þriðjudagur, október 07, 2008

Kapp er best með konum

Í ljósi breyttra samfélagsaðstæðna mun októberhitt Femínistafélagsins verða helgað konum í kreppu.
Hvar eru konurnar? -Hvert er þeirra hlutverk? -Hvaða máli skipta þær? -Hver ákveður það?

Hittið er sem fyrr á efri hæð Sólon - í kvöld kl. 20


Öll velkomin.

**
Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu síðastliðinn miðvikudag - 1. okt:

Kapp er best með konum
Um heim allan klóra menn sér í kollinum og velta fyrir sér hvað fór úrskeiðis. Hvernig var hægt að klúðra fjármálamörkuðum með eins miklum stæl og raun ber vitni? Geir Haarde hafði eftir Alan Greenspan, fyrrum seðlabankastjóra Bandaríkjanna, í viðtali við Ísland í dag á mánudagskvöld að viðbúið væri að svona lagað gerðist einu sinni á hverri öld. Ekki veit ég hvaðan Alan hefur þá speki en hins vegar er ég fullviss um að staða mála væri öðruvísi ef konur hefðu setið til jafns á við karla í fjármálageiranum.

Skortur á drápseðli er kostur
Fjármálageirinn hefur löngum verið gagnrýndur fyrir að vera karllægur. Í æðstu stöðum eru karlmenn og markaðurinn dýrkar þá tegund karlmannsímyndar sem hampað er í leikritinu Hellisbúanum. Samkeppnin er gífurleg og reglan er sú að sá sem á mest dót þegar hann deyr vinnur. Sá sem nær langt í þessum geira verður að hafa almennilegt „killer instinct“. Skortur á drápseðli hjá konum er einmitt afsökun sem forstjóri hér í borg bar fyrir sig til að réttlæta rýran hlut kvenna í æðstu stjórnunarstöðum.

Með orðum hellisbúans
Staðalímyndin af hellisbúanum er að hann hafi verið bæði heimskur og árásargjarn. Þetta er ekki góð blanda. Það vita allir viti bornir menn; karlar jafnt sem konur. Þess vegna sætir það furðu að hellisbúinn sé talinn eftirsóknarverð fyrirmynd að góðum fjármálamanni. Ár eftir ár höfum við hlustað á þær réttlætingar að karlar séu áhættusæknir og það sé súpergott því hafið sé yfir allan vafa að það muni leiða til framþróunar og ríkidæmis fyrir okkur öll. Að sama skapi er sagt að konur séu áhættufælnar sem sé ávísun á stöðnun, sult og seyru. Með orðum hellisbúans: karlar = gott, konur = vont.

Þetta er þvert á rannsóknir sem sýna að fyrirtæki með jafnt kynjahlutfall skila að jafnaði betri hagnaði en fyrirtæki sem karlar einoka. Hvort sem körlum líkar betur eða ver þá deila þeir þessari jörð með konum. Að neita að deila stjórnarherbergjum og öðrum áhrifastöðum með konum eru hreinlega slæm viðskipti – í anda hellisbúans. Það ber ekki vott um góða stjórnunarhæfileika að sjá ekki þá kosti sem helmingur mannkyns hefur yfir að búa. Að viðhalda fjármálastöðugleika í síbreytilegum heimi krefst úthalds, forsjálni og langtímahugsunar. Með öðrum orðum, sú áhættumeðvitund sem haldið er að konum er stór kostur að hafa í ábyrgðarstöðum.

Áhættumeðvitað veðmál
Það er fátt sem hefur eins mikil áhrif á líf okkar og kyn. Sama til hvaða menningarsamfélaga við lítum þá sjáum við mismunandi hlutverk fyrir konur og karla. Sú ævaforna karlmennskuímynd sem er hampað í viðskiptalífinu í dag hefur ekki eingöngu áhrif á þá karla sem reyna að fylgja henni út í ystu æsar. Afleiðingarnar sjást á ástandi heimsmála. Áhættusæknin, græðgin, samkeppnin og hamhlaupið spila stóra rullu. Krafan um að vera „sannur karlmaður“ á forsendum feðraveldis sem byggir á yfirráðum og undirgefni leiðir ekki af sér góða útkomu heldur þvert á móti. Við greiningu á hvað fór úrskeiðis væri einmitt áhugavert að skoða karlmennskuímyndina og hvaða þátt hún á í að svo fór sem fór. Heilmikil þekking er fyrirliggjandi um áhrif kynímynda í kynjafræðinni. Það væri óvitlaust hjá nútímamanninum að grúska meira í þeirri þekkingu og nýta hana. Ég þori að veðja að útkoman verði sú merka uppgötvun að kapp er best með konum.

1 ummæli:

kókó sagði...

Vá! Flott að þetta náði að birtast ÁÐUR en allir bankarnir voru þjóðnýttir. Þó við þessar áhættumeðvituðu sæum í hvert stefndi... svona næstum því.