föstudagur, mars 03, 2006

Kynferðisbrot - drög að frumvarpi

Jæja, hér kemur ein femínísk færsla - til tilbreytingar.

Fór á fund um drögin að frumvarpinu um breytingar á lögum v. kynferðisbrotamála í dag. Ég gleymdi að kíkja á hvar hann var áður en ég rauk út úr húsi. Minnti að hann ætti að vera í 101 Odda svo ég fór þangað. Þar var allt fullt af fólki og salurinn nærri fullur þegar ég kom. Ég ákvað því að fá sæti í miðri sætaröð þar sem var laust. Til að ég kæmist í sæti þurftu svona 4 - 5 að standa upp fyrir mér. Ég hlammaði mér niður í sætið eftir að hafa kíkt í kringum mig og furðað mig á því að ég sá engan af þeim sem venjulega láta sig ekki vanta þegar umræða um kynferðisbrotalöggjöfina ber á góma. Ég áttaði mig á ástæðunni þegar ég leit á glæruna sem var á veggnum: "Úrræði fyrir fullorðna með athyglisbrest." Ákvað að miðað við aðstæður ætti ég nú kannski alveg heima þarna en fannst hinn fundurinn eftir sem áður áhugaverðari svo ég rölti yfir í Lögberg til að athuga hvort fundurinn væri ekki örugglega þar fyrst hann var ekki í Odda. Sem betur fer fann ég fundinn þar!

Brynhildur Flóvenz var fundarstjóri og Ragnheiður Bragadóttir kynnti tillögur sínar um breytingar, þ.e. drögin að frumvarpinu og sinn rökstuðning. Þó að þessar tillögur séu tvímælalaust töluverð framför frá núgildandi lögum og margt gott í þeim þá ganga þær allt of skammt. Það er óþolandi hvað löggjafinn þarf að fara sér hægt og vera árum á eftir fyrirliggjandi þekkingu.

En hér koma mín 2 cent:

1. Víkka á út nauðgunarákvæðið þannig að það sem áður heyrði undir misbeitingu verður nú nauðgun. Einnig eru skýrari ákvæði í greinargerð um hvernig ber að nota þetta ákvæði. T.d. ætti að kæra bæði skv ákvæði um misnotkun gegn börnum og nauðgunarákvæðinu þegar um börn er að ræða. Ragnheiður kallaði þetta brotasamsteypu ef mig minnir rétt. Þetta er tvímælalaust framför en þó vantar herslumuninn í skilgreiningar. Atli Gíslason var á fundinum og sagði frá því í umræðum að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu eftir athuganir á málinu að sú leið sem væru hentugust væri að það þyrfti að liggja fyrir samþykki. Ef samþykki væri ekki til staðar væri það nauðgun. Ragnheiði fannst það ákvæði of opið. Ég er ekki fyllilega búin að mynda mér skoðun á þessu en hallast þó að því að sambland af leiðunum gæti verið raunhæft, þ.e. að þó að Ragnheiður segi að undirliggjandi í hennar tillögu sé að samþykki eigi að vera til staðar þá er það hvergi orðað. Til að þetta sé skýrt - væri þá ekki tilvalið að orða það beint?

2. Fyrningarfrestur. Viðmið verður hækkað í 18 ár í stað 14. Ragnheiður kom með fjölmargar ástæður fyrir því að ekki væri æskilegt að kynferðisbrot gegn brotum fyrndust aldrei. Sumar voru valid, aðrar ekki. Til dæmis þoli ég ekki að heyra að það sé svo óþægilegt fyrir brotamanninn að eiga það yfir höfði sér alla ævi að vera kærður fyrir brot sem hann framdi í fortíðinni. Einnig fannst mér fúlt að feitletra í glærukynningunni að það væri óþægilegt fyrir fjölskyldu hans. Vissulega er það óþægilegt fyrir fjölskylduna. Óþægilegast eflaust að komast að því að fjölskyldumeðlimur er kynferðisbrotamaður. En það réttlætir ekki niðurfellingu fyrningar. Önnur rök voru að það félli ekki inn í hefðbundna umgjörð hegningarlaga, þ.e. einungis glæpir sem varða lífstíðarfangelsi hafa engan fyrningarfrest, önnur ekki og það myndi myndast ósamræmi í lögunum ef fyrningarfrestur yrði aflagður fyrir fyrningarfrest. Aftur finnst mér þessi rök ekki góð. Ef umgjörðin um lögin er gölluð - þá á að laga hana. Barn sem brotið er á verður m.v. breytingar að kæra í síðasta lagi 33 ára fyrir alvarlegustu brotin. Margir sem verða fyrir kynferðisbroti leita sér ekki hjálpar fyrr en á þeim aldri. Þó það hafi eitthvað breyst með aukinni umræðu þá hefur það samt ekki breyst nóg vegna þess að margir þolendur átta sig ekki á afleiðingunum sem þetta hefur á þeirra líf fyrr en eftir töluverðan tíma - einmitt kannski á aldrinum 30 - 40 ára.... Finnst að lágmark sé að fyrningarfrestur renni út við 40 ára aldur.

3. Löglegur kynlífsaldur - auðvitað á að hækka hann. Alveg sama þó börn séu að byrja að stunda kynlíf á þessum aldri. Það er mjög auðvelt að hafa inni ákvæði um að þetta eigi ekki við ef börnin eru á sama aldri auk þess sem í sumum löndum er aldursmunaákvæði, t.d. ef annar aðilinn er meira en 5 árum eldri en hinn þá eiga lögin við, annars ekki. 14 ára börn eru nú ekki vernduð af lögunum fyrir 50 ára gömlum köllum nema að mjög takmörkuðu leyti.

4. Vændi. Fínt að refsing fyrir sölu fellur niður. Fínt að auglýsingar um kynlíf verði bannaðar. Ömurlegt að kaup á vændi séu ekki gerð refsiverð. Vændi er ofbeldi og það á að vera refsivert að beita ofbeldi. Karlaveldið í sinni skærustu mynd - mega kaupa aðrar manneskjur og það verður barist með kjafti og klóm til að verja þann "rétt!"

Svo var örugglega fullt í viðbót sem ég man ekki eftir í augnablikinu... en sem sagt - framför en of skammt gengið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

1,2 og 3 er ég alveg sammála þér með. Varðandi 2. Það á ekki að vera neinn fyrningarfrestur á svoleiðis brotum. Ef maðurinn vill ekki hafa þetta yfir höfði sér þá gefur hann sig fram og játar verknaðinn, sýnir iðrun. Ef hann vill það ekki þá má hann bara hafa þetta hangandi yfir sér í gröfina.

Varðandi 4. Ég verð alltaf jafn pirraður þegar feministar tala eins og það sem þeim fynst rétt sé heilagur sannleikur. Þó svo að karlmaður sé ekki fylgjandi sænsku leiðinni en hefur þá skoðun að það þurfi að taka á þessu máli bara með öðrum leiðum þá er hann ekki að verja karlaveldið. Kommon! Af hverju er ekki hægt að viðurkenna að það séu til aðrar leiðir? Það er ekkert óeðlilegt að vera á móti sænsku leiðinni. Það eru til hellingur að rannsóknum og rök sem mæla gegn henni (og auðvitað til gögn sem mæla með henni). Af hverju haldið þið að þó karlmaður sé ekki sammála feministum að hann sé að passa upp á hagsmuni karlanna. Ég þekki feminista sem er svona í rótækari kanntinum sem er ekki á því að sænska leiðin sé rétt skref. Ekki er hún að vernda karlaveldið. Reynið nú að tala um þessi mál á réttum forsendum. Ekki alltaf ráðast á þá sem eru ekki sammála ykkur með þeim orðum sá hin sami sé bara að vernda rétt sinn til að geta keypt sér kynlíf. Það eru til fleirri leiðir en "óbreytt ástand" eða "sænska leiðin". Ég t.a.m vill hvoruga leiðina.

katrín anna sagði...

Sagði hvergi að allir sem væru á móti sænsku leiðinni væru karlar eða að verja karlaveldið. Aftur á móti tel ég vændi sem slíkt vera merki um karlaveldið og það að mega kaupa aðra manneskju - í flestum tilfellum eru það karlar sem kaupa - hvort sem þeir kaupa konur, karla eða börn. Þáttur kvenna er samt einhver - og mun örugglega aukast eftir því sem klámvæðingin eykst og vændi verður viðurkenndara, enda er þetta ultimate power yfirlýsing, það að hafa völdin til að kaupa aðra manneskju.

Ég veit að það eru til femínistar sem eru á móti sænsku leiðinni. Ég hef samt ekki séð neina leið sem er betri en lykilatriði tel ég vera að draga úr eftirspurn - og mér finnst að samfélagið eigi að senda út ótvíræð skilaboð um það að kaup á öðru fólki sé ekki leyfilegt. Við það bætist að vændi er ofbeldi... og ofbeldi á ekki að leyfast.

Vísanir í karlaveldi eiga fullan rétt á sér - hingað til hefur verið litið á það sem rétt karla að geta keypt sér konur. Vændi, súlustaðir og allt þetta eru allt merki um karlaveldi - og kúgun á konum.

Tek fram að sænska leiðin er engin töfralausn að mínu mati og heill hellingur sem þarf að gera í viðbót til að sporna við vændi. En ef þú ert með betri hugmyndir - endilega láttu þær flakka :)

Nafnlaus sagði...

Ég held að þú sést á rangri hillu með þetta kallaveldistal. Ég held það sé ekki málið að karlmenn séu að vernda rétt sinn til að kaupa konur.

Ég get með sömu rökum sagt að kvennaveldið sé að sjá til þess að konur geti selt líkama sinn þegar þeim hentar.

Það eru leiðir utan sænsku leiðarinnar sem ég myndi vilja kynnast betur. Mér finnst t.d réttlátara ef koma á í veg fyrir vændi að bara banna vændi. Í dag er vændi löglegt svo lengi sem vændiskonan er með bókhaldið á hreinu.

Nú ef sú leið væri farin væri það auðvitað rökrétt að banna báðum aðilum að stunda vændi bæði kaupanda og seljanda.

Önnur leið væri að lögleiða vændi. Ég er ekkert að mæla með þessari leið neitt sérstaklega, en þetta er ein leiðin.

Svo væri líka gaman að vita hverslags menn sækja í vændið. Það hefur margsinnis verið hamrað á því að vændi sé félagslegt vandamál. það er alltaf talað um þá sem sækja í vændið sem einhver ómenni. En gæti verið að kaupendurnir ættu líka við vandamál að stríða? Getur verið að þeir sem sækja í vændi séu kynlífsfíklar eða með einhver álíka vandamál? Það væri fróðlegt að vita það (án þess að ég sé að gefa mér það sem staðreynd að svo sé)

katrín anna sagði...

Já - ég var lengi vel á því að bæði ætti að vera refsivert - kaup og sala. Nú er ég aftur á móti sannfærð um að vændi sé ofbeldi - og sá aðili sem er beittur ofbeldi á ekki að eiga yfir höfði sér fangelsisvist heldur fá aðstoð við að koma sér út úr ofbeldinu.

Varðandi kaupendur vændis þá hefur Gísli Hrafn gert rannsókn á þeim. Þú getur örugglega fundið eitthvað á netinu um niðurstöður hans rannsókna. Í einhverri rannsókn kom líka fram að rúmlega helmingur vændiskaupenda eru giftir menn. Er alveg sammála því að menn sem kaupa vændi eiga bágt! En það þýðir ekki að þeir eigi að vera lausir við ábyrgð á því sem þeir gera.