætti 2003 varðandi forgangsreglu jafnréttislaga - ef mig langar til að ráða vinkonu mína í vinnu... hvað þá?

Dagurinn í dag

Var mætt stundvíslega kl. 8 í Kvennagarð á hluthafafund hjá Verunum. Varð svolítið pirruð yfir því að þurfa að hringja bjöllunni 10 sinnum án þess að okkur væri hleypt inn. Komst að ástæðunni 5 mín seinna - fundurinn er í næstu viku! En jæja, við Grétar náðum að gera megnið af skattaskýrslunni í staðinn. Lúxus að vera með engin kaup og sölu á eignum, enga húsbyggingaskýrslu eða neitt sem flækir málin. Nú vorum við enga stund að gera skýrsluna!

Fór á fund klámvæðingarnefndar á vegum landlæknis með sýninguna Afbrigði af ótta sem staðalímyndahópur FÍ var með í Nýlistasafninu haustið 2003. Það var ekkert sérlega skemmtilegt að skoða sýninguna aftur - verður að segjast eins og er að hún er frekar ógó. Það væri áhugavert að gera svona úttekt aftur í dag og skoða hvort það er einhver munur á því sem verið er að linka á af vinsælustu vefsetrunum.

Náði svo loksins að fara með Betu í kaffi... tími til kominn :) Settumst niður á Alþjóðahúsinu og fengum okkur falafel. Það er alltaf jafngott. Svo var ráðsfundur beint á eftir. Sá lukkaðist ljómandi vel - vorum ansi afkastamikil + við náðum að spjalla heilmikið. Ákvaðum að prenta nýja boli - auglýsi hér með eftir góðum slagorðum! :)

Sá þegar ég kom heim að KR málið hefur verið meira í fréttum. Nú er ég ánægð með borgarstýruna. :) Las svo inn á spjallvef KR Reykjavík að svipaðar uppákomur hefðu verið á sameiginlegu perrakvöldi Víkings og ÍBV sem og hjá HK... Eitt stk tölvupóstur getur komið ýmsu af stað.

En það var fleira í fréttum. Eftirfarandi frétt var á RUV:

Starfsfólk elliheimila fer sér hægt í dag
Starfsmenn elli- og hjúkrunarheimila í Reykjavík, Hafnarfirði og í Hveragerði fara sér hægt við vinnu í dag. Samtals um 900 starfsmenn vilja með aðgerðunum vekja athygli á launakröfum sínum.Lægstu laun starfsmanna á elli- og hjúkrunarheimilum eru um 100.000 krónur á mánuði. Starfsmenn á Hrafnistu í Reykjavík, Hrafnistu í Hafnarfirði og á Vífilsstöðum í Garðabæ, Skógarbæ og Sunnuhlíð og á Ási í Hveragerði, reyna að stilla sig um að vinna nema nauðsynlegu störf í dag. Af þeim 900 sem vinna á elli- og hjúkrunarheimilunum er aðeins um 1% karlar. Rannveig Gunnlaugsdóttir, sem starfar á Hrafnistu í Hafnarfirði, segir að starfsfólkið mæti skilningi, enda launin lág.

Lýsi hér með yfir stuðningi við starfsfólkið! Finnst þetta megagott. Vona að þau fái kauphækkun - enda er starfið erfitt og launin sorglega lág.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Draumur í dós?

Ég er löngu komin á þá skoðun að álver er ekki draumur í dós, eins og sumir halda. Þess vegna fjárfesti ég í bókinni Draumalandið eftir Andra Snæ Magnason í dag. Þrátt fyrir að ég sé sífellt að átta mig betur og betur á að mannkynið er í raun að drepa jörðina þá hef ég aldrei sett mig almennilega inn í umhverfismálin - bara rétt skimað yfirborðið. Umhverfisfemínisminn sem var kenndur í Kenningum í kynjafræði við HÍ þótti mér samt áhugaverður og var eye-opener að mörgu leyti. En mig hefur vantað að stíga skrefið til fulls. Lestur Draumalandsins verður tilraun til að bæta þar úr. Vonandi verð ég síðan geðveikislega dugleg við að kaupa umhverfisvænt þvottaefni, endurvinna og spara bílinn. Held það eigi við hér sem sagt er í business: Stærstu mistökin eru gerð á tímum góðæris - og nú er góðæri hjá Vesturlöndum sem birtist í taumlausri neysluhyggju með tilheyrandi sóun á auðlindum.

Það er kalt

Fréttastofa RUV hringdi í dag og bað mig um að koma í viðtal vegna KR - sum mál hafa tilhneigingu til að vinda upp á sig... Þórdís fréttakona hafði frétt af póstinum á póstlista Femínistafélagsins. Í dag og í gær er ég búin að fylgjast með umræðu um málið inn á www.hugsjón.com og inn á spjallsvæði KR Reykjavík. Það er leiðinlegt hvað mörgum finnst þetta ekkert tiltökumál - og í raun bara frábært. Sem betur fer heyrist þó í einhverjum sem eru á annarri skoðun líka. Ég er búin að vera á báðum áttum hvort mér finnist sú athygli sem málið fær góð eða slæm. Komst fyrir rest að þeirri niðurstöðu að auðvitað á KR að vera ábyrgt fyrir eigin gjörðum og bara fínt að þetta fái opinbera umræðu. Vona svo bara að jafnréttismálin verði sett ofarlega á blað hjá KR í kjölfarið.

Fór í morgun og fylgdist með 10 - 12 ára krökkum í frímínútum sem part af skólaverkefni. Var að fylgjast með hvernig kynin leika sér. Það var áhugavert og gaman. Týpískt þó að daginn sem ég þarf að standa úti í næstum því hálftíma þá er ekki bara kalt heldur skítkalt! Er ennþá að ná úr mér hrollinum en samt var ég í eskimóaúlpunni minni. En það var gaman að sjá að það var eitthvað um það að strákar og stelpur voru að leika sér saman. :) Skrifa kannski meira um þetta seinna þegar verkefnið er búið - og niðurstöður komnar.

Enn af KR

Þá er ég búin að fá ályktunina frá aðalstjórn KR út af "herrakvöldinu." Hún er svohljóðandi:
Aðalstjórn KR hefur ekki eftirlit með skemmtikvöldum á vegum deilda og var því ekki kunnugt um dagskrá herrakvölds KR þann 17. mars. Aðalstjórn þykir miður að slíkt atriði hafi farið fram í húsakynnum félagsins. Félagið mun í framtíðinni beina þeim tilmælum til leigutaka að virða gildi KR um jafnrétti og virðingu fyrir einstaklingnum.

Aðalstjórnin frá KR fær prik fyrir þetta. Ályktunin hefði þó alveg mátt vera afdráttarlausari. Hvað ef leigutakar virða ekki tilmæli aðalstjórnar? Það verður bara að koma í ljós... ég er aðeins búin að skoða umræðurnar á vef KR um þessa uppákomu. Sitt sýnist hverjum: http://www.krreykjavik.is/?kr=spjall&yid=509.

Pistillinn í Viðskiptablaðið er að þessu sinni tengdur KR, íþróttum og jafnrétti!

sunnudagur, mars 26, 2006

Stór dagur

Stór dagur í dag! Systir mín á afmæli, nýja lógóið kynnt og nú er vefurinn kominn í loftið!

Heimasíða Hugsaðu ehf

tatatata... nýtt lógó!


Jæja, þá er loksins komin niðurstaða úr lógópælingum... takk öll fyrir að skoða og kommenta - og síðast en ekki síst fyrir að hafa skoðun. Vona samt að þið verðið ekki ósátt við valið - það valdi enginn útgáfuna hér á blogginu... En hún er reyndar lítillega breytt - kannski það geri gæfumuninn ;)

Þetta er búið að vera sæmilega hausverkjavaldandi! Beta og Grétar höfðu mest að segja um valið - voru hörð á því að þessi útgáfa væri best - og eftir smá lagfæringar varð þessi best - held ég. :)

Ástæðan fyrir valinu: ákveðið var að búa til lógó sem væri frekar conservatíft - en ekki of róttækt - þess vegna eru ekki sterkari litir eða "villtara" lógó. Stafagerðin má heldur ekki taka of mikið frá myndinni - og það er stærsta ástæðan fyrir því að þessi stafagerð er valin. Er sjálf hrifin af sérstæða g-inu en sú tillaga varð samt sem áður undir vegna þess að stafirnir mega ekki verða að sjálfstæðu lógói.

Já - og lógóhönnuðurinn - Sóley Stefáns, femínískur hönnuður! Ætli það sé ekki best að bögga hana með vefsíðu næst svo hægt sé að fá pró lúkk á hana!

föstudagur, mars 24, 2006

Alltaf einhver 1

Í fyrra gat fjölskyldan mín ekki áttað sig á hver einn einstaklingurinn væri í fermingarþraut Moggans. Svo leið tíminn og engin okkar hafði rænu á að tékka á lausninni mörgum vikum seinna... enda líður allt of langur tími á milli þess að rétt svör birtast!

Í ár er staðan aftur svona. Það er ein manneskja sem við föttum ekki hver er. Giskum helst á Elínu Hirst eða Ólínu Þorvarðar! Hver er konan nr 6 í fermingarþraut Moggans??????

Enn meira lógó


Jæja, þá er lógóið að þróast - en ákvörðun ekki komin ennþá. Sá á kvölina sem á völina. Niðurstaðan úr fyrra hollinu var að lágstafir væru betri en hástafir en að letrið sem var passaði ekki nógu vel við lógóið sjálft. Svo hér er þetta komið með nýju letri... Hvað finnst ykkur flottast?

fimmtudagur, mars 23, 2006

Að spinna eða vefa!

Þá er ég búin að sitja stíft við tölvuna í allan dag - í lógópælingum og vefsíðuhönnun. Segi sem er að það væri ljúft að eiga sand af seðlum og geta sett þetta í hendur fagaðila!!!! En ný vefsíða ætti að líta dagsins ljós fljótlega. Námsstefnan um auglýsingar og markaðsmál sem ég er að skipuleggja í samstarfi við KOM og Ímark reyndist vera hvatinn á bak við yfirleguna í dag! Nú styttist í stóra daginn - 5. apríl.

Spegill, spegill herm þú mér...Er ekki tilvalið að nýta bloggið til að fá álit á hinum og þessum mikilvægum málum? Til dæmis - hvor útgáfan af lógóinu er flottari?
Athugasemdir vel þegnar.

miðvikudagur, mars 22, 2006

KR KR KR

Jæja, búin að tala við Ingó vin minn hjá KR. Virðist sem félagið ætli að taka á þessu á ábyrgan hátt! Vei :)

Klámhundafélagið KR

Gras.is auglýsti á sínum tíma:
KLÁM OG BOLTI...ÞETTA ER ALLAVEGA BYRJUNIN

KR virðist vera 100% sammála þessu. Á herrakvöldinu síðasta föstudag var félagið með uppboð á treyjum knattspyrnumanna. Mér skilst að sumar þeirra hafi verið áritaðar. Uppboðið fór þannig fram að konur frá Goldfinger birtust í salnum - íklæddar treyjunum og naríum einum fata. Þegar treyja var seld fór konan fyrir framann kaupandann og klæddi sig úr treyjunni. Gerði síðan heiðarlega tilraun til að staulast út úr salnum sem var þéttskipaður 400 karlmönnum.

Hefur einhver talað um íþróttir = góðar fyrirmyndir? Sá hinn sami er varla KR-ingur!

þriðjudagur, mars 21, 2006

Sætasti ráðherrann eða bara eitthvað sem kona sættir sig við?

Ráðherra gervijafnréttismála (öðru nafni utanríkisráðherra) í kvöldfréttum NFS 18.3.06:
Maður fær ekki alltaf það sem maður vill og þá verður maður að vinna úr því sem maður þá fær í staðinn. Maður getur ekki alltaf farið með sætustu stelpunni heim af ballinu en stundum kannski eitthvað sem gerir sama gagn.
Það er voðalega freistandi að búa til lista yfir hvað þetta eitthvað er... en læt nægja að "grínast" með að stundum er hæfasti maðurinn í djobbið kona!

laugardagur, mars 18, 2006

Sorrý Patrekur

Leikhúsferð og Patreki fórnað fyrir framkvæmdir - en loksins loksins er búið að mála neðri hæðina :) Þá á bara eftir að draga í rafmagnið, finna gólfefni, gardínur, hreinsa út úr bílskúrnum - mála hann og græja, koma geymslunni í stand og þá er kannski hægt að færa dótið af gestaklóinu og aukageymslunni og og og og... en, eins og ég hef alltaf sagt - þetta er 10 ára plan. Sófinn og skrifborðið hennar Rósu kemst allavega inn í nýmálað rýmið!

þriðjudagur, mars 14, 2006

Vildi ég væri...

...forsætisráðherra! Það dytti engum í hug í minni ríkisstjórn að gera vatn að einkaeign.

Líst annars ágætlega á Glitnis nafnið. Finnst það flott. Líst ekki eins vel á geisladiskinn sem þau sendu mér í tilefni nafnabreytingarinnar. 8 lög samtals - þar af 4 eða 5 flott lög. Einn flytjandi er kona, allt hitt karlar. Allir aðrir nafngreindir aðstandendur laganna eru karlar. Lagið með Ragnheiði Gröndal er langflottast - þó Baggalútur slagi langleiðina þangað upp líka. Kynjahlutfallið á disknum er eflaust útpælt og á væntanlega að endurspegla stjórnendalið bankans. Finnst Grýlurnar og Dúkkulísurnar hafa verið illa sniðgengnar - svo ég tali nú ekki um Siggu Beinteins, Emilíönu Torrini og Björk!

Kynjaðar fréttir

Í mogganum áðan var frétt um rannsókn sem sýndi að áhugasvið kynjanna í vísindum og tækni væru ólík. Einhver breskur prófessur sagði að það gæfi tilefni til að íhuga kynskipta kennslu í skólum. Þoli ekki svona fréttir. Fór af því tilefni og skoðaði rannsóknina. Styrkti mig enn frekar í því að það er rétt að þola ekki svona fréttir. Hey - rannsóknin var meðal annars gerð hér á landi. Til heil BA ritgerð um niðurstöðurnar.

mánudagur, mars 13, 2006

Með allt á hreinu

Hitti skemmtilegan þriggja ára gutta á Toyota verkstæðinu í dag.

Guttinn: Veistu hvað litli bróðir minn heitir?
Ég: Nei.
Guttinn: Hann heitir Brynjólfur. Veistu hvað pabbi minn heitir?
Ég: Nei.
Guttinn: Hann heitir Jens. Veistu hvað mamma mín heitir?
Ég: Nei.
Guttinn: Hún heitir Guðrún.
Ég: Já, en hvað heitir þú?
Guttinn: Ég heiti Spiderman!!!!

Sterku sjálstæðu konurnar og þægu konurnar

Þetta er greinin sem ég skrifaði í nemendablað KHÍ. Skrifaði og sendi greinina áður en ég sá miðann...

Hvar er sterka, sjálfstæða konan?
Íslendingasögurnar eru sneisafullar af sögum af sterkum, sjálfstæðum íslenskum konum. Þetta voru kvenskörungar sem létu ekki bjóða sér neitt kjaftæði heldur stóðu fast á sínu. Ég sakna þessara kvenskörunga oft í dag þegar svo virðist sem klámvæðingin sé að yfirtaka flest vígi. Það er einhvern veginn eins og konur sætti sig bara við þetta undirgefna hlutverk og séu jafnvel hæstánægðar með það.

Bakslag í jafnréttisbaráttunni
Klámvæðingin er ekki það sama og klám en fyrirbrigðin eru tengd. Í klámvæðingunni er myndmáli klámsins smeygt inn í daglegar athafnir okkar. Stundum á lúmskan, óljósan hátt en stundum þannig að það blasir beint við að verið sé að nota líkingar úr klámi. Eitt augljósasta dæmið um klámvæðingu eru tónlistarmyndbönd þar sem algengt er að sjá fullklædda karlkyns tónlistarmenn skreyta sig með fáklæddum ungum konum í eggjandi dansi. Í klámvæðingunni eru send skýr skilaboð til kvenna um þeirra hlutverk í samfélaginu. Það virðist sem klámvæðingunni vaxi ásmegin í sama hlutfalli og konur hasla sér völl á öðrum sviðum samfélagsins. Eftir því sem konur öðlast meiri menntun, komast í fleiri stjórnunarstöður, eignast meiri peninga, verða sjálfstæðari – því sterkari verður klámvæðingin. Því má líta á klámvæðinguna sem bakslag í jafnréttisbaráttunni. Klámvæðingin er andsvar við sjálfstæðu konunni. Klámvæðingin og útlits- og æskudýrkun haldast í hendur við að telja konum trú um að þeirra eftirsóknarverðustu eiginleikar felist í hversu kynferðislega aðlaðandi þær eru í augum hins kynsins. Það fer heldur ekki á milli mála að það þykir ekki kynferðislega aðlaðandi að vera sjálfstæð, vel menntuð eða í áhrifastöðu. Skilaboðin í klámvæðingunni sýna svart á hvítu að undirgefni er það sem blívur. Konur eru hlutgerðar og smættaðar niður í líkamlega eiginleika sína. Manneskjan skiptir harla litlu máli eða afrek á öðrum sviðum.

Þægustu konurnar
Það sorglegasta er að það virðist ganga ansi vel að telja konum trú um að það að gangast klámvæðingunni á hönd sé eftirsóknarvert hlutverk. Konum er talin trú um að með því að bera sig sýni þær sterka sjálfsmynd og ánægju með líkama sinn. Í rauninni er það svo að kona sem er ánægð með líkama sinn þarf ekki utanaðkomandi staðfestingu. Hún þarf ekki á því að halda að bera hann til að öðlast aðdáun og hrós frá öðrum. If you got it – why not flaunt it? Heyrist stundum sagt – en samt þykir engum töff að sofa sér leið á toppinn.

Í bókinni Female Chauvinist Pigs, eða kvenkyns karlrembur, eins og hún útleggst á íslensku, er farið yfir þátttöku kvenna í klámvæðingunni. Höfundurinn, Ariel Levy, kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að konur telji að þær öðlist völd og virðingu í gegnum þátttöku í klámvæðingunni sé reyndin allt önnur. Þátttaka í klámvæðingunni er ávísun á áframhaldandi stöðu kvenna sem undirgefna og þæga kynið. Þátttaka karla í klámvæðingunni er síst minni en kvenna, enda hvetja þeir margir hverjir konur til að taka þátt og verðlauna þær þægustu með yfirgengilegu hrósi.

Til að eiga möguleika á að sporna gegn klámvæðingunni þarf fólk að vera meðvitað um birtingarmyndir hennar og afleiðingar. Undanfarið hafa birst fjölmörg dæmi um hvernig klámvæðingunni er að takast að smeygja sér inn á ólíklegustu staði. Fyrir jólin var auglýst ball fyrir nemendur þriggja háskóla þar sem auglýsingaplakat var myndskreytt með konu á undirfötum. Aðstandendur jólaballsins fengu áminningu frá rektor Háskóla Íslands þar sem þeim var bent á að umrædd auglýsing stangaðist á við jafnréttisstefnu skólans. Nýlega auglýstu ungir drengir tónleika sína með slagorðinu “Rape Time” eða “Tími til að nauðga.” Hið 8 ára gamla barn, Solla stirða, var kosin 8. kynþokkafyllsta kona landsins á Rás 2. Hefði það viðgengist þegjandi og hljóðalaust fyrir 10 árum að barn væri á lista yfir kynþokkafyllstu konurnar? Nýjasta dæmið er síðan tilefni þessa pistils – upphaflegt árshátíðarplakat Kennaraháskóla Íslands. Þar gat á að líta fullklæddan karlkyns kennara og tvær fáklæddar námsmeyjar. Myndin er augljóslega hluti af klámvæðingunni og margvíslegar tengingar í klámið. Það er einnig hægt að lesa tengingar í barnaklám í myndinni. Önnur stúlkan er í pilsi sem minnir á skólastelpubúninga og hin er að leika sér með tyggigúmmí. Umhverfið er skólastofan og kennaranemar ættu að þekkja valdatengslin á milli kennara og nemenda. Hin forboðna fantasía í kláminu – karlkyns kennarinn og skólastelpurnar – birtist ljóslifandi á plakatinu. Í ofanálag eru stúlkurnar brosandi. Þetta er þeim greinilega ekki á móti skapi og látið er líta þannig út að þær séu við stjórnvölinn í skólastofunni en ekki kennarinn. Plakatið smellpassar inn í skilgreiningar á klámvæðingunni þar sem myndmál klámsins smeygir sér inn í hversdagslífið og okkur er talin trú um að í þessu felist völd og eftirsóknarvert hlutverk kvenna. Með öðrum orðum er verið að selja konum þá hugmynd að það sé eftirsóknarvert að vera kynlífshjálpartæki karla. Körlum er jafnframt seld sú hugmynd að konur njóti þess að vera vegnar og metnar út frá líkamlegum eiginleikum einum saman. Nú er ég nokkuð viss um að aðstandendur plakatsins hafi ekki ætlað sér að vera með ofangreindar tilvísanir, sérstaklega ekki í barnaklámið. En þær eru engu að síður til staðar og sýna vel fram á mikilvægi þess að vera meðvituð um birtingarmyndir klámvæðingarinnar. Mistök eins og þessi eiga ekki að eiga sér stað hjá tilvonandi kennurum.

Ábyrg viðbrögð
Kennarar bera mikla ábyrgð á framtíðarkynslóðum og það er nauðsynlegt að kennaranemar reyni að átta sig á því hversu gegnumsýrt okkar samfélag, og þar af leiðandi okkar hugsun, er orðin af klámvæðingunni. Í tilfelli Kennaraháskólans skilst mér að tekin hafi verið ákvörðun um að skipta út plakatinu og fjarlægja stúlkurnar af myndinni. Það verða að teljast ánægjuleg og ábyrg viðbrögð. Vonandi verður plakatið til þess að vekja áhuga kennaranema á jafnréttismálum og birtingarmyndum kynjamisréttis í samfélaginu. Hið allt um lykjandi kynjakerfi hefur áhrif á hugsanir okkar, langanir og þrár en er ekki til þess fallið að geta af sér sterkar sjálfstæðar konur og karlmenn sem kunna að meta þær.

föstudagur, mars 10, 2006

Ég er svo heppin!

Var ekki Björgólfur Thor #350 yfir ríkustu menn heims? Ég hlít að komast nálægt því eftir að hafa unnið 600.000 pund í lottóinu + þegar ég verð búin að fá minn hlut úr fjársóði Saddam Hussein!!!!! Og manuel - nei þú færð ekki að vera með í þessu heldur!


UK NATIONAL LOTTERY HEADQUARTERS: P O Box 1010 Liverpool,
L70 1NL UNITED KINGDOM
(Customer Services)
TEL:(+44)871 521 0204
Fax :(+44)845 280 6040
Email: uknlclaimsoffice@excite.com

FROM: UNITED KINGDOM NATIONAL LOTTERY. WINNING NOTICE FOR CATEGORY "A" WINNER

BONUS LOTTERY PROMOTION PRIZE AWARDS WINNING NOTIFICATION
Dear Lucky Winner,
We are pleased to inform you of the result of the just concluded annual final draws of UNITED KINGDOM NATIONAL LOTTERY international Lottery programs. The online cyber lotto draws was conducted from an exclusive list of 21,000 e-mail addresses of individual and corporate bodies picked by an advanced automated random computer search from the internet, no tickets were sold. After this automated computer ballot, your e-mail address emerged as one of two winners in the category "A" with the following winning information:

(klippt út svo enginn geti stolið vinningnum mínum!)

You as well as the other winner are therefore to receive a cash prize of £600,000. Pounds (six hundred thousand pounds only) each from the total payout.

fimmtudagur, mars 09, 2006

Nemar í Kennó ósáttir við mig...

Sjá hér: www.joiskag.blogspot.com

Framtíðarkennarar landsins að tjá sig á málefnalegan hátt! Verst að kennaranemin setti ekki inn mynd af miðanum líka - þar voru stelpurnar komnar dansandi upp á borð, önnur að lyfta pilsinu upp að rassi... og kennarinn allur að hressast.

Hef áhyggjur af þessu...

Hæstvirtu femínistar

Það er svaka stemming að flytja barátturæðu klædd eins og súffragetta með baráttuborða, í gylltum súffragettuskóm og með hatt! Gleymdi að taka myndir...

Baráttugleði Bríetanna var rosavel heppnuð! Takk fyrir gærdaginn :)

Hæstvirtu áheyrendur.
Til hamingju með daginn. Við erum hér í dag til að hylla það afl sem baráttugleðin er því við viljum jafnrétti núna!

Við lifum og hrærumst í síbreytilegu samfélagi misréttis. Kynjamisrétti birtist okkur í ýmsum myndum og þrátt fyrir mikla baráttu síðustu 100 ár er málið ekki enn í höfn. Ef við lítum yfir söguna þá sjáum við að allan okkar árangur eigum við baráttukonum og -körlum að þakka. Kosningarétturinn datt ekki niður af himnum heldur var áratuga barátta að baki. Fyrsta konan fór á þing fyrir tilstilli kvennalista. Konum fór ekki að fjölga á þingi að ráði fyrr en Kvennalistinn, hinn síðari, var stofnaður. Umræðan um kynbundið ofbeldi fór af stað vegna hugsjónakvenna sem komu henni á kortið. Það voru baráttukonur sem stofnuðu Kvennaathvarfið, Stígamót og Neyðarmóttöku vegna nauðgunar. Við eigum baráttunni allt okkar að þakka.

En baráttan er ekki búin og það ætti að vera okkur bæði ljúft og skylt að halda henni áfram. Sumir halda að baráttan einkennist af þreytu, vonleysi, biturð, reiði og tómum leiðindum. En það er ekki þannig. Baráttan getur verið skemmtileg. Það er kynjamisréttið sjálft sem er það ekki. Þátttaka kvenna á Kvennafrídeginum 1975 og 2005 sýnir okkur þann mátt sem býr í samstöðu kvenna og hvers við erum megnugar þegar við virkjum samstöðuna alla leið! Baráttan gefur okkur kraft og von en síðast en ekki síst þá skilar hún okkur árangri.

Ég á mér tveggja heima framtíðarsýn. Önnur sýnin byggir á samfélagi sem verður til án baráttu fyrir kynjajafnrétti og hin sýnin byggir á samfélagi þar sem baráttan hefur yfirhöndina.
Fyrri sýnin er ekki falleg. Sú sýn miðar við stöðuna í dag, örar tækniframfarir, tregðu samfélagsins til breytinga í jafnréttisátt og peningamátt þeirra afla sem vinna hörðum höndum að því að viðhalda óbreyttri stöðu kvenna í samfélaginu. Afleiðingar þess yrðu:

Launabil milli hinna ríku og fátæku mun halda áfram að aukast. Karlar munu verða í meirihluta þeirra sem lenda efst í pýramídanum og þannig mun tekjuskipting karla og kvenna í samfélaginu verða enn ójafnari en nú er. Sama gildir um eignamyndum.

Konur munu halda áfram að mennta sig en vegna þess að nú er drengjaorðræða allsráðandi mun skólakerfið verða tekið til gagngerrar endurskoðunar til að koma betur til móts við þarfir drengja. Þarfir stúlkna munu ekki hljóta sömu athygli – og þar af leiðandi ekki viðeigandi úrræði við endurskipulagningu grunnskólanáms.

Hörð atlaga verður gerð að rétti kvenna til fóstureyðinga. Aukin ábyrgð karla á uppeldi barna mun leiða til háværrar kröfu um að fá að hafa áhrif á hvort konur fari í fóstureyðingu eða ekki. Þar verður réttindum feðra haldið á lofti og það sjónarhorn gæti vel orðið ofan á einfaldlega vegna þess að konur eru í minnihluta á þingi og geta ekki spornað gegn.

Klámvæðingin mun aukast. Sexið selur, segir einhvers staðar, en það sem meira er – klámvæðingin er tilvalið tæki til að halda konum á mottunni. Með þeim viðhorfum sem birtast í klámvæðingunni mun virðingarleysi milli kynja verða enn meira með þeirri afleiðingu að kynbundið ofbeldi mun aukast í kjölfarið.

Síðast en ekki síst mun fórnarlömbum vændis og mansals fjölga. Við sjáum það í nýlegum tillögum um breytingar á hegningarlögum að það er ekki vilji hjá núverandi valdhöfum að gera kaupendur vændis ábyrga fyrir því ofbeldi sem þeir beita.

Þetta er sú framtíð sem bíður okkar án jafnréttisbaráttu. Þess vegna vil ég frekar halla mér að síðari framtíðarspá minni sem byggir á baráttu. Við þurfum að hafa fyrir hlutunum og berjast. Eins og jafnrétti ætti að vera sjálfsagt mál þá hefur reynslan kennt okkur að svo er ekki. Jafnrétti hefst ekki nema við stöndum fast á okkar rétti. Heimurinn mun aldrei verða fullkominn á þann veg að manneskjan hagi sér alltaf á skynsaman, réttlátan og sanngjarnan hátt. En ef við höldum dampi – látum ekki þagga niður í okkur, stöndum saman og krefjumst þess að fá jafnrétti í reynd þá getum við byggt:

Samfélag þar sem konur fá sömu laun og karlar fyrir sömu störf.
Samfélag þar sem karlar skúra, skrúbba og bóna til jafns á við konur!
Samfélag þar sem konur eru helmingur þingmanna.
Samfélag þar sem ríkisstjórnin og hæstiréttur stjórnast af jafnmörgum konum og körlum.
Samfélag þar sem kaup á vændi eru ólögleg!
Samfélag þar sem skólakerfið verður endurskoðað með þarfir beggja kynja í huga.
Samfélag þar sem karlar bera virðingu fyrir konum og konur bera virðingu fyrir körlum.
Samfélag þar sem klám, vændi og mansal finnur sér ekki samastað.
Samfélag þar sem kynferðisbrotamönnum er refsað!
Samfélag þar sem okkur tekst að draga úr kynbundnu ofbeldi vegna þess að kynin eru jafnmikils metin, hafa jöfn tækifæri og lifa í sátt og samlyndi án þess að þörfin til að deila og drottna spilli þar fyrir.

Við getum fengið allt þetta og það er akkúrat þess vegna sem við verðum að halda kyndli fyrri baráttukvenna á lofti og halda áfram þar sem frá var horfið.

Lengi lifi baráttan!

miðvikudagur, mars 08, 2006

Til hamingju...

... með daginn!

Þetta er á dagskrá:
  • Konur og hnattvæðing. Er heimurinn eitt atvinnusvæði? Fundur á Grand Hótel – Hvammi kl. 11:45 – 13:00.
  • Opnun listasýningar og afmæliskaffi í Stígamótum kl. 14 - 16.
  • Menningartorg á Háskólanum á Akureyri. Kl. 16:30 í stofu K201 á Sólborg. Gunnar Hersveinn heimspekingur skoðar kynjamyndir í auglýsingum.
  • Alþjóðlegur baráttudagur kvenna fyrir friði og jafnrétti. í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur kl. 17:00.
  • Baráttugleði Femínistafélagsins Bríetar, efri hæð Dubliners kl. 20:00.

mánudagur, mars 06, 2006

Hlutur kvenna í fjölmiðlum hlýtur að hafa aukist í dag!

Í gær birtist eitthvað skrýtið ljós í mælaborðinu á bílnum mínum. Í handbókinni stóð að það merkti að ég ætti að fara með bílinn á viðgerðarverkstæði um leið og ég gæti. Hef ekki þorað að keyra bílinn síðan - ætla að spara hann fyrir ferðina á verkstæðið. Það þýðir að nú er bara einn bíll á heimilinu - sem er maus þegar kona og maður búa uppi á fjalli út í sveit...

Í morgun reyndist hins vegar afar heppilegt að ég átti að vera mætt upp á NFS kl. 9:10 svo það voru hæg heimatökin að skutla manninum í vinnuna - á hans bíl og skjótast svo upp í NFS. Þar var líka mætt hæstvirt Kristín Ástgeirsdóttir - sagnfræðingur með meiru. Við fórum í viðtal til Lóu og Sigurðar á Fréttavaktinni um frekar lélega grein sem birtist í Newsweek nýlega. Greinin er um það hvað konur í Bandaríkjunum eiga miklu auðveldara með að ná frama í viðskiptalífinu og í greininni er því haldið fram að ástæðan sé sú að í Bandó sé svo lélegt kerfi - stutt fæðingarorlof, næstum engin niðurgreidd dagvistun fyrir börn o.s.frv. Greinin er skrifuð í svona "pabbi minn er sterkari en pabbi þinn" stíl og það dregur umtalsvert úr trúverðugleika hennar. Höfundar taka bara inn einn þátt - og það er velferðarkerfið. Gleyma öllu öðru eins og að í Bandaríkjunum er mikill stuðningur við nýsköpun og það hefur hjálpað mörgum konum að stofna sitt eigið fyrirtæki. Eins er þeirri staðreynd hent út um gluggann að í USA ríkir mikið kynjamisrétti. Í staðinn er því haldið fram að konur séu 45% þeirra sem hafi mikil völd og áhrif. Ef þær tölur eru skoðaðar betur kemur í ljós að innan við 2% kvenna eru forstjórar í 1000 stærstu fyrirtækjunum, þær eru tæplega 14% stjórnarmanna og konur eru ca helmingi færri á þingi heldur en hér (hlutfallslega - en ég man ekki prósentuna). Það sem mér fannst gáfulegast í greininni er þó að það er vert að benda á að þegar velferðakerfi eru sett á laggirnar þá þarf að fara að með ítrustu gát og passa upp á að þau verði ekki svona "mommy trap". Þ.e. að kerfin séu þannig úr garði gerð að þau leiði af sér að konur vinni minna en karlar ekki - sem sagt viðhaldi ábyrgð kvenna á uppeldi og heimilisstörfum.

Viðtalið var alveg ágætt - nema að í miðju kafi fór hljóðið af og kom ekki inn aftur. Við náðum því rétt að koma helmingnum að - kannski rétt rúmlega það - en það var nægur tími eftir þegar tæknin ákvað að fara í verkfall!

Seinni partinn kom svo Lísa Páls í heimsókn og tók upp Laufskálaviðtal. Það verður á dagskrá í fyrramálið á Rás 1 - rétt upp úr kl. 9.

Nú er ég að fara að drífa mig í að skrifa 2 pistla - Viðskiptablaðspistilinn og svo einn í nemendablað Kennaraháskólans. Sem sagt busy fjölmiðladagur í dag - get ekki annað sagt en að ég hafi verið afkastamikil, eða verð það réttara sagt þegar ég hef náð að klára pistlana! Annars var seinni pistillinn algjört slys. Ég fékk ábendingu um miður gott plakat nemenda í Kennó til að auglýsa árshátíðina sína. Fór því upp í Kennó í morgun til að skoða herlegheitin. Um var að ræða plakat með mynd af karlkyns kennara - fullklæddum - og 2 fáklæddum námsmeyjum. Mjög ósmekklegt, sérstaklega fyrir framtíðarkennara sem eiga einmitt að fræða börn um lífið, tilveruna og áhrif klámvæðingarinnar! Náði tali af formanni stúdentaráðs - sem hafði reyndar ekki komið að gerð plakatsins sjálfur og hafði fullan hug á því að styðja þær stúlkur sem höfðu útbúið það. Honum virðist þó hafa snúist hugur eftir spjallið við mig - og örugglega fleiri - því stuttu seinna hringdi hann í mig til að tjá mér að plakatinu yrði skipt út og bauð mér að skrifa pistil í blaðið. Og auðvitað sagði ég já - ekki á hverjum degi sem mér býðst að tala við tilvonandi kennara! :)

Klámvæðing...

... út um allt. Plís make my day og setjið dæmi um enga klámvæðingu í kommentakerfið!!! :)

föstudagur, mars 03, 2006

Kynferðisbrot - drög að frumvarpi

Jæja, hér kemur ein femínísk færsla - til tilbreytingar.

Fór á fund um drögin að frumvarpinu um breytingar á lögum v. kynferðisbrotamála í dag. Ég gleymdi að kíkja á hvar hann var áður en ég rauk út úr húsi. Minnti að hann ætti að vera í 101 Odda svo ég fór þangað. Þar var allt fullt af fólki og salurinn nærri fullur þegar ég kom. Ég ákvað því að fá sæti í miðri sætaröð þar sem var laust. Til að ég kæmist í sæti þurftu svona 4 - 5 að standa upp fyrir mér. Ég hlammaði mér niður í sætið eftir að hafa kíkt í kringum mig og furðað mig á því að ég sá engan af þeim sem venjulega láta sig ekki vanta þegar umræða um kynferðisbrotalöggjöfina ber á góma. Ég áttaði mig á ástæðunni þegar ég leit á glæruna sem var á veggnum: "Úrræði fyrir fullorðna með athyglisbrest." Ákvað að miðað við aðstæður ætti ég nú kannski alveg heima þarna en fannst hinn fundurinn eftir sem áður áhugaverðari svo ég rölti yfir í Lögberg til að athuga hvort fundurinn væri ekki örugglega þar fyrst hann var ekki í Odda. Sem betur fer fann ég fundinn þar!

Brynhildur Flóvenz var fundarstjóri og Ragnheiður Bragadóttir kynnti tillögur sínar um breytingar, þ.e. drögin að frumvarpinu og sinn rökstuðning. Þó að þessar tillögur séu tvímælalaust töluverð framför frá núgildandi lögum og margt gott í þeim þá ganga þær allt of skammt. Það er óþolandi hvað löggjafinn þarf að fara sér hægt og vera árum á eftir fyrirliggjandi þekkingu.

En hér koma mín 2 cent:

1. Víkka á út nauðgunarákvæðið þannig að það sem áður heyrði undir misbeitingu verður nú nauðgun. Einnig eru skýrari ákvæði í greinargerð um hvernig ber að nota þetta ákvæði. T.d. ætti að kæra bæði skv ákvæði um misnotkun gegn börnum og nauðgunarákvæðinu þegar um börn er að ræða. Ragnheiður kallaði þetta brotasamsteypu ef mig minnir rétt. Þetta er tvímælalaust framför en þó vantar herslumuninn í skilgreiningar. Atli Gíslason var á fundinum og sagði frá því í umræðum að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu eftir athuganir á málinu að sú leið sem væru hentugust væri að það þyrfti að liggja fyrir samþykki. Ef samþykki væri ekki til staðar væri það nauðgun. Ragnheiði fannst það ákvæði of opið. Ég er ekki fyllilega búin að mynda mér skoðun á þessu en hallast þó að því að sambland af leiðunum gæti verið raunhæft, þ.e. að þó að Ragnheiður segi að undirliggjandi í hennar tillögu sé að samþykki eigi að vera til staðar þá er það hvergi orðað. Til að þetta sé skýrt - væri þá ekki tilvalið að orða það beint?

2. Fyrningarfrestur. Viðmið verður hækkað í 18 ár í stað 14. Ragnheiður kom með fjölmargar ástæður fyrir því að ekki væri æskilegt að kynferðisbrot gegn brotum fyrndust aldrei. Sumar voru valid, aðrar ekki. Til dæmis þoli ég ekki að heyra að það sé svo óþægilegt fyrir brotamanninn að eiga það yfir höfði sér alla ævi að vera kærður fyrir brot sem hann framdi í fortíðinni. Einnig fannst mér fúlt að feitletra í glærukynningunni að það væri óþægilegt fyrir fjölskyldu hans. Vissulega er það óþægilegt fyrir fjölskylduna. Óþægilegast eflaust að komast að því að fjölskyldumeðlimur er kynferðisbrotamaður. En það réttlætir ekki niðurfellingu fyrningar. Önnur rök voru að það félli ekki inn í hefðbundna umgjörð hegningarlaga, þ.e. einungis glæpir sem varða lífstíðarfangelsi hafa engan fyrningarfrest, önnur ekki og það myndi myndast ósamræmi í lögunum ef fyrningarfrestur yrði aflagður fyrir fyrningarfrest. Aftur finnst mér þessi rök ekki góð. Ef umgjörðin um lögin er gölluð - þá á að laga hana. Barn sem brotið er á verður m.v. breytingar að kæra í síðasta lagi 33 ára fyrir alvarlegustu brotin. Margir sem verða fyrir kynferðisbroti leita sér ekki hjálpar fyrr en á þeim aldri. Þó það hafi eitthvað breyst með aukinni umræðu þá hefur það samt ekki breyst nóg vegna þess að margir þolendur átta sig ekki á afleiðingunum sem þetta hefur á þeirra líf fyrr en eftir töluverðan tíma - einmitt kannski á aldrinum 30 - 40 ára.... Finnst að lágmark sé að fyrningarfrestur renni út við 40 ára aldur.

3. Löglegur kynlífsaldur - auðvitað á að hækka hann. Alveg sama þó börn séu að byrja að stunda kynlíf á þessum aldri. Það er mjög auðvelt að hafa inni ákvæði um að þetta eigi ekki við ef börnin eru á sama aldri auk þess sem í sumum löndum er aldursmunaákvæði, t.d. ef annar aðilinn er meira en 5 árum eldri en hinn þá eiga lögin við, annars ekki. 14 ára börn eru nú ekki vernduð af lögunum fyrir 50 ára gömlum köllum nema að mjög takmörkuðu leyti.

4. Vændi. Fínt að refsing fyrir sölu fellur niður. Fínt að auglýsingar um kynlíf verði bannaðar. Ömurlegt að kaup á vændi séu ekki gerð refsiverð. Vændi er ofbeldi og það á að vera refsivert að beita ofbeldi. Karlaveldið í sinni skærustu mynd - mega kaupa aðrar manneskjur og það verður barist með kjafti og klóm til að verja þann "rétt!"

Svo var örugglega fullt í viðbót sem ég man ekki eftir í augnablikinu... en sem sagt - framför en of skammt gengið.

Í boði morgunvaktarinnar

Þessi var á Morgunvaktinni í morgun:

Öryggisvörðurinn og löggan Pétur var í vinnunni. Hann gekk framhjá herbergi og heyrir að þar inni er rifrildi sem er um það bil að fara úr böndunum. Hann heyrir öskrað "nei, Sigurður, nei!" og síðan heyrast 3 skothvellir. Pétur opnar dyrnar og snarar sér inn í herbergið. Á gólfinu liggur maður með 3 skotskár á brjóstinu og á byssa liggur rétt hjá honum. Í herberginu eru 3 til viðbótar - 1 prestur, 1 læknir og 1 verkfræðingur. Pétur gekk rakleiðis að verkfræðingnum og handtók hann. Spurningin er: Hvernig vissi Pétur hvern hann átti að handtaka? Hann þekkti engann í herberginu og enginn var með nafnspjöld.

Svar í kommentakerfinu...