þriðjudagur, október 17, 2006

Kæra dagbók

Sá í fréttum á RUV áðan að allir Bretar eru hvattir til að halda vefdagbók í dag. Ákvað að vera memm þó ég sé ekki bresk svo hér kemur fyrri partur dags.

Vaknaði við útvarpið á slaginu kl. 7. Náði nú samt að dorma í gegnum Morgunvaktina til rúmlega 8 en þá fór ég á fætur, fékk mér lýsi og drakk þennan dýrindis Smoothie sem Grétar gerði handa okkur. Gluggaði í Fréttablaðinu á meðan og sá að eina ferðina enn eru konur hér um bil fjarverandi af forsíðunni. Efst í vinstra horninu sést glitta í pínkulitla mynd af Sigríði Andersen sem segir að líkamsrækt sé lykillinn að velgengni. Ég vitlaus - hélt það væri menntun, gáfur, dugnaður, tengslanet, aðgangur að fjármagni og svo framvegis.... Ákvað í snarhasti að fjölmiðlar yrðu teknir fyrir í pistli dagsins, nánar tiltekið Fréttablaðið. Dundaði mér sem sagt í morgun við að telja og greina forsíðumyndir Fréttablaðsins síðustu viku. Náði að skila pistlinum rétt fyrir 2 en þá var ég búin að afreka að hella upp á kaffi, snara í mig hádegismat, spjalla í hálftíma við Betu kláru í símann og rölta um lóðina með bróðir hennar mömmu sem var svo vænn að lána mér laufryksuguna sína svo ég gæti gert tilraun til að fjarlægja steininguna af lóðinni. Framundan er svo kennsla í Hagnýtum jafnréttisfræðum hjá HÍ, ráðsfundur og halda áfram að undirbúa kennslu fyrir morgundaginn. Sé svo líka fram á að þurfa að redda nýrri mynd fyrir Konuna - en þar verð ég með erindið "Hvenær týndist kvenleikinn?" á laugardaginn. Myndin sem ég sendi er víst ekki í nógu góðum gæðum.

Eitt meiriháttar afrek það sem af er degi! Náði að skila 2 hugleiðingum fyrir dagbókina sem Salka ætlar að gefa út :)

Vona að það verði ekki fleira að frétta af mér í dag.

Engin ummæli: