þriðjudagur, desember 16, 2008

Tilbaka

Jæja... ég rokka bara fram og tilbaka. Í þetta sinn tilbaka - á moggabloggið. Aftur byrjuð að blogga á hugsadu.blog.is... auglýsingalaust að sjálfsögðu svo það er óhætt að kíkja í heimsókn! :)

miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Traust

Traust, traust, traust. Það þarf að vera innihald fyrir því. Því boðar það ekki gott þegar valdhafar beita hörku gegn þeim sem upplýsa um spillinguna. Páll Magnússon hótaði G. Pétri málsókn vegna þess að hann vogaði sér að sýna upptöku af Geir sem sýndi Geir í miður jákvæðu ljósi. Nú hótar Glitnir málsókn vegna þess að fjölmiðlar koma upp um spillingu innan bankans. Löggan handtekur mótmælanda þvert á hans réttindi.

Hvað verður næst?
Allt eru þetta mál sem við sem ekki treystum valdhöfum þökkum fyrir. Við viljum að allt komi upp á borðið og við óttumst að það sem sé í gangi núna þoli ekki dagsins ljós - einmitt vegna þess að vantraustið á sér raunverulegar stoðir í raunveruleikanum.

Vona að fólk láti þetta ekki kúga sig enn frekar. Þau sem búa yfir upplýsingum hafa vissar skyldur gagnvart þjóðinni til að segja frá.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Af fjölmiðlum

Fór ekki á borgarafundinn í gær en frétti að hann hefði verið alveg ágætur - en ekki gallalaus. Vefritið Nei ritar um fundinn hér: http://this.is/nei/?p=697

Málefni fundarins voru fjölmiðlar og hvernig þeir hefðu brugðist. Er að velta fyrir mér hvort ég eigi að vera spæld yfir að hafa ekki drifið mig á fundinn því þetta er mér hugleikið efni. Hef lengi gagnrýnt fjölmiðla fyrir ófagmennsku og lélegheit... og síst hefur tiltrú mín á fjölmiðla tekið kipp upp á við eftir bankahrunið heldur hefur traustið minnkað enn frekar. Er á því að fjölmiðlar hér á landi séu afspyrnulélegir. Sumir hafa kennt um litlu fjármagni og tímaþröng og það er örugglega hluti af skýringunni. Hluta skýringarinnar er væntanlega einnig að leita í einhverjum af þeim ástæðum sem fjölmiðlar gáfu á borgarafundinum - um ægivald ráðamanna og eignarhald útrásarvíkinganna. Hins vegar segir það ekki næstum alla söguna. Fjölmiðlar hafa markaðsvæðst töluvert mikið á síðustu áratugum og það sést augljóslega á fréttum. Að auki er fréttamat og fréttastjórar gegnsýrðir af karlrembu. Sést ágætlega t.d. á lágu hlutfalli kvenna í fjölmiðlum - fréttastjórunum þykir nefnilega svo lítið til kvenna koma að það taki því ekki að tala við okkur eða flytja fréttir af því sem konur eru að gera. Konur eru annars flokks þegnar í þjóðfélaginu. Viðhorf Sigmundar Ernis lýsir sér ágætlega frá því á borgarafundinum í gær en þar líkti hann fjölmiðlafólki við kellingar - af því að þeir sýndu linkind. Þessu var nánast tekið án mótmæla - en væntanlega hefði salurinn ekki tekið því þegjandi og hljóðalaust ef hann hefði lýst fjölmiðlafólki sem niggurum fyrir linkindina. Fólk samþykkir nefnilega ekki svo augljósan rasisma en kvenhatrið er gúdderað.

En aftur að markaðsvæðingunni. Fjölmiðlum er meira í mun að flytja fréttir sem selja en fréttir sem eru bara nákvæmlega það - fréttir. Á sama tíma tönglast þeir á trúverðugleika fjölmiðla, að trúverðugleikinn skipti þá öllu máli. Jamm. Málið er bara að nú er trúverðugleikinn enginn. Nefni hér dæmi af visir.is. Nú er þar að finna á forsíðunni eftirfarandi fyrirsagnir:


Geirvarta Nicole Kidman - myndir.
Vextir af verðtryggðum lánum verði aldrei hærri en 2%.
Þáði kakó og stal bíl.
Skælbrosandi Miley Cyrus og John Travolta - myndir.
Fréttaskýring: Davíð segir ekkert að marka eigin skýrslur.
Angelina og Brad ástfangin - myndir.
Lækkun í Asíu í kjölfar Wall Street.
Þorgerður Katrín hannar kjöl úr gardínuefni.

Og á Mogganum er þetta að finna:

Arnór: áfallið meira hér.
Urban fremri Cruise (þ.e. nýji eiginmaður Kidman betri en sá gamli).
Bjarni móðgar framsóknarmenn.
Konur verða mildari með aldrinum.


Dv á svona spretti:

Ekki flotkróna fyrr en Davíð víkur.
Englar í sexý undirfatnaði - myndir.
Hættulegir menn taka við IMF-láninu.
Dularfulla naflahvarfið.
Óskar eftir pólitísku hæli.
Kate Hudson í sleik - við konu.

Jamm einmitt. Greinilega hugsandi fjölmiðlar - og trúverðugleikinn uppmálaður. Ég meina - hver treystir ekki fjölmiðli sem hefur það fréttamat að það sé í alvörunni alheimsfrétt að kona fór í sleik við konu eða að það sást einhvers staðar í geirvörtu?

Skal reyndar veðja að fjölmiðlar koma með þá skýringu á þessu að lesendur fjölmiðla séu bara svo vitlausir að þetta séu fréttirnar sem þeir vilja... sem er auðvitað drullugóð ástæða til að flytja þessar ekki-fréttir og fullkomnar trúverðugleikann, er það ekki, og fullkomin ástæða fyrir fjölmiðla að standa sig ekki í stykkinu...! Eða þannig.

Annað dæmi um hversu gjörsamlega máttlausir fjölmiðlarnir eru er blaðamannafundurinn í síðustu viku þar sem aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að kynna aðgerðir varðandi heimili landsins voru tilefni fundarins. Ég hlustaði á þau Ingibjörgu og Geir kynna aðgerðirnar. Svo komu spurningar fjölmiðlamanna. Ég hlustaði reyndar ekki alveg til enda en heyrði allavega 20 mínútur af spurningunum. Og um hvað snérust þær? Jú, Icesave reikningana. Það kom ekki ein einasta spurning um heimilin og aðgerðirnar. Enginn spurði hvort afnema ætti verðtryggingu. Enginn spurði hvort það ætti virkilega að verða svo að ríkið hirti nánast öll heimili í landinu í gegnum verðtrygginguna - og ætlaði sér svo kannski að selja aftur til auðmanna á slikk þegar bankarnir verða aftur einkavæddir. Enginn spurði út í atvinnuleysisbæturnar, hvort þær væru afturvirkar þannig að fólk sem fór í 50% stöðu um síðustu mánaðarmót fengi bæturnar greiddar. Enginn spurði hvort afnema ætti 10 daga bilið sem engar bætur eru greiddar. Enginn spurði hvað gera ætti fyrir fólk sem var í fjárhagsörðugleikum á tímum gróðæris. Nada...

Held satt best að segja að þetta hafi verið fundurinn sem trú mín á fjölmiðla rauk endanlega út um gluggann...


*
Viðbót - og enginn hefur beðið ríkisstjórnina og seðlabankastjórana um að koma með dæmi um lönd þar sem stýrivaxtahækkunin hefur virkað. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur er búin að nefna slatta af löndum þar sem það hefur ekki virkað.

laugardagur, nóvember 15, 2008

Þróunaraðstoð

Á í alvörunni að skera niður í þróunaraðstoð þjóðarinnar???? Ég vil ekki trúa því. Við stóðum okkur illa í þróunaraðstoð í gróðærinu, gerðum ekki nándar nærri nóg. Þetta er liður sem við eigum ekki að skera niður. Við stöndum núna frammi fyrir því að lenda sjálf í kreppu. Við erum hrædd um að missa heimili okkar, vinnu, sparnað, lífeyri og að eiga ekki fyrir mat. Við þurfum að finna leiðar til að standa vörð um menntakerfið okkar, velferðarkerfið og heilbrigðiskerfið - kerfi sem við skilgreinum sem grunnstoðir fyrir velferðarsamfélag og hagsæld til langs tíma litið. En það er fleira sem skiptir máli. Nú upplifa margir Íslendingar reiði vegna þess að þeim finnst alþjóðasamfélagið standa aðgerðarlaust hjá og horfa á okkur sökkva í sæinn. Gleymum því samt ekki að það eru mörg lönd sem eru mun ver stödd heldur en við. Það eru lönd þar sem gróðærið hefur ekki ríkt, þar sem fátæktin er mikil og skortur á lífsnauðsynjum eins og mat, vatni og lyfjum. Síðan eru lönd þar sem ríkir stríð. Hvað er t.d. að gerast núna á Gaza? Erum við að leggja hjálparhönd eða stöndum við bara aðgerðarlaus hjá á meðan matur er tekinn af fólki og skorið á allar þeirra bjargarlínur? Mér sýnist hið síðarnefnda eiga betur við okkar afstöðuleysi. Okkar ríkisstjórn er nefnilega bissí, skiluru??

Nú er okkur tíðrætt um að þeir sem beri ábyrgð verði að líta í eigin barm og átta sig á mistökunum. Auðvitað ætti það að vera sjálfsagt mál þó ráðamenn okkar og útrásarvíkingarnir átti sig ekki á því. En það eru fleiri en þeir sem verða að líta í eigin barm. Ef við ætlum að byggja hér upp betra samfélag þá eigum við auðvitað að taka réttlætið alla leið - ekki bara fyrir Ísland. Það er ekkert réttlátt við það hvernig ríkari þjóðir heims hafa arðrænt fátækari þjóðir í gegnum alþjóðavæðinguna. Við vitum vel af því að hér í þessum heimi eru fleiri milljónir í þrælkun til að framleiða vörur fyrir ríkari löndin. Við höfum oft ekki úrræði til að meta hvort það sem við kaupum er framleitt við mannsæmandi aðstæður þar sem fólk getur lifað af vinnu sinni eða hvort vörurnar eru framleiddar við aðstæður sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en sem grimmúðlegum, ómannúðlegum og ósanngjörnum. Við erum hins vegar ekki hörð á því að gera kröfur á fyrirtækin sem selja okkur vöruna um að tryggja að framleiðslan fari fram á hátt sem við gætum skammlaust lagt nafn okkar við.

Við þurfum að byggja upp á nýtt. Rísa aftur upp úr öskunni en gætum við í þetta sinn risið upp með réttlætið og mannréttindi að leiðarljósi? Ekki bara fyrir Íslendinga heldur fyrir heiminn? Gætum við byrjað að hugsa heildstætt? Og ef við ætlum að hugsa heildstætt þá ættum við líka að sjá að við erum vel aflögufær í þróunaraðstoð. Þar eigum við að taka okkur á og gera miklu meira - ekki skera niður.

**
Ps. Má svo til með að bæta við slóð á pistil sem er alveg brill: „Er hetja á Alþingi?"

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Málefnalegur launamunur kynjanna er ekki til

Mætti ég spyrja borgarráð hvað málefnalegur launamunur sé?

Vísir, 06. nóv. 2008 15:54
Enginn ómálefnalegur launamunur á milli kynja hjá borginni

Enginn ómálefnalegur launamunur á milli kynja reyndist í dagvinnulaunum starfsmanna Reykjavíkurborgar í fyrra samkvæmt nýrri úttekt á launamun kynjanna sem kynnt var í borgarráði í dag.

Könnunin var unnin fyrir mannauðsskrifstofu borgarinnar og hún sýnir að dagvinnulaunamunur kynja hefur minnkað verulega, eða úr 15 prósentum árið 1999 í fjögur prósent í fyrra. Munurinn á heildarlaunum kynjanna hefur á sama tíma farið úr 14 prósentum í níu sem er sambærilegt við það sem lægst gerist í erlendum könnunum. Þegar tekið hefur verið mið af innbyrðis röðun starfa reynist enginn ómálefnalegur launamunur hjá borginni sem fyrr segir.

Borgarráð fagnaði niðurstöðunni og segir í bókuninni að ljóst megi vera að sú áhersla sem Reykjavíkurborg hafi til margra ára lagt á jafnrétti kynjanna og aðgerðir til að eyða launamun séu að skila sér með þessum mikilvæga árangri.

„Rannsóknin sýnir einnig að launaákvarðanir Reykjavíkurborgar og starfsmat ásamt aukinni menntun og starfsreynslu kvenna hefur skilað miklu til að draga úr launamun kynja hjá Reykjavíkurborg. Rannsóknin staðfestir þannig að með kröftugum ásetningi og skýrum markmiðum er hægt að ná árangri sem um munar til að treysta jafnrétti kynjanna. Borgarráð leggur áherslu á að hér eftir sem hingað til sé kynjajafnrétti skýrt og sameiginlegt markmið borgaryfirvalda," segir í bókuninni.

miðvikudagur, nóvember 05, 2008

Hver ber ábyrgð?

Kannski á eftir að líða einhver tími þangað til við fáum einhvern botn í hvað raunverulega gerðist en kannski er það heldur ekki svo flókið...

Við erum hluti af alþjóðasamfélagi en þó ekki. Við erum hluti af samfélagi sem byggir á feðraveldis nýfrjálshyggju og kapítalisma en þó ekki. Alþjóðlega regluverkið reyndist gallað. Mér finnst áhugavert að skoða þetta út frá valdatengslum í anda Foucault - hinu allt um lykjandi valdi sem er í öllum og alls staðar en kristallast ekki í einhverri einni yfirstjórn.

Ef við skoðum EES samninginn fyrst þá skilst mér að ákvæði í honum hafi gert bönkunum mögulegt að opna útibú í öðrum löndum með íslenskri ríkisábyrgð án þess að samþykki þyrfti að vera til staðar hjá íslensku ríkisstjórninni (og hvað þá íslensku þjóðinni). Í raun má segja að þetta sé hálfgerð gildra fyrir smáríki. Þarna ráða stóru ríkin för í regluverkinu en reglurnar henta ríkjunum ekki eins og úrræðin til að bregðast við eru ekki þau sömu. Einstök ríki voru ábyrg fyrir úrlausnum, þ.e. að vinna á vandanum þó regluverkið þýddi að útrás væri möguleg án samráðs við ríkið.

Þetta eru fyrst valdatengslin - stórar þjóðir vs smáar þjóðir í alþjóðlegu regluverki sem felur í sér alls kyns gildrur sem stórar þjóðir geta kannski leyst úr en ekki litlar.

Löggjafarvaldið er síðan næsta klúður og spurning hvaða vald löggjafarþingið hefur eftir allt saman? Þar er greinilega hræðsla við að taka á málunum, eins og t.d. með því að hefta þetta margumtalaða frelsi einstaklinga en sérstaklega fyrirtækja til að gera hvað sem er. Þetta er áhugavert út frá þeirri umræðu um að valdið sé að færast í auknum mæli frá þinginu og yfir til fyrirtækja, þ.e. til viðskiptalífsins. Af einhverjum ástæðum var ekki girt fyrir þennan möguleika banka á að stofna útibú erlendis með íslenskum ríkisábyrgðum þrátt fyrir að öllum hefði átt að vera ljóst að það væri algjört glapræði að hafa okkar örþjóð í ábyrgð fyrir sparifé alheimsins.

Það er hlutverk stjórnvalda að vernda þjóðaröryggi landsins. Efnahagslegt öryggi flokkast þar með. Það er þess vegna stjórnvalda að sjá til þess að bankakerfið og útrásin verði ekki of stór fyrir íslenska þjóð. Í því samhengi verður að gera ráð fyrir að allt geti farið á versta veg. Það er ekki leyfilegt að hugsa sem svo að þetta reddist og worst case scenario muni ekki gerast. Í ljósi sögunnar væri það enda einstaklega naive afstaða.

Seðlabankann og FME ætla ég ekki að segja mikið um - en augljóslega á peningamálastefnan sinn þátt í því hvernig fór og auðvitað brást allt eftirlitskerfi. Ég sá einhvers staðar frétt þar sem vitnað var í Jónas Fr. um af hverju ekki hefði verið brugðist við Icesavereikningunum og hann sagði eitthvað á þá leið að það væri út fyrir skilgreint verksvið FME. Þetta er einmitt einn af akkilesarhælum opinberra stofnana. Skilgreiningar á starfsemi eru of stífar og veita ekki nægjanlegt svigrúm til að fylgja eftir síbreytilegum heimi.

Útrásarvíkingarnir og æðstu stjórnendur bankanna eru síðan kapítuli út af fyrir sig. Ári áður en bankarnir hófu að veita húsnæðislán gerðu þeir skýrslu þar sem þeir vöruðu við 90% lánum til íbúðarkaupa. Sögðu að afleiðingarnar yrðu skelfilegar. Ári seinna stukku bankarnir af stað, ekki með 90% lán heldur 100%. Þetta sýnir vel græðgina. Hagur þjóðarinnar var alltaf aukaatriði.

Fjölmiðlar virðast síðan hafa verið nánast gagnrýnislausir í klappliðinu. Tökum sem dæmi ofangreind húsnæðislán. Þegar verðið hækkaði upp úr öllu valdi þá komu fram spurningar um hvað myndi gerast þegar verðið lækkaði. Þá komu fram „spekingar“ sem héldu því fram að húsnæðisverð lækkaði aldrei, það bara gerðist ekki og hefði aldrei gerst í Íslandssögunni. End of story. Nú er verðið byrjað að lækka. Og viti menn - sjáum við þá ekki í fjölmiðlum dæmi um massíva lækkun í löndunum í kringum okkur, t.d. Finnlandi.

**
Ofangreint er auðvitað bara örlítil mynd af heildarmyndinni en það sem mér finnst skipta mestu máli að skoða er hugmyndafræðin á bakvið þetta allt saman. Auðvitað eru einstaklingar í forsvari en einstaklingar starfa innan hugmyndakerfa. Ég vil ekki fría þá einstaklinga ábyrgð sem komu okkur í þessa stöðu (þvert á móti) en ég veit jafnframt að ef það er það eina sem við gerum þá lagast ekkert og ekkert breytist í raun. Ef sú hugmyndafræði sem hér hefur verið ríkjandi heldur áfram þá munu bara spretta fram nýjir einstaklingar sem gera sömu hlutina. Þar að auki má velta því upp að það er hugmyndafræðin sem kom okkur á hausinn og þeir einstaklingar sem eru við stjórnvölinn kunna ekki aðra hugmyndafræði og þar af leiðandi verða „lausnirnar“ byggðar á hugmyndafræði sem ekki virkar og geta komið okkur enn frekar um koll, þ.e. meiri vandræði en við erum nú þegar í.

Meira um þetta seinna... orðið nógu langt í bili.