föstudagur, janúar 06, 2006

Kvenkyns karlrembur

Pistill fluttur á NFS 6. jan 2006:

Hefurðu velt því fyrir þér af hverju stelpur eru æstar í að verða fáklædda Séð og heyrt stúlkan? Af hverju stelpur eru til í að flassa brjóstunum framan í myndavélar þegar þær eru á djamminu? Veistu af hverju hnakkamellan er kölluð nútímakona? Eða af hverju konur vilja læra súludans?

Í bókinni Female Chauvinist Pigs eða Kvenkyns karlrembur, eins og hún gæti heitið á íslensku, leitast höfundurinn Ariel Levy við að svara þessum spurningum. Bókin byrjar á að höfundur fylgist með upptökum á sjónvarpsþættinum Villtar stelpur sem gengur út á að fá stelpur á djamminu til að bera sig fyrir framan myndavélarnar. Þær eru ríkulega verðlaunaðar fyrir og fá kannski hatt eða stuttermabol með merki þáttarins á fyrir ómakið. Það virðist vera furðulega auðvelt að fá stelpurnar til að haga sér eins og framleiðendurnir vilja. Og það er ekki nóg með að konur séu til í að flassa fyrir framan myndavélina. Konur eru stundum furðulega fáklæddar innan um fullklædda karlmenn, þær horfa á klám, fara á súlustaði og ganga með Playboymerkið.

Af hverju? Svarið telur höfundur bókarinnar liggja í nokkrum atriðum. Fyrir það fyrsta þá trúa konurnar að þær öðlist aukið vald með þessari hegðun. Þær vilja öðlast viðurkenningu og verða einar af strákunum – og halda að rétta leiðin til þess sé að koma fram við konur eins og karlmenn gera. Þær halda líka að það felist hugrekki og sjálfstraust í því að koma naktar fram.
Levy hefur greinilega unnið heimavinnuna sína við gerð bókarinnar. Hún talar við og fylgist með framleiðendum og stúlkunum sem taka þátt. Hún fer yfir sögu kvennabaráttunar og baráttuna fyrir auknu kynfrelsi. Hún talar við lesbíur, unglinga og margt fleira. Og svo skoðar hún fyrirmyndirnar. Fyrirmyndir íslenskra ungmenna eru að mörgu leyti þær sömu og bandarískra unglinga. Britney Spears, Paris Hilton, Jenna Jameson og öðrum álíka dívum er hampað eins og gyðjum. Það er eftirsóknarvert að vera eins og þær og gera eins og þær. Og það er nákvæmlega það sem kvenkyns karlrembur gera enda fá þær viðurkenningu fyrir það.

En af hverju er þetta ekki í lagi? Ef konur gangast sjálfviljugar inn í þetta hlutverk er það þá ekki hið besta mál? Ekki segir Ariel Levy og ég er sammála henni í því. Klámvæðingin gengur ekki út á kynfrelsi eða aukna ánægju af kynlífi. Þvert á móti gengur klámvæðingin út á að kynlíf sé neysluvara sem við eigum að neyta eins og hverrar annarar vöru, án tilfinninga og án þess að ánægja af kynlífi skipti máli. Konur eru ekki hvattar til að finna út hvað veitir þeim kynferðislega ánægju heldur eru þær hvattar til að sjá kynlíf og hvað er kynferðislegt út frá augum karlmanna – eða veit einhver hvað er kynferðislegt í augum kvenna? Vita konur sjálfar hvað þeim finnst eftirsóknarvert í kynlífi? Konur eiga að verða kynferðislega örvaðar við að horfa á aðrar konur með sömu augum og mælikvörðum og karlar gera. Það hljómar eins og týpískt tilfelli af heimi þar sem skilgreining karlmannsins á hvað er sexý og hvað ekki, ræður ríkjum. Ef kynin væru á jafnræðisgrundvelli hlyti karlmannslíkaminn að vera jafn hlutgerður, berstrípaður og breyttur með skurðaðgerðum. En svo er ekki.

Levy kemur með enn eina áhugaverða útskýringu á af hverju sumar konur eru tilbúnar til að gangast upp í hinu klámvædda hlutverki kvenna. Útskýringuna tekur hún úr bókinni Kofi Tómasar frænda og vísar þar í frændann sjálfan, þræl sem leit á sjálfan sig sem eign húsbónda síns og fannst það eðlilegt ástand. Honum datt ekki í hug að flýja. Hann elskaði húsbónda sinn og reyndi sitt besta til að fá viðurkenningu frá honum. Hann vildi þóknast manninum með valdið. Á svipaðan hátt má líta á kvenkyns karlrembur klámvæðingarinnar. Konur sem leitast eftir samþykki með því að uppfylla það hlutverk sem að þeim er rétt og trúa að með því nái þær sjálfstæði. En ekkert er fjær sannleikanum. Eins og Levy bendir á í bók sinni þá getur ekki verið að kynlíf snúist um sílikonur og uppgerðan losta. Hún bendir á að kynlíf sé eitt af því áhugaverðasta sem við mannfólkið getum skemmt okkur við en í staðinn fyrir að njóta þess, kanna huga okkar, tilfinningar og kynferðislega ánægju þá smættum við kynlíf niður í tilfinningalausa neysluvöru. Og hver græðir á því? Ekki ég og ekki þú – sama hvort þú ert karl eða kona.

Engin ummæli: