miðvikudagur, september 28, 2005

Forkastanleg vinnubrögð

Neðangreind ályktun er send til dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans í Reykjavík og fjölmiðla.
----------------------------------
Femínistafélag Íslands átelur þau vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík sem urðu til þess að ríkissaksóknari ákvað að sækja ekki til saka þrjá karlmenn sem frömdu hópnauðgun á konu sumarið 2002. Konan kærði nauðgunina umsvifalaust og var framburður hennar trúverðugur samkvæmt upplýsingum lögreglu, sem flutti konuna á Neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota. Þrátt fyrir að málsatvik lægju ljós fyrir var rannsókn lögreglunnar svo áfátt að saksóknari féll frá ákæru. Dómsmálaráðherra varð ekki við ósk lögmanns konunnar um að hnekkja þeirri ákvörðun. Málið er áfall fyrir fórnarlömb kynferðisafbrota og sýnir að réttaröryggi þeirra er ekki tryggt. Þá vekur málið upp alvarlegar efasemdir um vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík og forgangsröðun mála, en fram kom að málinu var ýtt til hliðar vegna annarrar grófrar líkamsárásar. Femínistafélag Íslands beinir því til ríkislögreglustjóra að hlutast til um verklag við rannsóknir þannig að slík mál endurtaki sig ekki. Jafnframt beinir félagið þeim tilmælum til dómsmálaráðherra að hann grípi allra tiltækra aðgerða til að bæta megi vinnubrögð lögreglunnar í Reykjavík og verklag við meðferð sakamála af þessu tagi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er ömurlegt mál og er ekki til þess að hvetja konur til að hvetja konur til að kæra nauðganir. Ég get ekki séð að hægt sé að fremja alvarlegri líkamsárás en hópnauðgun. Myndi vilja sjá menn segja störfum lausum hjá lögreglu og greiða háar miskabætur til fórnarlambsins. Þetta er gríðarlegur álitshnekkir fyrir lögregluna.

Nafnlaus sagði...

Já - og verst er að þetta mál er ekki undantekningin heldur frekar reglan. Það sem gerir þetta sérstakt er að konan lét ekki undan kerfinu heldur barðist áfram - sem verður að teljast mikið afrek eftir svona áfall. Það vantar mikið upp á að yfirvöld - á hvaða stigi sem er - séu að uppfylla sínar skyldur.