Föstudagurinn var með skemmtilegasta móti. Fór á afhendingu Ljósbera ársins 2006 á föstudagsmorguninn. Það var enginn annar en Gísli Hrafn, ráðskona karlahóps Femínistafélagsins, sem var valinn Ljósberi að þessu sinni. Gísli er vel að því kominn að vera Ljósberi - og rétt rúmlega það. Hann er óþreytandi í baráttunni, femínisti fram í fingurgóma. Hann hefur verið í ráði FÍ frá upphafi og afkastað ótrúlega miklu - ásamt hinum í karlahópi, auðvitað! En hann hefur líka gert fjölmargt í ráðinu og utan FÍ líka.
Það var mjög góð stemning í Hinu húsinu þar sem afhendingin fór fram. Svavar Knútur spilaði og söng 2 lög og Ljósberahópurinn var kynntur. Thelma Ásdísardóttir, Ljósberi 2005 flutti ræðu og afhenti Gísla Hrafni viðurkenningu sem sá Ljósberi sem tekur við af henni. Gísli flutti síðan dúndurræðu um starf sitt í jafnréttismálum, sem og um jafnrétti almennt. Bæði Thelma og Gísli eru öruggt og skemmtilegt ræðufólk svo það er ekki annað hægt heldur en að koma endurnærð og í góðu skapi eftir svona samkomu!
Til hamingju Gísli! :)
Ljósberaverðlaunin voru ekki eina samkoman sem ég fór á þennan daginn. Ég fór líka í útgáfupartýið hjá Halldóri Baldurssyni og Erni útgefanda út af bókinni sem þeir voru að gefa út. Bókin inniheldur skopmyndir Halldórs úr Blaðinu og Viðskiptablaðinu. Þeir fóru nokkuð sniðuga leið til að kynna bókina. Öllum "fórnarlömbum" Halldórs, þ.e. öllu því fólki sem hann hefur teiknað og birtist í bókinni var boðið í útgáfuteiti. Mætingin var afbragðsgóð - sem þýddi að þarna voru stjórnmálamenn, listafólk, blaðamenn og alls konar "fjölmiðlavænt" fólk - sem aftur þýddi að allir fjölmiðlar mættu á staðinn og fluttu fréttir af útgáfupartýinu! Mjög sniðugt... Ég stóðst ekki mátið og keypti eintak af bókinni. Komst að því að ég er á 2 myndum í bókinni en ekki 1 eins og ég hélt.... Ég settist niður á föstudagskvöldið og fletti í gegnum bókina. Hún er þrælskemmtileg og ég mæli hiklaust með henni. Halldór hefur skemmtilegan húmor og er hárbeittur - sem er skemmtilegra!
sunnudagur, desember 10, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli