Hér er pistillinn minn sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag. Þessi þróun truflar mig. Tek fram að það eru nokkrar vikur síðan ég sá Leikbæjarbæklinginn en það var fyrst í gær að ég fór raunverulega að bera búningana saman. Það sló mig að Leikbæjarbúningurinn er ekki bara líkur búningunum sem seldir eru í hjálpartækjaverslunum og klámbúllum - heldur er hann nákvæmlega eins! Að sama skapi er hann gjörólíkur venjulegum hjúkkubúningum - þeim sem hjúkkurnar nota.
Hjúkkubúningar fyrir börn eða fullorðna?
Af og til berast okkur fréttir af því að lögreglan hafi gert barnaklám upptækt. Útbreiðsla netsins virðist hafa auðveldað barnaníðingum að finna hvorn annan og skiptast á myndum af misnotkun á börnum. Það má segja sem svo að Internetið hafi gert vandann tengdan barnaklámi sýnilegan því útbreiðslan virðist meiri en nokkurn hafði grunað. Þessi staða ætti að vekja okkur til meðvitundar um að það er full ástæða til að vera betur á verði gagnvart þeim hlutverkum sem börn eru sett í.
Netasokkabuxur hluti af hjúkkubúningi?
Mig langar að taka sem dæmi jólabæklinginn frá Leikbæ á þessu ári. Fyrirsögnin á einni síðunni er Læknaleikur. Á henni er að finna ýmislegt dót til að fara í læknaleik, þar á meðal hjúkkubúning. En hvernig er hjúkkubúningurinn? Jú, hann er greinilega fyrir stelpur. Hjúkkubúningurinn er auglýstur með mynd af lítilli stelpu íklædd búningnum. Stelpan er stífmáluð um augun, með varalit og kinnalit. Hjúkkubúningurinn samanstendur af stuttum kjól, kappa, svuntu og netasokkabuxum.
Kynferðislegar skírskotanir
Það er hægt að túlka þessa auglýsingu á nokkra mismunandi vegu út frá jafnréttissjónarmiðum. Áður en það er gert er ágætt að bera saman hvernig hjúkkubúningarnir sem notaðir eru á Landspítalanum eru í samanburði við dótabúninginn. Hjúkrunarfræðibúningarnir á Landsspítalanum samanstanda af jakka og buxum. Kjólarnir tilheyra fortíðinni þó þeir séu stundum dregnir upp fyrir hátíðarnar. Þeir eru þó mun síðari en dótabúningurinn og netasokkabuxur eru að sjálfsögðu ekki notaðar sem fylgihlutur. Út frá þessu finnst mér eðlilegt að spyrja af hverju hjúkrunarfræðibúningur sem seldur er í dótabúð sé ekki í samræmi við þá búninga sem notaðir eru í raunveruleikanum? Hjúkkubúningurinn fyrir börn er með mörgum þekktum kynferðislegum skírskotunum sem vert er að gefa gaum að.
Hvað er læknaleikur?
Þegar börn sýna kynferðislega tilburði í leik er það oft nefnt læknaleikur. Þarna kemur fyrsta kynferðislega tilvísunin, þ.e. fyrirsögnin í Leikbæjarbæklingnum. Önnur tilvísun er búningurinn sjálfur. Stuttur kjóll, netasokkabuxur og mikil andlitsmálning. Klámiðnaðurinn hefur verið iðinn við að kynlífsvæða hjúkrunarkonur. Þess er skemmst að minnast að árið 2004 komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Fréttablaðið og Óðal hefðu gerst brotleg gagnvart jafnréttislögum þegar "hjúkkukvöld" var auglýst á Óðal. Hjúkkubúningar eru einnig algengir í kynlífshjálpartækjaverslunum. Þeir búningar eru mun nær þeim búningi sem birtist í Leikbæjarbæklingnum.
Hvað viltu verða þegar þú verður stór?
Líkindinn á milli Leikbæjarbúningsins og þeirra búninga sem seldir eru sem kynlífshjálpartæki eru sláandi. Á meðfylgjandi myndum er hægt að bera búningana saman. "Sexy nurse" búningurinn og Leikbæjarbúningurinn eru hér um bil eins. Þeir eru eins á litinn, samanstanda af stuttum kjól, svuntu og kappa og merktir krossi á sömu stöðum. Hins vegar er fátt líkt með barnabúningnum og þeim búningi sem hjúkrunarkonur raunverulega nota.
Kynferðislegu skírskotanirnar eru ekki það eina sem er gagnrýnivert. Búningurinn er ekki til þess fallinn að höfða til beggja kynja. Ef stelpan er hjúkkan hver er þá læknirinn? Hlutverkin eru fyrirfram ákveðin og í andstöðu við jafnréttissjónarmið.
Oft var þörf en nú er nauðsyn
Til eru kenningar sem segja að karlar viðhaldi völdum sínum með því að skilgreina karlmennskuna út frá því sem konur eru ekki. Karlar sem reyna að brjótast út fyrir hefðbundnar karlmennskuímyndir verða fyrir þrýstingi að haga sér eins og "sannir" karlmenn. Svipaða sögu er hægt að segja af konum. Þær eiga að halda sig í sínum fyrirfram skilgreindu hlutverkum. Hjúkkubúningarnir eru gott dæmi um þetta. Háskóli Íslands hefur farið í átak þar sem reynt er að höfða til karlmanna í auglýsingum fyrir hjúkrunarfræðinganámið. Starfsheiti stéttarinnar hefur verið breytt úr hjúkrunarkona í hjúkrunarfræðingur til að gera starfið aðgengilegra fyrir karlmenn. Þegar meðvitað er reynt að gera stéttina aðgengilega báðum kynjum til að auka jafnrétti taka andstæðu öflin til sinna ráða. Kynlífsiðnaðurinn sér um einn hlutann og leikfangaiðnaðurinn um hinn. Þannig eru hefðbundin kynhlutverk innan stéttarinnar negld niður og með kynferðislegum tengingum eru völd karla fest í sessi. Það er nógu slæmt út af fyrir sig en enn verra er þegar börn eru sett í sömu hlutverk. Ýmsar vísbendingar eru um að börn séu nú kyngerð í sífellt meira mæli. Ég vona að ekkert foreldri sé sátt við þessa þróun og að allt hugsandi fólk, hvort sem það er í hlutverki foreldra, ættingja eða markaðsaðila, taki höndum saman og spyrni við fótum af öllum mætti.
miðvikudagur, desember 20, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
geturðu birt myndirnar hér?
Skrifa ummæli