föstudagur, ágúst 19, 2005

Ómögulegt að vera í fríi

Það er ekki hægt að taka sér frí frá femínisma! Ólíkt öðrum gleraugum er mjög erfitt að taka kynjagleraugun af nefinu. Í gærkvöldi ákvað ég að hafa það náðugt og horfa á imbakassann - sem ber gjörsamelga nafn með rentu ef miðað er við slatta af því sem ég horfði á í gær. Fyrst varð ég fyrir barðinu á According to Jim. Hef mjög gaman að gamanþáttum en vildi bara að það væru sýndir skemmtilegir slíkir þættir hér. Ég hef t.d. ekki gaman af að horfa á þátt um hjón þar sem hún er skynsöm, falleg og vel undir kjörþyngd en hann óskynsamur, ekki mjög fallegur og vel yfir kjörþyngd - og algjör mega karlremba. Í alvörunni hefði konan hans aldrei gifst honum, eða væri allavega löngu farin frá honum - vona ég í það minnsta. Í gær var sýnt frá því þegar fjölskyldan var að borða. Ekki nóg með það að hann ætti sæti við enda borðsins - húsbóndasætið - þá var stóllinn hans öðruvísi en annarra fjölskyldumeðlima, stærri og með betra baki.

Svo horfði ég á Sporlaust - hann var mun betri - enda ekki gamanþáttur. Þar ákvað karlinn að flytja með spúsu sinni til Chigaco þar sem hún hafði fengið stöðuhækkun en þar sem engar stjórastöður voru lausar fyrir hann í allri Chigaco þurfti hann að sætta sig við að lækka í tign um stund. Og þannig á lífið að vera - stundum er ekki hægt að allir séu happy og þá er eðlilegt að stundum sé frama konunnar fylgt eftir og stundum hans - í jafnvægi en ekki valið eingöngu út frá kyni, þ.e. karlkyni - eins og er svo algengt. Eða eins og hann sagði "it's your turn now".

En síðan kom Svanurinn. Mest mannskemmandi sjónvarpsefni sem ég man eftir í augnablikinu. Þættir eins og þessir eru ástæðan fyrir því að ég mun alltaf vera femínisti. Svo er fólk að reyna að mótmæla því að manngildi kvenna felist fyrst og fremst í útlitinu!! Skil það ekki - hvað í ósköpunum ætti að fá ósköp eðlilegar, yndislegar konur til að fara í gegnum bæði lífshættulegar aðgerðir, auk mikils og langvarandi sársauka til að verða fallegri nema af því að þær skynja að þannig eykst þeirra verðleiki í augum annarra - og, ok., þeirra sjálfra líka vegna þess að þær taka þátt í þessu, rétt eins og svo margir aðrir. Segi fyrir mig að ég er mun sáttari við konur sem eru búnar til af náttúrunnar hendi heldur en konur sem eru búnar til af "fegrunarlæknum".

Og - merkilegasti þáttur kvöldsins var þátturinn um skírlífi innan kaþólsku kirkjunnar. Ótrúlegt en satt þá er til fólk sem velur að vera skírlíft allt sitt líf. Þátturinn var um margt merkilegur. Þar var t.d. velt upp þeirri spurningu hvort að tengsl væru á milli þeirra skírlífsheita sem kaþólskir prestar verða að gangast undir og kynferðislegrar misnotkunar þeirra á börnum. Einnig var fjallað um hvernig kaþólska kirkjan lítur á konur sem "disposable" þegar kemur að því að hjálpa þessum körlum við að vera "skírlífir", þ.e. það er litið fram hjá því að þeir eigi í samböndum við konur - bara ef þeir ekki giftast þeim. Tekið var viðtal við eina konu sem lenti í því að verða ástfangin af presti og eignast með honum 2 börn - lausn kirkjunnar á málinu var að hún vildi að konan gæfi börnin til ættleiðingar. Þegar hún ekki vildi það var endanlega lausnin að hún flytti úr bænum í annað samfélag. Það er mjög einkennileg þversögn í þessu með ættleiðinguna vegna þess að það kom fram í þættinum að viðhorf kaþólsku kirkjunnar er það að kynlíf ætti einungis að stunda með getnað í huga...

Engin ummæli: