föstudagur, desember 16, 2005

Góðgerðarstörf

NFS 16. des 2005:

Fegurðarsamkeppnir eru umdeilt fyrirbæri. Ég skipa hóp þeirra sem finnst svona konusýningar vera tímaskekkja og fagna því ekkert sérstaklega að við Íslendingar höfum eignast okkar þriðju Ungfrú Heim. Okkar nýkrýndu fegurðardrottningar bíður nú eins árs vinna við góðgerðarstörf og þó ég sé ekki hrifin af fegurðarsamkeppnum finnst mér góðgerðarstarf mikilvægt og göfugt starf. Gæðum heimsins er misskipt og það veitir ekki af að aðstoða þau sem eiga um sárt að binda vegna fátæktar, náttúruhamfara eða veikinda. Góðgerðarstarf er oft á tíðum óeigingjarnt framlag einstaklinga eða fyrirtækja sem vilja axla samfélagslega ábyrgð. En stundum er góðgerðarstarfsemi bara pjúra bisness og stundað í þeim tilgangi að réttlæta eða öðlast jákvæða ímynd á starfsemi sem að öðrum kosti væri litin hornauga. Ég er reyndar alveg viss um að okkar ágæta Unnur Birna fellur í fyrri flokkinn enda held ég að hún fái lítið sem ekkert greitt fyrir starfið. Hins vegar er ég ekki jafn viss um aðstandendur Miss World keppninnar.

Góðgerðarstarfið er notað sem réttlæting á að svona keppni sé enn við lýði. Unnur Birna sagði í viðtali við Kastljósið að keppnin væri í raun eitt stórt 5 vikna atvinnuviðtal fyrir starf í eitt ár og að innri fegurð skipti öllu máli en ekki sú ytri. Gott og vel. Segjum að svo sé. En ef þetta er atvinnuviðtal hvaða kröfur eru þá gerðar til umsækjenda? Ímyndum okkur að keppnishaldarar settu atvinnuauglýsingu í Morgunblaðið. Hún gæti hljómað eitthvað á þessa leið:
Óskum eftir fallegri konu á aldrinum 18 – 24 ára til að sinna góðgerðarstörfum í eitt ár. Stúlkan þarf að vera ógift og barnlaus en má hafa farið í brjóstastækkun. Atvinnuviðtalið felst í framkomu í síðkjólum og að að biðla til áhorfenda um atkvæði íklædd bikiní einum fata strjúkandi létt yfir líkamann. Umsækjendur verða einnig spurðir krefjandi spurninga eins og: Hvað gerirðu til að heilla karlmenn? Og: Hvað finnst þér skemmtilegast að versla?

Ég veit ekki með þig en verð að segja að mér finnst þessar kröfur ansi skrýtnar og hreint út sagt óviðeigandi fyrir starf til góðgerðarmála.

Ég er reyndar viss um að litlu börnin sem Ungfrú Heimur heimsækir á spítalann er slétt sama hvernig hún lítur út í bikiní og háum hælum. Ég efast líka um að þau læknist þó vel tilhöfð, ung kona með kórónu á höfðinu kíki í heimsókn til þeirra á spítalann. Ég er samt ekki alveg jafn viss um alla karlanna með ávísanaheftin sem sækja fjáröflunarsamkomurnar. Þetta gæti skipt þá einhverju máli!

En burtséð frá því þá finnst mér áhugavert að bera kröfurnar sem gerðar eru til umsækjenda um þessa spennandi vinnu við ákvæði jafnréttislaga. Auðvitað er það argasta misrétti að starfið skuli aðeins vera opið konum. Eins felast alls konar fordómar í þessum kröfum, til dæmis aldursfordómar, fitufordómar og fordómar gagnvart mæðrum og giftum konum.
Ég stend því fast á þeirri skoðun að um sé að ræða keppni í stöðluðu, ytra útliti kvenna, þar sem góðgerðarstarf er notað til að réttlæta keppnina fyrir þátttakendum, áhorfendum og styrktaraðilum. Keppnin um titilinn fegursta kona í heimi er nákvæmlega það sem titillinn vísar í, keppni í ytri fegurð, og því ber að meta keppnina út frá þeim forsendum. Konur eru enn í baráttu fyrir því að vera metnar að verðleikum en ekki ytra útliti. Keppni eins og Ungfrú Heimur festir kröfuna um hlutverk konunnar sem skrautmunur í samfélaginu í sessi. Hún gerir baráttuna fyrir því að vera metnar að verðleikum erfiðari og hjálpar okkur ekki til að sjá og meta fegurðina í margbreytileikanum. Þess vegna er óskandi að keppnin leggist af um síðir af þeirri ástæðu að konur hafi ekki lengur áhuga á að taka þátt. Ef einlægur áhugi á góðgerðarmálum liggur að baki þátttöku er ekki úr vegi að nefna að það eru til fjölmörg samtök sem sinna góðgerðarmálum en gera ekki kröfur um kyn, aldur, ákveðið útlit eða að koma nánast nakin fram. Það má því fá drauma sína um betri heim uppfyllta á mun jákvæðari hátt en með því að taka þátt í keppni sem byggir á fornu en ónauðsynlegu hlutverki kvenna um að vera sætar og góðar.

Engin ummæli: