mánudagur, maí 08, 2006

Út, út, út í góða veðrið

Það er ekki fallega gert að sýna fullt af virðulegum, góðum konum klám. Samt gerðist ég sek um akkúrat það á laugardaginn... vona að þær fyrirgefi mér! Fór líka í þáttinn Vikulokinn, á dagskrá megrunarlausa dagsins, í heimboð til Sigrúnar upphafsmanneskju megrunarlausa dagsins og í grill hjá Sif ráðskonu... sumir dagar eru meira busý en aðrir en þetta var dúndur góður dagur! Var þó með hálfgert samviskubit yfir að borða ekki sushi. Sif var heilan dag að útbúa þetta svaðalega girnilega sushi og fékk svo í heimsókn mig - sem borða ekkert hrátt - grænmetisætu og eina sem hafði aldrei borðað sushi. Sem betur fór mætti Ásta fyrir rest á svæðið og hún elskar sushi... þannig að við sluppum fyrir horn! Grænmetis sushiið var nú samt alveg ágætt á bragðið - þótt það væri sea weed á því en ég hef ekki verið mikill aðdáandi þess hingað til.

Núna kom Grétar snemma heim úr vinnunni og ætlar að halda áfram að vinna hérna heima. Fjarvinna er yndisleg. Ég ætla nú samt að spilla honum eins og virðulegu konunum - reyndar ekki með því að sýna honum klám heldur draga hann út í göngutúr í góða veðrinu :) Það er hvort sem er enginn vinnufriður hérna. Trommarinn í næsta húsi á annaðhvort vini eða þá að hann er að reyna að læra á gítar/bassa eða álíka hljóðfæri... einhver sagði um daginn að ástandið yrði fyrst slæmt þegar það væri komið heilt bílskúrsband í næsta hús en ekki bara trommari. Er að spá í hvort að sú stund sé að renna upp....

1 ummæli:

ErlaHlyns sagði...

Damn, ég sem elska sushi. Ég hefði vel getað borðað fyrir ykkur hinar ;)