sunnudagur, febrúar 12, 2006

Ertu femínisti?

Pistill fluttur á NFS föstudaginn 10. febrúar:

Ert þú femínisti? Ég spyr vegna þess að ég hef mikið verið að velta fyrir mér hversu lengi við ætlum að sætta okkur við að búa í samfélagi kynjamisréttis. Ég furða mig oft á því hvers vegna við sem samfélag sættum okkur við launamun kynjanna, yfirráð karla í stjórnmálum og atvinnulífi, klámvæðingu, útlits- og æskudýrkun, kynbundið ofbeldi og allar aðrar birtingamyndir kynjamisréttis. Viljum við ekki jafnrétti í raun?

Kannski ertu meðal þeirra sem trúa því að við þurfum ekki að grípa til aðgerða vegna þess að jafnrétti komi með ungu kynslóðinni. Ef svo er þá hryggir mig að tilkynna þér að sú von er tálsýn ein. Nýleg rannsókn hefur leitt í ljós að ungt fólk er íhaldssamara þegar kemur að jafnréttismálum en þau sem eldri eru. Kannski er ástæðan sú að við ölum kynslóð eftir kynslóð upp í þeirri trú að þetta sé nú allt að koma – jafnrétti verði örugglega komið á þegar þau verða fullorðin. Svo vaxa börnin úr grasi, fara út á vinnumarkaðinn, eignast maka og börn – og þá – allt í einu - reka þau sig á. Allt í einu situr konan uppi með meirihluta húsverkanna og ábyrgð á barnauppeldi. Allt í einu fer hún að finna fyrir misrétti á vinnumarkaði á eigin skinni og þá uppgötvar hún að loforðið um jafnrétti var bara tálsýn. Þetta er ekki allt að koma. Því miður. Það er ekkert sem bendir til þess að jafnrétti bíði okkar handan við hornið. Þvert á móti er fullt af vísbendingum þess efnis að jafnrétti komi ekki með næstu kynslóð, ekki heldur þeirri þarnæstu eða þar-þarnæstu.

Og hver er ástæðan? Ég ætla að halda því fram að ástæðan sé skortur á vilja og röng forgangsröðun. Jafnréttismál eru ekki ofarlega á baugi hjá stjórnvöldum, á vinnumarkaði, í skólum eða á heimilum landsins. Vissulega er verið að gera margt gott en þegar á heildina er litið þá vinnum við enn harðari höndum að því að viðhalda kynjamisrétti heldur en að draga úr því. Við til dæmis ríghöldum í fornar staðalímyndir um hlutverk kynjanna. Ungir karlmenn fásinnast yfir jafnréttisbaráttunni og segjast ekki vilja vera dæmdir fyrir syndir forfeðranna. Gott og vel – það er skiljanlegt. En af hverju þá að halda í gömlu karlmennskuímyndina? Ímynd sem byggir á yfirráðum karla yfir konum, ímynd sem er oft á tíðum ofbeldistengd og gerir ráð fyrir að karlmenn þurfi að vinna myrkranna á milli og vanrækja fjölskyldu sína og tilfinningar? Þetta finnst mér vera mótsögn. Ef núlifandi kynslóðir karlmanna vilja ekki endurtaka syndir forfeðranna þá þýðir ekki að segja í sömu setningu að vilja haga sér eins og þeir. Það er ávísun á endurtekningu á syndunum.

Það sama gildir um konurnar. Karlmennsku og kvenleika er oft á tíðum stillt upp sem andstæðupörum. Ef það að vera sterkur er ímynd karlmennskunnar þá er ímynd kvenleikans að vera – tja – veikburða! Ef ímyndi karlmannsins er að vera höfuð fjölskyldunnar og hafa yfirburði yfir konum – þá er ímynd kvenleikans – að vera undirgefin. Ef ímynd karlmennskunnar er að vera leiðtogi – þá er ímynd kvenleikans að vera í hlutverki þess sem fylgir eða í hlutverki klappstýrunnar. Rétt eins og karlmenn þurfa að endurskilgreina karlmennskuna og færa hana í átt til jafnréttis þá þurfa konur að endurskilgreina kvenleikann og hætta að ganga inn í þau undirgefnu hlutverk sem ætlast er til af konum.

Ég er femínisti. Ég hef verið femínsti frá þeim degi sem ég heyrði orðið í fyrsta skipti og fletti því upp í orðabók. Þar sá ég þá útskýringu að femínisti væri manneskja sem vill jafnrétti kynjanna og ég hugsaði – hver vill það ekki? Femínistafélag Íslands skilgreinir femínista sem karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Og ég spyr aftur. Ert þú femínisti? Vilt þú jafnrétti kynjanna og ertu tilbúinn til að gera eitthvað í því? Af hverju erum við ekki öll femínistar og af hverju finnst sumum orðið femínisti vera neikvætt?
Ég held að ástæðan fyrir því síðarnefnda sé að andstæðingar jafnréttis – þeir sem vilja að karlar sitji við stjórnvölinn – þeir sem vilja að karlar séu höfuð samfélagsins og konurnar séu þægar, hljóðlátar, fáklæddar og sætar – að þessum aðilum hafi tekist að koma neikvæðum stimpli á þau sem beita sér fyrir auknu jafnrétti. Með því að koma neikvæðum stimpli á femínista þá er hægt að koma í veg fyrir að fólk skipi sér í þeirra hóp eða hlusti og þannig er hægt að draga úr árangrinum. Þess vegna sitjum við uppi með kynjamisrétti kynslóð eftir kynslóð svo ekki sér fyrir endann á. Það er ekki nóg að segjast vilja jafnrétti en vilja svo hafa allt eins og það er. Þannig náum við ekki jafnrétti. Til að ná jafnrétti þurfum við breytingar – róttækar breytingar. Við, hin nýjunagjarna þjóð, ættum ekki að óttast breytingar í jafnréttisátt. Kannski ertu femínisti og kannski ekki. Ef ekki þá skora ég á þig að afla þér fræðslu um jafnréttismál og segja bless við óttann um hvað gerist ef við höfnum misréttinu. Þætti þér ekki gaman að geta staðið við gefin loforð um að þetta sé nú allt að koma?

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er EKKI feministi. Enda er það ekkert það eina rétta nema í augum þess sem er feministi. Ég sé feminismann sem nokkurskonar stjórnmálaflokk. FÍ skilgreinir feminismann á Íslandi. Feminisminn er ólíkur í hverju landi fyrir sig. Meiginmarkmiðin eru skýr en þar eru engin algild leið sem er sú rétta sem allir feministar fylgja til að ná þessu markmiði.

Ég er ekki "ekki feministi" vegna þess að ég sé ósammála meiginmarkmiði feminismans heldur vegna þess að ég samþyggi ekki leiðina að þessu markmiði sem FÍ er að feta.

Ertu búin að semja fyrstu línu mótsvarsins? Er hún kannski svona "Þú getur verið feministi þó þú sést ekki félagi í FÍ"?

Það er alveg rétt. En FÍ hefur skapað ímynd sem fylgir orðinu feministi með aðgerðum og atferli sínu. Þess vegna tengja allir orðið feministi við þær aðgerðir og þá ímynd sem FÍ hefur skapað orðinu "feministi".

Ég er fræðilega feministi. En ég myndi aldrei vilja hafa þann STIMPIL á mér. Ég hef þess vegna reynt að nota frekar orðið jafnréttissinni. Það er ekki ennþá búið að fá þann stimpil sem feminisminn hér á landi hefur fengið. Í mínum huga er feminismi neikvætt hugtak. Það er svona eins og að vera kommúnisti (hugmyndafræðin er falleg, en vegna margra misheppnaðra tilrauna hafa þeir skapað sér slæmt orðspor). Ég tel mig þó vera nægilega mikið inn í feminskum málefnum til að geta sagst byggja þá skoðun á minni reynslu og þekkingu vs. að hafa verið heilaþveginn af andstæðingum feminismans.

Ég fordæmi mikið af þeim orðum og aðgerðum sem feministar hafa lagt í. Auðvitað eru margar aðgerðir sem hafa líka verið flott framtak. En þær misjöfnu aðgerðir sem feministar fara útí eru bara of margar.

Feministar eru stór og fjölbreyttur hópur. Kannski hafa margar af þessum rassíum feminista ekki verið samþykktar af FÍ. Þegar það gerist á FÍ að fría sig ábyrgð til að komast hjá þessari neikvæðu ímynd. Annars er aðgerðin og orðin stimpluð beint á feminisman í heild sinni í augum almennings.

Ps'
Af hverju er spjallsvæði feminista lokað. Fínn vettvangur fyrir þá sem vilja vita meira um feminisma til að varpa spurningum og fá svör frá feministum af fyrstu hendi, og fyrir hina sem vilja segja skoðun sína á feminsmanum.

Nafnlaus sagði...

Spjallsvæðið var hakkað... og við höfum ekki enn náð að starta því aftur. Það er þó í vinnslu og kemst vonandi í gang sem fyrst.

Femínismi og femínistar voru til löngu fyrir tíma Femínistafélagsins - og það er alveg rétt hjá þér að það er hægt að vera margs konar femínisti og aðhyllast ólíkar stefnur. En í grunninn snýst femínismi um að stuðla að auknu jafnrétti. Femínistafélagið er af mörgum talið róttækt - þó sjálf vilji ég meina að við séum ekki svo ívið róttæk heldur frekar stillt. Höfum mest lítið gert af róttækum aðgerðum. Aftur á móti finnst mér oft skrýtið að fylgjast með viðbrögðum við sumu sem við segjum. T.d. þegar við komum með umræðu um eitthvað atriði og allt ætlar að verða vitlaust. Sýnir hvað það er oft á tíðum erfitt að koma skoðun sinni á framfæri í þessum "tjáningarfrjálsa" vestræna heimi þar sem málfrelsið skiptir öllu - svo framarlega sem fólk er með mainstream skoðanir og vill ekki breyta neinu...!

Nafnlaus sagði...

Nú ræði ég mikið um jafnréttismál við vini mína og vinnufélaga. Það er ekki einn einasti maður sem vill ójafnrétti kynjanna. Það vilja allir að launamunur kynjanna sé afnuminn. Ég á vini sem vinna á leikskóla og vinkonu sem vinnur á vörubíl. Allir eru sammála um að jafnrétti sé mjög þarft og mikilvægt og breytinga sé þörf.

Það skrýtna við þetta allt saman er að ekki einn einsta vinur eða vinnufélagi minn vill láta bendla sig við orðið "feministi". Nú spyr ég; af hverju ætli það sé?

Ég hef reyndar heyrt svarið oft hjá feministum. "Þeir vilja bara jafnrétti í orði en ekki á borði" er svar þeirra.

Ég bara skil ekki af hverju konur ættu ekki að vilja jafnrétti. Ég held nefninlega að lang flestar konur vilji jafnrétti. Þær vilja það bæði í orði og á borði. Reyndar held ég líka að langflestir karlar vilji líka jafnrétti. Ég hef reyndar ekki ennþá hitt mann sem vill alls ekki jafnrétti.

Jæja ef næstum allir vilja jafnrétti af hverju vill þá enginn kalla sig feminista? Af hverju heyrir maður konur tala niður til feminista?

Jú þú sagðir orðið mainstream. FÍ hefur alltaf verið frekar rótækt félag að mati flestra. Það að vera rótækur feministi er náttúrulega ekki mainstream. En það að vilja jafnrétti er mjög mainstream.

Þið getið unnið að jafnrétti á tvennann hátt. Verið frekar fámennur hópur rótækra feminista. Eða leitað stuðnings almennings með því að færa ykkur aðeins nær miðjunni og gera félagið meira aðlaðandi fyrir almenning.

Það sýndi sig berlega á kvennafrídeginum að jafnrétti er eitthvað sem flestir vilja. Það ætti að sýna ykkur að jafnrétti er mainstream.

Ég held að ef FÍ myndi aðeins gefa sér tíma til smá málamiðlunar til móts við allann þann fjölda sem vill jafnrétti, og reyna sameina þá krafta myndi rödd jafnréttis heyrast mun skýrar.

Nafnlaus sagði...

Og hvað segja vinirnir við öðrum jafnréttismálum heldur en launajafnrétti?

Hvað er sagt við málum eins og klámvæðingu, klámi, staðalímyndum, kynskiptum leikföngum, hlut kvenna í stjórnmálum, stjórnum, stjórnunarstöðum, mismunandi launum karla- og kvennastétta, o.s.frv.?

Veit vel að flestir kalla sig jafnréttissinna - en það þýðir samt ekki að fólk sé tilbúið til að styðja réttindabaráttu eða leggja út í aðgerðir til að sjá jafnrétti verða að veruleika. Algengt að heyra t.d. "ég er jafnréttissinni en mér finnst mjög eðlilegt að kynin séu ólík og fái þess vegna ólík tækifæri og ólík laun - og það er bara allt í lagi af því að þetta er frjálst val..."

Stundum heyrist líka "ég er ekki femínisti... en... mér finnst að það eigi að laga þetta og hitt og þetta er bara alls ekki í lagi" - sem í raun gerir manneskjuna að femínista. Sjálf varð ég femínisti eftir að hafa hlustað á "ekki-femínista" lýsa yfir hinu og þessu í nafni þess að vera ekki femínisti!

Nafnlaus sagði...

Gleymdi einu... sumir eru einmitt hræddir við að kalla sig femínista vegna þess að andstæðingum jafnréttis hefur tekist að koma óorði á orðið í vissum hópi. Lastu ekki pistilinn minn!!!! ;)