föstudagur, febrúar 29, 2008

Draumurinn um feðraveldið

„Hobbý eru ekki bara stráka“ Svona hljómar fyrirsögn í 24 stundum í dag. Þar er Arnaldur Haukur Ólafsson í viðtali af tilefni opnunnar á nýrri verslun með hobbývörur. Hann segir: „Billjardborð, fótboltaspil eða aðrar svona græjur eru líklega ein fjölskylduvænsta fjárfesting sem dellufólk getur ráðist í. Í stað þess að kaupa vélsleða, mótorhjól eða rándýra stangveiði þar sem þú ferð út af heimilinu til að sinna áhugamálinu ertu að þjappa fjölskyldunni saman og gera eitthvað með henni.“

Svo mörg voru þau orð og þetta hljómar afskaplega vel - alveg þangað til Fréttablaðið er skoðað. Þar á bls 12 er auglýsing frá umræddri verslun. Hún sýnir mynd af vatnsgeiddurm karlmanni að spila billjard. Myndin er í svarthvítu og ýtir þannig undir hugmyndir um gamla tíma. Og slagorðið? Jú, að sjálfsögðu:

ERT ÞÚ HÚSBÓNDI Í ÞÍNU HERBERGI?

Hobbýið er sem sagt ekki fjölskylduvænna en þetta - endurvakning á úreltum gildum feðraveldisins, sem því miður lifa svo afskaplega vel í okkar samfélagi. Kannski þau séu ekki eins úrelt og margur heldur? Pierre Bourdieu sagði að það eina sem hefði breyst væri að völd karla væru ekki lengur óvéfengd. Í auglýsingu dagsins sjáum við í það minnsta að krafan er sú að karlar séu húsbóndar. Það þýðir að þeir eigi að ráða - og fjölskyldan, konur og börn, geta bara gjört svo vel að hlýða! Væntanlega með því að spila þá leiki sem húsbóndanum þóknast! Skyldi auglýsingin eiga að vísa í leyndan draum karlmanna um... feðraveldi í stað jafnréttis?

7 ummæli:

Hringbrautin sagði...

Kona veltir því fyrir sér hvort auglýsingastofan sé fullkomlega vanhæf eða hvort þeir sem reka þetta fyrirtæki hafi ekki áhuga á þeim 80-90% ráðstöfunartekna heimilanna sem talið er að konur fari fyrir? Þá hefur kannski lengi látið sig dreyma um gjaldþrot!!?? (hér á að vera hissakerling)

Nafnlaus sagði...

Vandræðalegt fyrir þá.

En svona fyrst við erum að tala um auglýsingar þá langar mig að spurja þig um auglýsingaherferðina hjá rútufyritæki Guðmunds Tyrfingssonar sem hefur verið mikið rætt og ritað um.

http://andres.eyjan.is/wp-content/uploads/2008/02/gt-augl.jpg

Ég er alls ekki að spurja þig til að sýna fram á að femínistar taki bara fyrir mál þar sem hallar á konur eða svoleiðis kjaftæði. Hef bara sjálfur verið að spá svolítið í þessu. En spurningin er:
Væri myndin verri ef konan væri "nakin" og karlinn klæddur?

katrín anna sagði...

manuel - held þú vitir alveg hverju ég mun svara þessu...! Er það ekki? Það sem mér finnst athyglisvert við myndina er þetta augljósa power play í kynhlutverkum - ekki nóg með að kk sé nánast nakinn heldur er konan með bindi. Það er ekki merkingarlaust í þessu samhengi. Annars veistu vel að ég er ekki hrifin af hlutgervingu, hvorki karla né kvenna - en ég hef líka alltaf sagt að magnið og ítrekun skilaboða skipti miklu máli. Bæði kyn þola eina og eina unpolitically correct myndbirtingu - en ítrekun svoleiðis skilaboða hefur skaðlegri áhrif.

Berglind Rós Magnúsdóttir sagði...

Ótrúlega hallærisleg auglýsing. Eins finnst mér nýja auglýsingalínan um líftryggingar VÍS ótrúlega karllæg, sbr. Gettu betur afarnir sem höfðu ekki tækifæri til að fara í Gettu betur og svo er eitt af tíu atriðum sem þú verður að hafa prófað í lífinu, að raka þig með rakhnífi. Átti talsvert erfitt með að samsama mig þessum boðskap.

Nafnlaus sagði...

Ég er sammála því að auglýsingin hefði litið verr út ef þessu hefði verið öfugt snúið. En mér finnst þessi auglýsing mjög áhugaverð fyrir þær sakir að hún er bæði rosalega léleg og góð. Myndin sem slík stuðar (in a good way) og er eiginlega eins og ádeila á hlutgervingu kvenna í m.a auglýsingum. Skil samt ekki alveg hvernig myndin á að vekja traust á öryggisbúnaði rútunnar. Mér finnst líka alltaf mjög slappt þegar sá sem býr til auglýsingar hefur ekki meira hugmyndaflug en það að nota klisjuna "nekt selur".

Þá spyr maður sig hvort sú taktík virki á konur líka?

Nafnlaus sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.
katrín anna sagði...

Berglind Rós - ég er ekki búin að sjá VÍS auglýsinguna. Hef augun opin og vonast til að hafa upp á henni. Hljómar ekki vel...

manuel - já góð spurning hvort þetta virkar á konur. Sumir spá í hvort konur hafi þetta „glápleyfi“ sem karlar hafa? Enn sem komið er held ég að flestum finnist svona birtingarmynd afar hallærisleg. Þegar þessi birtingarmynd verður orðin dýrkuð og dáð og allir karlar sem ekki líta svona út álitnir stórkostlega gallaðir - þá eru karlar komnir á vondan stað...