fimmtudagur, apríl 20, 2006

LOWEST ENERGY PRICES

Ég var að klára að lesa Draumalandið. Tek undir með Silju Aðalsteins - hver einasti Íslendingur þarf að lesa þessa bók þótt hann þurfi að stela henni! Andri Snær er reyndar með hugmynd í bókinni um bókasafn sem virkar þannig að bækur ganga frítt á milli fólks. Að fólk skilji bókina einhvers staðar eftir þegar það er búið að lesa hana en skrifi nafnið sitt í "gestabók" aftast í bókinni. Þetta er bráðsniðug hugmynd og myndi henta vel fyrir Draumalandið.

Ég er búin að taka mér góðan tíma í að lesa bókina, 2 eða 3 vikur. Fyrri helmingurinn er skemmtilegur - hugmyndafræði, samlíkingar, undirstaðan, afbyggingin - búin að vera að grípa niður i þann hluta frá því ég keypti bókina og þangað til í dag. Seinni helminginn las ég allan í dag. Gat ekki lagt bókina frá mér. Í seinni hlutanum er meira talað um afleiðingarnar - framtíðarsýn fyrir Ísland og fyrir heiminn miðað við núverandi stefnu. Mikilvægi þekkingar. Ég viðurkenni að ég hef verið í fáfróða hópnum og þess vegna hafa umhverfismálin ekkert verið brennandi forgangsmál hjá mér. Nú skil ég umhverfisverndarsinnana betur. Áður en ég las Draumalandið mætti lýsa mér eins og fólkinu sem er ekki femínistar en er samt á móti misrétti: Ég er ekki femínisti en... og svo kemur rullan um það sem fólk vill breyta. Mér mætti lýsa svona: Ég er ekki umhverfisverndarsinni en... ég vil ekki Kárahnjúkavirkjun og finnst álver við Reyðarfjörð vera mistök. Nú er ég umhverfisverndarsinni! Ég hugsa þess vegna er ég femínisti. Ég hugsa þess vegna er ég umhverfisverndarsinni.... loksins. Ef ég ætti börn gæti ég samt ekki hugsað mér að nota taubleiur - en það er til millivegur.

Nú skil ég ekki þessar ákvarðanir stjórnvalda og hvað veldur því að aldrei er komið nóg. Þetta minnir mig reyndar á baráttuna við kerfið í kringum göngustígin hérna bak við Ólafsgeislan. Það var áhugaverður lærdómur um baráttuna við kerfið. Íbúarnir mótmæltu og viðbrögðin voru ekki þau að hlusta heldur setja pressu um að flýta framkvæmdunum vegna þess að þegar búið væri að grafa í sundur friðað holtið og malbika 2,5 m breiða flugbraut væri ekki aftur snúið. Pressa var sett á verktakana og þeir fengu fyrirmæli um að mæta kl. 8 á laugardagsmorgni til að byrja að malbika - svo hægt væri að þagga niður í okkur. Það tók óendanlega þrautseigju, þrjósku og símtöl í heimahús til að fá framkvæmdunum frestað á meðan farið var yfir málið og kerfisfólkið fengið á staðinn til að skoða aðstæður. Niðurstaðan varð sú að flugbreiddin var mjókkuð úr 2,5 m í 1,5 m. Sem er skárra en ekkert en friðað holtið er sundurskorið og besta leiksvæðið í ósnortinni náttúru er núna göngustígur. Það þurfti að leggja göngustíg svo íbúar Grafarholts gætu notið náttúrunnar!!! Óafturkræfar framkvæmdir og við sem munum hvernig holtið var fyrir framkvæmdir bölvum þessum göngustíg í hvert skipti sem við lítum út um gluggann.

Ekki að þetta sé sambærilegt mál við Káranhnjúka ;) en oft er ágætt að byrja á smáu hlutunum til að vita hvernig kerfið virkar. Þetta reyndist mér vel í stærðfræði og bókfærslu í skóla - byrja á einföldu dæmunum til að öðlast skilninginn. Það er sagt að við búum við lýðræði en lýðræðið er þungt í vöfum og má sín lítils þegar ákvarðanir hafa verið teknar. Kárahnjúkar og stóriðja byggjast ekki á lýðræði. Þjóðin hefur aldrei verið upplýst um allar hliðar málsins. Þjóðin hefur aldrei kosið beint um málið. En framkvæmdir eru keyrðar í gegn.

Andri Snær vísar í bókinni á 10 ára gamlan bækling frá Iðnaðarráðuneytinu þar sem íslensk orka var auglýst á LOWEST ENERGY PRICES. Mér finnst það áhugavert í samhengi við það sem er að gerast í olíuverði í dag. Verðið hækkar og hækkar. Norðmenn græða og græða á hækkandi verði. Orkan er dýrmæt. Okkar orka er á lowest energy prices. Við græðum varla mikið á því! Hvar eru verðmætin?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

bókapælingin er til sjá:
http://bookcrossing.com/
mjög sniðugt dót sko

katrín anna sagði...

Já þetta er hrikalega sniðug pæling :)