föstudagur, október 27, 2006

Ætlar þú að kjósa?

Prófkjörin eru að hefjast, vei, vei, vei. Ætlar þú að kjósa? Það var verið að benda mér á að svo gæti farið í Norð-vestur kjördæmi að engin kona kæmist á þing!!! Smá sjens að Samfylkingin komi konu inn en það er líka sjens að karlarnir fái það góða kosningu að þeir verði í 2 fyrstu sætunum - sem eru þau sæti sem eru nokkuð örugg inn á þing. Skilst að enn verri sögu sé að segja úr hinum flokkunum, að konur eigi bara ekki möguleika á þingsæti. Arg og garg - hvar er þetta helv#%"& lýðræði? Verst að ég get ekki kosið þar.

Annars er þetta búinn að vera skemmtilegur dagur. Fundurinn með handhöfum Bleiku steinanna var vel lukkaður. Sama marki brenndur og allir aðrir Bleiku steina fundir - það mættu fáir en fundurinn gríðargóður. Algjör synd að það láti ekki fleiri sjá sig því þessir fundir eru alltaf vel þess virði. Fór í Smáralindina áðan til að kaupa mér föt. Var gífurlega dugleg og fjárfesti í einu pari af skóm, kjól og gallabuxum! Sjaldan sem ég er svona dugleg enda fátt leiðinlegra en að versla föt... en gaman þegar það er búið.

Prófkjörsfundurinn í gær var líka vel lukkaður - og fámennur að sama skapi. Ætli þetta sé einkenni góðra funda? Eva María var einstaklega góð í að tala um fjölskyldu málin. Vona að það heyrist meira í henni með þau mál á opinberum vettvangi. Svo er alltaf hægt að velkjast um það hversu hlutlaus talskona Femínistafélagsins á að vera í að lýsa yfir stuðningi við einstaka frambjóðendur. Ég segi enn og aftur - ég er afskaplega þverpólitísk - en ég styð femínista í öllum flokkum og Bryndís er femínisti! Ég er reyndar ekki nógu vel að mér til að geta greint út and-femínistana. Eina sem ég er algjörlega viss um að er andfemínisti - og ég mun ekki kjósa - er Sigríður Andersen. Bendi öllum sem vilja mótmæla því að ég styðji ekki allar konur í framboði á grein eftir hana á www.tikin.is. Þó ég geri ekki endilega kröfu um að konur í framboði séu femínistar til að ég geti kosið þær - þá geri ég kröfu um að þær vinni ekki leynt og ljóst gegn jafnrétti kynjanna. En ég mun að sjálfsögðu ekki taka karl sem er jafnslæmur eða verri framyfir hana.

Þó ég styðji ekki Sigríði er ekki þar með sagt að hún eigi ekki flokkssystur sem gott er að kjósa. Ég t.d. ætla að kjósa Guðfinnu Bjarnadóttur, Ástu Möller og fleiri í hennar flokki. Sömuleiðis fannst mér gífurlega fínt að fá símtal frá manni á kosningaskrifstofu Daggar Pálsdóttur sem minnti mig á að kjósa hana - og á eftir því fylgdi "ert þú kannski konan sem var að brillera í Kastljósinu áðan?" Þetta kalla ég að taka eftir - og kunna að fiska atkvæði ;)

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með að hafa ná að kaupa skóna ég veit hvað þér finnst það leiðinlegt og erfitt.
Það var gaman á framboðsfundi Bryndísar. Komst bara í smá stuð.
Mér finnst Sigríður Andersen alveg ga ga en það er bara mín skoðun.

katrín anna sagði...

Úrslitin úr prófkjörinu hrikaleg - flokksbundnir sjálfstæðismenn eru ekki hrifnir af að kjósa konur...

En já það var æðislegt að kaupa skó - er núna búin að afreka það að kaupa mér tvenn pör á einni viku! Þarf vonandi ekki að kaupa mér aftur skó fyrr en í fyrsta lagi í vor ;)

Nafnlaus sagði...

Málflutningur Sigríðar er í hæsta máta undarlegur...