þriðjudagur, september 12, 2006

Mömmugildra

Nú er Reykjanesbær búinn að tilkynna að í boði séu umönnunarbætur fyrir foreldra sem vilja vera heima með börnum sínum frá því að fæðingarorlofi lýkur og leikskóli tekur við. Auðvitað er rangnefni að segja að um sé að ræða umönnunarbætur fyrir foreldra og nær að segja að þetta sé fyrir mömmur því þrátt fyrir kynblindu í orðalagi er fullvel vitað að það eru mömmurnar sem falla í gildruna. Með því að stimpla sig út af vinnumarkaði í 2 ár eiga þær á hættu að sjálfstraustið minnki þannig að erfiðara verður að fóta sig á vinnumarkaði þegar haldið er þangað aftur. Einnig hækka þær ekki í tekjum á meðan sem þýðir að í framhaldinu þegar kemur að ákvarðanatöku á heimilinu um hvort foreldrið vinnur ekki yfirvinnu, fer í hlutastarf og sinnir börnunum og veikum ættingjum meira þá er mamman sjálfgefið val - út frá fjárhagsástæðum og hefðbundnum kynhlutverkum. Þetta hefur síðan aftur áhrif á lífeyrissjóðsréttindi, veikindaréttindi, bætur ef slys skildi bera að höndum, möguleika á starfsframa og þar fram eftir götum. Þessar "fallegu" fjölskylduvænu lausnir eru ekkert annað heldur en partur af bakslaginu - fortíðarhyggjan sem sér fyrir sér hina umhyggjusömu, heimavinnandi húsmóður á fjólubleiku skýi. Vonandi falla sem fæstar mömmur í gildruna.

4 ummæli:

Unknown sagði...

Er þetta ekki þannig að þú getir notað peningana hvort sem er til að vera heima eða til að borga niður t.d. dagmömmu eða au-pair? Mér finnst það nefnilega nokkuð sniðugt og ekki veitir af, því að svona þjónusta er dýr.

Silja Bára sagði...

alveg merkilegur andskoti hvað þeir halda í þetta, Kópavogur hættir að niðurgreiða dagforeldra og lætur foreldra fá peninginn til að ráðstafa að vild. Mér finnst þetta alveg ótækt, enda er framkvæmdin ekkert nema kvenfyrirlitning.

Og merkilegt, þetta með sjálfsálitið, rannsóknir (sem ég bíð spennt eftir að komi út) sýna víst að sjálfsálit karla eykst í fæðingarorlofi, þveröfugt við konur!

katrín anna sagði...

Jamm, allt í lagi að niðurgreiða þjónustuna. Það að borga mömmunum fyrir að vera heima er það sem ég er ósátt við. Ekki sniðugt... ódýr leið til að koma konum aftur inn á heimilin - í fjárhagslegt ósjálfstæði o.s.frv.

Silja endilega láttu mig vita þegar þessar rannsóknir koma út.

Nafnlaus sagði...

já og fyrir utan það að á meðan peningarnir fara beint til dagmæðranna nýtast þeir allir, foreldrarnir þurfa að borga af þeim skatt, og hvað er þá eftir? jú ég ætla bara að vera heima fyrir 20 þúsund, ég get lifað á því...