föstudagur, júlí 25, 2008

Baggalútslagið

Það veldur töluverðum áhyggjum að sumt fólk átti sig ekki á að textinn við nýja lag Baggalúts snýst um nauðgun en ekki kynlíf... Held að einfalda reikniformúlan um að við séum komin 42% áleiðis skili alltof bjartsýnni niðurstöðu. Ef það er almennt viðhorf að það sé bara dæmi um týpískt íslensk fyllerísrugl að strákar fari á Þjóðahátíð með það að markmiði að missa sveindóminn með dauðadrukkinni konu sem ekki sleppur frá þeim þar sem hún er innikróuð á eyjunni og þeir þurfi þar að auki að fara við hana í slag til að fá sínu framgengt... þá er það augljóst merki um að fyrir sumum er nauðgun kynlíf... Lýsingin á því sem fram fer í texta Baggalúts gerir hvergi ráð fyrir að konan sé samþykk - hvergi ráð fyrir að henni þyki þetta gott eða gaman - hvergi gert ráð fyrir að þetta sé á forsendum beggja kynja. Strákurinn og það sem hann vill er viðmiðið og aðalatriðið. Vilji konunnar aukaatriði og kynfrelsi hennar virt að vettugi. Mér er ekki skemmt...

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, Baggalútur er að predika nauðganir, enda veit hvert mannsbarn að við strákarnir sættum okkur ekki við annað. Við nauðgum bara. Naugðum nauðgum nauðgum. Eina sem við gerum er að nauðga hjálparvana konum og syngja svo um það.

Mikið óskaplega vorkenni ég þér að hafa þessa sýn á heiminn. Býst sterklega við því að þú munir á móti lýsa yfir vorkunn þinni á mér og svo setja út á nafnleysi mitt, þannig að láttu bara vaða.

katrín anna sagði...

Nei ég ætla ekki að vorkenna þér. Hins vegar hef ég töluverðar áhyggjur af því að fólk skuli almennt líta á þennan texta Baggalúts sem söng um kynlíf með samþykki beggja aðila. Ef konan er samþykk þá er engin þörf fyrir hana að flýja. Ef hún er í þeim gír að flýja er það skýrt merki um að hún er ekki samþykk. Kynlíf er heldur ekki slagur.

Annars ertu góður í að alhæfa. Það ætti að gleðja þig...

En varla ertu að velta því fyrir þér hvort það sé fræðilegur möguleiki að einhverjir strákar nauðgi einhverjum stelpum... Mér heyrist á kommenti þínu að í þínum heimi séu nauðganir ekki til. Þannig er það líka í mínum draumaheimi en því miður er það ekki þannig í raunveruleikanum. Við því þarf að sporna. Það að predíka að það sé rosa sniðugt fyrir stráka að stefna á að missa sveindóminn með dauðadrukkinni stelpu sem langar að flýja er ekki góð og gagnleg kynfræðsla. Mætti frekar flokka það sem slæma og skaðlega nauðgunarfræðslu.

Þeir sem eru á móti nauðgunum og fylgjandi kynlífi þar sem vilji og samþykki beggja aðila skiptir öllu máli ættu ekki að vera hræddir við að láta þá skoðun í ljós. Heimur án kynferðisofbeldis verður ekki til af sjálfu sér - það þarf að vinna í því að skapa jafnréttissamfélag þar sem slíkt ekki þrífst. Það gerist ekki með því að syngja nauðgunarlög og reyna að telja fólki trú um að nauðgun sé kynlíf.

Nafnlaus sagði...

Kannski ættir þú að velta fyrir þér afhverju langflestir sjái ekki nauðgun út úr þessum texta en þú sérð það. Er það ef til vill eitthvað sem þú ættir að hafa áhyggjur af? Eða er það þannig að allir hinir eru voða vitlausir og þú og Sóley og ráðskonan eruð voða upplýstar og skiljið þetta allt, annað en pöpulinn.