þriðjudagur, júlí 04, 2006

Frami án hjálpardekkja?

Á deiglunni.com - (uppáhalds vefritinu mínu þessa dagana) er grein um frama kvenna í atvinnulífinu. Titill greinarinnar er "Frami án hjálpardekkja". Höfundur er afar þreytt á vinstrisinnuðum femínistum sem vilja eintóm hjálpardekk til að koma sér áfram... Ég er hins vegar orðin afar þreytt á konum sem átta sig ekki á að þetta er ekki hægri/vinstri. Þessi endalausu skrif um frama kvenna og gagnrýni á t.d. umræðuna (eða rússnesku samþykktina) um kvóta á hlutfall kynjanna í stjórnir fyrirtækja er ekki á réttum forsendum. Fyrir það fyrsta þá var ráðstefnan á Bifröst hvorki haldin undir formerkjum femínista né vinstri sinnaðra. Þar voru einmitt fjölmargar konur sem eru framarlega í atvinnulífinu - kvenkyns stjórnendur á öllum aldri og væntanlega úr öllum flokkum.

Það er eitt að vera á móti kvótum - en það er annað að einblína öllum sínum kröftum í að ætla að þau sem séu hlynnt kvótum séu bara vinstrisinnaðir einstaklingar eða að allir vinstrisinnaðir einstaklingar séu hlynntir kvótum. Þegar umræðan er komin á þeim nótum þá er ekki verið að fjalla um málið á málefnalegum grundvelli heldur bara fara ofan í skotgrafir og halda að það séu til svona vinstri/hægri lið sem geti ekki verið sammála um neitt - eða að allir innan vinstri liðsins séu sammála og allir innan hægra liðsins séu sammála.

Tökum kvótann sem dæmi. Er hægri sinnað fólk á móti kvóta almennt? Það hafa ekki heyrst nein mótmæli frá hægra fólkinu um þá kynjakvóta sem eru við líði í samfélaginu.

1. Það er kvóti í eina nefnd á vegum ríkisins - jafnréttisráð. Þar sitja núna slatti af körlum í krafti kyns síns. Hvar eru mótmælin, niðurlægingin, þreytan? Eða er þetta öðruvísi kvóti því jafnréttismál koma körlum jafnmikið við og konum?

2. Fæðingarorlof - þar er kvóti. 3 mánuðir fyrir konur, 3 fyrir karla og 3 sem má skipta. Þetta er samþykkt í tíð hægri stjórnar. Af hverju er þessi kvóti betri en aðrir kvótar?

Svo er líka í lagi að setja hlutina upp eins og þeir eru. Eins og staðan er í atvinnulífinu í dag eru karlar með hjálpardekk, forgjöf og þjófstart. Allt í krafti kyns. Konur eru ekki með nein hjálpardekk, enga forgjöf og þjófstarta ekki í krafti kyns - heldur þvert á móti, þær eru gagnrýndar á öðrum forsendum, metnar á öðrum forsendum og hreinlega stimplaðar út af borðinu vegna kyns - ekki hæfileikaskorts.

Hvar er öll umræðan frá körlunum um hversu niðurlægjandi það sé að þeir séu í sínum stöðum í krafti kyns? Hvar er öll umræðan frá körlum um að þeir þurfi ekki hjálpardekk og vilji útrýma kynjamisrétti því þeir sætti sig bara ekki við að keppa ekki á jafnréttisgrundvelli? Sú umræða er bara ansi lágvær og hreinlega bara fjarverandi úr íslensku atvinnulífi. Samt sem áður eru karlar þar með yfirgnæfandi meirihlutavald sem er ekki tilkomið vegna þess að þeir séu svona margfalt hæfileikaríkari og klárari en konur. Svo keppast sumar konur við að tala um að konur þurfi ekki hjálpardekk... þær komist á sínum eigin forsendum. Jamm - en konur eru ekki með hjálpardekk - en karlarnir eru himinlifandi ánægðir með sín!

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er alveg sammála þér í því að jafnrétti á hvorki skylt með hægri eða vinstri í pólitík. Jafnrétti á að vera þverpólitískt markmið.

Nú er ég alveg jafn mikið á móti kynjakvótum og þessi greinarhöfundur. Ég er samt ekki á móti kvótunum á sama grundvelli. Ég er á móti þessu þar sem þetta tryggir ekki að hæfustu mennirnir/konurnar sinni störfunum. Einnig held ég að það sé ansi erfið aðstaða fyrir konu eða karl að þurfa að hafa það á tilfinningunni að sitja í stöðu ekki vegna eigin verðleika heldur vegna kyns.

Ég held að þetta myndi aldrei virka þar sem markaðurinn leitar alltaf að hæfasta fólkinu til að sinna störfunum. Ég veit þó ekki hvernig á að koma atvinnurekendum í skilning um að kyn skipti ekki máli þegar hæfasti einstaklingurinn er ráðinn.

En finnst ykkur ekki umræðan um neikvæðni feminista vera slæm? Það er víðtæk skoðun sem er að koma aftur og aftur fram á sjónarsviðið hversu neikvæður málflutningur ykkar er. Af hverju heyrist ekkert þegar einhver gerir eitthvað jákvætt? Hvernig stendur á því að meira segja konur (sbr greinarhöfund) eru farnar að veigra sig við því að líta á sig sem feminista? Þetta ætti að vera eina framtakið sem allar konur ættu að geta verið samstíga í.

Ég myndi frekar vilja sjá feminismann vinna að sínum málefnum á ofurjákvæðann hátt heldur en á þennann ofurneikvæða hátt. Þó það myndi ganga svo langt að halda skrúðgöngu í hvert sinn sem eitthvað fyrirtæki nær jöfnu hlutfalli kynjanna í stjórnunarstöðum. Það væri þó skárra en að hvetja til jafnréttis á þennann þunga og neikvæða hátt.

katrín anna sagði...

Kvótakerfið myndi reyndar frekar tryggja að hæfustu einstaklingarnir sætu í stöðum heldur en án kvótakerfis. Ef tekið er t.d. mið af stjórnum fyrirtækja þá eiga nær eingöngu bara karlar sjens. Konurnar komast ekki að þrátt fyrir að vera frábærlega hæfar. Kvóti myndi tryggja að hæfustu konurnar kæmust að - konurnar sem komast ekki að í dag. Þess vegna myndi kvóti leiða til þess að hæfara fólk yrði valið, ekki öfugt. Án kvóta er valið eftir kyni (kk) - ekki hæfni.

Varðandi það að konur séu hræddar við að flokka sig sem femínista þá er það ekki nýtt af nálinni né neitt sem gerir mig hissa. Á sínum tíma var fullt af konum á móti því að konur fengu kosningarétt. Ég á bók sem sýnir hvernig grafísk hönnun hefur verið notuð með og á móti kvennabaráttunni í gegnum tíðina. Hér eru nokkur dæmi frá andstæðingum súffragettanna:

1. Life - Militants
Efsta röðin sýnir teiknaðar myndir af 4 konum í eldri kanntinum, með kleprað eða úfið hár og hrikalega fúlar á svipinn. Fyrirsögnin: As they are.

Miðjuröðin sýnir myndir af ungum konum, horfandi dreymandi upp í loftið, sumar með geislabaug. Texti: As they think they are.

Neðsta röðin sýnir mynd af konunum úr fyrstu röðinni en nú er búið að bæta á þær hornum og þær orðnar ansi illilegar á svipinn. Texti: As they appear to police and shopkeepers.

2. Mynd af konu, búið að draga tunguna á henni út og hönd með skærum er um það bil að fara að klippa tunguna af. Texti: Beware of Suffragists.

3. Uppáhaldið mitt - mynd af grátandi barni. Texti: Mummy's a Suffragette.

Svo er fullt af alls konar öðru skemmtilegu.

It's not a vote you want - it's a bloke.

Suffragettes who have never been kissed.

Is your wife a suffragette? (mynd af manni út í garði að vinda þvottinn.

Ef ég hefði ætlað í vinsældarkeppni hefði ég valið eitthvað annað en jafnréttisbaráttu... það er nokk sama hvað er gert - það sem er bannað er að rugga bátnum. Ég er samt alltaf að gera eitthvað skemmtilegt og jákvætt. Mér fannst t.d. rosagaman á 19. júní. Finnst líka rosagaman á hittum FÍ sem eru einu sinni í mán. á veturna. Það er heill hellingur í gangi sem við erum að gera sem er jákvætt - en sjáðu t.d. þig... þú ert hrikalega neikvæður út í okkur en samt erum við að vinna hörðum höndum í jafnréttismálum.... er það ekki bara málið að aldrei er nógu mikið eða nógu vel gert? Veistu um eitthvað fyrirtæki eða stofnun sem ekki er eyrnamerkt jafnréttismálum sérstaklega en er að gera meira en við? ;)

Nafnlaus sagði...

Nei málið er ekki að þið gerið ekki nógu mikið. Þið gerið gríðarlega mikið og þegar þið takið ykkur til um eitthvað er það yfirleitt gert með mikilli ákefð. Í þeim málum þar sem ég hef verið sammála ykkur í hef ég alltaf dáðst að því hversu föstum tökum þið takið málið.

Mér finnst það vera stór munur á mér og feministum hvað neikvæða umræðu varðar. Þegar ég skrifa hér er ég ekki að hugsa um að verja feminismann. Hins vegar hef ég margoft talað við fólk sem "hatar" feminista að eigin sögn. Þá yfirleitt reyni ég að verja feminismann. En þegar ég tala við "rótæka" feminista vel ég frekar að varpa hinni hliðinni fram. Munurinn felst í því að ef ég væri að tjá mig í fjölmiðlum um feminisma myndi ég aldrei fara að einbeita mér eingöngu að því neikvæða sem finnst í feminismanum. Ég vona að þetta skiljist. Maður varpar fram hinni hliðinni þegar maður er að tala við einhvern. En varpar fram báðum hliðunum þegar enginn er verja eina hlið málsins.

Það er hárrétt hjá þér að það er enginn að sinna jafnréttismálum eins mikið og feministar. Ég er alls ekki á móti feminisma. Ísland er miklu betur sett með ykkur en án ykkar. Ég vill jafnrétti. En ég er kannski ekki sammála ykkur með þær leiðir sem þið viljið fara til að ná því markmiði. Ég myndi samt aldrei gera lítið úr feminismanum af þeim sökum. Feministar eru að gera eitthvað til að ná fram jafnrétti og það er mun virðingaverðara en að gera ekki neitt.

Varðandi kvótakerfið þá finnst mér það bara ekki meika sens að segja að í öllum greinum séu nákvæmlega jafn mikið af hæfum konum og körlum. Í sumum greinum geta verið til mun fleirri hæfari konur en karlar og öfugt. Ég hef ekkert á bakvið það en mér finnst það bara hljóti að vera. Konur og karlar sækja í mismunandi störf og mismunandi menntun þannig að það getur aldrei verið allstaðar jafnt hlutfall af hæfileikaríkum konum og körlum.

Ég sé samt alveg mikilvægi aðgerða til að tryggja konum aðgang að stjórnunarstöðum. En ég er ekki sammála því að þetta sé rétta leiðin.

Nafnlaus sagði...

Gleymdi. Ég sé samt alveg hvað þú meinar með að ég sé neikvæður. Ég er tilbúinn til að reyna að bæta það :)

Nafnlaus sagði...

Setjum kynjakvóta, 50 % kvenna á sjó.. Það er kannski ekki nógu fínt starf?
Fyrirgefðu heimsku mína, en ég sé bara ekki alveg muninn.. Kannski útskýrir fyrir mér :)

katrín anna sagði...

Af hverju þarf kynjakvóta í jafnréttisráð og kynjakvóta á fæðingarorlof? Kynjakvótar geta komið sér vel sums staðar. Don't get me wrong - ég er ekki brjálæðislega hrifin af kynjakvótum. En ég er heldur ekki hrifin af kynjamisrétti né karlaveldi. Lýðræðisþjóðfélag byggir á því að bæði kyn taki þátt í ákvarðanatöku og hafi jöfn völd. Þannig er það ekki í dag. Konur hafa afskaplega lítil völd og karlar mikil. Það þýðir að við búum enn í karlaveldi. Stórfyrirtæki hafa mikil áhrif á allt mitt, t.d. efnhagsstefnan sem hefur verið í gangi undanfarin ár - lánin mín eru að hækka út af henni - en þar komu konur mest lítið nærri. Kynjakvótar í stjórnir fyrirtækja væru til að tryggja að konur komist að. Eins og staðan er í dag komast þær ekki að þrátt fyrir mikla hæfni og ítrekaðar yfirlýsingar um að vera til í slaginn.

Sjómennskan merkilegt starf - en tengist lýðræðinu ekki á sama hátt - en auðvitað eiga konur og karlar að hafa jafnan rétt þar. Kannski vinna gegn staðalmyndum myndi gagnast betur í þeirri baráttu.

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ekki þurfa kynjakvóta í jafnréttisráð. Það er hæpið að tala um fæðingarorlofið sem kynjakvóta. Þetta er hluti af lögboðnum rétti einstaklingsins. Ég lít á hjónaband sem samband tveggja einstaklinga en ekki sem eina heild. Þannig að hver og einn einstaklingur á að eiga jafnan rétt og sá næsti. Nákvæmlega eins og hjón fá ekki ákveðinn kvóta af sumarfríi heldur fær einstaklingurinn sumarfrí. Þessir 3 sameiginlegu mánuðir er rangt skref að mínu mati þar sem ég held að þeir fari í flestum tilfellum til konunar og því markmiðið með þessum lögum farið út í sandinn.

En munurinn á skoðunum okkar á kynjakvóta held ég að liggji í á hvernig vandamálið er horft. Þér finnst væntanlega vandamálið vera að of fáar konur séu í stjórn fyrirtækja. Í mínum augum er vandamálið að fyrirtæki eru ekki að horfa á konur sem jafningja karla.

Til að leysa vandamálið eins og ég held að þú lítir á það er kynjakvóti það eina rétta. En til að leysa vandamálið eins og ég lít á það þarf að koma atvinnulífinu í skylning um að hæfileikar eru ekki kynbundnir heldur einstaklingsbundnir. Kynjakvótinn leysir ekki það vandamál. Ég er ekki með neina patent lausn á því hvernig á að lagfæra vandamálið en mér finnst kynjakvóti vera millifærsla vandamála.

katrín anna sagði...

Ég er sammála þér í því að vandamálið er að ekki er litið á konur sem jafningja karla - þrátt fyrir að konur séu fyllilega jafnhæfar og karlar. Ég lít alls ekki á kvóta sem einu lausnina, eins og ég tók fram er ég ekki sérlega hrifin af kvóta og margt annað sem hægt er að gera. Ég lít á kvóta sem síðasta úrræði - fyrst vil ég reyna önnur úrræði en ef allt þrýtur þá þarf kvóta til að tryggja að hæfu konurnar komist að (en óhæfari karlar séu ekki fengnir til starfans). En það er ekki allt og sumt. Það þarf líka að hafa konur í valdastöðum, ekki bara til að ekki sé mismunað á þessum hæfu konum, heldur til að breyta samfélaginu úr karlaveldi í jafnréttissamfélag. Það er ekki hægt að vera með jafnréttissamfélag (eða lýðræði) þar sem allar mikilvægar ákvarðanir og stefnumótun eru í höndum karla í yfirgnæfandi meirihluta.

Nafnlaus sagði...

Mér finns lágmark að ef að þú ætlir að tjá þig um mál þá rökstiðjiirðu það sem þú ert að láta út úr þér (eða í þessu tilfelli skrifar) Það þýðir ekkert að ætla að tala um hjálpar dekk og forgjöf karla ef að þú ætlar ekki að rökstiðja og útskýra hvað þú meinar með því. Kvóta kerfi í þessu málum sem þú ræðir eru bara grín. Þetta veldur því að óhæft fólk í krafti kyns síns (sama hvort kyn er) getur komist í stjórnunar söður, í dag geta menn þó ráðið þá sem þeir VILJA í þær stöður.
En hvað finnst þér þá um bakarí og fleiri fyrirtæki sem neita að ráða stráka eða menn til vinnu, vilja bara konur??? Þetta getur tíðkast á báða bóga þó það sé kannski algengara að það vinni gegn konum, en ef þú lítur á söguna þá er þetta bara allt á réttri leið og laga settning hvað þetta varðar væri út í hött og gæti skaðað fyrirtæki og stofnanir.
Ég á sjálfur eitt barn og tók á þeim tíma 2 mánuði í fæðingar orlof. Það að þú skulir dirfast að lýsa fæðingarorlofi karla við lagasetningu um kvóta í störf segir meira en lítið um ranga lífssjón þina og gerir lítið úr gáfnafari þínu. Fæðingarorlof er sjálfsagðu réttur allra foreldra sem og barna sem eiga foreldra, og hefur EKKERT með vinnu markaðinn, eða konur í stjórnunarstöðum að gera. Í fyrra var háttsettum manni hjá KEA vikið úr starfi fyrir að taka sér lögbundið fæðingarorlof, hvað heirðist frá feministum þá????????? Ekki neitt. Þú ættir að skammaast þín fyrir þessa samlíkingu.
Sigfús.