mánudagur, september 11, 2006

DUI

Fór að kveðja Hildi Fjólu á Næsta bar í gærkvöldi. Þar sem leigubílar eru dýrir í Grafarholtið :( borgar sig að fara á bílnum og sleppa bjórnum á hittingum sem þessum. Þegar ég kom neðst í slaufuna sem liggur frá Bústaðarvegi inn á Miklubraut á heimleiðinni sé ég hvar þar stendur lögga sem veifar mér að stoppa. Ég stoppa og skrúfa niður rúðuna og hann segir að ég verði að taka U-beygju, keyra á móti umferð að lögreglubíl með blikkandi ljósum, taka þar aðra U-beygju og keyra aftur upp á Bústaðarveg. Ég fékk að sjálfsögðu sting í magann því svona lagað þýðir venjulega að slys hafi orðið. Í fréttum í dag sé ég svo að um var að ræða 4 bíla árekstur þar sem 7 slösuðust. Sem betur virðast ekki hafa orðið alvarleg slys á fólki en það útilokar samt ekki að einhver af hinum slösuðu gætu þurft að takast á við afleiðingar það sem eftir er. Sagan endar þó ekki hér. Slysstaðurinn var í hættu staddur þegar ölvaður ökumaður virti ekki stöðvunarmerkið frá góðkunningja mínum - löggunni veifandi. Hann náðist á endanum en alls voru 10 ökumenn teknir fyrir ölvunarakstur í nótt.

Nú er töluvert síðan ég var fastagestur í miðbænum en mér fannst ekki skemmtilegt að koma út af Næsta bar rétt fyrir kl. 3 og sjá alla ölvunina. Löngunin til að djamma í miðbænum er einhvern veginn alveg horfinn. Eflaust er það aldurinn sem gerir þetta að verkum en það er bara ekki sjarmerandi að stíga út í nóttina og sjá allt morandi í ölvuðu fólki, þreyttu og aumu í fótunum, skjögrandi um... þá er afskaplega mikill léttir að geta sest beint upp í bíl og keyrt af stað. En það er önnur tilfinning sem hreiðrar líka um sig þegar kona sest undir stýri og heldur heim á leið. Sú tilfinning er tilkomin vegna þess að það er vitað mál að á þessum tíma er slatti af ölvuðum ökumönnum í umferðinni og þeir keyra ekki á 40 á Miklubrautinni, Ártúnsbrekkunni... Ég vona að sett verði fjármagn í hert eftirlit í miðbænum - helst svo strangt að enginn keyri út úr miðbænum án þess að blása í blöðru!

Engin ummæli: