föstudagur, maí 02, 2008

„Það breytist ekkert“

kl. 11:30 stundvíslega (ok - næstum því) bárum við Grétar skilti fyrir 1. maí gönguna inn á Kaffi Roma á Rauðarárstíg. Eldri kona á næsta borði leit á okkur vorkunnaraugum og sagði „eruð þið að fara í gönguna?“. Við játtum því. „Það þýðir ekki neitt“ sagði hún þá. „Þið eruð bara að sóa tímanum. Það breytist ekkert hvort sem er“. Við gerðum einhverja tilraun til að malda í móinn og hófumst svo handa við að rífa niður efni í bleika fána. Eftir smá stund hallaði konan sér yfir til okkar og spurði „fáið þið eitthvað borgað fyrir þetta?“. Við svöruðum því neitandi, allt væri þetta nú sjálfboðastarf. Hún var ekki par hrifin af því. Sagði sitt mottó að gera ekki neitt nema fá greiðslu fyrir. Annars væri fólk bara misnotað - og baráttan skilaði hvort eð er engu. Við bentum henni á að baráttan hefði nú skilað konum kosningaréttinum. Hún fussaði og sveiaði yfir því. „Hverju skiptir kosningaréttur?“ Sams konar fólk væri hvort sem er alltaf kosið á þing - týpan sem lofar og lofar öllu fögru en svíkur svo allt. „Það breytist ekkert sama hvað er gert“ var viðkvæðið.

Í ljós kom að konan átti langa sögu af verkalýðsbaráttu að baki. Fór í allar kröfugöngur, vann sjálfboðastarf og þar fram eftir götum, þar til börnin komust á legg. Þá hætti hún. Þetta skipti hvort sem er engu máli. Það breytist ekkert.

**
Stuttu síðar fór konan og ráð Femínistafélagsins birtist smátt og smátt. Við héldum ótrauð áfram við að búa til bleika fána. 200 stk., nánar tiltekið, sem við dreifðum í göngunni. Við trúum því að baráttan borgi sig - en við þurfum nú kannski að setja meira fútt í hana - fleiri þurfa að taka þátt - og sýna þarf samstöðu. Hjúkkurnar núna gott dæmi! (Frábærar - eru algjörlega að slá í gegn).

**
Gangan lukkaðist vel. Góð mæting, gott veður, slagorð, kröfuskilti, bleikir fánar - og alls konar fánar. Við stilltum okkur upp á Ingólfstorgi og settum okkur í stellingar til að hlusta á barátturæður. Verkalýðshreyfingin bauð fram 2 karla á mælendaskrá. Konan fékk að vera fundarstjóri (nú eða -stýra!?). Félag framhaldsskólanema bjargaði heiðri verkalýðshreyfingarinnar og sendi kvenkyns fulltrúa á staðinn.

En verkalýðshreyfingin sá um „skemmtiatriðin“. Á krepputímum þykir víst nauðsynlegt að ráða bara karlmenn í slík verk... gegn greiðslu, geri ég ráð fyrir. Strákarnir í Sprengjuhöllinni voru bráðskemmtilegir, eins og þeirra er von og vísa. Fullkomlega sátt við þá. Hins vegar sá verkalýðshreyfingin af einhverjum ástæðum til að hafa Gísla Einarsson fréttamann á dagskrá með „gamanmál“. Gísli þuldi upp hvern karlrembu„brandarann“ á fætur öðrum. Við konurnar (og jafnréttissinnuðu karlarnir!) sem stóðum á torginu máttum sitja undir „glensi“ um að hann krefðist þess að það væri ekki vaskað upp á hans heimili á meðan enski boltinn er í gangi - og að Ingólfur Arnarson hefði stofnað fyrsta súlustaðinn - og því væri viðeigandi að hafa fundinn á Ingólfstorgi. Þetta er bara brotabrot af karlrembunni. Verkalýðshreyfingin á að vera vandari að virðingu sinni. Þetta er henni til skammar. Og Gísla að sjálfsögðu líka. Það er ekki við hæfi að fá karlrembu til að flytja gamanmál á útifundi þar sem yfirskriftin er „Verjum kjörin“. Hverra kjör? Verkalýðshreyfingin á að baki sögu þar sem hagsmunamálum kvenna hefur verið hent þegar harðnar í ári. Má sem dæmi nefna árið 1926 þegar Dagsbrún fórnaði verkakonum. Laun þeirra voru lækkuð (já lækkuð - ekki hækkuð) um 11% til að halda mætti launum verkakarla óbreyttum.

Hvað er að gerast núna? Í fyrra fékk Verkalýðshreyfingin Baggalút á útifundinn til að syngja um „femínistabeljur sem eflaust súpa hveljur“. Í ár var það Gísli Einarsson að tala um súlustaði og uppvaskið.

Öllu gríni fylgir einhver alvara. Verkalýðshreyfingin þarf að taka sig margfalt á til að vinna gegn kynbundnum launamun og karlrembu. Þetta er ekki mál sem tekið hefur verið á af þeim myndugleika sem þarf. Ofan á það sendir forystan svona karlrembuskilaboð til félagsmanna á sjálfum baráttudegi verkalýðsins.

Er nema von að kona spyrji hvort hin karllæga verkalýðshreyfing sé hæf til að gæta að hagsmunum beggja kynja. Hver er baráttan? Svarið felst kannski í Internationalnum sem sunginn var í restina:

„Bræður! Fylkjum liði í dag“

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er nú alveg dæmigert hjá ykkur. Feministarnir lauma sér inn í kjarabaráttu verkalýðsins til þess að auglýsa eigin baráttumál. Eru feministar að reyna að stela 1. maí?

En hvað annað varðar að þá var þessi fundur og dagskrá hans alveg til fyrirmyndar. Gísli og fleiri skemmtikraftar stóðu sig vel. Sérstaklega var ánægjulegt að finna fyrir hægri slagsíðu innan göngumanna verkalýðsins.

Í annað. Virkilega ánægulegt að verkamannaflokkurinn breski skuli hafa borið slíkt afhroð og raun ber vitni í sveitastjórnarkosningunum þar í landi í nótt. Svo er bara eftir að taka London. Það gerist núna í kvöld. Þessi niðurstaða verður prófsteinn á komandi þingkosningar í landinu. Nú viljum við verkamannaflokkinn burt og íhaldið inn. Gordon Brown og Harriet Harman eru að öllum líkindum á útleið. Það er gott. Virkilega gott.

Kveðja, braveheart.

katrín anna sagði...

Femínistar að lauma sér inn í gönguna??? Eins og baráttan fyrir sömu launum fyrir sömu störf, að kvennastörf séu metin til jafns við hefðbundin karlastörf, að konur hafi sömu tækifæri á vinnumarkaði og karlar sé ekki hluti af verkalýðsbaráttunni???

Ég ætla að leyfa þér að njóta vafans og skrifa þetta á fljótfærni hjá þér!

Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Til hamingju með daginn í gær femínístar, ekki spurning að við eigum fullt erindi í verkalýðsgöngu. Kvennastéttirnar eru láglaunastéttir sem halda samt uppi velferðarkerfinu. Ég er hins vegar núna í USA þar sem baráttan snýst meira um að leiðrétta slagsíðu milli kynþátta en kynja- og stéttabarátta er vart sýnileg ef marka má umræðu í local fjölmiðlum hér í Íþöku New York.

Nafnlaus sagði...

Er ekki Baggalútslagið sem þú vísar í kaldhæðni? Ég hef alltaf tekið því þannig.

katrín anna sagði...

Kaldhæðni eða ekki... það er engan veginn ljóst. Ég var fyrst á því að túlka lagið svoleiðis. Síðan heyrði ég í nokkrum konum sem urðu alltaf agalega pirraðar yfir að þurfa að sitja undir þessari kvenfyrirlitningu... og þá fór ég að hugsa málið upp á nýtt. Það er engan veginn ljóst af yfirlýsingum Baggalúts eða textanum að þetta eigi að vera kaldhæðni. Blákalt eru orðin argasta kvenfyrirlitning og karlremba - og þannig er karlrembum í lófa lagið að túlka lagið.

Ef þetta á að vera kaldhæðni þá er hún þannig úr garði gerð að hún stuggar engan veginn við karlrembunum - sem eftir sem áður geta hlakkað yfir textanum og tekið undir hann. Textinn verður því alveg bitlaus sem kaldhæðni... hvort sem hann er meintur þannig eða ekki.

Nafnlaus sagði...

Baggalútur hefur frá upphafi verið heimasíða með gríni og glensi sem tekur sig ekki alvarlega. Að því sögðu er augljóst að lögin þeirra eru það líka.
Að mínu mati þarf því að hafa allt á hornum sér til þess að meta lagið öðruvísi en það er, að sjálfsögðu grín.