mánudagur, febrúar 18, 2008

Hlutverk fjölmiðla

Mér finnst áhugavert að ræða hlutverk fjölmiðla í tilefni af danska skopmyndamálinu. Þegar jafnrétti kynjanna ber á góma við fjölmiðla hef ég oftar en einu sinni og oftar en tvisvar fengið að heyra að það sé ekki hlutverk fjölmiðla að vera í réttindabaráttu heldur að flytja fréttir. Þetta hefur oft verið sagt út af hlutfalli kynjanna í fjölmiðlum - mál sem ég kalla ekki hluta af réttindabaráttu af hálfu fjölmiðla heldur einfaldlega hluta af hversu faglegir fjölmiðlar eru. Þeirra hlutverk er að flytja fréttir af öllum, ekki bara helmingi mannskyns (hlutföll kynjanna í fjölmiðlum eru ca 75/25).

Nú bregður svo við í danska skopmyndamálinu að fjölmiðlar ákveða að fara í réttindabaráttu. Svo á að heita sem að þetta sé í nafni málfrelsis. Í mínum huga er þetta þó meira í átt við stríðsyfirlýsingu heldur en baráttu fyrir málfrelsi. Öll eigum við eitthvað sem er okkur heilagt. Það er bara mismunandi hvað það er. Mér finnst ágætt að líkja þessu við þegar Harry Bretaprins mætti í nasistabúningi á grímuball. Svoleiðis gera menn ekki á vesturlöndum. Það er eitthvað sem er okkur heilagt, enda fékk Harry prins skömm í hattinn fyrir. Miðað við viðbrögð fjölmiðla nú hefði Harry prins átt að segja að hann hefði málfrelsi og mæta síðan í nasistabúningnum reglulega - bara til að berjast fyrir málfrelsinu! Gáfulegt? Nei, svo sannarlega ekki. Það má ekki gleymast að þó hér ríki málfrelsi þá þýðir það ekki að orðin (eða aðgerðirnar) séu innantóm og án merkingar. Fólk og fjölmiðlar þurfa líka að íhuga hvað verið er að segja. Rétt eins og búningurinn hans Harrys var hluti af tjáningu þá eru viðbrögð fjölmiðla nú hluti af tjáningu. Það er ekki bara verið að segja „við höfum málfrelsi“ heldur er líka verið að segja „okkur er skítsama um þína trú og það sem er þér heilagt - við áskiljum okkur rétt til að gera grín að því og þar með að gera lítið úr þér“. Fyrirfram var vitað að slík yfirlýsing jafngilti stríðsyfirlýsingu og myndi hafa ýmis áhrif í för með sér fyrir Danmörk og danska ríkisborgara. Og þá kemur að spurningunni - hafa fjölmiðlar þennan rétt? Er það ekki stjórnvalda að ákveða hvort farið sé í stríð eða ekki? Mega fjölmiðlar fara í stríð, ekki í þágu þess að flytja fréttir, heldur í þágu einhvers málefnins sem þeir kjósa að berjast fyrir á sínum eigin forsendum óháð öllu öðru?

Annars væri gaman að gera lista yfir það sem er okkur Vesturlandabúum heilagt. Þrjú atriði sem mér detta í hug: fánar, bókabrennur og nasistabúningar. Eitthvað fleira?

9 ummæli:

Hringbrautin sagði...

Fullkomlega sammála.

Nafnlaus sagði...

Frábært! Enn og aftur snýrðu mér í hálfhring. Ég var svo sammála Dönunum en auðvitað er þetta bara óþarfa ögrun.

Annars er Íslenski fáninn ekki heilagur í mínum augum, og ég er ekki viss um að hann sé það í augum Íslendinga almennt. En vissulega er hann það í mörgum vestrænum ríkjum.

Bókabrennur eru held ég ekki neitt taboo hérna heldur. Það er samt svolítið fyndið að Íslendingar kvarta alltaf yfir hvað samlandar þeirra eru ragir við að mótmæla. En um leið og einhver mótmælir þá hneykslast íslendingar á samlöndum sínum.

Tökum umhverfisverndasinna til dæmis, eða jafnréttismál. Flestir vilja jafnrétti og vilja að það sé spornað gegn ójafnrétti. En um leið og einhver rís upp gegn ójafnréttinu þá hneykslast fólk á því, og reynir að gera lítið úr málstað þess.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill Kata ,sammála.

katrín anna sagði...

Já manuel - við þolum illa skrílslæti!!! eða hugsjónabaráttu (nema hún sé uberstillt og ruggi ekki bátnum). En bókabrennur eru alvöru tabú hér á landi. Ég minntist einu sinni á bókabrennu í bloggi hjá mér og það vakti ekki mikla lukku... þó ég hafi aldrei ætlað mér að brenna bókina...

En varðandi Danina - kannski rétt að taka fram að ég er ekki heldur hlynnt baráttuaðferðum þeirra sem fjölmiðlar ákváðu að fara í stríð við. Finnst þetta frekar heimskulegt á alla kanta.

Nafnlaus sagði...

Þá er hægt að segja að femínismi sé algjört tabú líka. Meira að segja lítil mál eins og spurning hvort rétt sé að titla konu "herra" setja allt á annan endann. Þú þekkir það náttúrulega mann best ;)

katrín anna sagði...

Já, femínismi getur verið meiriháttar tabú á köflum. Sérstaklega ef á að breyta einhverju... Reyndar eru allir sáttir við að breyta titlinum ráðherrafrú í ráðherramaki svo karlarnir þurfi ekki að vera frú en afleitt að breyta svo konur þurfi ekki að vera herrar... það er jú svo miklu flottara að vera herra en frú - segja sumir!

Nafnlaus sagði...

skiljanlega, maður vill forðast það eins og maður getur að vera settur í sama hóp og þið

katrín anna sagði...

Af hverju er það skiljanlega? Sumir sögðu þetta sama um kosningaréttinn á sama tíma, þ.e. vildu forðast eins og heitan eldinn að vera settir í sama hóp og konurnar sem börðust fyrir kosningaréttinum.

Hvað er það annars sem þú ert hræddur við að vera bendlaður við? Baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi? Baráttu fyrir sömu launum fyrir sömu störf? Baráttu fyrir því að bæði kyn fái sömu tækifæri óháð kyni? Baráttu fyrir því að konur og karlar komi að ákvarðanatöku í samfélaginu í sama mæli? Baráttu fyrir því að báðir foreldrar sinni uppeldi og umönnun barna sinna?

Er eftirsóknarverðara að vera í hópi með þeim sem vilja ekki grípa til neinna aðgerða til að draga úr nauðgunum, sem vilja viðhalda launamun kynjanna, sem vilja viðhalda meirihluta valdi karla í samfélaginu?

Já, stundum er skrýtið hvaða hópi fólk vill tilheyra...

Nafnlaus sagði...

World Of Warcraft gold for cheap
wow power leveling,
wow gold,
wow gold,
wow power leveling,
wow power leveling,
world of warcraft power leveling,
world of warcraft power leveling
wow power leveling,
cheap wow gold,
cheap wow gold,
buy wow gold,
wow gold,
Cheap WoW Gold,
wow gold,
Cheap WoW Gold,
world of warcraft gold,
wow gold,
world of warcraft gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold,
wow gold
buy cheap World Of Warcraft gold l3l6t7ei