föstudagur, janúar 13, 2006

Sökudólgar alls staðar - en axlar einhver ábyrgð?

Pistill fluttur á NFS 13. janúar 2006:

DV hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga og ekki að ástæðulausu. Eins og allir vita birti DV frétt þar sem meintur kynferðisbrotamaður var nafngreindur og mynd af honum birt. Í kjölfar fréttarinnar framdi maðurinn sjálfsmorð. Mikið hefur verið rætt um hvort að stefna blaðsins sé siðferðislega réttlætanleg eða ekki.

Ég fagna þeim viðbrögðum sem umfjöllun DV hefur vakið og vona innilega að hún leiði til þess að DV verði lagt niður eða fari á hausinn enda finnst mér DV ekki vera að gera það gagn sem fyrrverandi ritstjórar halda fram. Þeir segjast vera að birta sannleikann og að þetta sé í þágu þolenda en það stenst ekki nánari skoðun. DV er þátttakandi í að viðhalda og skapa það umhverfi sem kynferðisbrot þrífast í. Blaðið vílar ekki fyrir sér að birta auglýsingar frá súlustöðum og símaklámi með tilheyrandi myndbirtingum. Umfjöllun í blaðinu er oft á tíðum full kvenfyrirlitningar. Umfjöllun um kynferðisbrotamenn, nafn- og myndbirting er ekki í samráði við sérfræðinga á sviði kynferðisbrota. Þvert á móti er hún andstætt því sem sérfræðingar telja til hagsbóta fyrir þolendur. En þetta selur og það er drifkrafturinn á bak við fréttamennsku DV. Að búa til nógu krassandi fyrirsagnir því vitað er að við sem neytendur látum skynsemi og siðferðiskennd oft lönd og leið vegna þess að það getur kitlað að lesa um ófarir annarra. Nokkrir blaðamenn á DV fara vel með það efni sem þeir fá til umfjöllunar – EN – heildarstefna blaðsins, innihald og umgjörð byggir ekki á hugsjónum eða samfélagslegri ábyrgð heldur hreinu gróðasjónarmiði.

Þrátt fyrir að ábyrgð fyrrum ritstjóra og eigenda DV sé mikil eru þeir ekki einu sökudólgarnir. Aðrir sem bera ábyrgð hafa sloppið of vel frá umræðunni. Lítið er talað um ábyrgð Fréttablaðsins, vísis.is eða þeirra fjölmörgu verslana og söluturna sem stilla DV upp í auglýsingarömmum í verslunum sínum. Fréttablaðið birtir daglega auglýsingar frá DV þar sem forsíðuefni DV er sýnt á áberandi hátt. DV var þannig ekki eina blaðið sem birti nafn og mynd hins meinta kynferðisbrotamanns. Nafnið, myndin og ásakanir um nauðganir var dreift frítt sama dag af Fréttablaðinu inn á tugþúsundir heimila. Vísir.is birti sömu auglýsingu og veitir netaðgang að blaðinu og þar fengu ásakanir DV frekari farveg. Þessir aðilar bera ábyrgð sem þeir geta ekki fríað sig af eftir á því stefna DV hefur lengi legið ljós fyrir og þetta er ekki í fyrsta sinn sem samskonar vinnubrögð viðgangast. Viðbrögð margra hafa þó verið góð eftir umrætt atvik. Bæði fyrirtæki og neytendur hafa sagt hingað og ekki lengra, enda eru margir allt í einu að gera sér grein fyrir þeim áhrifamætti sem fellst í umfjöllun fjölmiðla.

En ábyrðgaraðilarnir eru fleiri. Stærsti ábyrgðaraðilinn er hið opinbera réttarkerfi sem hefur gjörsamlega brugðist þolendum kynferðisglæpa. Þolendur geta ekki treyst því að fá sanngjarna og réttláta meðferð fyrir dómsstólum vegna þess að kerfið er brotið. Þegar kerfið bregst endar með því að dómstóll götunnar tekur við og gerir það að verkum að fréttamennska eins og stunduð er á DV hefur fengið að þrífast svona lengi. Þeir þingmenn og ráðherrar, sérstaklega dómsmálaráðherra, sem hafa rætt um málið ættu að taka það til sín og vinna að því að gera róttækar breytingar á meðferð kynferðisbrotamála þannig að hægt sé að stóla á að réttvísin nái fram að ganga. Dómstóll götunnar vinnur ekki eftir þeim reglum sem samfélagið hefur komið sér saman um heldur fer sínar eigin leiðir, eins og DV hefur sýnt og sannað. Þá gildir ekki reglan um sakleysi þar til sekt er sönnuð. Þá er heldur ekki víst að tekið sé á málum af siðferðislegri ábyrgð, af þekkingu eða með hagsmuni þolenda að leiðarljósi. Fjölmiðlar eru oft á tíðum nefndir fjórða valdið og ekki að ástæðulausu, enda áhrif þeirra á samfélagið mikil, eins og við höfum orðið vör við vegna umfjöllunar DV og afleiðingunum í kjölfarið.

Ef þú ert á því að réttarkerfið sé ákjósanlegri kostur til dóma vona ég að þú takir þátt í að þrýsta á úrbætur þannig að hægt sé að stóla á að hinir seku og saklausu fái réttláta meðferð fyrir dómstólum – en séu ekki brennimerktir í fjölmiðlum án dóms og laga.

Engin ummæli: