Aldrei þessu vant fjallaði pistillinn minn í Viðskiptablaðinu ekki um jafnrétti heldur tækni, nánar tiltekið iPhone. Hér er pistillinn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag:
iPhone í hnattvæddum heimi
Apple setti iPhone á markað í Bandaríkjunum þann 29. júní 2007. Segja má að um hálfgerða byltingu á símamarkaði hafi verið að ræða, en iPhone sameinar í eitt tæki síma, þráðlausa nettengingu og iPod spilara. iPhone prýða að auki tækninýjungar eins og fjölsnertiskjár. Apple seldi 3,7 milljón iPhone síma á síðasta ári. Afar áhugavert er að rýna í markaðsstefnu og markaðssetningu á iPhone og viðbrögð neytenda við læstum síma.
Eitt símafyrirtæki í hverju landi
Apple gerði einkasölusamning við AT&T símafyrirtækið í Bandaríkjunum. Samningurinn er til 5 ára og þýðir að símar sem seldir eru í Bandaríkjunum virka eingöngu með símkorti frá AT&T. Til að virkja símann þurfa neytendur að skuldbinda sig í 2 ár hjá AT&T. Apple fær hluta af tekjum AT&T og eftir yfirlegu yfir ársskýrslu Apple hafa sérfræðingar áætlað að Apple fái frá 10 – 18 USD á mánuði fyrir hvern símasamning, sem er hærra en þekkist fyrir aðra einkasölusamninga. Apple hefur farið svipaða leið við markaðssetningu á símanum í Evrópu og gert einkasölusamninga við fyrirtæki í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Frönsk lög heimila hins vegar ekki læsingu á símanum og því er hægt að fá ólæstan síma á hærra verði í Frakklandi.
Hakkarar af hugsjón
Aðdáendur iPhone hafa ekki tekið markaðsstefnu Apple þegjandi og hljóðalaust. Tvö mál hafa verið höfðuð í Bandaríkjunum þar sem því er haldið fram að um einokunartilburði sé að ræða. Vodafone í Þýskalandi fór í mál en tapaði. En neytendur í hnattvæddum heimi deyja ekki ráðalausir. Fjölmargir hakkarar hafa unnið hörðum höndum að því að aflæsa símana með góðum árangri. Sumir hakkaranna eru drifnir áfram af þeirri hugsjón að markaðsstefna Apple sé í ætt við einokun eða í það minnsta samkeppnishamlandi tilburði þar sem neytendur geti ekki valið sér símafyrirtæki eftir eigin höfði heldur eru neyddir í viðskipti við eitt tiltekið símafyrirtæki.
Hátt hlutfall hakkaðra síma
Mismunur á seldum símum hjá Apple og skráðum samningum hjá símafyrirtækjunum með einkasölusamninga á síðasta ári var 1,4 milljón eintök eða hátt í 40%. Ekki er búist við að allir símarnir séu hakkaðir en áætlað er að um 25% af heildarfjöldanum séu aflæstir. Margir þeirra eru fluttir til landa þar sem iPhone hefur enn ekki verið markaðssettur, svo sem Íslands og Kína. Svo virðist sem Apple hafi tekist frábærlega að skapa eftirvæntingu fyrir vöruna og hefur uppfyllt væntingar neytenda um gæði símans. Á hinn bóginn er markaðsstefnan algjörlega úr takt við það sem búast mætti við af framsýnu fyrirtæki í hnattvæddum heimi. Ekki nóg með að síminn sé spyrtur saman við eitt símafyrirtæki í hverju landi, heldur er hann enn einungis fáanlegur í fáum löndum og læst er á hugbúnað frá þriðja aðila, þ.e. einungis er hægt að nota símann með hugbúnaði frá Apple. Hakkarar hafa reyndar einnig fundið leið fram hjá þessu.
Löglegt að aflæsa
Ákvörðun Apple um að gera einkasamning við AT&T verður örlítið skiljanlegri í ljósi þess að flestir farsímar í Bandaríkjunum eru læstir. Neytendur geta keypt þá á lægra verði gegn langtímasamningi við símafyrirtækið. Hins vegar virðist vera löglegt að hakka símana til að aflæsa þá. Í það minnsta hefur aflæsing síma verið undanskilin höfundarréttarlögum í Bandaríkjunum þó ekki hafi reynt á hvort hakkarar megi dreifa upplýsingum um hvernig aflæsa á símana. Umræðan um læsta síma hefur breyst í kjölfar iPhone og ljóst er að neytendur láta fátt stoppa sig þegar byltingarkennd tækninýjung sem þeir vilja ólmir eignast er kynnt til sögunnar. Framtíðin verður síðan að leiða í ljós hvaða áhrif markaðsstefna Apple hefur á ímynd fyrirtækisins og samkeppnisforskot til lengri tíma litið.
miðvikudagur, febrúar 20, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli