þriðjudagur, janúar 03, 2006

Snjólfur er ekki frábær

Var að skoða Moggann frá 31. des. Þar er grein eftir Snjólf - prófessor í viðskiptafræðiskor HÍ (mikið er ég glöð að hafa ekki lært viðskiptafræði hjá honum!). Maðurinn virðist bókstaflega hata femínista. Hann sér ekki ástæðu til að skrifa í blöðin nema það tengist skítkasti út í jafnréttisbaráttuna eða femínista. Núna gerir hann femínistum meira að segja upp skoðanir um Silvíu Nótt og Sirrý - án þess að hafa neitt fyrir sér í því. Þetta finnst mér ómerkilegur málflutningur. Það er lágmark að maðurinn haldi sig við staðreyndir. Getgátur um skoðanir þar sem reynt er að klína einhverju á femínista að tilhæfulausu er í anda DV. Hann getur örugglega fengið vinnu þar seinna meir þegar hann gefst upp á akademíunni....

En í alvöru talað. Mér finnst að maður í hans stöðu eigi að vera pínkulítið vandur að virðingu sinni. Hann má samgleðjast Unni Birnu mín vegna. Kannski er hann svo heppinn að eiga dóttur sjálfur sem hann getur sent í svona konusýningu sem hann er trúir að gangi út á innri fegurð. Af hverju ætli þetta heiti annars fegurðarsamkeppni? Af hverju þarf að koma fram á bikiní? Af hverju þurfa keppendur að vera stífmálaðar, æfa líkamsrækt grimmt og vera með gervineglur? Af hverju þurfa þær að vera ógiftar og barnlausar en mega hafa farið í brjóstastækkun? Svo innri fegurð fái að njóta sín? Finnst heimskulegt að kaupa þau rök að þetta sé keppni í innri fegurð miðað við alla umgjörðina en greinarnar hans Snjólfs í Mogganum gefa reyndar ekkert tilefni til að ætla að hann búi yfir mikilli skynsemi hvort sem er.

En það var fleira í Mogganum. Viðtalið við Eddu var stórfínt og Mogginn hafði mynd af fólksfjöldanum í miðbænum í annálnum. Klikkuðu reyndar á textanum og héldu því fram að þarna væru konur að fagna því að 30 ár eru liðin frá kvennafrídeginum 75 en það er aðeins hluti ástæðunnar. Við erum enn í baráttu og þetta var barátta fyrir betri launakjörum og auknu jafnrétti. Slíkt verður að hafa með í fréttaflutningi.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Snjólfur var nú að segja að innri fegurð og framkoma skipti miklu máli í þessari keppni. Hann var ekki að tala um að keppnin snérist EINGÖNGU um innri fegurð.

Innri fegurð er stöðluð við að vilja að vinna að friði í heiminum og hafa gaman af að ferðast og lesa og svona. Ef opinber framtíðasýn þín er að vera rík og eignast mikið af peningum til að geta lifað með þotuliðinu ert þú ekki líkleg til árangurs, hversu "falleg" sem þú ert. Þannig að það er rétt að hluti keppninnar snýr að þessari svokölluðu innri fegurð.

Allir þessir staðlar sem til eru í þessari keppni gera það að verkum að það er ekki hægt að taka mark á henni. Staðlar um innri og ytri fegurð eru til dæmis á engan hátt í samræmi við mína staðla um hvað er fallegt.

Unnur Birna er aðeins stúlka sem uppfyllir skilyrði dómnefndar en ekki endilega almennings. Ég sé ekki þessa gífurlega fegurð sem Unnur Birna virðist bera með sér. Ef hún væri ekki úngfrú staðall myndi ég ekki líta um öxl ef hún gengi framhjá mér. Ég hef fallið fyrir stelpum sem eru mæður,yfir kjörþyngd og lítið menntaðar og hafa engann tíma né ánægju af því að hanga á endalausum ferðalögum.

Það sem gerir þessar "konusýningar" svona meinlausar í mínum augum er að þær höfða nánast engöngu til kvenna. Sem þýðir að konur sem vilja vera fallegar í augum karla þurfa ekki endilega að uppfylla staðla dómnefndar.

Nafnlaus sagði...

Ég væri sammála þér að þetta væri meinlaust ef lítil frétt um sigurinn hefði birst á innsíðum blaðanna og fréttin verið aftast í sjónvarpsfréttum. Fjölmiðlaumfjöllun, og svo ég tali nú ekki um viðbrögð við yfirlýsingu okkar þriggja verkefnisstýra, sýnir að þetta er stórmál í huga þjóðarinnar, því miður.

Nafnlaus sagði...

Það sem ég átti við að þetta væri meinlaust af því leyti að það er ekki verið að búa til neinar staðalýmindir sem skila sér út í þjóðfélagið. Að vinna heimsmeistaratitil í einhverju er náttúrulega alltaf stórmál á Íslandi.

Skilaboðin til ungra kvenna er ekki að ef þú vilt verða falleg þá skalt þú reyna að koma þér inn í þessa staðla sem fegurðarsamkeppnin setur. Heldur eru skilaboðin þau að ef þú vilt vinna þessa keppni þarft þú að falla inn í þessa staðla.

Ungir strákar hafa gríðarlegan áhuga á stelpum. Af hverju ætli þeir séu þá ekki þeir sem horfa á þessar samkeppnir? Hvaða skilaboð sendir það stelpum? Jú að þær þurfi ekki að vera eins og þessar stelpur til að fá athygli strákanna.

Nafnlaus sagði...

Af hverju eru þá svona margar stelpur með lélega sjálfsmynd þegar kemur að útliti? Af hverju keppast konur við að fara í "fegurnaraðgerðir", endalausa megrunarkúra, mála sig, elta tískuna, fara í ljós, setja í sig strípur, fjarlægja líkamshár, nota hrukkukrem, o.s.frv.? Við búum í útlits- og æskudýrkandi samfélagi og fegurðarsamkeppnir eru einn af þeim þáttum sem viðhalda þessu hlutverki kvenna - að falla inn í ákveðinn staðal (og mega ekki eldast) - að mesti og besti verðleiki sem kona kann að búa yfir er að vera sæt og sexý. Þau skilaboð fá konur úr öllum áttum, mörgum sinnum á dag - úr fjölmiðlum, fegurðarsamkeppnum, tónlistarmyndböndum og mörgum fleirum áttum. Það er ekki mikill margbreytileiki í skilaboðunum.