mánudagur, mars 06, 2006

Hlutur kvenna í fjölmiðlum hlýtur að hafa aukist í dag!

Í gær birtist eitthvað skrýtið ljós í mælaborðinu á bílnum mínum. Í handbókinni stóð að það merkti að ég ætti að fara með bílinn á viðgerðarverkstæði um leið og ég gæti. Hef ekki þorað að keyra bílinn síðan - ætla að spara hann fyrir ferðina á verkstæðið. Það þýðir að nú er bara einn bíll á heimilinu - sem er maus þegar kona og maður búa uppi á fjalli út í sveit...

Í morgun reyndist hins vegar afar heppilegt að ég átti að vera mætt upp á NFS kl. 9:10 svo það voru hæg heimatökin að skutla manninum í vinnuna - á hans bíl og skjótast svo upp í NFS. Þar var líka mætt hæstvirt Kristín Ástgeirsdóttir - sagnfræðingur með meiru. Við fórum í viðtal til Lóu og Sigurðar á Fréttavaktinni um frekar lélega grein sem birtist í Newsweek nýlega. Greinin er um það hvað konur í Bandaríkjunum eiga miklu auðveldara með að ná frama í viðskiptalífinu og í greininni er því haldið fram að ástæðan sé sú að í Bandó sé svo lélegt kerfi - stutt fæðingarorlof, næstum engin niðurgreidd dagvistun fyrir börn o.s.frv. Greinin er skrifuð í svona "pabbi minn er sterkari en pabbi þinn" stíl og það dregur umtalsvert úr trúverðugleika hennar. Höfundar taka bara inn einn þátt - og það er velferðarkerfið. Gleyma öllu öðru eins og að í Bandaríkjunum er mikill stuðningur við nýsköpun og það hefur hjálpað mörgum konum að stofna sitt eigið fyrirtæki. Eins er þeirri staðreynd hent út um gluggann að í USA ríkir mikið kynjamisrétti. Í staðinn er því haldið fram að konur séu 45% þeirra sem hafi mikil völd og áhrif. Ef þær tölur eru skoðaðar betur kemur í ljós að innan við 2% kvenna eru forstjórar í 1000 stærstu fyrirtækjunum, þær eru tæplega 14% stjórnarmanna og konur eru ca helmingi færri á þingi heldur en hér (hlutfallslega - en ég man ekki prósentuna). Það sem mér fannst gáfulegast í greininni er þó að það er vert að benda á að þegar velferðakerfi eru sett á laggirnar þá þarf að fara að með ítrustu gát og passa upp á að þau verði ekki svona "mommy trap". Þ.e. að kerfin séu þannig úr garði gerð að þau leiði af sér að konur vinni minna en karlar ekki - sem sagt viðhaldi ábyrgð kvenna á uppeldi og heimilisstörfum.

Viðtalið var alveg ágætt - nema að í miðju kafi fór hljóðið af og kom ekki inn aftur. Við náðum því rétt að koma helmingnum að - kannski rétt rúmlega það - en það var nægur tími eftir þegar tæknin ákvað að fara í verkfall!

Seinni partinn kom svo Lísa Páls í heimsókn og tók upp Laufskálaviðtal. Það verður á dagskrá í fyrramálið á Rás 1 - rétt upp úr kl. 9.

Nú er ég að fara að drífa mig í að skrifa 2 pistla - Viðskiptablaðspistilinn og svo einn í nemendablað Kennaraháskólans. Sem sagt busy fjölmiðladagur í dag - get ekki annað sagt en að ég hafi verið afkastamikil, eða verð það réttara sagt þegar ég hef náð að klára pistlana! Annars var seinni pistillinn algjört slys. Ég fékk ábendingu um miður gott plakat nemenda í Kennó til að auglýsa árshátíðina sína. Fór því upp í Kennó í morgun til að skoða herlegheitin. Um var að ræða plakat með mynd af karlkyns kennara - fullklæddum - og 2 fáklæddum námsmeyjum. Mjög ósmekklegt, sérstaklega fyrir framtíðarkennara sem eiga einmitt að fræða börn um lífið, tilveruna og áhrif klámvæðingarinnar! Náði tali af formanni stúdentaráðs - sem hafði reyndar ekki komið að gerð plakatsins sjálfur og hafði fullan hug á því að styðja þær stúlkur sem höfðu útbúið það. Honum virðist þó hafa snúist hugur eftir spjallið við mig - og örugglega fleiri - því stuttu seinna hringdi hann í mig til að tjá mér að plakatinu yrði skipt út og bauð mér að skrifa pistil í blaðið. Og auðvitað sagði ég já - ekki á hverjum degi sem mér býðst að tala við tilvonandi kennara! :)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

fínn laufskáli og enn betra lagaval, uppáhalds mitt er "ef þið bara hélduð kjafti"!

katrín anna sagði...

Valdi lagið einmitt út af textanum - finnst hann svo flottur. Sérstaklega "haltu kjafti" kaflinn, eins og þú segir. En svo var viðtalið það langt að það náðist bara að spila eitt valið lag. Hitt lagið átti að vera Stupid Girls með Pink!!!