Birtist áður í Viðskiptablaðinu þann 28. des 2005. Set þetta inn hér í tilefni atburða undanfarinna daga...
Það er leikur að lemja
Tjáningarfrelsið er einn af hornsteinum lýðræðisins og nauðsynlegt er að verja þennan rétt með kjafti og klóm. Stundum finnst mér þó rétturinn til tjáningarfrelsis vera misnotaður í annarlegum tilgangi. Nýlega bárust fréttir af úrskurði alríkisdómara í Bandaríkjunum sem kom í veg fyrir gildistöku laga sem bönnuðu sölu á tölvuleikjum sem innihalda gróft ofbeldi til barna í Kaliforníu. Bannið þykir hugsanlega stangast á við tjáningarfrelsið. Það voru samtök tölvuleikjaframleiðenda og verslunarmanna sem höfðuðu málið á grundvelli tjáningarfrelsinsins, samkvæmt frétt á mbl.is þann 23. desember.
Áhrif ofbeldisfullra tölvuleikja
Á heimasíðu SAFT, samtaka sem vinna að öruggri netnotkun barna og unglinga, er að finna samevrópskt flokkunarkerfi fyrir tölvuleiki. Flokkunarkerfinu er ætlað að auðvelda foreldrum og öðrum að átta sig á innihaldi tölvuleikja og hjálpa þeim þannig að velja réttu tölvuleikina fyrir börnin sín. Flokkunarkerfið er stutt af framleiðendum tölvuleikja og má sjá af merkingum fyrir hvaða aldurshópa leikurinn er ætlaður, hvort hann inniheldur ofbeldi, kynlíf, mismunun, gróft orðbragð, fíkniefni eða geti vakið ótta hjá ungum börnum.
Framtak sem þetta er af hinu góða. Rannsókn SAFT leiddi í ljós að um 40% foreldra á Íslandi hafa litla þekkingu á tölvuleikjum barna sinna. Jafnframt kom í ljós að börn eyða miklum tíma í tölvuleiki, mörg þeirra kaupa leiki sem ekki er ætlaður fyrir þeirra aldurshóp eða athuga ekki aldursmerkingar. Okkur vantar tilfinnanlega rannsóknir á áhrifum tölvuleikja á börn og unglinga en til eru nokkur dæmi um ofbeldisverk barna og unglinga sem talin eru eiga rætur sínar að rekja til ofbeldisfullra tölvuleikja. Einnig eru til rannsóknir sem sýna fram á að ítrekuð notkun á ofbeldisfullum tölvuleikjum getur leitt til árásagjarnra hugsana, tilfinninga og hegðunar. Það er því ansi kærulaust að ætla að allt það ofbeldi og mannfyrirlitning sem finnst í mörgum tölvuleikjum hafi ekki áhrif. Við sem manneskjur drekkum sífellt í okkur skilaboð úr umhverfinu og myndum okkur skoðanir og viðhorf út frá því. Einstaklingar sem ekki hafa náð fullorðinsaldri hafa ekki þroska til að meta öll þau skilaboð sem þau fá á eigin spýtur. Það er auðvelt að segja að foreldrar eigi einfaldlega að fylgjast með gerðum barna sinna og tala við þau um það sem fyrir augu ber en það er mun erfiðara í framkvæmd í okkar hraða þjóðfélagi.
Stjórnarskrárvarinn réttur til að meiða
Merkingar SAFT eru af hinu góða því þær miðla þekkingu en þær ganga skemur en tilraunin til lagasetningar í Kaliforníu þar sem leggja átti bann við sölu á tölvuleikjunum. Ég hallast að þeirri skoðun að báðar aðgerðir saman væru æskilegasta lausnin. Mér er lífsins ómögulegt að skilja hvernig bann á ofbeldisfullum tölvuleikjum til barna getur stangast á við tjáningarfrelsið. Á hvern hátt? Það er ekki verið að banna fyrirtækjum að hanna, framleiða eða selja ofbeldisfulla tölvuleiki. Frelsið til að tjá sig er því til staðar. Einungis er um að ræða bann við sölu á þessu efni til barna og unglinga, einstaklinga sem lagalega séð eru á ábyrgð foreldra og samfélags. Sama hvað fólki finnst um forsjárhyggju almennt þá er það hlutverk foreldra og samfélagsins að beita forsjárhyggju við uppeldi í þeim tilgangi að vernda börn og undirbúa þau fyrir að standa á eigin fótum sem fullorðnir einstaklingar. Að halda að börnum skaðlegum tölvuleikjum sem gera það að verkum að þau fá ranghugmyndir um hlutverk sitt í samfélaginu, hvernig koma á fram við annað fólk og hvað er rétt og rangt getur ekki átt að vera réttur sem varinn er af stjórnarskránni. Fyrirtæki sem framleiða og selja vörur í þeim eina tilgangi að græða peninga án nokkurrar samfélagslegrar ábyrgðar eða siðferðiskenndar eiga ekki að hafa óheftan aðgang að börnum og unglingum undir þeim formerkjum að þarna sé tjáningarfrelsið að verki. Samtök tölvuleikjaframleiðanda í Bandaríkjunum halda því fram að verið sé að grípa fram fyrir hendur foreldra með því að banna sölu leikja þeirra til barna. Þvert á móti styðja lögin við hlutverk foreldra sem uppalanda því með þeim geta börnin ekki farið á bak við foreldra sína og keypt leikina sjálf. Foreldrarnir geta eftir sem áður keypt leikina handa börnum sínum ef þeir kjósa svo.
Að verja skoðanir annarra fram í rauðan dauðann
Tölvuleikjaframleiðendur halda því fram að tölvuleikir séu tjáningarform, rétt eins og bækur, kvikmyndir og tónlist. Það er ekki rökrétt að halda því fram að tölvuleikir séu tjáningarleið en halda því fram á sama tíma að þeir hafi ekkert að segja. Þess vegna eigum við að kynna okkur hvað tölvuleikir segja við börn og unglinga og hafa skoðun á því. Það er til lítils að ætla að verja skoðanir annarra fram í rauðan dauðann en á sama tíma afsala sér réttinum til að hafa skoðun sjálfur.
föstudagur, september 15, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Æ ekki boð og bönn. Það sem er bannað er bara meira spennandi. Ég held að merkingarnar og raunhæf fræðsla sem vísar til skynsemi fólks en ekki vafasamar fullyrðingar um skaðsemi hljóti að skila meiri árangri en bönn.
þetta hérna er nauðsynleg lesning fyrir þessa umræðu .
Merkingarnar hafa sömu áhrif á börn og bönninn... leikur sem er merktur fyrir 16 ára og eldri getur verið mjög spennandi í augum 12 ára barna. Mér finnst jafnsjálfsagt að hafa aldurstakmörk á hversu ungum börnum má selja tölvuleiki eins og á áfengi. Eins og fram kemur í pistlinum myndu foreldrar áfram geta keypt leikina og drekkt börnunum sínum í ofbeldi ef þau kjósa svo...
Les linkinn frá þér seinna - er að flýta mér akkúrat núna.
En gaman að heyra frá þér :)
Skrifa ummæli