miðvikudagur, febrúar 13, 2008
Karlakvóti
Í gær var tilkynnt um styrki til eflingar atvinnumála kvenna. Ekki er að því að spyrja að sumum finnst þetta hin mesta fásinna og telja að þetta sé mismunun á grundvelli kyns þar sem karlar fá ekki þessa styrki. Eins og svo oft áður er gott að skoða málið nánar. Við búum ekki í samfélagi jafnréttis. Það ætti að vera öllum ljóst... og öll tölfræði sýnir okkur þetta svart á hvítu. Konur og karlar eru alin upp á mismunandi hátt, ólík viðhorf eru til kynjanna og þar af leiðandi ólíkar væntingar. Karlar hafa mun meiri völd en konur en það sem er sérstaklega vert að vekja athygli á er að karlar eru viðmiðið í samfélaginu, sbr að ef sagt er að í kvöld verði landsleikur í handbolta velkist enginn í vafa um að þarna er átt við landsleik í karlahandbolta. Konur eru frávikið sem er nefnt - landsleikur í kvennahandbolta.
Nú nýlega voru kynntar til sögunnar mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna kvótaskerðingar. Fjölmargar konur og karlar missa vinnuna vegna kvótaskerðingarinnar en mótvægisaðgerðirnar miða að mestu leyti að því að skapa ný störf fyrir karla. Áætlað er að aðgerðirnar skapi 500 - 600 ný störf, mestmegnis karlastörf. Mótvægisaðgerðirnar eru hins vegar ekki kallaðar „mótvægisaðgerðir fyrir karla“. Misréttið er því falið, gert ósýnilegt. Hins vegar er kynið dregið sérstaklega fram í þeim mótvægisaðgerðum við misréttið þar sem Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra veitir styrki til eflingar atvinnumálum kvenna. Munurinn á fjárhæðum er gígantískur. Konur fá tæpar 16 milljónir. Karlarnir fá 10,5 milljarða. Konurnar fá sem svarar 0,15% af því fjármagni sem karlarnir fá... Konurnar eiga reyndar von á 50 milljónum í viðbót. Þá eru þær komnar með 0,6% af því fjármagni sem karlmennirnar fá. Já - lífið er svo sannarlega réttlátt og full ástæða til að kvarta yfir styrkjum til atvinnumála kvenna!
Hér má lesa frétt á mbl.is þar sem fram kemur að mótvægisaðgerðirnar gagnist fyrst og fremst karlmönnum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
En elsku vina mín .... hvernig geturðu mögulega fengið það út að mótvægisaðgerðirnar séu eingöngu til karlastarfa ... hvað eru karlastörf? er það einhver veruleiki sem þú skrifar upp á?
ef sett er fjármagn til sköpunar nýrra starfa vegna þess að störf tapast hvernig geta það verið karlastörf?
telur þú einhver störf henta körlum frekar en konum?
Mér þykir þessi færsla vera í svo hróplegri mótsögn við alla aðra hugmyndafræði femínista að mér verður orða vant.
Davíð Á Davíðsson
Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur. Það eru engin ný sannindi. Mótvægisaðgerðirnar munu fyrst og fremst skapa störf fyrir karla (ekki alfarið - en fyrst og fremst), en ekki konur, þó bæði kyn missi störf út af kvótaskerðingu. Kíktu endilega á fréttina sem ég linkaði á. Þar kemur þetta fram - og er staðfest af ráðherra.
Jess! Loksins getur maður aftur farið að lesa eitthvað almennilegt um jafnréttismál. Þín hefur verið sárt saknað!
En auðvitað er þetta alveg "spot on" hjá þér. Ætli það sé þannig í einhverjum öðrum málum en femíniskum þar sem andstæðingarnir eru jafn háværir og skotfastir án þess að hafa kynnt sér málin?
Allavega í fáum málum...
En welcome back. Er hrikalega fegin að ég verð ekki bara ein hérna! :-þ
Gaman að stílnum þínum. Skýrt, skorinort og vel mælt.
Finnst hrikalega gaman að lesa bloggin þín.
Kveðja, ungur femínisti.
nei hæ
sit hérna í heimaprófi í kynjafræði og googla kynskiptur vinnumarkaður í mínu mesta sakleysi og rekst á þetta fína blogg:) er þetta löggild heimild?;)
kv. Sjöfn
Skrifa ummæli