Ég fór á hádegisverðarfund Barnaheilla um barnaklám á netinu í dag. Fundurinn var liður í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi og þar var farið yfir stöðuna á netinu, alþjóðasamstarf og dóma fyrir barnaklám. Það kemur varla neinum á óvart að íslenska ríkið hefur hvorki nýtt allar tillögur sem gerðar hafa verið um lagasetningu til að sporna við barnaklámi né heldur að refsiramminn í barnaklámsmálum er varla nýttur svo neinu nemi.
Fundurinn í hádeginu var fínn og brýnir á málefninu. Hins vegar langar mig að taka umræðuna lengra. Ýmsum málum var velt upp á fundinum í dag. Til dæmis myndbirtingar unglinga á netinu. Við hjá FÍ fengum t.d. póst um daginn frá áhyggjufullri móðir sem sagði frá því að unglingsstrákar væru að þrýsta á unglingsstúlkur að sýna á sér brjóstin fyrir framan web cam. Dæmin eru mörg og staðan er óhugnaleg. Á meðan við erum svona sokkin í kynlífs- og klámvæðinguna mun staðan ekki batna. Á meðan fólk ekki skoðar sitt umhverfi með gagnrýnu hugarfari mun staðan ekki batna. Á meðan kynlíf er gert að neysluvöru mun staðan ekki batna. Vandinn er að fæstir nenna eða vilja gera eitthvað í málinu. Hvað eru til dæmis margir sem sjá samhengið á milli rassaauglýsingar Ölgerðarinnar og stöðu unglinga í samfélaginu? Ok - Ölgerðarauglýsingin ein og sér hefur ekki úrslitaáhrif en Ölgerðarauglýsingin með öllu hinu hefur áhrif. Ef að börn og unglingar horfa stöðugt á efni sem er hampað eins og það sé kúl að vera með hlutgerða líkama í kynferðislegum tilgangi út um allt - af hverju eiga þau þá ekki að taka myndir af hvort öðru í sömu hlutverkum? Af hverju á strákum að detta í hug að það sé rangt af þeim að þrýsta á stelpur að fækka fötum fyrir framan web cam þegar skilaboðin sem þeir fá alls staðar frá að þetta sé "heilbrigður" áhugi á líkama hins kynsins?
Eins og ég hef sagt áður - og segi enn og aftur - auglýsingar eru hannað gagngert í þeim tilgangi að hafa áhrif á hegðun fólks. Þau áhrif ná mun lengra heldur en kauphegðun. Auglýsingar hampa ákveðnum lífsstíl, gildum og viðhorfum sem reynt er að gera "kúl" til að fá fólk til að kaupa. Við getum litið á allt okkar opinbera rými sem hluta af uppeldissamfélagi. Með því á ég við að það sem á sér stað í opinbera rýminu, þ.m.t. fjölmiðlum, hefur uppeldislegt gildi fyrir börn og unglinga. Á meðan fullorðna fólkið lítur á það sem eðlilegan hluta að troða allri klámvæðingunni upp á börn og unglinga - þá á fullorðna fólkið heldur ekki að vera hissa þegar börn og unglingar tileinka sér þau gildi. Afleiðingarnar sjáum við nú þegar í t.d. stórum hópi gerenda í kynferðisbrotamálum sem eru á unglinsaldri (skoðið heimasíðu Barnahúss ef þið efist...). Eins sést það á þrýstingnum frá strákum á stelpur að fækka fötum og eins frumkvæði stelpna í að sitja fyrir á alls kyns myndefni. Þeim er sagt að þetta sé kúl. Og þeim er sagt það af fullorðnu fólki.
Þetta er aðeins hluti af afleiðingunum. Þyrfti helst að skrifa heila bók til að útskýra þetta nánar. Geri það kannski einn daginn.... Aðalmálið er að fólk átti sig á því að fegurðarsamkeppnir, klámvæðing, kynlífsvæðing, útlitsdýrkun, staðalímyndir, neysluhyggja og þar fram eftir götum - eru ekki aðskilin fyrirbæri sem hafa afmörkuð áhrif heldur eru þetta allt hlutir sem stuðla að samfélagi misréttis og hafa áhrif á hluti eins og kynferðisofbeldi, barnaklám, launamisrétti o.s.frv.
Og - gleymdi einu varðandi Ölgerðarauglýsinguna. Tengingin á milli áfengis og kynlífs - í áfengisauglýsingum er óþolandi. Talandi um ábyrgðarleysi....
fimmtudagur, desember 07, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Það er svo þægilegt að hugsa í kössum en ekki í heild...
Skrifa ummæli