miðvikudagur, september 07, 2005

Fyrsta Hittið

Fyrsta Hitt vetrarins var í gærkvöldi. Rætt var um fæðingarorlofsgjöfina. Við ákváðum að fá fyrirlesara sem gætu skoðað löggjöfina og reynsluna af henni út frá mismunandi sjónarhólum þannig að við gætum spáð í hvort einhverju þurfi að breyta og þá hverju. Held að þetta reynist oft á tíðum betur heldur en að stilla ræðumönnum upp sem andstæðingum til að kynna "með og á móti" hliðarnar því þá er erfiðara að komast áfram í umræðunni.

Það var sérstaklega gaman að hlusta á Gyðu Guðjónsdóttur frá Innn. Ekki það að Ingólfur og Gunnar Páll hafi ekki verið fínir - þeir komu með margt áhugavert líka - en Gyða talaði út frá sjónarhóli atvinnurekanda, tengdi þetta við nútímalegan stjórnunarhætti og sá margfalt fleiri kosti heldur en galla við fæðingarorlofið og töku þess. Meðal þess sem hún nefndi var að starfsemi fyrirtækisins ætti að vera sveigjanleg ef þess væri kostur - þá er hægt að stækka eða minnka fyrirtækið, ekki bara eftir markaðsaðstæðum heldur líka starfsmannamálum. Eins talaði hún um ánægðari starfsmenn og að skipuleggja verkferla þannig að enginn starfsmaður væri ómissandi heldur gætu aðrir starfsmenn hlaupið í skarðið. Síðan voru nokkrir kostir sem hún taldi upp sem heyrast sjaldnar. T.d. að kosturinn við fæðingarorlofið er að atvinnurekandinn fær að vita af fjarverunni með 6 mánaða fyrirvara - sem gerir alla skipulagningu auðveldari heldur en ef starfsmaður verður frá að hverfa af völdum veikinda eða annarra orsaka. Einn gallinn sem hún minntist á var að fyrirtækið missir starfsmann en á móti kom sá kostur að fyrirtækið fær starfsmanninn til baka.

Mér fannst þetta flott uppsetning hjá henni - skipulagið og umgjörðin hljómaði þannig að það er borin virðing fyrir starfsmanninum og að hann er metinn sem verðmætur aðili í fyrirtækinu en á sama tíma er gengið þannig frá skipulagi að hann verður ekki ómissandi og honum veittur sveigjanleiki til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta var líka áhugavert í ljósi þess að Innn er lítið fyrirtæki og lítil fyrirtæki hafa oft á tíðum minna svigrúm heldur en stóru fyrirtækin að þessu leyti.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hljómar áhugvert Hitt sem ég missti af. Ég er annars búin að vera FÁRveik í nánast 2 vikur, frekar leiðinlegt, hef ekkert komist í skólann, né getað femmast neitt.
Fer vonandi að hressast.
kv

Nafnlaus sagði...

Oj - hélt þú vissir að það er bannað að vera veik!!!

Sendi annars batakveðjur - láttu mig vita þegar þú hressist svo við getum kíkt í kaffi :)