miðvikudagur, maí 07, 2008

Hjólað í vinnuna

Í dag hefst átakið „Hjólað í vinnuna“. Þetta er ágætis átak og umhverfisvænt - hvetur allavega slatta af fólki til að hjóla. Veit samt ekki alveg hversu hrifin ég er af þessu keppniskonsepti - á það til að stuðla að of miklum hópþrýstingi - en ég læt það liggja á milli hluta. Bottom line - þá er ég hrifin af átakinu. Vonandi leiðir það líka til vitundarvakningar um að bæta hjólaleiðir. Það er til dæmis alls ekki auðvelt að hjóla úr Grafarholtinu og niður í bæ. Það þarf annaðhvort að taka stóran krók yfir í Árbæinn eða Grafarholtið til að komast greiða leið.

Grétar ætlar að hjóla! Mega mega duglegur. Kannski ég hjóli með honum af og til sem leið liggur niður í Háskóla. Erfitt fyrir mig að hjóla í vinnuna þegar ég er heima að læra...!

Þótt ég sé hrifin af átakinu þá er eitt sem stingur sérstaklega í augun. Aðalstyrktaraðili átaksins er Rio Tinto Alcan. Mér finnst það jaðra við dónaskap að vera aðalstyrktaraðili svona átaks. Umhverfismál eru mjög umdeild og ég held það sé með sanni hægt að segja að þjóðin skiptist nokkurn veginn í tvennt. Álfyrirtækin eiga ekki upp á pallborðið hjá mörgum umhverfisverndarsinnum og fleirum. Ástæðan ekki endilega að fólk vilji losna akkúrat við Alcan heldur sú græðgi sem álfyrirtækin sýna gagnvart landinu - vilja stækka, stækka, stækka - og byggja ný. Þangað til það er komin þjóðarsátt um að stoppa núna - ekki fleiri álver - þá ætti Alcan, að sjá sóma sinn í því að gefa fólki smá speis. Ekki troða sér inn alls staðar þar sem umhverfisverndarsinnar eru. Álfyrirtækin verða ekki umhverfisvænni þrátt fyrir að vera styrktaraðilar átaks eins og Hjólum í vinnuna. Þetta flokkast bara sem PR, tilraun til að kaupa sér velvild á sviði sem fyrirtækið er harkalega gagnrýnt fyrir. Ef Alcan vill í raun og veru vinna sér inn punkta fyrir umhverfisvernd væri nær að lýsa því yfir að það væri hætt við öll stækkunaráform. Láta bara gott heita.

Aðstandendur átaksins ættu líka að hafna styrktaraðilum eins og Rio Tinto Alcan. Þau ættu að vita sem er að þetta getur sett slæma ímynd á átakið og fælt fólk frá þátttöku - nú eða normaliserað áganginn á íslenska náttúru svo fólk verði sofandi fyrir því hvernig verið er að breyta Íslandi úr hreinu og fallegu landi í Detroit í einni svipan. Óafturkræfar skemmdir á landinu - mengun sem ekki fer í burtu þegar fólk rankar allt í einu við sér og vill fá landið sitt tilbaka.

Eftir sem áður er ég á því að það sé sniðugt að hjóla í vinnuna og hvíla einkabílinn. Kannski væri ráð að efna til hliðarátaks þar sem fólk hjólar - bara ekki í boði Rio Tinto Alcan??? Sá valmöguleiki er í öllu falli í boði eftir að keppninni lýkur!

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta bara flott hjá þeim hjá Alcan. Olís hefur farið svipaða leið. Þeir auglýstu landgræðsluverkefnið þar sem 1 kr. af hverjum lítra fór til landgræðslu. Bílaumboðin voru farin að kolefnis"jafna" bílana sem þú keyptir. Essó var með herferðina "virðum landið" minnir mig að það hafi heitið. Það eru til endalaus dæmi um þetta.

Svo eru hjólreiðar ekki bara umhverfisvænar. Þær eru ekki síður heilsusamlegar. Það er líka ódýrara að hjóla en keyra þannig að þetta hefur jákvæð áhrif á efnahagslífið. Hvað svo sem vakti fyrir Alcoa fá þeir prik hjá mér fyrir þetta. Þetta er þó allavega skárra en að gera ekki neitt. Þetta bætir auðvitað ekkert upp þann skaða sem álverin valda og ég efast um að almenningur álíti að þetta bæti upp þann skaða.

Nafnlaus sagði...

Alcoa - Alcan

katrín anna sagði...

Eins og ég sagði... ég er hlynnt átakinu. Það er bæði umhverfisvænt og heilsusamlegt að hjóla og full ástæða til að hvetja fólk til að spara einkabílinn.

Ég er líka sammála því að fyrirtæki eigi að stuðli að umhverfisvernd - en mér er ekki sama hvernig það er gert og þarna er í raun verið að „abbast upp á“ fólkið sem er í baráttu gegn fyrirhugaðri stækkun Alcan og þeirra sem eru ekki endilega í baráttu en finnst samt nóg komið af Detroitvæðingu Íslands.

Það er þess vegna sem mér finnst þetta jaðra við að vera dónalegt - veit að það er fólk sem staldrar við þetta og líður ekki vel yfir því að hjóla í boði Alcan. Sem stendur eru fyrirætlanir fyrirtækisins það umdeildar að það ætti að sýna smá sans að halda sig á hliðarlínunni þar sem leitast er eftir víðtækri þátttöku almennings. Mér finnst það einfaldlega taktískara - og kurteisara.

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma því samt að það eru forsvarsmenn átaksins sem taka á endanum ákvörðun um að þiggja þennan fjárstyrk. Ekki er Alcan að reka pening ofan í kokið á neinum með valdi.

Detroitvæðing Íslands? Hva, hefur fólk eitthvað á móti Motown? (tíhíhí)

katrín anna sagði...

Nei - það er ekki gleymt - eins og sést í færslunni ;)

Svo er auðvitað allt annar handleggur að Detroitvæða Ísland tónlistarlega séð...! :) Annars væri ég helst á að Salsa væða Ísland ef það væri í boði...

Nafnlaus sagði...

Öhmmm... það sést svo sannarlega í færslunni :)