miðvikudagur, apríl 30, 2008

1. maí

Konum er oft sagt að launamunur kynjanna sé þeim sjálfum að kenna af þeirri ástæðu að þær sætta sig við lægri laun. Þær eigi einfaldlega að hætta ef þær eru ekki sáttar við kjörin. Sumir ganga svo langt að hvetja konur til að skipta hreinlega um náms- og starfsval. Jamm... þætti gaman að sjá þjóðfélag þar sem engir eru kennararnir, hjúkkurnar, leikskólakennarar, ófaglærðir leiðbeinendur, ræstingafólk, starfsfólk á dvalarheimilum, í fiskvinnslu, sjúkraliðar... og svo mætti lengi áfram telja.

Þjóðfélagið þarf á þessum stéttum að halda og á auðvitað að sjá sóma sinn í því að borga fyrir þau kvensæmandi laun!

Hins vegar má líka færa rök fyrir því að eins og samfélagið er uppbyggt þá ræður sanngirni og réttlæti ekki för. Það sem blívur er oft á tíðum harkan. Eina leiðin til að fá kvensæmandi laun er hugsanlega að láta hart mæta hörðu, fara í verkfall, hætta! Þegar skorturinn er orðinn aðkallandi þá hækka launin. Þannig er það frumskógarlögmálið sem ræður hver fær sæmandi laun og hver ekki... Það er ekki sanngirni, samvinna og réttlát umbun fyrir störf sem eru þjóðarbúinu nauðsynleg sem hefur úrslitaáhrifin. Hjúkrunarkonur og geislafræðingar láta reyna á þessa leið núna. Ég vona að þeim gangi vel og láti ekki undan fyrr en þær fá sínu framgengt. Vona líka að viðsemjendur fari ofan í kjölin á samfélagsgerðinni og íhugi alvarlega hvort þetta eigi alltaf að vera stemningin - að fólk neyðist til að vera í svona baráttu í staðinn fyrir að fá hreinlega sanngjörn laun.

1. maí á morgun. Tækifæri til að fara í kröfugöngu og krefjast sanngjarna launa. Þegar baráttan er veik er hætt við að launin verði lág! Koma svo!

ps. Endilega kíkið á pistilinn hennar Steinunnar Stefáns í Fréttablaðinu í dag. Frábær pistill.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála þér en mig langar að koma með eina athugasemd. Það stingur í augun að sjá orð eins og kvensæmandi; þetta er frekar mikil málúrkynjun. Þú veist alveg jafnvel og aðrir að karlar eru ekkert meiri menn en konur. Þetta segir m.a. íslensk orðabók um orðið maður:

"tvífætt og tvíhent spendýr, hið eina sem hefur lært að tala, búa til verkfæri og vinna með þeim (um bæði kyn tegundarinnar); Homo sapiens; um hvern einstakling."

Þetta er kynhlutlaust orð, og það er bara ljótt og tilgangslaust að reyna að breyta því, eins og þú reynir hér að gera.

katrín anna sagði...

Ny ord stinga i augun sem og mal beggja kynja - einfaldlega vegna thess ad vid erum ekki von thvi. Karllægnin i tungumalinu stingur líka i augun... En ef fólk (kynhlutlaust ord) venur sig a t.d. ad nota líffeædilegt kyn í stad málfrædilegs fer málfr.lega kynid fljott ad stinga í augun.

Madur er sídan langt frá thví ad vera kynhlutlaust ord. Thad er kk ord - hann. Eg er hún og samsama mig ekki vid hann. Ordid madur á langt í frá alltaf vid um bædi kyn. Fólk talar ekki um ólétta menn, menn á túr eda segir "bid ad heilsa manninum thínum" vid gifta menn - og thá er ég ekki ad tala um konur...

Ef thú hefur gaman ad tungumálapælingum - út frá kyni - gæti thér thótt áhugavert ad glugga í Nysköpunarsjódsverkefnid "Á íslenska sér uppáhaldskyn?"

Nafnlaus sagði...

Nú já. Þú vilt ekki vera kölluð maður því að orðið er karlkynsorð. Samt titlarðu þig viðskiptafræðing, markaðsfræðing, pistlahöfund og kynjafræðinema. Þetta eru allt orð í karlkyni. Konur sem kenna eru venjulega kallaðir kennarar þó að orðið kennari sé í karlkyni. Þegar Vigdís Finnbogadóttir var foseti var hún alltaf kölluð frú forseti þó að forsetaheitið sé í málfræðilegu karlkyni. Það eru mörg, mörg dæmi um svipaða hluti. Þessi árátta þín er því mjög skrítin og ekki í samræmi við annað sem gengur og gerist í íslensku.

Fólk talar ekki um ólétta menn því að menn eru beggja kynja og karlar geta ekki orðið óléttir. Því er talað um að konur verði óléttar. Það sama á við um "menn á túr". Ég hefði haldið að þetta væri nokkuð augljóst.

Ég efast stórlega um að ég muni lesa þetta Nýsköpunarsjóðsverkefni og ég held að allir geti svarað spurningunni í titlinum án þess að lesa ritsmíðina. Bersýnilega er karlkyn "uppáhaldskyn" íslenskunnar. Og ástæðan fyrir því er sú að í 1000 ár á Íslandi voru það eingöngu karlar sem skráðu niður texta og mótuðu þannig málið. Fyrsti alvörukvenrithöfundur Íslands held ég að sé Torfhildur Hólm sem fæddist um 1850.

katrín anna sagði...

Það var reyndar mikil umræða í kringum það hvort kalla ætti Vigdísi frú eða herra á sínum tíma þannig að það þótti nú ekki sjálfgefið að hún fengi að vera hún...

Ég nota orðið maður stundum - en finnst nauðsynlegt (og skemmtilegt) að brjóta upp hina karllægu hefð þar sem konur eru nánast ósýnilegar í íslensku tungumáli.

Ég nota fræðiheitin -fræðingur þar sem ekkert annað er í boði. Ég er reyndar ekki hlynnt því að til séu mismunandi starfsheiti fyrir karla og konur fyrir öll störf - en því miður eru flest starfsheiti karlkyns. Þessu mætti breyta á þá vegu að ca helmingur starfsheita væri kvenkyns ;) T.d. væri hægt að leggja sig fram um að finna kvenkyns starfsheiti þegar ný störf verða til sem þarfnast nýyrðasmíði. Mörgum finnst þó ærið niðurlægjandi fyrir karla að vera „hún“. Sbr. orðið ráðskona í FÍ - þar þarf karlkyns ráðskonan að standa í sífelldum vörnum því sama fólk og er hart á því að konur geti víst verið ráðherrar er alls ekki á því að karlar geti notað starfsheitið ráðskona. Segir sitt um mismunandi viðhorf og hvort kynið er í uppáhaldi... og hvort ekki.

Maður er orð sem einungis er stundum notað yfir bæði kyn - og gerir konur einmitt ósýnilegar. Myndin sem poppar upp í kollinn á fólki þegar sagt er „sérðu manninn þarna“ er af karlmanni - enda orðið mjög oft notað til að tákna karlmann. Þess vegna er það ekki notað yfir ólétta menn, menn á túr - eða í setningum eins og „sérðu manninn þarna“ (og bæði karlar og konur eru innifalin í því þannig að útskýringin um að karlar geti ekki farið á túr eða orðið óléttir á ekki við um þetta).

Það er mjög sterk krafa í samfélaginu um að konur séu ósýnilegar í tungumálinu. Sem dæmi nefni ég þegar ég gengdi hlutverki talskonu Femínistafélagsins. Ég veit ekki hversu oft ég var spurð að því hvort ég væri ekki maður og af hverju ég notaði ekki orðið talsmaður í staðinn fyrir orðið talskona. Ég þurfti sem sagt að „réttlæta“ fyrir fólki að ég notaði orðið kona. Það segir sína sögu.

Það að konur voru kúgaðar í árþúsund og höfðu engan rétt réttlætir ekki að karllægni tungumálsins sé haldið út í það óendanlega. Auknu jafnrétti verður að fylgja aukinn sýnileiki í tungumálinu svo það verði mál beggja kynja. Íslenskan gegndi stóru hlutverki í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga - einmitt vegna þess að tungumálið hefur víðtæk áhrif. Karllægt tungumál hefur líka víðtæk áhrif. Bara ekki í átt að jafnrétti heldur þvert á móti.