sunnudagur, október 09, 2005

Kvikmyndahátíð

Ég afrekaði að sjá 3 myndir á kvikmyndahátíð - og það afrek má rekja til þess að Sóley var á landinu og að Halla bauð okkur á síðustu myndina! Femínistar klikka ekki í að halda konu við efnið :)

Fyrsta myndin sem ég sá var Zero degrees of seperation. Vegna bílastæðisvanda og annarra vanda missti ég af byrjuninni en restin af myndinni var fín. Þetta var heimildarmynd um stöðuna í Ísrael og Palestínu og tekin voru viðtöl við lesbískt par og homma par þar sem annar aðilinn var frá Ísrael og hinn Palestínu. Þetta var fyrst og fremst fróðleg mynd og hún hélt mér við efnið allan tímann út af því. Umgjörðin var frekar hrá og greinilegt að þetta er ekki high budget mynd en það var innihaldið sem skipti máli...

Næsta mynd var Born into brothels. Það var mun meira lagt í þessa mynd heldur en þá fyrri. Myndin er um börn vændiskvenna í rauða hverfinu í Kalkútta. Fyrir þeim liggur sama framtíð og mæðra þeirra og feðra - sem er vægast sagt ekki kræsileg. Myndin sýnir vel hvernig börnin búa yfir frábærum hæfileikum til að komast af við ömurlegar aðstæður en hún sýnir líka vel hvernig framtíðin er kortlögð miðað við umhverfi - og að þeirra býður ekkert nema vonleysið, örbirgð og óhamingja. Konan sem gerði myndina fór þá leið að gefa börnunum myndavélar svo að þau gætu myndað sitt daglega líf, hún hélt fyrir þau ljósmyndanámskeið og gerði allt sem hún gat til að koma þeim í skóla. 2 barnanna voru í skóla þegar myndinni lýkur, 1 stelpa flúði að heiman og fyrir hinum lá framtíðin svört að fótum þeirra vegna mismunandi aðstæðna. Sumir foreldrarnir leyfðu þeim ekki að fara í skólann, önnur hættu sjálf. Þetta var sorgleg mynd en samt svo yndisleg. Sýndi svo vel hvað börnin eru vel gefin, lífsglöð og skemmtileg - en fædd inn í ömurlegar aðstæður sem er fjandanum erfiðara að komast út.

Síðasta myndin sem ég sá var 6. maí. Mynd eftir Theo Van Gough og sú síðasta sem hann gerði áður en hann var myrtur. Hrifning mín fyrir myndinni dofnar og dofnar eftir því sem ég hugsa um hana meira. Fannst hún sexist á köflum - sem eru auðvitað nánast fatalt fyrir myndir í mínum huga - og síðan fannst mér hún einum of hlutdræg gagnvart Pim Fortuyn, hollenska stjórnmálamanninum sem var myrtur. Í myndinni er Fortuyn gerður að nokkurs konar hetju fólksins og það fer soldið í taugarnar á mér því ég held að hann eigi það ekki skilið - en þyrfti að kanna það aðeins betur... Eftir myndina voru umræður og framleiðandi myndarinnar sat (eða stóð) fyrir svörum. Við vorum afar fá í salnum þannig að þetta varð bara létt spjall og ég sleppti að spyrja hann út í sexismann. Chicken!!!! En kona vill ekki alltaf skemma stemninguna...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

aldrei að gugna á góðum spurningum :)
ég botnaði aldrei í sambandi hans við dóttur sína, sem var e-n veginn með óþægilega stór brjóst miðað við barn, eða hvað?

Nafnlaus sagði...

ps. Halla

Nafnlaus sagði...

ja - hún var allavega óþægilega fáklædd og oft á tíðum óþægilega nálægt - t.d. að kúra í fanginu á honum of fáklædd miðað við aldur... fannst myndin samt aldrei gefa neitt annað en eðlilegt samband á milli þeirra í skyn í öllum öðrum samskiptum - tali, augnaráði... fylgdist vel með því fyrst hún fékk svona lítið að vera í almennilegum fötum greyið. En hann var kannski bara svona fátækur og hafði ekki efni á að kaupa handa henni efnismeiri flíkur??? :-|