laugardagur, ágúst 09, 2008

Búin að fatta

Aha. Búin að átta mig á hvað það er sem þvælist fyrir Jóni Steinari og Ólafi Berki varðandi nálgunarbannið. Í lögunum segir:

110. gr. a. Heimilt er leggja bann við því að maður komi á tiltekinn stað eða svæði, veiti eftirför, heimsæki eða setji sig með öðru móti í samband við annan mann ef rökstudd ástæða er til að ætla að hann muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þess manns sem í hlut á.


Farið var fram á nálgunarbann vegna þess að rökstudd ástæða er til að ætla að ofbeldismaðurinn muni fremja afbrot eða raska á annan hátt friði þessarar KONU sem í hlut á!

15 ummæli:

Halli sagði...

Þarna þykir mér þú leggjast ansi lágt.

katrín anna sagði...

Hvernig væri að rökstyðja þá skoðun? Konur hafa fyrir löngu rekið sig á það að þær njóta hér um bil engrar réttarverndar skv íslensku réttarkerfi.Ef eitthvað er er ég alltof pen miðað við hvaða tilefni er til.

katrín anna sagði...

ps. og þá er ég að meina í málefnum sem snúa að kynbundnu ofbeldi.

Halli sagði...

Ég held að þú gerir þér vel grein fyrir því hvenær málflutningur þinn fer úr því að ræða vandamálin yfir í að svívirða einstaklinga og stéttir, jafnvel annað kynið.

Hitt er alveg rétt, en kemur færslunni lítið við, að konur eru meirihluti þolenda kynferðisofbeldis. Slík ofbeldisbrot er líkt og þú veist jafnvel eða betur en ég einn sá allra erfiðasti þegar kemur að því sanna brot.

Þolendur slíkra brota njóta ekki nægrar réttarverndar og það er alþjóðlegt vandamál sem erfitt er að taka á. Lausnin felst ekki í því að svívirða þá sem semja eða starfa eftir þeim málsmeðferðarreglum sem gilda. Ef þér þykir sakborningar njóta of mikillar réttarverndar þá væri nær að benda á betri lausnir, en að níða skóinn af fólki.

Góður málstaður réttlætir ekki að beitt sé útúrsnúningum og bolabrögðum.

Halli sagði...

Ég er nota bene sammála þér um að dómurinn umtalaði sé rangur. Mér finnst þú hins vegar afvegleiða umræðuna um þessi málefni með því að gefa það í skyn að niðurstaða Davíðsdómaranna byggi á kvenfyrirlitningu.

katrín anna sagði...

Það er engu að síður mín skoðun. Þessi dómur er svívirðilegur og á sér engar málsbætur. Og það er relevant fyrir umræðuna þegar dæmt er á þennan veg í málefnum sem snúa að kynbundnu ofbeldi. Konur eiga varla séns á að komast í Hæstarétt - 7 karlar og 2 konur sitja þar nú. Það þýðir jafnframt að ábyrgð karlanna er mikil og það þýðir ekkert að ætla að taka kynjabreytuna út úr umræðunni. Kyn skiptir máli, eins og sést glögglega á þessum dómi. Ekki að allir dómarar séu svona hrikalega ofbeldismannahollir - en þessir 2 virðast ætla að sýna það og sanna með endalausum sérákvæðum og vitlausum dómum. Sem gerir það að verkum að fáar konur treysta því að fá réttláta málsmeðferð í dómskerfinu.

Halli sagði...

Það er einmitt þessi skoðun þín sem mér finnst sorglegt að horfa upp á.

Það er vel hægt að ræða vandamálið sem er Jón og Ólafur með yfirvegun og lágmarksháttvísi, sbr. t.d. þessi grein Guðmundar Andra á Vísi: http://visir.is/article/20080811/SKODANIR04/167338698

Það er ágætt að sem flestar skoðanir heyrist, en vandamálið við öfgafólk er að það er svo fast á sinni trú að það lokar augunum fyrir öllu öðru.

Að útskýra hræðilegan dóm með kynjahlutföllum í Hæstarétti er hrein vitleysa. Niðurstaða meirihluta réttarins og dómarans sem skilaði séráliti fór eftir því hvernig dómararnir mátu hagsmuni brotaþolans og brotamannsins.

Kynjavinkillinn á vel rétt á sér í umræðum um þessi mál almennt, en það er lúalegt af þér að ætla að niðurstaða meirihlutans hafi verið með þessum hætti í þessu einstaka máli vegna þess að brotaþolinn er kona.

Það er hárrétt hjá þér að dómurunum tveim er of umhugað um mannréttindi glæpamanna, en ef þú kynntir þér málin betur sæir þú að það er ekki bundið við kyn meintra ofbeldismanna eða fórnarlambanna, né hvers konar ofbeldi er um að ræða.

katrín anna sagði...

Hmmm... þannig að með öðrum orðum er það eina sem þér finnst lúalegt er að benda á kynjavinkilinn? Ef ég hefði haldið mig við að tala um glæpamenn almennt og gagnrýnt þá fyrir hollustu við þá þá hefðuru verið sáttur? Ættir kannski að taka þínar eigin ábendingar til athugunar. Ef þér finnst málefnalegt að kalla fólk lúalegt og öfgafólk í svona umræðu þá ertu á villugötum. Fáránlegt að skilgreina jafnrétti sem öfga... by the way... og enn fáránlegra að flokka það sem öfga að glæpamenn séu dæmdir og að þolendur hljóti sanngjarna og réttláta málsferð + vernd fyrir ofbeldismönnunum. Það ættu að flokkast undir sjálfsögð mannréttindi en segir sitt um samfélagið þegar fólk flokkar það með öfgum.

katrín anna sagði...

Haha. Búin að lesa greinina hans Guðmundar Andra - frábær grein! En hrikalega finnst mér fyndið hvað þú ert viðkvæmur fyrir því sem ég segi því Guðmundur Andri segir nákvæmlega það + margfalt meira... :) Ætli það sé kynið sem sé að þvælast fyrir þér? ;)

Halli sagði...

Ég veit ekki hvort þú ert að reyna að snúa út úr því sem ég sagði eða einfaldlega að misskilja það.

Þú sýnir oftæki með því að ætla þessum mönnum í þessu einstaka máli slíka kvenfyrirlitningu að þeir hefðu dæmt málið öðruvísi hefði þolandinn verið karl. Punktur.

Það er lúalegt og það kemur jafnrétti ekkert við. Líkt og ég sagði áður þá réttlætir góður málsstaður ekki svona dónaskap.

"enn fáránlegra að flokka það sem öfga að glæpamenn séu dæmdir" -> það er ekki nokkur einasta leið að komast að draga þessa ályktun af því sem ég sagði. Þú ert greinilega ekki fyrir það að eiga fullorðins samtöl um þessi mál. En ég mátti vita að þú myndir snúa út úr með því að gera viðmælandanum upp ógeðfelldar skoðanir. Þetta er þín rökfimi og það er greinilega lítið hægt að gera til þess að sleppa undan henni. Fólk mun þá enda leita annað til þess að ræða þessi mikilvægu mál sem réttarvernd í ofbeldisbrotamálum eru.

Þetta virðist vera uppskriftin sem þú notar þegar einhver gagnrýnir málflutning þinn:
"Ég er fylgjandi jafnrétti og á móti ofbeldi. Þú ert ekki sammála mér um X, ergo þú ert sátt(ur) við ofbeldi og ójafnrétti."

Ég er hreinlega ekki viss hvort þú ert með þessu að hlaupa undan því að rökræða við fólk eða hvort þú haldir að allir sem ekki taka undir hvert orð sem þú segir séu hluti af alheimssamsæri gegn þér ...

Halli sagði...

Þið Guðmundur eruð sammála um að dómurinn og dómararnir tveir séu á villigötum og að réttarvernd kvenna sé ábótavant. Það eru fæstir ósammála um þetta. En þar lýkur samleið ykkar skrifa.

Auðvitað fer hæfileikinn til þess að ræða hlutina með málefnalegum hætti ekki eftir kynfærum fólks. Ekki heldur tilhneygingin til þess að sjá ekki bjálkann í eigin auga.

Ég er ekki viðkvæmur fyrir því hvernig þú misnotar málstaðinn sem þú stendur fyrir en mér finnst það sorglegt. Það væri jafn sorglegt værir þú karl.

katrín anna sagði...

Veistu Halli, það er afskaplega erfitt að rökræða við fólk sem virðist fyrirfram vera í þeim gír að túlka allt á versta veg. Ég marka það helst af því sem þú skrifar að þú sért fyrirfram í þeirri stellingu að reyna að sjá eitthvað slæmt. Ef ég orða hlutina ekki eftir þínu höfði, ef ég segi ekki allt á yfirmáta kurteisan máta, ef ég voga mér að nota háð... þá er það allt bara merki um eitthvað slæmt og staðfestir þínar fyrirframmótuðu hugmyndir sem þú ert greinilega að leita eftir að staðfesta.

Halli sagði...

Skrítið að þú skulir segja þetta í ljósi þess að ég er búinn að taka undir margt í þínum málflutningi og lofsama baráttumálið sem slíkt.

Það sem ég gagnrýni í þessari færslu þinni og málflutningi sem fylgdi liggur í augum uppi og það þarf engin sérstök gleraugu til þess að koma auga á það.

Þetta er ekki spurning um að voga sér þetta eða stíga ekki nógu varlega til jarðar í hinu. Þú tókst þann pól í hæðina að afbaka það sem ég sagði um tiltekin orð þín sem einhverskonar almenna rembu og fordóma. Núna segirðu að þar sem ég sagði að mér fyndist þú leggjast lágt sums staðar í þinni gagnrýni annars vegar og rökræðum hins vegar, þá hljóti ég að vera á móti öllu sem þú segir.

Ég bara fórna höndum.

Það er umhugsunarefni hvað varðar baráttu þína (sem jafnan er góðra hluta verð), hvort það sé alltaf bara jarðvegurinn sem er svona grýttur eða hvort fræin sem þú sáir séu stundum alls engin fræ.

katrín anna sagði...

Segir sá sem byrjar umræðuna á orðunum „Þarna þykir mér þú leggjast ansi lágt.“ og minnist ekki orði á hvað það þýðir að dómur eins og sá sem um ræðir skuli falla í Hæstarétti. Ef þú ert að leita þér að afsökunum til að vera á móti málstað af því að hann er ekki orðaður að þínu höfði þá efast ég ekki um að þú finnir ógrynni af því hér...

Eftir stendur að æðsti dómstóll landsins er nánast búinn að eyðileggja ákvæði um nálgunarbann, sem er mikilvægt tæki í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Ofbeldismálin gerast ekki mikið ljótari en í þessu tiltekna máli og ef ekki má beita nálgunarbanni í því, hvað þá? Þú mátt stökkva upp á nef þér eins mikið og þú vilt yfir því að ég skuli hafa vogað mér að segja að kyn hafi skipt þarna máli - og meira að segja á mjög penan hátt. Prófaðu að tékka á almennum hegningarlögum þar sem allt orðalag er um menn sem nauðga öðrum mönnum o.s.frv.Nálgunarbann sem snýst um menn... og prófaðu svo að spá í hvað þú þekkir marga ólétta menn og hvað vinir þínir eru giftir mörgum góðum mönnum og hvað ætli séu margir menn á túr núna? Lögin eru karllæg og dómarnir líka - þrátt fyrir að þessir tveir sem þar eru fyrir kyn og klíku eigi sér vonandi fáa líka.

Finnst þetta annars ansi furðuleg leið sem þú velur til að gagnrýna dóminn (eða réttara sagt gagnrýna hann ekki). Væri ekki nær að þú kæmir bara þinni gagnrýni fram með þínum eigin orðum og hættir að agnúast yfir því hvort ég orði hlutina nógu pent fyrir þinn smekk?

Halli sagði...

Þetta var rætin leið sem þú notaðir í færslunni þinni til að gagnrýna dóminn.

Ég benti á góða grein Guðmundar Andra og hún endurspeglar mína skoðun á dómnum og dómurunum, auk þess sem hún er skólabókardæmi um vandaðan málflutning. Þú þykist ekki sjá mun á hans gagnrýni og þinni, það þykir mér til marks um að þú hafir ekki skilning á hvað það er sem meirihluti og minnihluti voru ósammála um. Þér er frjálst að flagga þínum skýringum á því hvers vegna dómurinn fór svona, en leitt þykir mér að þú getir ekki hlustað á gagnrýni á þessar skýringar án þess að staðhæfa að skoðanir gagnrýnandans séu annarlegar.

Ég þekki fjölmarga kvenmenn og þeir hafa flestir farið á túr og margir eignast börn. Það er önnur umræða og gerir þessa gagnrýni þína ekki réttmætari. Gagnrýni þín beindist ekki að orðalagi ákvæðisins, þar sem þetta samheiti er notað, heldur að því að dómararnir túlkuðu ákvæðið sem svo að það verndaði ekki konur.

Það finnst mér lágt seilst. Ekki að þú gagnrýnir niðurstöðuna í málinu margnefnda.

Það er umræða út af fyrir sig að hvaða marki karllæg orðnotkun bitnar á réttindum kvenna. En það er firring að ætla að þar sé komin ástæða þess að dómararnir túlkuðu nálgunarbannið allt of þröngt.