„Hobbý eru ekki bara stráka“ Svona hljómar fyrirsögn í 24 stundum í dag. Þar er Arnaldur Haukur Ólafsson í viðtali af tilefni opnunnar á nýrri verslun með hobbývörur. Hann segir: „Billjardborð, fótboltaspil eða aðrar svona græjur eru líklega ein fjölskylduvænsta fjárfesting sem dellufólk getur ráðist í. Í stað þess að kaupa vélsleða, mótorhjól eða rándýra stangveiði þar sem þú ferð út af heimilinu til að sinna áhugamálinu ertu að þjappa fjölskyldunni saman og gera eitthvað með henni.“Svo mörg voru þau orð og þetta hljómar afskaplega vel - alveg þangað til Fréttablaðið er skoðað. Þar á bls 12 er auglýsing frá umræddri verslun. Hún sýnir mynd af vatnsgeiddurm karlmanni að spila billjard. Myndin er í svarthvítu og ýtir þannig undir hugmyndir um gamla tíma. Og slagorðið? Jú, að sjálfsögðu:
ERT ÞÚ HÚSBÓNDI Í ÞÍNU HERBERGI?
Hobbýið er sem sagt ekki fjölskylduvænna en þetta - endurvakning á úreltum gildum feðraveldisins, sem því miður lifa svo afskaplega vel í okkar samfélagi. Kannski þau séu ekki eins úrelt og margur heldur? Pierre Bourdieu sagði að það eina sem hefði breyst væri að völd karla væru ekki lengur óvéfengd. Í auglýsingu dagsins sjáum við í það minnsta að krafan er sú að karlar séu húsbóndar. Það þýðir að þeir eigi að ráða - og fjölskyldan, konur og börn, geta bara gjört svo vel að hlýða! Væntanlega með því að spila þá leiki sem húsbóndanum þóknast! Skyldi auglýsingin eiga að vísa í leyndan draum karlmanna um... feðraveldi í stað jafnréttis?



