miðvikudagur, september 13, 2006

Af súkkulaði og súlustöðum

Tilkynningaskyldan - var í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun að fjalla um strippstaði og hvort súludans væri sambærilegt starf við að vinna í banka eða í útvarpi. Vona að þessi umfjöllun á Morgunvaktinni haldi áfram vegna þess að fyrst kom viðtal við Geira í ca 10 mín. Svo kom viðtal við súludansmey, líka í ca 10 mín. Bæði viðtölin afskaplega gagnrýnislaus og virkuðu eins og pjúra markaðssetning á súlustöðum og því sem þar fer fram. Sem mótvægi kom viðtal við mig í morgun - í ca 5 mínútur held ég!!! Vona að Rúna og aðrir sérfræðingar verði kölluð til í framhaldinu.

Annars er það helst að frétta af minni súkkulaðifíkn (sem ég er viss um að margir hafa áhuga á...) að hún er óðum að minnka. Ástæðan? Jú, ég fór að rannsaka barnaþrælkun á kakóbaunabýlum. Niðurstaðan? Algjört ógeð. Nú kaupum við bara lífrænt ræktað súkkulaði á mínu heimili því það er öruggt að engin barnaþrælkun á sér stað við þá framleiðslu eftir því sem mér skilst. Hins vegar hef ég ekki staðist að kaupa mér súkkulaði sósu með ísnum og einstaka sinnum að fá mér ís með dýfu og gotteríi. Svo borða ég líka súkkulaði sem mér er gefið eða í boði annarra. En ég kaupi það ekki sjálf - sem er töluvert stór breyting frá því sem áður var.

Pistillinn minn í Viðskiptablaðinu var um barnaþrælkun í súkkulaðiiðnaðinum. Hér er brot úr pistlinum:


Þrælkuð börn á bak við súkkulaðið okkar
Fyrir nokkrum árum var gerð heimildarmynd um barnaþrælkun á kakóbaunabýlum á Fílabeinsströndinni. Þetta var í fyrsta skipti sem flestir Vesturlandabúar heyrðu af því að hugsanlega séu þrælkuð börn vinnuaflið á bak við hið ljúffenga súkkulaði sem við verðlaunum okkur reglulega með. Viðbrögðin létu ekki á sér standa og neytendur þrýstu á um úrbætur, enda ekki gleðilegt að hugsa um litla þrælkaða drengi við hvern súkkulaðibita. Í Bandaríkjunum var lagt fram frumvarp þess efnis að merkja ætti súkkulaði sem laust við þrælahald að uppfylltum skilyrðum. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeild þingsins. Við þetta tóku súkkulaðiframleiðendur loksins við sér því þeir vissu að það væri nánast útilokað að sýna fram á að súkkulaðið þeirra væri ekki framleitt með hráefni sem ætti rætur að rekja í þrælahald.
Iðnaður sem áður hafði kosið að hvorki sjá né heyra neitt illt varðandi hráefnið sitt settist niður með stjórnvöldum, félagasamtökum gegn þrælahaldi og fleiri hagsmunaaðilum og gerðu aðgerðaráætlun um hvernig mætti útrýma barnaþrælkun við framleiðslu á þessu vinsæla sælgæti.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

djö, kók og súkkulaði bara hod og blóð

Nafnlaus sagði...

hold og blóð meina ég

katrín anna sagði...

Líka kaffi og sykur! Er að spá í hvers vegna fréttir um þræla í Brasilíu um daginn sögðu bara frá því að þeir hefðu unnið við landbúnaðarstörf. Af hverju var ekki sagt frá því hvernig landbúnaðarstörf? Gæti verið vont ef neytendur bara vissu...??? :-/

Silja Bára sagði...

lang flottust í Morgunvaktinni, ánægð með þig!!!