mánudagur, ágúst 28, 2006

Chippendales og viðbrögðin

Ákvað að birta hérna pistilinn sem ég skrifaði um komu Chippendales. Hann birtist í Viðskiptablaðinu þann 9. ágúst. Verð að viðurkenna að ég fæ pínkulítið kikk út úr því hvað ég var sannspá um viðbrögð við komu þeirra - og hvernig Chippendales verða fyrirmyndar fulltrúar feðraveldisins. Dregur dálítið úr kikkinu að það var eiginlega algjör "no brainer..." Ef þú vilt sönnun, lestu þá endilega líka þessa pistla:

Ekki sama hvort um Jónu eða Jón er að ræða? eftir Ingunni Guðbrandsdóttur á Deiglunni.

Einn og hálfur tími af hreinum unaði... eftir Hauk Skúlason á Tíkinni.

Fullkomnustu folar heims á Íslandi eftir Erlu Margréti Gunnarsdóttur á heimasíðu Heimdallar.

Hérna kemur svo pistillinn minn:

Jafnrétti á fölskum forsendum
Að horfa á karlmennina í Chippendales strippa er betra en kynlíf. Þessu er haldið fram fullum fetum í frétt sem birtist á visir.is í síðustu viku. Margt fleira áhugavert er hægt að lesa í sömu frétt. Laura Bush, forsetafrú Bandaríkjanna, fór til að mynda á sýningu folanna í Las Vegas á dögunum og svo virðist sem sýningin sé fyrirtaks hjónabandsmarkaður því 11 dansarar úr Chippendales hafa gifst konum sem voru á sýningu hjá þeim. Það ber að taka fram að samkvæmt fréttinni eru ekki neinir aukvisar hér á ferð heldur fullkomnustu karlmenn í heimi.

Folar en ekki menn
Tilefnið af ofangreindum fréttaflutningi er að Chippendales munu halda sýningu á Íslandi nú í ágúst. Ef eitthvað er að marka fréttirnar er um þvílíka himnasendingu að ræða fyrir íslenskar konur, eða hvað? Áhugavert er að bera saman orðræðuna í kringum komu Chippendales við nektarsýningar kvenna. Með hástemmdum lýsingarorðum um ágæti á strippsýningu karla fá margir kærkomin mótrök í umræðuna um súlustaði. Nú er hægt að benda á fréttina á visir.is og segja að karlmenn séu hlutgerðir, um þá sé talað sem fola en ekki menn, þeir séu hér í þeim eina tilgangi að fullnægja kynferðislegum löngunum kvenna og þar fram eftir götum. Nú er ég ekki ein af þeim sem gleðst yfir komu Chippendales heldur þvert á móti því ég tel að jafnrétti felist ekki í því að koma öllum í jafnslæma stöðu. Ég lít samt sem áður ekki á komu Chippendales sömu augum og þann iðnað sem byggir á sölu kvenna.

Auga fyrir auga
Í augum sumra snýst jafnrétti um kynblindu en í raun verður kynblinda á tíðum til þess að misréttið nær að þrífast vegna þess að mismunandi staða kynjanna í þjóðfélaginu er ekki tekin með í myndina. Í því ljósi er vert að skoða orðræðuna í kringum komu Chippendales. Borgaryfirvöld hafa sett alls kyns reglur til að koma í veg fyrir súlustaði í miðbænum. Einkadans er bannaður samkvæmt lögreglusamþykkt og ekki á að veita nýjum stöðum vínveitingarleyfi. Þetta er þverbrotið og nú spretta súlustaðir upp eins og gorkúlur í miðborginni. Á sama tíma eru Chippendales fluttir til landsins undir því yfirskyni að skemmta konum landsins. Aðstandendur sýningarinnar eru ekki af verri endanum en það eru Sena, Vífilfell (Viking Light) og útvarpsstöðin Létt Bylgjan. Sýningin er auglýst í sjónvarpinu og eflaust verður reynt að kynda undir stemninguna með margvíslegum hætti. Chippendales sýningin verður að félagslegum viðburði kvenna til að standa upp á stólum og öskra í tilraun til að ná fram örlitlu jafnrétti með að gera karlmönnum það sem karlar hafa gert konum í gegnum tíðina. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn og því skal stemningin vera sýnileg. Ferðir karlmanna á súlustaði eru hins vegar einkaathöfn framin í skjóli ósýnileika. Viðskiptavinir súlustaða sjást aldrei í umræðunni. Fréttamenn dirfast ekki að sýna karlkyns kúnnann því hann skal njóta friðhelgi og nafnleyndar.

Hjónabandsmarkaður eða strippsýning?
Umgjörðin í kringum sýningu Chippendales ber keim af hefðbundnum hlutverkum og valdatengslum kynjanna. Greinilega er ekki gert ráð fyrir því að konur fái sérstaka ánægju út úr því að stunda kynlíf og aðstandendur og fréttamenn því ekki feimnir við að skella því fram að sýningin sé betri en kynlíf. Einnig er hjónabandi blandað inn í sýninguna og bent á að nokkrir karlanna hafi gifst konum sem þeir hittu á sýningunni. Ekki verður betur séð en þarna eigi að höfða til þeirrar mýtu að æðsti draumur hverrar konu sé að giftast og lifa hamingjusöm til æviloka með hinum eina sanna draumaprinsi. Chippendales dönsurunum er síðan lýst sem fullkomnustu karlmönnum í heimi, kannski til að undirstrika að hver kona geti verið stolt af að kynna einn slíkan fyrir mömmu og pabba sem tilvonandi eiginmann?

Leið til að viðhalda völdum
Koma Chippendales merkir þrennt í mínum huga. Í fyrsta lagi munu þeir verða notaðir sem afsökun feðraveldisins til að viðhalda þeirri kúgun sem konur verða fyrir í gegnum kynlífsiðnaðinn. Í öðru lagi verða þeir notaðir til að ýta undir þá þróun að gera karlmenn í auknum mæli að neysluvöru sem hægt er að græða peninga á að selja aðgang að. Í þriðja lagi geta þeir hugsanlega opnað augu einhverra karlmanna fyrir því hvers vegna það er skaðlegt mannlegu samfélagi að koma fram við fólk sem markaðsvörur en ekki manneskjur og að gera kynlíf að neysluvöru. Í öllu falli er ljóst að koma Chippendales er ekki tengd raunverulegri jafnréttisbaráttu heldur öllu frekar feðraveldi sem veit að það verður að þykjast vilja jafnrétti konum til handa. Leiðin sem feðraveldið velur til að viðhalda völdum sínum er að slá ryki í augu viðmælenda með því að ýta konum í þá átt að taka upp skaðlega hegðun karlaveldisins þótt vitað sé að sú hegðun sé á allt öðrum forsendum og með allt önnur valdatengsl en verslun karla með konur.

14 ummæli:

ErlaHlyns sagði...

Flott grein, Katrín.

Pistill Ingunnar, sem þú bendir á, var valinn pistill vikunnar á Deiglunni...

katrín anna sagði...

Já ég sá það. Deiglunni virðist vera mjög uppsigað við FÍ þessa dagana og slétt sama hvort þau fari með rétt mál eða ekki. Skrýtið, eins og svo margt annað. Held þau séu svona "skemmtilega" fúl eftir að ég sendi þeim athugasemd við pistil frá téðri Ingunni þar sem hún gerði FÍ miskunnarlaust upp skoðanir - og í staðinn fyrir að leiðrétta það þá völdu þau þann pistil einmitt líka sem pistil vikunnar. Credibility skiptir greinilega ekki miklu máli þar á bæ... því miður því mér fannst oft gaman að lesa pistla á Deiglunni en eftir þetta er ég nokkuð mikið til hætt að taka mark á því sem þar er skrifað.

En takk fyrir að senda póstinn um pistlana inn á umræðupóstlistann - ég hefði ekki séð pistilinn frá Erlu nema út af því :)

Nafnlaus sagði...

Ahhhhh! Gott að fá þig aftur. Gaman að fá pistilinn hingað inn. En því miður náði þetta ekki að hafa nein áhrif á skoðun mína og reyndar finnst mér þessi færsla vera til þess eins að fullvissa mig enn meira um að skoðun mín sé réttmæt :(

katrín anna sagði...

Bööö - þú segir það bara til að vera ósammála!!!!

Sástu skrifin í Fréttablaðinu um sýninguna. Mjög fáránleg "frétt" þar sem talað var um að konurnar hefðu slefað yfir körlunum og ekki hikað við að káfa á þeim. Þar að auki var mynd af einni konunni upp á sviði með Chippendalesgaur. Hefurðu einhvern tímann séð svona skrif um heimsóknir karla á súlustaði? Eða séð mynd af súlustaðakúnna?

Silja Bára sagði...

hæ hæ,
löngu búin að linka á þig en gleymdi alveg að kommenta! Mér finnst þetta mjög góður punktur hjá þér með myndbirtinguna - það er varla að menn sem koma sjálfviljugir fram og tala um neyslu sína á strippbúllum fái mynd af sér í sjónvarpið (manstu t.d. eftir þeim sem kærði Geira Goldfinger fyrir óréttmætar kreditkortafærslur?) en það er fair game að sýna myndir af konum sem eru svo djarfar að káfa á hálfberum gaurum á almannafæri.

Nafnlaus sagði...

Ósammála til að vera ósammála er einn af mínum löstum. Hinsvegar á það ekki við núna.

Þú segir að maður sjái ekki myndir af karlkynskúnnum. Það er rétt að það er minna um það. Gerir þú þér einhverja grein fyrir því af hverju maður sér ekki karlkynskúnna á svona stöðum en fær að sjá kvenkynskúnnana? Einhvernveginn HELD ég að ég viti hvaða skýringu þú hefur á þessu. "Fjölmiðlar eru stýrðir af körlum og þeir sjá um sína, feðraveldið hitt og þetta." Am I close? Ef ég er nálægt þessu eins og mér sýnist að ég sé miðað við lesninguna á pistlinum þá vill ég kalla þetta gargandi þröngsýni!

Mér finnst það eiginlega bara rosalega magnað hvernig þú getur litið á konurnar sem fórnarlömb í samhengi við Chippendales. Mér finnst það eiginlega vera örvæntingafull tilraun til að slá ryki í augu þeirra sem hafa gagnrýnt feministana í aðdraganda sýningarinnar. Það var ekkert feðraveldi sem varð til þess að stærsta súludanssýning á íslandi varð jafn vinsæl og raun bar vitni!!! Hún var jafn vinsæl og raun bar vitni vegna þess að konur ákváðu að sækja þennann viðburð. Ekki vegna þess að það var krafa karlmanna að þær myndu sækja þessa sýningu.

katrín anna sagði...

Manuel minn þú ert að misskilja... Ath að feðraveldi ekki jafnt og kk... Prófaðu að lesa pistilinn aftur með áhrif sem útgangspunktinn en ekki gjörðir karlkynsins. Þú tekur vonandi eftir því að ég gagnrýni sýninguna á þeim forsendum að ég vilji ekki sjá karlmenn í jafnslæmri stöðu og konur eru í. Minn útgangspunktur í flestu sem ég skrifa er að við búum í kynjakerfi þar sem valdatengsl kynjanna eru ójöfn, þmt væntingar og tækifæri kynjanna. Við bregðumst öll við miðað við kynjakerfið og þau hlutverk sem okkur eru úthlutuð í því - stundum í uppreisn, stundum af undirgefni. En prófaðu að spá í hvaða áhrif koma Chippendales hefur. Ef þú lest pistlana sem ég vísaði á og ef þú lest þín eigin komment þá virðist koma þeirra helst vera notuð til að gagnrýna FÍ fyrir að vera ekki með mótmæli fyrir utan. Samt hefur margoft komið fram að FÍ styður ekki sýningar sem þessar, mjög margir meðlimir félagsins eru á móti þessari sýningu og vilja ekki að karlmenn lendi í sömu súpu og konur... Aðsókn kvk og vinsældir sýningarinnar er samt sem áður hægt að útskýra út frá kynjakerfinu og stöðu kynjanna innan þess.

Helst hefði ég viljað að konur hefðu sniðgengið sýninguna en því miður eru ekki næstum allar konur femínistar - ekki frekar en karlar... sem eflaust útskýrir af hverju jafnrétti er ekki löngu komið á á okkar yndislega Íslandi.

Svarið við spurningunni þinni er annars að finna í pistlinum.

Finnst þér annars að jafnrétti felist í því að koma upp súlustöðum með karlmönnum, að konur kaupi sér vændi og karlar séu seldir mansali og kúgaðir í klámi???? Er lausnin við kynferðisofbeldi að nauðga fleiri karlmönnum til að kynin sitji við sama borð? Hélt ekki. Mér finnst það ekki heldur. Þess vegna er þetta ekki það jafnrétti sem ég berst fyrir - ég vil upp úr skítaholunni... og ég lít ekki kynblint á málin því heimurinn er ekki kynblindur!

Nafnlaus sagði...

Í mínum huga hefur koma Chippendales engin áhrif. Einu áhrifin sem koma þeirra virðist hafa haft er neikvæð umræða í garð feminista. Þráðurinn í því sem ég hef skrifað og það sem aðrir hafa verið að skrifa (f. utan Hauk) er ósamræmi í aðgerðum FÍ. Þetta er það sem þetta snýst um. Sýningin og áhrif hennar er aukaatriði.

"Leiðin sem feðraveldið velur til að viðhalda völdum sínum er að slá ryki í augu viðmælenda með því að ýta konum í þá átt að taka upp skaðlega hegðun karlaveldisins"

Finnst þér óeðlilegt að ég dragi þá ályktun af þessari setningu þinni að þú sést að gera konur að fórnarlömbum? Er feðraveldið ekki að ÝTA konum út í eitthvað? Með því að ÝTA konum í einhverja átt er feðraveldið líklega gerandi og konan þá væntanleg fórnarlambið. Þetta GERÐI feðraveldið til að viðhalda völdum sínum yfir konum!

Eitt sem mér finnst þú vera að misskilja svoldið. Ég er ekki á móti súlustöðum og ekki á móti karlastrippi. Þar af leiðandi finnst mér þetta ekki koma jafnrétti við nema að því leiti að konur sem vilja sækja svona skemmtanir fengu að gera það nú loksins. Ég þurfti ekki þennann viðburð til að réttlæta súlustaðina. Þessvegna finnst mér heimskulegt af þér að ætla að ég telji jafnrétti felsst í að nauðga jafn mörgum karlmönnum og konum. Ég er að sjálfsögðu á móti nauðgunum og vill þær burtu úr samfélaginu. Það sama á ekki við um súlustaðina. Skiluru?

Svo að lokum þá held ég að það hafi nánast enginn feministi verið hlynntur þessari sýningu. Held að flestir hafi gefið sér það að þið væruð á móti sýningunni. En málið snýst ekkert um hvort feministar hafi verið hlynntir eða andvígir sýningunni.

katrín anna sagði...

Snýst málið þá sem sagt um að utanaðkomandi aðilar geti skipað femínistum í mótmælaaðgerðir eftir pöntun? Femínistar hafa þá ekki stjórn á eigin tíma eða rétt til að forgangsraða í hvað þeir verja tíma sínum í? Það er af nógu að taka. Súlustaðirnir hér eru margir og eru opnir á hverju kvöldi. Ég hef farið einu sinni þar fyrir utan til að selja merki. Karlar koma með strippsýningu eitt kvöld og ég er ósamkvæm sjálfri mér ef ég mæti ekki þar fyrir utan? Kanntu annan betri???

FYI þá var ég í fríi þegar Chippendales héldu sína sýningu. Ég var ekki bara í fríi - ég var líka út á landi. Átti ég sem sagt að sleppa því að fara í frí og vera með mótmælaaðgerðir fyrir utan Chippendales því þá hefði ég sannað fyrir þér og öðrum að ég vildi raunverulegt jafnrétti og væri sjálfri mér samkvæm???

Þetta er auðvitað eintóm heimtufrekja og kjaftæði. Og ég er ekki að grínast. Hvorki þú, né fólkið sem skrifaði hina pistlana, hafa umráðarétt yfir mínum tíma né annarra femínista. Mér finnst það flokkast undir stjórnsemi og valdbeitingu að ætlast til þess að femínistar sanni hollustu sína við málstaðinn með því að hoppa eftir pöntun þeirra sem ekki eru einu sinni sammála málstaðnum. Með þessu geturðu séð hvernig koma Chippendales þjónar þeim tilgangi að festa feðraveldið í sessi... það er hægt að benda og nota þá sem alibi - "sko femínistarnir mættu ekki fyrir utan og þar af leiðandi eru þeir ekki heilir í sínu". Annars kemur mitt sjónarmið vel fram í pistlinum.

ps. svo hef ég greinilega allt annan skilning á orðinu fórnarlamb heldur en þú...

katrín anna sagði...

Gaman að sjá hvað ég var orðin pirruð í gærkvöldi :) En sumt er bara pirrandi...

Nafnlaus sagði...

Það lá aldrei pöntun um mótmæli fyrir. Við vildum engin mótmæli. Við (sem eru á sömu skoðun og ég) litum á þessa sýningu sem prófstein feminismans og fyrir hvað hann stæði. Ályktunin sem við virðumst hafa dregið er að það er öskrað þegar kvenmenn strippa en hvíslað þegar karlmenn strippa.

Ég er hinsvegar forvitinn að vita hvort þú sést þeirra skoðunar að mótmælin hafi verið svo hávær og afdráttarlaus að menn muni hugsa sig vel og vandlega um hvort þeir leggi aftur í að halda svona sýningu? Svo væri líka forvitnilegt að vita hvort þú sést þeirra skoðunar að þau "mótmæli sem áttu sér stað" hafi verið það hávær að það hafi verið einhver vitundarvakning í þjóðfélaginu um skaðsemi karlastripps?

Ég er í raun ekkert að kenna þér persónulega um þetta ósamræmi. Ég hefði nú búist við því að feministar væri nú það stór hópur að feminisminn ætti nú að ekki að standa og falla með því hvort þú ferð í frí. Í raun kenni ég þér síst um þetta ósamræmi.

katrín anna sagði...

Og mitt point Manuel er að það er ósanngjarnt að setja eina sýningu sem prófstein á heilindi femínismans. Ég myndi vera fyrst til að standa með þér og hrópa "hrænsi og ósamræmi" ef að femínistar væru hlynntir strippsýningu karla eða teldu slíkar sýningar allt í lagi - eða af hinu góða. Þá gætum við af alvöru talað um að femínisminn væri ekki samkvæmur sjálfum sér. Það er hins vegar ekki málið. Ég held að þú vitir full vel að ég og aðrir sem hugsum um skaðsemi staðalímyndi, hlutgervingar og klámvæðingar erum á móti svona sýningum - hvort sem konur eða karlar eiga í hlut. Það er það sem skiptir máli. Að setja mótmæli við einni sýningu sem prófstein er gjörsamlega út í hött. Ef við lítum á aðstæður hjá FÍ þegar umræd: Ég (talskona) er í fríi. 2 ráðskonur eru fyrir staðalímyndahóp (sá hópur sem þetta málefni fellur undir). Önnur þeirra er veik og hin er erlendis. Ef staðan hefði verið öðruvísi hefði örugglega heyrst meira frá okkur en þetta málefni var rætt mikið á umræðupóstlistanum okkur þannig að það er ekki hægt að segja að femínistum standi á sama eða eitthvað þvíumlíkt. Það að segja "þið gerðuð ekki það sem ég vildi og eruð þess vegna ósamkvæm" er ósanngjarnt, frekt og ómálefnalegt af þeirri einföldu ástæðu að skoðanirnar eru í lagi.

Hins vegar verður þú (og hin sem skrifuðu pistlana) líka að skoða valdatengsl á milli kynja og skilja að það er ekki hægt að setja samansemmerki á eina karlastrippsýningu og þann iðnað sem er í kringum kynlífssölu á konum. Annars vegar erum við að tala um milljónir kvenna og hins vegar 60 eða 70 karlmenn sem allir eru í sama danshóp. Í seinna tilfellinu erum við líka að tala um hóp (kk) sem fer með öll völd í heiminum. Það skiptir líka máli. Segi bara enn og aftur - lestu aftur pistilinn minn og spáðu í valdastöðu kynjanna og hugsaðu um þær skoðanir sem við höfum en ekki hvort við höfum hoppað akkúrat á réttu augnabliki fyrir þig og aðra eða ekki.

katrín anna sagði...

ps. Eitt í viðbót - ef ég og aðrir femínístar myndum öskra í hvert sinn sem konur strippa þá værum við öskrandi allan sólahringinn, alla daga ársins. Er það staðan? Eins og ég sagði þá hef ég farið einu sinni í mótmæli fyrir utan súlustað og það eru einu mótmælin sem FÍ hefur staðið fyrir fyrir utan slíkan stað. Ef þú íhugar málið - ertu með sanngjarna kröfu eða sanngjarnar forsendur?

Nafnlaus sagði...

Jæja var búinn að skrifa heillangann póst til þín en þegar ég var að lesa hann yfir strokaði ég hann bara út. Sé það að okkur verður ekki haggað frá skoðunum okkar og ef umræðan heldur áfram verður þetta karp.

Hvet ykkur samt til að halda áfram að berjast á móti kvenastrippinu (því þið trúið því að það sé slæmt). Það kemur annar prófsteinn á þetta atriði seinna og þá trúi ég því að feministar muni standast hann.