Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu 8. nóv. 06. Staðan miðað við prófkjör er breytt - núna myndi fækka um 3 en ekki 2, eins og segir í pistlinum.
Smá viðbót - var víst búin að setja þennan pistil inn áður - en sýnist að það sé allt í lagi að rifja hann upp m.v. kynjakvótaumræðuna hér fyrir neðan og úrslitin hjá VG!
Hvað ef?
Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu allt í einu að þeir vildu svipta konur kosningarétti, kjörgengi, fjárhagslegu sjálfstæði eða tækifæra til menntunar? Hvað ef karlmenn þessa lands ákvæðu að þeir vildu skilgreina vændi sem löglega atvinnugrein? Hvað þá? Eins og staðan er í dag er fátt sem gæti stöðvað þá. Valdið er í höndum karla, þeir eru í meirihluta á þingi, í ríkisstjórn og hæstarétti.
Konum fækkar um 2
Ástæðan fyrir því að ég vek athygli á þessu er að núna eru prófkjör og uppstillingar á lista í fullum gangi hjá öllum flokkum enda styttist í kosningar. Í dag eru 23 konur á þingi og 40 karlar. Ef miðað er við að fjöldi þingmanna í hverjum flokki og í hverju kjördæmi verði óbreyttur í næstu kosningum mun konum fækka um tvær miðað við úrslit prófkjara. Úrslit liggja ekki fyrir í öllum kjördæmum né hjá öllum flokkum þannig að þessi staða getur breyst og auðvitað eru allar líkur á að niðurstöður næstu kosninga verði ekki nákvæmlega þær sömu og síðast. Engu að síður er það mynstur sem er að birtast í prófkjörunum áhyggjuefni út frá jafnréttissjónarmiðum.
Á að kenna krökkum frá Vestfjörðum að sauma og krökkum frá Austfjörðum að smíða?
Sumir vilja meina að kyn skiptir ekki máli og að hæfni einstaklinganna séu aðalatriðið. Auðvitað er ekki annað hægt en að taka undir að við eigum að kjósa hæfustu einstaklingana á þing en það væri afar karlrembulegt að halda því fram að ástæðan fyrir skökku kynjahlutfalli á þingi sé vegna þess að karlar séu hæfari en konur. Þar að auki skiptir kynið meira máli en flest annað í þessu lífi. Við eigum að kjósa hæfustu konurnar og hæfustu karlana – í jöfnum kynjahlutföllum. Ef einhver er í vafa um að kyn hafi meiri áhrif á líf einstaklinga heldur en t.d. búseta mega þeir hinir sömu spyrja sig hvort að á fæðingardeildinni sé viðhaft að klæða börn í sitthvora litina eftir búsetu? Hversu margir hafa séð leikfangabæklinga þar sem dótinu er úthlutað til barna eftir búsetu? Bílar fyrir börnin frá Vestmanneyjum, puntudótið fyrir börnin frá Siglufirði, verkfærasettið fyrir börnin frá Vestfjörðum og dúkkurnar fyrir börnin frá Reykjavík. Skyldu margir Vestmanneyingar verða fyrir því að ef þeim skyldi detta í hug að verða leikskólakennarar eða hjúkrunarfræðingar þá sé hlegið að þeim? Eða þeim alltaf hrósað fyrir að vera eldklárir snillingar á meðan krökkunum frá Siglufirði er hrósað fyrir að vera dugleg, stillt og prúð? Er þörf á að setja í lög að Selfyssingar, Reyðfirðingar og Ísfirðingar eigi að fá sömu laun ef þeir vinna hlið við hlið í sama starfi? Er einhvern tímann talað um að hafa mismunandi námsskrá fyrir krakka eftir því hvaðan þau eru af landinu? Kenna öllum krökkum á Vestfjörðum að sauma en krökkunum á Reyðarfirði að smíða? Nei. Þetta er ekki raunin. Samt eru enn til þeir sem vita að búseta hefur töluverð áhrif á fólk en vill afneita þeim áhrifum sem kyn hefur þó sá munur sé mun augljósari í öllu okkar umhverfi.
Karlar á þing fyrir tilstilli kynjakvóta?
Það er sorglegt að fylgjast með hverju prófkjörinu á fætur öðru þar sem konum er hafnað og karlar raða sér í efstu og öruggu sætin. Ekki nóg með að hlutur kynjanna sé kolrangur heldur getur hæglega farið svo í komandi kosningum að einhverjir karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta. Ef Vinstrihreyfingin grænt framboð heldur áfram að vera með kynjakvóta fyrir hvert kjördæmi gæti vel farið svo að karlar komist inn fyrir tilstilli kynjakvóta í Reykjavík og þannig skekkt kynjahlutfallið á þingi enn frekar, körlum í vil.
Sigur fyrir hvern að karlar raðist í efstu sætin?
Slæm staða í jafnréttismálum kristallast ekki eingöngu í niðurstöðum prófkjara heldur einnig orðræðunni í kringum þau. Haft er eftir Björgvini G. Sigurðssyni sem vann prófkjör Samfylkingarinnar í suðurkjördæmi “Mér líst afar vel á útkomuna úr prófkjörinu og er viss um að Samfylkingin nær góðum árangri í kosningunum næsta vor. Ég get ekki annað en litið á þessi úrslit sem persónulegan sigur fyrir mig og Samfylkinguna í heild." Jú, jú, persónulegi sigurinn er óumdeildur en er það sigur fyrir Samfylkinguna að karlar röðuðust í þrjú efstu sætin, kona í það fjórða og karl í það fimmta? Samfylkingin er eins og er með fjóra þingmenn í Suðurkjördæmi, þrjá karla og eina konu. Það er borin von að þar verði framför. Svipaða sögu er að segja eftir prófkjör Sjálfstæðisflokksins. Þar gekk Sigurður Kári Kristjánsson meira að segja svo langt að kenna konum um sitt slæma persónulega gengi. Sigurður Kári lenti í 8. sæti prófkjörsins og sagði “Svona spilaðist þetta bara. Það komu nokkrir nýjir inn í þetta prófkjör sem náðu góðum árangri. Ég held að það hafi kannski líka verið pressa á að kjósa konur í sæti ofarlega. Kannski hafa einhverjir liðið fyrir það." Tvær konur og fimm karlar lentu ofar á listanum en hann og honum dettur í hug að konum hafi verið hyglað en ekki körlum? Sjálfstæðisflokkurinn er eins og er með níu þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum og miðað við úrslit prófkjörsins þar sem 2 konur eru meðal níu efstu mun kynjahlutfallið hjá þeim verða óbreytt.
Verða karlarnir góðir?
“Eiga þá stelpur alltaf að þegja / og aðeins vona að strákar túlki þeirra mál?” Þetta er brot úr textanum við lagið “Hvers vegna þegjum við...?” af plötunni Áfram stelpur sem kom út 1975. Það má yfirfæra þennan texta yfir á stöðu kvenna og karla í stjórnmálum. Eiga konur bara að þegja og vera sáttar við að fá að vera memm en ekki sem helmingur valdhafa á Alþingi Íslendinga? Fjölmargar lagagreinar og aðgerðir á vegum stjórnvalda hafa mismunandi áhrif á kynin. Það skiptir máli að konur og karlar hafi sömu völd í samfélaginu. Í dag er Ísland karlaveldi þar sem karlmenn geta gert það sem þeim sýnist og við konurnar erum háðar því að karlarnir ákveði að vera góðir við okkur. Það er ekki ásættanlegt en því miður er ekki mikil von til bjartsýni fyrir komandi alþingiskosningar.
þriðjudagur, desember 05, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli